23 desember 2008
Nýsköpunarsjóði námsmanna bjargað
21 desember 2008
Forgangsröðun
Þegar kreppir að setjast fjölskyldur sem og einstaklingar niður og rýna í heimilisbókhaldið. Fitan er skorin burt, forgangsröðun skoðuð upp á nýtt og mikilvægustu atriðin sett á oddinn.
16 desember 2008
Ó, Grænaborgin...
Dóttir mín þriggja ára kom í dag heim með skýrslu úr þemastarfi frá leikskólanum. Þar kenndi ýmissa grasa. ,,Ég sjálf/ur og líkaminn minn" var þema haustannar og ég sé ekki betur en að allir þættir mannlegra kennda hafi komið þar við sögu.
Ég er víst ein af mörgum mæðrum sem alltof oft fá á tilfinninguna að þær gefi börnunum sínum ekki nægilega mikinn tíma. En nú rifjast upp fyrir mér margar stundir með dóttur minni þar sem hún hefur uppfrætt mig um bragðlauka, hor, tásur, enni, hósta, hopp, óhollan mat, maga, skemmdar tennur, augnalit, salt & súrt, litlu beinin í eyrunum, Beethoven (Óðinn til gleðinnar, óðurinn til eyrans...), lopa, bómul, heitt & kalt, mjúkt & hart, klístur, krakka í Afríku, einhenta sjóræningja, slaka vöðva, samvinnu, hjólbörulabb, veik börn á barnaspítala Hringsins, hákarla (meinta hákarla) í fiskabúri, blóð sem geymt er í banka, kisukúk og hátterni hamstra.
Nú veit ég hvaðan hún hefur vitneskjuna. Því allt þetta lærir lítil kona í leikskóla í dag. Er það ekki stórkostlegt! Ég hef lengi sagt að íslenskir leikskólar væru á heimsmælikvarða. Og ef einhver rengir mig þá skora ég þann hinn sama á hólm á Arnarhóli með gamaldags sverð - jafnvel byssusting, hvenær sem er.
Ég þakka fyrir það framsýna fólk sem barðist fyrir faglegum, frábærum leikskólum á sínum tíma. Ég þakka starfsfólki Grænuborgar fyrir stórkostlegt starf og alúð. Snillingar, öll með tölu.
Og þó að pólitíkin geti verið gefandi, viðurkenni ég fúslega að ég óska þess oft að ég gæti skipt við dóttur mína.
Þó ekki væri nema fyrir einn og einn dag á Grænuborg...
15 desember 2008
Þorleifur maður að meiri
Þorleifur Gunnlaugsson er maður að meiri eftir atburði helgarinnar. Það er leiðinlegt að hinar mikilvægu unglingasmiðjur hafi komist í sviðsljós fjölmiðla vegna yfirsjónar Þorleifs sem svo ötullega hefur barist fyrir þeim. En hann hefur beðist afsökunar og af þessu ættu ekki að verða neinir eftirmálar, kröfur um að hann segi af sér finnast mér heldur óbilgjarnar.
Svo er vonandi að málefni unglingasmiðjanna sem og önnur mikilvæg mál sem eru undir smásjá borgaryfirvalda í yfirstandandi fjárhagsáætlanagerð, fái faglega og góða umfjöllun næstu vikurnar. Nú er lögð lokahönd á áætlunina og skilin eru tekin að skerpast.
Senn kemur í ljós hvað er á bakvið orðin fögru og úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir.
14 desember 2008
Trúnaður
Að mínu mati er það grafalvarlegt mál að Þorleifur Gunnlaugsson hafi í ógáti sent út bréf til fjölmiðla með nafngreindum upplýsingum um erfiðar aðstæður unglingsstúlku. Þorleifur er ötull baráttumaður fyrir velferð borgarbúa en menn verða að vanda sig betur en þetta.
12 desember 2008
Maaaaakalaust lýðskrum
Það er varla hægt annað en að mæla með þessu YouTube-myndbandi
11 desember 2008
Nýsköpun í Elliðarárdal, siðareglur og Framsókn
04 desember 2008
Yndislegur d´Indy
Sinfónían okkar er tilnefnd til Grammy verðlauna - bravó. Jafn gleðilegt og það var gremjulegt að Japanir skyldu afþakka komu hljómsveitarinnar vegna slæms orðspors Íslendinga á alþjóðavettvangi. Heldur fannst konu þá ástandið bitna á þeim sem síst skyldi.
02 desember 2008
16-25 ára og samstarf í henni Reykjavík
Góð umræða var í borgarstjórn í dag og kvöld um málefni ungs fólks í Reykjavík á tímum efnahagsþrenginga. Umræðan var að okkar frumkvæði og að endingu sammæltist öll borgarstjórn um að leita eftir samstarfi við Vinnumálastofnun og ráðuneyti mennta-, heilbrigðis-, félags- og tryggingamála.
Markmiðið er að gera tillögu að stefnumörkun og aðgerðaáætlun um hvernig Reykjavíkurborg getur í samvinnu við ráðuneytin og Vinnumálastofnun stuðlað að atvinnusköpun, atvinnutengdu námi og auknum menntunarmöguleikum ungs fólks.
Eins hófum við umræðu um aukið samstarf milli borgarstofnanna, íbúa og frjálsra félagasamtaka. Samfó og VG töluðu einum rómi um þá miklu lýðræðisvakningu sem á sér stað í samfélaginu og mikilvægi þess að borgin fangi þá bylgju með því að styrkja íbúalýðræði, auka valddeilingu til hverfanna og stuðla að aukinni virkni meðal íbúanna.
27 nóvember 2008
Kynbundinn launamunur
Þetta er með öllu ólíðandi. Sérstaklega nú í upphafi efnahagslægðar en sagan sýnir að kynbundinn launamunur eykst í harðæri.
Enn og aftur sannast það að ætlum við að bægja þessum landsins forna fjanda frá þarf að samþætta kynjasjónarmið æðstu stjórnum, setja málið stíft á dagskrá og hvika hvergi. Það þarf pólitískan vilja, kraft og þor. Það þarf að ráða konur í stjórnunarstöður, það þarf að gæta grimmilega að réttlátri skiptingu karla og kvenna í ráðir, stjórnir og nefndir og það þarf að útbúa tæki á borð við óháð starfsmat.
,,Það þarf að hugsa um þessi mál sem hvítvoðung á brjósti" sagði skemmtilegur femínisti eitt sinn við mig. Jafnréttið kemur nefnilega ekki með kalda vatninu og gerist ekki af sjálfu sér.
Reykjavíkurlistinn hafði þessi mál einmitt á brjósti en nýjasta rannsóknin sýnir að á milli áranna 1999 og 2007 fór kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg, þeim risastóra starfsstað, úr 15% í 4%. Það er árangur.
19,5% ómálefnalegur munur á launum karla og kvenna á Íslandi er hneisa.
26 nóvember 2008
Hvernig er staðan hjá fólkinu í borginni?
Þessari spurningu ætlar Reykjavíkurfélag Samfó að svara í kvöld, 26. nóvember, á opnum fundi í Ölduselsskóla. Við ætlum þó ekki að svara þessu sjálf heldur munu fulltrúar frá SAMFOK, ÍR, kirkjunni, þjónustumiðstöðvum, Ungmennaráðum, Félagi eldri borgara, Reykjavíkurdeild Rauða Krossins, Myndlistaskólanum, Alþjóðahúsi, ÍTR, leikskólum og skólum borgarinnar leita svaranna með okkur. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Nefndin.
Kærleikskúlan
Í dag var Halaleikhópnum afhent Kærleikskúlan. Kúlan sú er hönnuð af Gjörningaklúbbnum og er ákaflega kyssileg eins og sjá má hér. Það er Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sem veitir kúluna ár hvert og selur svo óróa á aðventu til styrktar starfseminni.
Pabbi minn Sturla Þengilsson hefur starfað í stjórn Styrktarfélagsins í fleiri ár ef ekki áratugi - og nú er hann formaður stjórnar. Pabbi fékk lömunarveikina sem barn og er bæklaður á öðrum fæti. Lömunarveikin varð að faraldri í Reykjavík á 6. áratugnum og ekki sluppu öll börn jafn vel og pabbi.
Styrktarfélagið er heppið að njóta krafta pabba og það er engan bilbug á félaginu að finna í kreppunni. Meðal annars vígðu þau nýbyggingu við húsnæði sitt að Háaleitisbraut fyrir skömmu.
24 nóvember 2008
Háskólabíó
Megi forsvarsfólk opnu borgarafundanna fá þakkir fyrir sitt framtak. Fundurinn í kvöld var gríðarlega kröftugur og voru Þorvaldur Gylfason og Margrét Pétursdóttir fremst meðal jafningja.
Þegar ég verð sextug
Undarlegur hrollur læddist upp eftir bakinu á mér við lestur þessa ljóðs:
Saga af lítilli þjóð
sem stritað hefur í aldir sæl og rjóð.
Allir vildu vel og hjálpuðust að,
Það var í þátíð, þannig var það,
Svo tók yfir þjóðina klár maður mjög,
þó hann og hans menn þekktu engin lög,
Hans flokksmenn hræddir fylgdu með,
þorðu ekkert að segja enda bara peð,
úr ráðherrastóli hann gamall steig niður,
héldu þá menn að yrði loks friður,
En þá fór hann í bankann og tók fjármálin yfir,
og flokkurinn í hans stjórn enn lifir,
Hann neitaði vexti að lækka,
og í staðinn skuldir fólksins hækka,
Hann tók sína menn á næturfund,
þeir keyptu banka, léttir í lund,
og menn á hausinn fara eftir hlutabréfaleik,
því þjóðin sparaði ekki og er peningaveik,
Nú er það svart og engin von,
og hver verður NÆSTI Davíð Oddsson?
Fólkið & flokkurinn
Ég lít ekki svo á að réttmæt krafa fólksins um kosningar snúist um flokkshagsmuni. Að þeir sem vilji kosningar séu að hugsa um flokkinn, ekki fólkið. Ég styð minn flokk til allra góðra verka og get vart hugsað þá hugsun til enda að annar flokkur væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þessum hremmingum.
21 nóvember 2008
Heimgreiðslur í Kópavogi & Reykjavík
Orðrétt úr fundargerð bæjarráðs Kópavogs frá því í gær:
,,Frá bæjarstjóra, tillaga að breytingum á reglum um heimgreiðslum.Lagt er til að 2. gr. 3. mgr. verði “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn nær tveggja ára aldri eða fyrr ef það fær vistun á leikskóla” í stað “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn hefur leikskólagöngu.” Bæjarráð samþykkir tillöguna með fjórum greiddum atkvæðum. (Innskot OS: ekki afturvirkt)
Þetta þýðir einfaldlega það að Kópavogur er að taka afar skynsamlegt skref í átt frá heimgreiðslukerfinu. Áður var það svo að foreldrar í Kópavogi gátu valið heimgreiðslur umfram leikskólavist - óháð aldri barnsins. Foreldrar 3, 4 og 5 ára gamalla barna fengu greitt frá bænum ef þeir þáðu ekki leikskólapláss. Þessi ráðstöfun hefur einfaldlega ekki gefist vel, hvorki í Kópavogi né annars staðar, t.d. í Noregi. Ein birtingarmynd þess er að börn sem hafa annað móðurmál en norsku sleppa leikskólagöngunni alfarið sem hefur gríðarlega neikvæð áhrif á málþroska þeirra og velferð í grunnskólanum.
Þá er reynsla Kópavogsbúa sú að nú þegar syrtir í álinn hjá fjölskyldum hafa konur valið í ríkara mæli að fara heim, þiggja heimgreiðslur og börnin verða af leikskólagöngu. Út frá bæði jafnréttissjónarmiðum en ekki síst þroska- félagsfærni og uppeldissjónarmiðum er það varhugavert.
Eftir að hin nýja samþykkt tekur gildi í Kópavogi breytast heimgreiðslurnar sumsé í þjónustutryggingu, þ.e.a.s. ef leikskólapláss er sannarlega ekki í boði fyrir börn yngri en 2ja ára fá foreldrarnir greitt. Annars ekki.
Þetta höfum við bent á að þurfi að gerast í henni Reykjavík. Nú er næg þjónusta í boði fyrir börn yngri en 2ja ára enda leikskólar nær fullmannaðir. Hins vegar er ákvæði í reglum um þjónustutryggingu sem kveður á um að hún sé valkvæð. Því hefur Kópovogsbær nú breytt og spurning hvað Reykjavíkurborg gerir.
Nú förum við Bryndís Ísfold í Kópavoginn og tollerum Gunnar Birgisson!
Að láta sér ekki standa á sama
Það er mikil deigla í félagsstarfi Samfó þessa dagana. Sleitulausir fundir Framtíðarhópa allra málefna hafa farið fram síðastliðna 10 daga og í fyrrakvöld mættu 70 manns á aðalfund Samfylkingarinnar í Garðabæ. Það ágæta sveitarfélag hefur nú ekki beinlínis verið höfuðból flokksins og mér skilst að í fyrra hafi mátt telja aðalfundarfulltrúa á fingum annarrar handar. Þessi mæting segir sína sögu.
20 nóvember 2008
Bóndabeygja
Þórunn og Björgvin stíga fram og segjast vilja kosningar á næsta ári. Áður hafði Ágúst Ólafur lýst því yfir og nú taka Katrín, Steinunn Valdís og Ellert undir.
Er mig að dreyma?
Á morgun hyggjast ríkisstjórnarflokkarnir leggja fram frumvarp til breytingar á eftirlaunalögunum svokölluðu.
Opinn fund venligst
Samkvæmt nýlegum samþykktum geta fundir þingnefnda nú verið sendir út beint. Ég treysti Árna Páli og Ágústi Ólafi til að tryggja að þessi fundur verði öllum aðgengilegur.
Og engin vettlingatök strákar.
Jæja
Jæja. Nú verður að lyfta pottlokinu. Nú er IMF í höfn og lán frá öðrum þjóðum. Í Samfylkingu hefur fólk setið á sér - að svo miklu leyti sem það er hægt. Nú kemur suðan upp.
Jæja. Nú verður að taka ákvörðun um framhaldið - Hverjir bera ábyrgð? Ætla þeir allir að sitja áfram? Hverjir sátu í ráðuneytum fjármála og viðskiptamála, eftirliti og seðlabanka á meðan þessi ósköp dundu yfir? Ætla þeir að sitja áfram á meðan óháðir aðilar rannsaka málið? Eru það ekki sjálfsagðir mannasiðir að víkja sæti á meðan þjóðin sleikir sárin? Er það ekki forsenda heiðarslegs uppgjörs?
Jæja. Nú er þolinmæðin á þrotum. Við sem styðjum Samfylkingu og störfum innan hennar raða gerum meiri kröfur til hennar en samstarfsflokksins. Honum verður seint bjargað. Hann er ekki leiðarvísir þeirra sem aðhyllast lýðræðisleg stjórnmál og nútímaleg vinnubrögð. Hann er gamaldags valdaflokkur á villigötum. Í þá átt má Samfylkingin ekki stefna.
Jæja. Er ekki fokið í flest skjól þegar menn eru tilbúnir til að fara í meiriháttar stjórnkerfisbreytingar, sameina tvö kerfi með tilheyrandi fyrirhöfn, allt til þess að á bréfinu geti staðið: ,,Vegna skipulagsbreytinga verðum við því miður að tilkynna þér að starf þitt hefur verið lagt niður frá og með áramótum..."
Jæja. Er það ekki bara eins og að veigra sér við því að segja starfskrafti upp störfum - og leggja þess í stað niður fyrirtækið svo hægt verði að sveigja hjá því.
Jæja. Nú er tími óþægilegra ákvarðanna upp runninn.
Smugan
www.smugan.is er komin í loftið og lofar góðu. Þessi færsla er mögnuð. Og ég spyr eins og aðrir: Hver hefði trúað því?!
Skólar hér og í Danmörku
Hér má lesa frétt þess efnis að Danir stefna á að börn með sértæka örðugleika stundi nám í almennum hverfisskólum. Danir hafa verið miklir eftirbátar okkar Íslendinga þegar kemur að þeim sjálfsögðu mannréttindum barna að stunda nám í sínum hverfisskóla. Íslendingar standa sig vel að þessu leyti en hér á landi stundar um 1% barna nám í sérskólum, í Danmörku eru þau á milli 2-3% og í Finnlandi eru þau á milli 5-7%.
Það sem stingur mig þó er að stefnubreytingin er í hagræðingar- og sparnaðarskyni - ekki á forsendum réttinda barnanna. Ég held að Danir séu hér á miklum villigötum því skólastefna sem byggir á því að skólinn sé án aðgreiningar er enginn sparnaður fyrir skólakerfið í aurum og krónum talið. Það þarf mikið átak, viðhorfsbreytingu og fjármagn til að gera hverfisskólum mögulegt að mæta börnum með ólíkar þarfir. Þetta eru stærstu áskoranir íslensks skólakerfis, hér eftir sem hingað til. Út í slíka breytingu verður ekki farið á forsendum fjármagns, heldur forsendum sjálfsagðra mannréttind. Þar þarf að koma til einbeittur vilji stjórnvalda til að breyta samfélaginu til hins betra og skapa lærdómssamfélag þar sem hver og einn fær að njóta sín.
Danir eru reyndar óþroskaðri en við í skólamálum að mörgu öðru leyti, t.a.m. í orðræðu. Ég var í Kaupmannahöfn í vor og kíkti gjarnan á danska sjónvarpið á kvöldin. Í einum fréttatímanum var viðtal við borgarpólitíkus um aðstæður barna sem höfðu villst út af hinum gullna meðalvegi. Og það var ekki verið að skafa utan af því. "Problem-börn" var yfirskrift fréttarinnar og stjórnmálamaðurinn notaði trekk í trekk þetta orð yfir hópinn sem átt var við.
Vandræðabörn. Það eru mörg ár síðan við þroskuðumst upp úr slíku orðfæri. Guði sé lof.
19 nóvember 2008
Heyr heyr heimspekingar v/ Háskóla Íslands
,,Þegar brugðist er við vanda af þessu tagi sem leggur þungar byrðar á alla landsmenn er brýnt að dreifa þeim byrðum á sanngjarnan hátt. Mikilvægast er að tryggja öllum grundvallarforsendur þess að þeir geti tryggt sér og sínum farborða og gert áætlanir um líf sitt.
Sérstaklega þarf að standa vörð um hagsmuni þeirra sem eiga á hættu að missa húsnæði, flosna upp úr námi eða missa lifibrauð sitt. Í þessu tilliti verður líka að huga vel að kjörum barna, bæði með því að styðja við bakið á barnafjölskyldum og treysta eftir megni þær stofnanir sem ásamt foreldrum bera ábyrgð á menntun og uppeldi barna.
Hagur barna er mál þjóðarinnar allrar og prófsteinn á Ísland sem velferðarríki. Það er líka réttlætismál að ekki verði lagðar óhóflegar byrðar á þá hópa sem ekki eiga sér sterka málsvara, svo sem komandi kynslóðir og erlenda ríkisborgara sem hér búa.
Jafnframt verður að koma í veg fyrir að auður safnist á fárra manna hendur eða að einstaklingar njóti forréttinda í krafti aðstöðu sinnar. Einnig er brýnt að við enduruppbyggingu íslensks samfélags verði þau gildi höfð að leiðarljósi sem taka mið af lífi og viðhorfum beggja kynja og margbreytileika íbúa landsins. Nú veltur allt á að viðbrögð við yfirstandandi kreppu verði til þess að efla lýðræði á Íslandi og festa réttarríkið í sessi. Það er ekki síður mikilvægt að byggja upp réttnefnt lýðræðissamfélag en að koma fjármálum ríkisins í eðlilegt horf."
18 nóvember 2008
Svartar tölur
Það er gríðarlegt áhyggjuefni hversu hátt brottfall er úr framhaldsskólum á Íslandi. Brottfallið hefur lengi loðað við framhaldsskólastigið en í ljósi efnahagsástandsins eru þessar tölur svartari en áður. Í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar segir að ásamt fjármálakreppunni ógni brottfall úr framhaldsnámi framtíð íslenska vinnumarkaðarins.
Það segir sig sjálft því tvöfalt meira atvinnuleysi er meðal ófaglærðra en þeirra sem ljúka námi. Ástæður brottfallsins eru eflaust margar:
1) skipulag framhaldsskólans
2) mikil áhersla á bóklegt nám
3) lítil tenging við grunnskólann
4) Mikil vinnugleði fólks á aldrinum 16-25
5) Lítil virðing fyrir menntun?
Samkvæmt norrænum könnunum vinna íslensk ungmenni á þessum aldri mest allra með námi í öllum heiminum. Þetta breytist hratt þessa dagana og mikil hætta skapast í kjölfarið á því að ungir Íslendingar hætti námi vegna tekjumissis.
Ég var mjög ósátt við að kosningamál Samfylkingarinnar um ókeypis námsbækur fyrir framhaldsskólanema næði ekki inn í stjórnarsáttmálann. Jafnt aðgengi ungs fólks að menntun er forgangsmál hjá þjóð sem státar ekki af betri árangri í menntun þegna sinna en þetta. Ég vona sannarlega að stjórnvöld séu með aðgerðaráætlun á prjónunum til að sporna við brottfalli nú í vetur og þann næsta.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að reka framhaldsskólana, hið minnsta að rekstur þeirra og skipulag verði í nánu samstarfi við grunnskólann. Þar með næst samfella í menntun fólks frá 1-20 ára. Nýju grunnskólalögin kveða á um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs sem leggur meiri ábyrgð á hendur hins opinbera - og ætti að herða stjórnvöld í baráttunni við brottfallið.
Sveitarfélögin sinna því sem stendur íbúunum næst; þjónustu við fjölskyldur, menntun, velferðarþjónustu, menningu, skipulagsmálum og samgöngum. Til þess að þau geti styrkt sig enn frekar verða þau að fá fleiri verkefni í fangið.
10 nóvember 2008
Fjör í Framsókn
Vestmannaeyjar
Við hjónaleysin dvöldum í Vestmannaeyjum um helgina. Menningarhátíðin ,,Safnahelgi á Suðurlandi" var vel heppnuð en það var ekki síst merkilegt fyrir mig og bóndann að heimsækja eyjarnar því þangað höfðum við hvorugt komið áður.
Nú höfum við margsinnis séð myndir frá Eyjum, þó það nú væri. En náttúrufegurð staðarins greip okkur slíkum heljartökum að við munum vart annað eins. Skaparinn var sannarlega í góðu skapi þegar Eyjar urðu til þó þá sami skapari hafi nú oft látið óþyrmilega fyrir sér finna á staðnum með tilheyrandi eldglæringum og hættuspili hamfara.
Vestmannaeyjagosið, Tyrkjaránið og þetta einstaka bæjarstæði gera Vestmannaeyjar að sagnfræði- og náttúrufræðilegri perlu. Eyjafjallajökull í seilingarfjarlægð, Heimaklettur og eyjarnar í kring eru sem vinalegir tröllkarlar og bærinn sjálfur er snotur.
Kristín Jóhannsdóttir ferðamálafulltrúi Vestmannaeyja og fleiri góðir heimamenn gerðu helgina ógleymanlega, við þökkum fyrir gestrisnina og leggjum nú drög að fjölskylduferð til Eyja næsta sumar.
Kostir & gallar
Nú um mundir er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort hreinlega ætti að skipta um gjaldmiðil, taka upp evru einhliða. Hér er fín analýsa hjá Eddu Rós Karlsdóttur þar sem kostir og gallar einhliða upptöku eru reifaðir.
Það væri auðvitað best ef stjórnvöld myndu reikna eins nákvæmlega og þau geta við þessar kringumstæður hvort borgaði sig fyrir okkur: að fleyta krónunni með tilheyrandi kostnaði og áhættu - eða skipta út gjaldmiðlinum sem Edda Rós telur að kosti í kringum 500 milljarða.
Ég finn það á fólki í kringum mig að sú óþægilega tilfinning er til staðar að við séum að setja óheyrilega fjármuni til bjargar ónýtum gjaldmiðli.
Síðan er það hið pólitíska áhættumat. Best færi auðvitað á því að ganga inn um aðaldyrnar í stað þess að taka upp evruna einhliða þvert á vilja Evrópusambandsins, valda með því óþarfa úlfúð og kannski meira vantrausti í alþjóðasamfélaginu.
Ég er hjartanlega ósammála Sirrýju Hallgrímsdóttur vinkonu minni og stjórnarkonu í Hvöt þar sem hún segir í Mogganum í dag að ESB-aðild eigi ekki við núna. Höfuðatriðið er í raun ekki hvort ESB-aðild framkvæmi kraftaverk fyrir íslenskt efnahagslíf akkúrat í dag, þó ég sé sannarlega þeirrar skoðunar að það sé þjóðþrifamál að sækja um. Höfuðatriðið er að flokkarnir geri það upp við sig hvort Ísland eigi heima í Evrópusambandinu eður ei.
Það fer að verða ansi knýjandi að flokkarnir komist að niðurstöðu í þeim efnum.
Ég heyrði í Vikulokunum að Valgerður Sverrisdóttir hafi komið með merkilega yfirlýsingu. Þáttastjórnandi spurði Valgerði hvort hún styddi Guðna Ágústsson sem formann, í ljósi slæmrar útkomu flokksins í skoðanakönnunum. Svarið var einfalt og n.k. á þessa leið:
,,Ég tel ekki tímabært að ræða það núna".
Heyrir það ekki til nokkurra tíðinda að varaformaður styðji ekki formann sinn opinberlega?
Nú hafa flest kjördæmafélög Framsóknar sent frá sér ályktanir síðustu daga. Mikil áhersla er lögð á Evrópusambandið í þeim ályktunum.
Miðstjórnarfundur Framsóknar næstu helgi stefnir í að verða spennandi.
07 nóvember 2008
Þrándur, Brúnn og Gunnar
That´s funny. Litlir fuglar úr öllum flokkum hvísla því stöðugt að mér að helstu þrándar í götu afnáms eftirlaunafrumvarpsins komi úr stjórnarandstöðunni. Annar er frá Brúnastöðum og hinn frá Gunnarsstöðum.
1999-2007
Það er leitun að öðrum eins árangri í að jafna launamun kynjanna og annan ómálefnalegan launamun og Reykjavíkurborg hefur náð. Í tíð Reykjavíkurlistans urðu straumhvörf í jafnréttismálum. Konum var treyst fyrir stjórnunarstöðum og fjölgaði um mörg hundruð % fyrstu árin eftir að Ingibjörg Sólrún og félagar tóku við stjórnartaumunum. Það hafði gríðarleg margföldunaráhrif í för með sér, ekki síst fengu konur jákvæðar fyrirmyndir, mikilvæga starfsreynslu og tækifæri. Fjölgun kvenna í stjórnunarstörfum hefur beina fylgni við minni kynbundinn launamun.
Reykjavíkurlistinn lagðist einmitt til atlögu við þann landsins forna fjanda; kynbundinn launamun. Innleiðing starfsmats gegndi þar mikilvægu hlutverki og samkvæmt viðamikilli rannsókn Önnu Borgþórsdóttur Olsen sem má lesa úrdrátt úr hér hafði það geysilega mikið að segja í að ráða niðurlögum kynbundins launamunar.
Anna rannsakaði launamun starfsmanna í fullu starfi í októbermánuði 1999, 2001, 2003, 2005 og 2007 óháð stéttarfélagi og vinnustað/sviði. Í ljós kom að dagvinnulaunamunur kynja fór úr 15% í 4% þegar tekið er tillit til aldurs, starfsaldurs hjá borginni, þjóðernis og flokkunar starfa samkvæmt starfsmati. Heildarlaunamunur kynja hefur minnkað minna eða úr 14% í 9% á tímabilinu og er sambærilegur við það sem er lægst samkvæmt erlendum könnunum.
Enn þarf þó að rannsaka margt, t.a.m. hvort greiðslur fyrir yfirvinnu og akstur séu á einhvern hátt ómálefnalegar en þessir tveir þættir hafa mikil áhrif á mismun heildarlauna. Eins er athyglisvert að fleiri karlar eru í starfsmatinu enda standa enn stórar kvennastéttir eins og kennarar og leikskólakennarar utan starfsmatins. Í ljósi þess hve jákvæð áhrif starfsmatið virðist hafa haft í baráttunni gegn kynbundnum launamuni held ég að aðkallandi sé að skoða hvort þessar stéttir eigi ekki fara í gegnum starfsmatskerfið.
Það skiptir máli hverjir stjórna. Enn á ný hefur Reykjavíkurlistinn sannað það.
Eitt stingur þó í augu. Kynbundinn launamunur er vissulega ómálefnalegur launamunur en af hverju að skipta um orðfæri nú þegar launamunur stafar yfirleitt af kynferði? Ég er ekki viss um að ég hætti að tala um kynbundinn launamun og taki upp ,,ómálefnalegur launamunur" í stað þess.
Svipuð umræða poppar upp öðru hverju hjá hægri mönnum sem vilja ekki tala um jafnrétti, heldur mannréttindi. Ég kýs að tala um bæði jafnrétti og mannréttindi - og veitir víst ekki af.
Vilji er allt sem þarf
Nú þegar stendur fyrir dyrum að raða í bankaráðin er gríðarlega mikilvægt að hópurinn sem valinn er verði sem fjölbreyttastur. Ekki bara karlar á vissum aldri heldur líka starfsmenn úr bönkunum sem fengu aldrei að móta stefnu sinna fyrirtækja síðastliðin sex ár. Líka almenna borgara sem nýta sér þjónustu bankanna. Líka fólk úr háskólanum og ekki bara viðskiptadeildunum heldur menntavísindadeildunum, siðfræðideildunum, heimspekideildunum og félagsvísindadeildunum.
06 nóvember 2008
Bless mislægu gatnamót
Sigur íbúasamráðs og skynsamlegrar samgöngustefnu hefur verið unnin í henni Reykjavíkurborg. Horfið hefur verið frá hugmyndum um þriggja hæða mislæg gatnamót á vegum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.
Þöggun í boði Sjálfstæðisflokksins
Það hlýtur að vera fokið í flest skjól þegar sitjandi þingmenn - og öflugar konur í meirihluta kvarta sáran undan því að vera sniðgengnar þegar meiriháttar ákvarðanir eru teknar fyrir hönd þjóðarinnar. Kannski ætti þjóðin ekki að einblína á vonlausa þingmenn og tala fyrir fækkun þeirra. Kannski ættum við að tala fyrir því að hlustað sé á þá fulltrúa sem hún kaus!
05 nóvember 2008
Forgangsmál
Þetta er gaman að sjá. Til að forgangsakreinarnar virki verða aðrir ökumenn að virða þær.
Sólarglætan
Sólarglætan í svartnættinu er sigur Barack Obama.
04 nóvember 2008
Konur sem þora
Stóri (þriðju)dagurinn
Bandaríkjamenn hafa löngum haft áhyggjur af dræmri kosningaþátttöku þar í landi. Margt kemur til; fyrirkomulag kosninganna hefur löngum þótt flókið og gamaldags og traust manna á kosningakerfinu er skiljanlega ekki beysið - sér í lagi eftir nauman sigur Bush yngri þar sem sterkur grunur lék á svindli. Þrýstihópar hafa þótt rýra áreiðanleika frambjóðenda vegna fjárausturs í kosningabaráttuna og svona mætti lengi telja.
03 nóvember 2008
Amma hans Obama látin
Madelyn Dunham, amma Baracks Obama er látin, 86 ára að aldri. Hún hafði barist við krabbamein um hríð.
Óheppilegt
Birgi Ármannsyni þykir vanhæfissjónarmið ekki eiga við í máli þeirra ágætu manna sem fengnir hafa verið í eitt mikilvægasta og mest áríðandi verkefni næstu daga, vikna og mánaða.
Húmor
Oft var þörf - en nú er það algjört möst - sagði meistari Megas eitt sinn á degi íslenskrar tungu.
Skýringa þörf
Samkvæmt hinni öflugu fréttakonu Ragnhildi Thorlacius í sex fréttum Ríkisútvarpsins voru skuldir einhverra starfsmanna Kaupþings afskrifaðar - nokkrum dögum/vikum áður en Kaupþing var þjóðnýtt.
Nauðsyn heiðarlegs uppgjörs
Hér er svar Fjármálaeftirlitsins við spurningum Morgunblaðsins sem sprottnar voru af sögum þess efnis að skuldir væru felldar niður hjá lykilstarfsmönnum banka til að halda þeim í starfi.
Synir Boga og Valtýs og spillingarsögur úr bönkunum
Það eru margar svona sögur í gangi. Og hljóta að reita alla til reiði. Svona sögur ýfa upp sögurnar af stuðinu hjá starfsmönnum þessara banka þegar gleðin stóð sem hæst. Sögurnar af Kaupþingsstarfsmönnum á dýrum veitingastöðum um helgar - og reikningurinn var yfirleitt sendur beint upp í Kaupþing.
Halla Tómasdóttir í Guardian
Grein í Guardian eftir Íslandsvininn John Carlin um íslenska fjármálahrunið. Halla Tómasdóttir fer á kostum og talar um - ásamt Svöfu Grönfeldt - nauðsyn nýrrar hugsunar og femínískra gilda við endurmótun íslensks samfélags.
02 nóvember 2008
Framtíðin
Samfó stóð fyrir frábærum fundi í dag í Iðnó. Troðfullt út úr dyrum og hugvekjandi erindi.
Auglýst eftir villigötum
Getur einhver upplýst mig um á hvaða villigötum umræðan um eftirlaunafrumvarp þingmanna er? Það kemur ekki fram í frétt RÚV og ég hreinlega nenni ekki að hlusta á allan þáttinn til að komast að hinu sanna.
01 nóvember 2008
Tónlistarstefnur og straumar
Ég mæli með grein Atla Bollasonar í Lesbók dagsins í dag. Þar heldur Atli áfram að skilgreina og fjalla um tilvist, hlutverk - og hugsanleg endalok tónlistarstefnu sem oft er kennd við krútt.
31 október 2008
Dear Mr. President
Einfaldlega einn besti mótmælasöngur síðustu ára.
Með fingurinn á þjóðarpúlsinum
Um þetta ætti að ríkja nokkuð góð sátt.
30 október 2008
Af stelpusigrum, kreppumat og fréttamati
Stelpurnar fara á EM. Og við förum í ESB. Við munum ekki ganga þangað inn bein í baki - verðum meira svona borin inn á sjúkrabörum. En það er eins með lífið og fótbolta.
23 október 2008
Áfram stelpur
Í dag er kvennafrídagurinn, 24. október.
Sjálfsvirðing
Tilfinningin sem þjakar marga landsmenn þessar vikurnar er vond. Okkur finnst sjálfsvirðing okkar engin. Íbúar sem tóku lítinn sem engan þátt í sukkinu, hugsuðu ágætlega um börnin sín, fjölskylduna og fjárhaginn er svo illa svikið.
Heiðarlegt uppgjör er algjör frumforsenda þess að við getum endurheimt sjálfsvirðinguna.
Forsætisráðherra sagði lítið í Kastljósinu í gær. Tilfinning okkar sem illa erum svikin er óbreytt. Það verður að eiga sér stað uppgjör, hið minnsta loforð um uppgjör, loforð um að e-ir verði dregnir til ábyrgðar.
Annars höfum við tapað öllu. Peningum, orðstír og æru.
En við getum enn endurheimt sjálfsvirðinguna ef nauðsynlegt uppgjör - með óháðum aðilum - fer í gang.
Kröftugar heitstrengingar (sem hefðu átt að heyrast strax, hátt og snjallt og helst á hverjum degi og á hverjum blaðamannafundi) um heiðarlegt uppgjör þar sem engu yrði eirt er óendanlega mikilvægt.
Nauðynlegar tilfærslur embættismanna sem gert hafa ófyrirgefanleg mistök upp á síðkastið myndu sannarlega hjálpa til.
Annars sýður upp úr.
Listin að læra
Anne Bamford heldur fyrirlestur í KHÍ í dag um gildi listmenntunar. Anne er vel kunnur prófessor og hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir rannsóknir sínar. Í rannsóknum sínum ávarpar Anne mikilvægi sköpunar í skólastarfi og áhrif hennar á nýsköpun, félagslega þætti, jafnræði og fjölbreytileika.
Hún gerði meðal annars fræga rannsókn fyrir UNESCO á áhrifum lista á skólastarf sem hún lýsir í bókinni The Wow Factor. Rannsóknin náði til rúmlega hundrað landa og markaði mikil tímamót fyrir alla þá sem berjast fyrir frekari sköpun í skólastarfi.
Bókin hefur verið á náttborðinu hjá mér um hríð og var reyndar, ásamt ,,Vegvísi UNESCO um listfræðslu" kveikjan að skólastefnu fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal sem mótuð var í hundraðadagameirihlutanum.
Á morgun verða svo málstofur þar sem ég meðal annarra mun gera heiðarlega tilraun til að lýsa sýn minni á gildi lista og menningar í skólastarfi.
22 október 2008
Fram og Fjölnir
Ég heyrði hjá Heimi og Hansa á Bylgjunni rétt í þessu að Fjölnismenn og Frammarar hefðu slitið sameiningarviðræðum. Ástæðan mun vera sú að Fjölnismenn gátu ekki hugsað sér að nota nafnið Fram.
21 október 2008
Sigtúnshópurinn
Ein sterkasta almannahreyfing á sviði húsnæðismála sem sprottið hefur upp hér á landi er Sigtúnshópurinn. Sigtúnshópurinn var grasrótarhreyfing og náði miklum áhrifum með kraftmiklum aðgerðum í stuttan tíma.
Ókeypis inn
Góðar fréttir að berast í hús. Ákvörðun um ókeypis aðgang að söfnum borgarinnar var tekin í tíð 100 daga meirihlutans og um áramótin opnuðust dyrnar upp á gátt.
Sama þróun hefur átt sér stað í löndunum umhverfis okkur - aðsóknin eykst til muna sé aðgangseyrir enginn.
Og nú kemur sér aldeilis vel að efnahagur fólks komi ekki í veg fyrir að það njóti okkar frábæru listasafna.
Ég hvet alla til að sækja söfn borgarinnar heim. Og raunar bókasöfnin og sundlaugarnar líka fyrst kona er byrjuð að telja upp margt af því góða sem borgin hefur upp á að bjóða.
Steingrímur J + Davíð
20 október 2008
Rauðblikkandi viðvörunarljós
Ég gróf upp þetta viðtal við Kristrúnu Heimisdóttur frá 2005.
Yfirskriftin er: Rauðblikkandi viðvörunarljós (nauðsynlegt að skrolla niður lítið eitt) og á við þá uggvænlegu þróun sem þá þegar var mörgum áhyggjuefni. Nefnilega þá að allt of fáar konur voru leiðandi í mótun fjármálageirans þrátt fyrir mikla fjölgun þeirra innan deilda háskólanna sem tengjast fjármálageiranum.
Nú þegar krafan um ný gildi og nýja hugsun við endurmótun íslensks samfélags er hávær er ekki úr vegi að skoða hvernig við höfum nýtt okkar mannauð - og hvernig við nýtum hann í gjörbreyttu samfélagi næstu ára og áratuga.
Tilfinningin segir konu óneitanlega að fólk úr hugvísinda-, menntavísinda- og félagsvísindadeildum Háskólans komi til með að taka beinni og öflugri þátt í uppbyggingarstarfinu sem framundan er. Ekki síður en fólk úr viðskipta- og verkfræðideildum.
Jólympíuleikarnir nálgast
Árið 2005 hlotnaðist mér sá heiður að flytja erindi á fjölskylduþingi Félagsmálaráðuneytisins í Iðnó. Þingið var rétt fyrir jól og markmiðið var að vekja athygli á hinum sönnu gjöfum jólanna sem varla verða mældar í peningum einum saman. Erindið heitir ,,Jólympíuleikarnir" og er hér í heild sinni.
Ég legg nú ekki í vana minn að lesa gömul erindi á mánudagskvöldum en rakst á eftirfarandi klausu sem mér finnst eiga vel við í dag:
,,Rétt eins og ólympíuleikarnir eru jólin dýr - og þá er alveg sama hversu útsjónarsamt og vel skipulagt fólk er. Gjafirnar, jólatréð, fínu fötin, jólaskrautið og steikin taka sinn toll og ég þekki engan sem hefur ekki eytt aðeins meira en hann ætlaði sér á jólunum.
Margir Íslendingar eiga sand af seðlum sem þeir dreifa frjálslega í kringum sig á jólunum sem og endranær. En þeir eru líka margir sem eiga lítið og líða fyrir það í desember. Það er skuggaleg staðreynd að einstæðir foreldrar sem rétt svo tekst að láta enda ná saman, eyða samt álíka miklu í gjafir handa börnunum sínum eins og þeir sem eiga fullt af peningum. Ástæðan er auðvitað sú að enginn vill verða eftirbátur hinna, viðmiðið er sett af þeim sem nóg eiga og hinir reyna að sigla með straumnum. Auðvitað er það vel meint, það vilja allir gleðja börnin sín á jólunum.
En getur verið að íslenska þjóðin kunni ekki að fara með peninga? Kunnum við að vera rík?
Vandi fylgir vegsemd hverri eins og sagt er - og það er vissulega stutt síðan við vorum fátæk bændaþjóð með hor í nös og galtóma vasa - en ég vil kalla hina vel stæðu til ábyrgðar í þessum efnum, því það fylgir því ábyrgð að eiga pening og með því að berast á og kasta þeim í rándýrar gjafir og ríkmannlegt jólahald eru margir aðrir settir í vandasama stöðu.
Fyrir utan það hvaða lærdóm börnin okkar draga af þessari gengdarlausu eyðslu. Og það sem er svo grátbroslegt er að dýru gjafirnar staldra ósköp stutt við í höll minninganna. Ef hópur barna er inntur eftir dýrmætustu jólaminningunni kemur í ljós að hún var alls ekki dýr - hún kostaði bara ekki krónu. Það rifjast upp snjóþotuferðir, jólaball eða heimsókn til ömmu og afa í piparkökur og kakó. Jafnvel ómerkilegur músastigi kemur upp í hugann.
Ef þessi sami barnahópur er inntur eftir jólagjöfum síðastliðinna ára verður oft fátt um svör."
Áfram LRH
Ég sat fund með yfirstjórn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Lygilega góður árangur sem LRH hefur náð á árinu - og það hefur farið hljótt um hann.
Sérstaka athygli mína vakti sú staðreynd að umferðarslysum hefur fækkað um 15% fyrstu 8 mánuði ársins 2008 miðað við sama tíma árið 2007.
Hér er eingöngu átt við þau óhöpp þar sem slys verða á fólki - alvarlegustu umferðarslysin þar sem líf og limir okkar eru í húfi.
Þetta er gríðarlega góður árangur umferðardeildar LRH og afrakstur þrotlausrar og nákvæmrar greiningarvinnu, forvarna og eftirlits.
Það kom fram á fundinum að samkvæmt fræðunum er talið ógerlegt að fækka umferðarslysum um meira en 5% - LRH gerði gott betur.
Ekki þarf að orðlengja um þjóðhagslegan ávinning og þann sparnað sem hlýst af því að umferðarslysum fækki um heil 15% á höfuðborgarsvæðinu.
Við höfum margoft tekið undir þau sjónarmið LRH að stofnunin þurfi meira fjármagn - til að auka hlut sýnilegrar löggæslu og öryggi íbúanna úti í hverfunum.
Einhvern veginn finnst konu þeir hafa unnið til þess með þessum frábæra árangri.
Ég man þá tíð...
Það er eins og þessi texti sé margra ára gamall. En hann er þó bara síðan í júlí. Það mun líða langur tími þar til lofgreinar á borð við þessa birtast í erlendum blöðum.
Sumar voru nú reyndar að gera okkur gráhærða - sér í lagi þær sem fjölluðu um Íslendinga eins og við værum einfeldningar með mosa í naflanum og sérviskulegar matarvenjur.
Kunningi minn skrifaði BA-ritgerð um álfatrú og vegagerð fyrir hartnær áratug.
Hann fær (fékk) ennþá viðtalsbeiðnir við evrópska og ameríska fjölmiðla - og þá sem álfasérfræðingur.
Greinin er hræðilega væmin en það er þó eitthvað sjarmerandi við þessa staðhæfingu:
If butterfly wings made a sound, the fluttering would sound like the lovely Icelandic language.
Þór er flottur
Mikið óskaplega þykir mér Þór Sigfússon oft mæla skynsamlega.
Það gerði hann líka hér.
Jafnvægi
Hérna þekki ég mitt fólk.
Við endurmótun íslensks samfélags verðum við að nýta allt okkar hæfa fólk. Sé litið til hins ævaforna tákns Yin og Yang er morgunljóst að í viðskiptalífinu hefur of mikið af Yang-i verið til staðar.
Nú er runninn upp sá tími þar sem skynsemi er ofar fífldirfsku, langtímamarkmið eru ofar skammtímamarkmiðum og áhættumeðvitund ofar áhættusækni.
Við höfum hreinlega ekki efni á því að nýta ekki krafta kvenna til jafns við karla.
Hausatalning er ekki aðalmálið, né heldur að alhæfa og kenna öðru hvoru kyninu um.
Rannsóknir sýna einfaldlega að þau fyrirtæki sem hafa sem jafnast hlutfall karla og kvenna þegar kemur að stjórnun eru í betra jafnvægi en önnur.
Þetta snýr að því að hafa kjark til að hleypa nýjum gildum að, leita jafnvægis og reglu. Það jafnvægi mun ekki nást nema allir komi að borðum þar sem ráðum er ráðið.
19 október 2008
Að lokinni veislu
Airwaves lokið - og mér allri lokið um leið. Það er óneitanlega þyngra undan dansfætinum þegar komið er á fertugsaldurinn svei mér þá.
17 október 2008
Heimsborg og heimabær
Ég gekk niður Laugaveginn fyrir hádegi í dag og heyrði hvergi íslensku. Airwaves-hátíðin í fullu fjöri og bærinn troðfullur af glaðbeittu áhugafólki um góða tónlist.
Einu sinni á ári breytist Reykjavík í útlenska heimsborg. Mér líkar það vel þó heimabærinn sé ósköp notalegur svona inn á milli.
Ég ætla að þræða tónleikastaði um helgina - af nógu er að taka.
Smekklaust
Það er smekklaust af Eyþóri Arnalds að þyrla upp ryki vegna peninga sem Árborg lagði inn á peningamarkaðsreikning í sumar. Það er ábyrgðarlaust af honum að slá sér til riddara í þessu erfiða ástandi - ef ekki einfaldlega smekklaust.
Mörg sveitarfélög eiga fjármuni inn á peningamarkaðsreikningum, fólk út um allt land á fjármuni inn á peningamarkaðsreikningum.
Sem betur fer eru svona upphlaup fátíð um þessar mundir. Í Reykjavík var þverpólitísk samstaða um aðgerðaráætlun í fjármálum borgarinnar þó svo að fólk hafi auðvitað mismunandi skoðanir á því hvaða leiðir eru bestar og hver forgangsröðin sé. Borgarbúar þurfa á því að halda að við sameinumst í þessu erfiða verkefni.
Íbúar landsins þurfa ekki á ódýrum upphrópunum að halda nú um mundir.
Það heitir að ala á óöryggi.
16 október 2008
Jafnvægi milli kvenna og karla
Ég sakna þess hvað lítið er talað um mikilvægi jafnréttis og jafnvægis á þessum umbrotatímum.
15 október 2008
Grein dagsins er eftir Steinunni Valdísi
Margan lærdóm má draga af atburðum síðustu vikna og mikilvægasta lexían er sennilega sú að okkur beri að vanda til verka og láta ekki stundarhagsmuni og von um fljóttekinn gróða teyma okkur til aðgerða í blindni án þess að huga vel að afleiðingunum til lengri tíma.
Það skýtur því óneitanlega skökku við að nú séu uppi kröfur um að kasta til hliðar heildstæðu mati á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka við Húsavík vegna þess að „við höfum ekki efni á að tefja álversframkvæmdir“ eins og það er orðað. Það eru að mörgu leyti skiljanleg viðbrögð að vilja grípa tafarlaust til verka í þeirri von að draga megi með einhverjum hætti úr höggþunga þeirra áfalla sem á okkur dynja. En allra síst nú getum við leyft okkur fljótfærni og óðagot sem kann að koma okkur í koll þegar fram í sækir.
Það blasir við öllum að lög, reglur og eftirlit vantaði sárlega í aðdraganda þess að alþjóðlega lausafjárkreppan skall á og allt hrundi. Við skulum því fara að lögum nú, hversu mjög sem einhverjum kann að þykja þau þvælast fyrir framkvæmdagleði.
Ytri aðstæður hafa sjaldan eða aldrei verið óhagstæðari. Lánstraust Íslendinga er lítið nú um stundir og ekki á bætandi að veikja það með frekari lántökum til uppbyggingar og stækkunar álvera. Það væri óábyrg hagstjórn að auka skuldir í stað þess að hægja örlítið á og endurvekja traust hérlendis og erlendis. Fjárfesting okkar í áliðnaði er gríðarleg og skuldirnar miklar vegna hans. Tekjurnar eru síðan að mestu leyti bundnar við álverð sem fer hríðlækkandi. Það er því alls óvíst að álver sé okkar besti orkunýtingarkostur til framtíðar.
Það er satt að við þurfum að lifa veturinn, en við þurfum einnig að huga að komandi árum og áratugum. Styrkjum undirstöðurnar undir efnahagslífið á þann veg að þær dugi einnig börnum okkar og barnabörnum. Við höfum verið óþyrmilega minnt á ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum.
Rísum undir henni.
(Birt með góðfúslegu óleyfi Morgunblaðsins)
Fyrir opnum tjöldum
Opnir fundir þingnefnda komast líklega næst því að vera ,,hearings" - eða opnar vitnaleiðslur eins og bandaríska þingið hefur komist upp á lagið með. Fráfarandi bankastjóri Lehman Brothers fór ekki varhluta af þeim eftir gjaldþrot bankans.
14 október 2008
Hallir fólksins
Ég var í Moskvu um helgina í fylgd með bónda mínum sem fagnaði útkomu bókar sinnar á rússnesku ásamt skáldbróður Einari Kárasyni.
Framtíðin yfir grjónagrautnum
Sigurður Úlfar sendi inn langa athugasemd við síðasta pistli mínum sem ég eyddi fyrir gáleysi - ég biðst forláts á því. Þar hvatti hann mig og aðra sambandssinna til að nálgast umræðuna um ESB með haldbærum rökum og ekki sem trúarbrögð.
13 október 2008
Táknrænt
Ég reiddi fram vegabréfið á Kastrup og glaðbeittur danskur maður um fimmtugt skoðaði það í bak og fyrir. Hann horfði til mín kankvís og spurði svo hlæjandi:
,,Island? Nu må I rejse med Ökonomi, eller hvad?"
Hláturinn var aðeins of glaðhlakkalegur fyrir minn smekk en ég tók mitt vegabréf og hélt áfram göngunni. Þegar ég var komin lengra fann ég fyrir sviða í brjóstinu. Ég tók skensið raunverulega nærri mér.
(Sem er ólíkt mér því ég læt mér yfirleitt fátt fyrir brjósti brenna.)
En ég hef aldrei ferðast á Saga Class.
Ekki frekar en þorri Íslendinga. En við skulum samt borga brúsann.
Og börnin okkar og líklega barnabörnin líka.
Ég mæli með grein Ingibjargar Sólrúnar í Morgunblaðinu í dag. Velkomin aftur Solla, þín hefur verið sárt saknað.
08 október 2008
07 október 2008
Raunverulegir vinir
Ég tek það fram að ég vil ekki sjá þessa ríkisstjórn klofna. Ég styð mitt fólk af öllum mætti - ríkisstjórnina í heild sinni styð ég af veikum mætti.
Sextán spurningamerki og ein upphrópun
06 október 2008
Í hita augnabliksins
Það er kannski best að bíta í tunguna á sér núna og segja sem minnst.
Ég trúi því ekki
fyrr en ég tek á því að ríkisstjórnin ætli sér að kynna aðgerðaráætlun sem gerir ekki ráð fyrir samráði við verkalýðshreyfinguna.
Ég trúi því bara ekki.
Ef það er gert þá kallar það á fleiri krísur en nauðsyn krefur. Og nógu djúpt höfum við sokkið.
03 október 2008
Gott hjá kennurum
Þetta er til fyrirmyndar. Ég á lítinn fimm ára trítil og hann er býsna uggandi um ástandið - hvað þá stálpuð börn og unglingar sem geta tekið fjármál fjölskyldunnar töluvert inn á sig undir venjulegum kringumstæðum.
01 október 2008
Hækkun leikskólagjalda
Það er ekki rétt sem kemur fram í máli forsvarsmanns Hjallastefnunnar í 24 stundum í dag að sjálfstætt reknir leikskólar í borginni fái lægri niðurgreiðslu en borgarreknir. Þvert á móti gerði t.a.m. Laufásborg glimrandi góðan samning við Reykjavíkurborg auk þess að fá afhentan rótgróinn hverfisleikskóla til einkareksturs. Laufásborg er með mun betri samning en flestir aðrir sjálfstætt reknir skólar og greiðslur til sjálfstætt rekinna leikskóla hafa hækkað til muna á þessu kjörtímabili.
Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti meirihluti leikskólaráðs að ganga til samninga við Hjallastefnuna og fela þeim rekstur Laufásborgar. Við í Samfylkingunni greiddum atkvæði á móti vegna þess ákvæðis í samningnum að Laufásborg mætti hækka leikskólagjöldin. Fyrst í stað fylgdu leikskólagjöldin öðrum leikskólum en nú hefur Laufásborg ákveðið að hækka þau um 15%.
Að mínu mati hafa sjálfstætt reknir skólar borð fyrir báru til að mæta óvæntum útgjaldaliðum. Þeir eiga ekki að þurfa að hækka gjöld til foreldra og í þessu árferði finnst mér það með öllu ótækt. Ég hef í sannleika sagt áhyggjur af því að þessi meirihluti - sem svo einarðlega gengur fram í þágu sjálfstætt rekinna leikskóla á kostnað uppbyggingar almennra leikskóla - geti vel hugsað sér að gefa gjaldtöku í sjálfstætt reknum skólum algjörlega frjálsa.
Það væri gott að fá staðfestingu á því að svo er ekki.
Annars er hér að finna margvíslegan fróðleik um Hjallastefnuna, matsskýrslu um leikskóla sem starfar eftir hjallískri stefnu.
29 september 2008
28 september 2008
Í Herðubreið er þetta helst
Kona hlakkar yfirleitt til dynksins úr forstofunni þegar Herðubreið skellur í gólfið. Enda tímaritið sneisafullt af góðu efni sem höfðar misvel til manns hverju sinni, sem von er.