04 september 2008

Valkostur?

Í gær var borinn í hús snotur bæklingur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar. Bæklingurinn ber nafnið Uppbygging - fleiri valkostir fyrir foreldra ungra barna.

Í kjölfarið hef ég fengið fjölda bréfa frá foreldrum í fæðingarorlofi sem lásu bæklinginn, vongóðir í fyrstu. Þeir átta sig ekki alveg á því hvað ,,þjónustutrygging" upp á 35.000 krónur gerir fyrir þá.
Þjónustutryggingu er ætlað að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið byrjar í leikskóla. 35.000 krónur er auðvitað ekki framfærsla, varla þriðjungur lágmarksframfærslu og það er því ekki skrýtið að foreldrar sem senn halda aftur út á vinnumarkaðinn spyrji sig:

Á ég að sætta mig við að 260 milljónir úr sameiginlegum sjóðum okkar verði varið næstu 15 mánuðina í lágar greiðslur til foreldra í stað þess að verja þeim í uppbyggingu raunverulegra valkosta?

Ég hef lengi talað fyrir því að fæðingarorlofið þarf að lengja. Fjölskyldum verður að vera gert kleift að vera heima með nýjum fjölskyldumeðlimi í a.m.k. eitt ár. Fyrir fæðingarorlofsgreiðslur sem eru 80% af launum foreldra. Það er raunverulegur valkostur.

En foreldrarnir tala sínu máli:

,,Í morgun barst mér bæklingur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar sem ber heitið Uppbygging, fleiri valkostir fyrir foreldra ungra barna. Ég er heima í fæðingarorlofi sem lýkur um miðjan janúar þegar ég hef verið heima í tæpt ár, svo ég vonaði að í þessum bæklingi væri lausn á mínum dagvistunarmálum. En svo var ekki - þar er kynnt staða mála eins og hún er í dag og var fyrir sex árum þegar ég stóð síðast í þessum sporum. Nema nú hefur valkostunum fjölgað um einn - hægt er að fá 35.000 kr greiðslu á mánuði ef önnur þjónusta fæst ekki. Hverskonar grín er þetta, hver hefur efni á því að vera heima fyrir 35.000 kr á mánuði?"

(Í bæklingnum er),,...bent á að hægt sé að fá ættinga til að gæta barnsins og nýta greiðsluna - en ekki kemur fram hvort litið verður á greiðsluna sem tekjur og hvort t.d. lífeyrisgreiðslur skerðist. Hjá dagmæðrum eru börnin tryggð og lágmarksgæði þjónustunnar tryggð með eftirliti - varla verður um slíkt að ræða hjá ættingjum. Ætla má að verið sé að búa til “svarta” daggæslu með þessu. Í Noregi þar sem svo kallaðar heimgreiðslur hafa tíðkast um nokkurt skeið varð það raunin."

,,Ég held að gegnum gangandi séu foreldrar á því að betra sé að vista börn á leikskólum en hjá dagmæðrum og ég get ekki ímyndað mér þá fjölskyldu sem getur tekið aðra fyrirvinnuna af vinnumarkaði fyrir 35.000."

,,Þær lausnir sem kynntar eru í bæklingnum leysa akkúrat ekki neitt og eru bara innatómt gylliboð. Ég eignaðist mitt annað barn í febrúar 2008 og þar sem ég valdi að dvelja heima í ár þá þarf ég á gæslu að halda í janúar á næsta ári - eftir að hafa rætt við nokkrar dagmæður og daggæslu fulltrúa í hverfismiðstöð skynja ég að útlitið er ekki bjart enda aðeins “fardagar” að hausti í þessu bransa. Ég vona að þau mál leysist farsællega og ég fá gæslu frá 8-14 fyrir drenginn minn því ég hef ekki efni á að vera heima með hann fyrir 35.000 kr á mánuði þó ég fegin vildi. Ég treysti því að þú haldir áfram baráttu þinni fyrir því að þessi vitleysa verði ekki að veruleika."

Engin ummæli: