Dr. Jónas Haralz er dálítið merkilegur kall. Hann er aldraður, á einungis eitt ár eftir í nírætt. Tilgáta: þegar fólk nær svo háum aldri en gefur sig enn að samfélagslegri umræðu hefur það meiri kjark til að segja nákvæmlega það sem því finnst.
Ef sú tilgáta er rétt hlakka ég til að verða níræð. Ég vona reyndar að við verðum gengin í Evrópusambandið árið 2066 en í dag snérist umræðan að miklu leyti um inngöngu í ESB í efnahagspallborði flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar.
Þar var rætt um hinar ýmsu leiðir sem hent hefur verið á loft: Evra án aðildar, aðild í gegnum EES-samninginn, tveggja fasa atkvæðagreiðsla meðal þjóðarinnar og sitthvað fleira. Það kom fram augljós þreyta hjá hinum almenna flokksmanni með hvað seint gengur að sjá til sólar - Samfylkingarfólk hefur verið á sömu skoðun allt frá stofnun flokksins eða svo gott sem - það skýrir þreytuna. Aðrir flokkar eru á báðum áttum og eftir þeim þurfum við að bíða. Það er grábölvað, ég fer ekkert ofan af því!
En Dr. Jónas Haralz er sannarlega ekki á báðum áttum. Hann vill enga atkvæðagreiðslu eða hálfkák. Hann vill að við sækjum fullum fetum um aðild og ef eitthvað kemur upp á í ferlinu, einhverjir stórkostlegir vankantar á stöðu Íslands innan ESB, þá á ESB að bjóða upp á valkosti svo Íslendingar geti vel við unað. ESB vill fá Ísland inn í sambandið, látum sambandið þá sýna okkur spilin og tökum svo ákvörðun.
Íslendingar eiga ekki að mæta til leiks með hálfum hug og ganga bakdyramegin inn með ósk um sérmeðferð og undanþágur. Við eigum að storma upp að aðaldyrunum og banka hraustlega upp á. Eða eins og Jónas sagði í dag:
,,Af hverju getum við ekki verið eins og allir aðrir"!
4 ummæli:
Sem almennur flokksmaður er ég orðinn ansi þreyttur á því sem virðist vera pólitískt kjarkleysi Samfylkingarinnar síðan hún komst í ríkisstjórn.
Ég vil inn í ESB, samanber blogg mitt hér á Eyjunni í dag og oft áður, og ég nenni ekki þessum bölvuðum feluleik með málið.
Ég er sammála gamla manninum en maður þarf ekki að vera orðinn níræður til að sjá þetta hjálparlaust.
,,Hvers vegna getum við ekki verið eins allir aðrir ?"
Þetta átt þú að vita verandi í stjórnmálaflokki sem er með sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn !
Vandamálið er sjálfstæðisflokkurinn !
Farðu til samflokksmanna þinna sem eiga að vera starfandi alþingismenn og spyrðu þau að þessari spurningu ?
Hvers vegna sækjum við ekki um aðild að ESB ?
Kæri nafnlaus og Björgvin Valur
Undirrituð veit ósköp vel hvar hundurinn liggur grafinn. En það þarf víst tvo til, í pólitískum samböndum sem öðrum samböndum.
Undirrituð er einnig orðin ansi þreytt á pattstöðunni.
Mér finnst þó Samfylkingin ekki vera í feluleik með sínar skoðanir nema síður væri. Hún kastar reyksprengjum í sífellu, sælla minninga!
En ef hún ætlaði að láta til skarar skríða þyrfti hún að fara út úr samstarfinu því samstarfsflokkurinn vill ekki sækja um aðild.
Er það fýsilegt?
og hér má lesa um reyksprengjur...
oddny.eyjan.is/2008/07/af-reyksprengjum.html
Skrifa ummæli