28 september 2008

Í Herðubreið er þetta helst

Kona hlakkar yfirleitt til dynksins úr forstofunni þegar Herðubreið skellur í gólfið. Enda tímaritið sneisafullt af góðu efni sem höfðar misvel til manns hverju sinni, sem von er. 


Rósa Erlingsdóttir á góða grein um stjórnmál og kynjahlutverk sem er allrar athygli verð. Þar fjallar hún um dönsk stjórnmál og það sem mætti kalla afdrifarík mistök Helle Thorning-Schmidt og jafnaðarmannaflokksins að setja ekki jafnréttismálin ákveðið á dagskrá í síðustu kosningum. 

Eins er skemmtileg ferðasaga þeirra Önnu Pálu og Evu Bjarnadóttur frá Ísrael þar sem þær lýsa örvæntingarfullum tilraunum til að ná eyrum sofandi Íslendinga eftir að hafa verið klófestar af yfirvöldum í Tel Aviv.

Páll Ólafsson - hið eina sanna ástarskáld Íslendinga - fær umfjöllun af hendi Guðmundar Andra. Ljóðin hans eru einfaldlega stórkostleg og vandfundin sú manneskja íslensk sem elskað hefur heitar en hann. 

...Mig langar svo að lifa og vaka,
sú löngun vex með hverri stund,
og lífsglaður þér mín kvæði kvaka.
Þá kviði´eg ekki að hníga í blund,
ef að samviskan sagt mér getur
seinast þegar andann dreg:
Konu sína´enginn kyssti betur
né kvað um hana líkt og ég. 

Rómantískara verður það varla.

Engin ummæli: