30 júní 2008

Pælingar af Skólavörðuholti

Samkvæmt tíufréttum sjónvarps eru íbúar í grennd við Hallgrímskirkju að ærast yfir hávaða vegna lagfæringa á Hallgrímskirkju. Börnin mín eru á leikskóla við rætur kirkjunnar og ég verð að viðurkenna að mér varð ekki um sel þegar ég heyrði lætin - af lóð Grænuborgar. Þau voru ærandi og allt eins álitaefni hvort ekki þurfi að mæla hávaðann nú þegar börnin dvelja mestmegnis utandyra í góða veðrinu. 

Ánægjulegar fréttir af Skólavörðuholtinu eru þó þær að senn opnar kaffihús með íslenskum veitingum efst á Lokastíg. Þó Hallgrímskirkja sé ekki mjög frýnileg þessa dagana, klædd í stillansa og grænan vinnugalla, þá dregur hún marga ferðamenn upp á holtið sem hljóta að taka kaffihúsinu fegins hendi - það hefur lengi vantað huggulegt kaffihús á holtið fyrir þær þúsundir ferðamanna sem dóla sér í kringum kirkjuna á sumrin. 

Ég skellti mér á kaffihús í dag, nánar tiltekið blint kaffihús sem UngBlind stendur fyrir í húsnæði Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17. Stórkostleg upplifun, niðamyrkur og góður matur. Yfir borðum sagði sessunautur minn sögur af vinafólki sem stendur í þeim stórræðum að opna kaffihús. Leyfin, reglugerðirnar og kvaðirnar eru margar og merkilegar, t.a.m. er kveðið á um að engu færri en fimm vaskar séu í húsnæði kaffihússins. Fimm vaskar! Eru þrír ekki nóg?

Í kjölfarið leiddi ég hugann að aðstöðumálum frístundaheimila í borginni. Þau eru stundum allt annað en ásættanleg og lítið sér til sólar þó afar svört skýrsla hafi verið birt um aðstöðu frístundaheimila fyrir nokkrum mánuðum síðan. 

Af hverju gerum við minni kröfur til húsnæðis sem tugir, jafnvel hundruðir barna og fjölmargir starfsmenn þurfa að gera sér að góðu á hverjum degi - en húsnæðis sem fullorðið fólk rambar inn á öðru hverju til að drekka kaffibolla og gæða sér á samloku?

Pétur Gunnarsson er að hætta. Honum þakka ég styrka stjórn Eyjunnar og góða viðkynningu. Hann er naskur rýnir og sérdeilis vel giftur. Konan hans Anna Margrét starfar með mér að menntamálum og er margverðlaunaður leikskólastjóri í Reykjavík. 

23 júní 2008

Sumarmolar

Undarlega lítið hefur farið fyrir þessu í fréttum. Margar hugmyndir hafa verið á lofti um jafnréttissetur af einhverju tagi. Nú sér loks til sólar í því. Það gleður mitt femíníska hjarta að sjá utanríkisráðherra taka til óspilltra málanna í sínu ráðuneyti.

Ég eyddi gærdeginum í Viðey. Dásamleg perla sem sú eyja er og gaman að láta sig líða um grónar grundir og naga puntstrá í vel völdum lautum. Og sjá! Fyrir aftan Viðeyjarstofu eru hjól í öllum stærðum til afnota fyrir eyjagesti, sum þeirra með barnastól og allt.

Annars er nú lítið að frétta finnst konu. Dagarnir renna saman í sól og grillsælu. Þó eru tvær vikur í sumarfrí og í mörg horn að líta. Bóndinn er farinn í Hrísey með vel yddaða blýanta og hugur borgarfulltrúans leitar því óneitanlega í norðurátt.

Ekkert er þó fegurra en vorkvöld í Reykjavík. Nema kannski sumarkvöldin.

15 júní 2008

Ljómandi landnemar

Ný stjórn Landnemans var kosin á hressum fundi á Hressó í dag. Tæplega 100 manns mættu.
Landneminn er félag áhugafólks um fjölmenningu, umheiminn og sterka stöðu landnema í íslensku samfélagi. Félagið er tengt Samfylkingunni.


Stjórnin:


Petra Deluxsana, frá Tælandi. Sjálfstætt starfandi túlkur, fjarnemi í lögfræði og rekur gistiheimili. Petra hefur starfað með samfélagi Tælendinga á Íslandi, samtökum kvenna af erlendum uppruna og félagi Búddista.

Amal Tamimi, frá Palestínu. Túlkur og ráðgjafi í málefnum innflytjenda til margra ára. BA í félagsfræði frá Háskóla Íslands. Situr í innflytjendaráði. Rekur nú eigið fyrirtæki, Jafnréttishús, í Hafnarfirði. Formaður lýðræðis- og mannréttindaráðs Hafnarfjarðar. Starfar með samtökum kvenna af erlendum uppruna.

Luciano Domingues Dutra, frá Brasilíu. Er í mastersnámi í þýðingarfræðum og vinnur nú að íslensk-portúgölsku orðabókinni. Skrifaði BA ritgerð um íslensku landnemana í Brasilíu. Starfar sem þjónustufulltrúi hjá Tryggingastofnun.

Sema Erla Serdar, tyrknesk í föðurætt en ólst upp á Íslandi. Stundar nú nám við Keili í stjórnmálafræði. Ritstjóri Ungra Jafnaðarmanna á Suðurnesjum.

Bjartur Logi Ye Shen, frá Kína. Hagfræðingur og starfar hjá Glitni á alþjóðasviði. Situr í stjórn hverfafélags Samfylkingarinnar í vesturbæ.

Kolfinna Baldvinsdóttir, frá Íslandi. Fjölmiðlakona. Landnemi til tíu ára í Kosovo, Ítalíu, Belgíu, Washington og víðar.

Oddný Sturludóttir, frá Íslandi. Borgarfulltrúi. Fyrrum landnemi í Þýskalandi og Írlandi.

Heimskt er heimaalið barn. Það er gaman að tilheyra alþjóðasinnuðum flokki.

13 júní 2008

Bis dann!

Það bezta við sumarið er að sækja grútskítug en alsæl börn á leikskólann. Í hárinu eru kleprar eftir vandlega smurningu sólaráburðs. Fötin eru það skítug að kona veltir fyrir sér hvort þau eigi að fara í óhreinatauið - eða hreinlega ruslakörfuna. 


Það næstbezta við sumarið er að reyna að þrífa af þeim skítinn eftir kvöldmat. Í ljós kemur að skíturinn er ekki skítur, heldur sólbrúnka eftir linnulausa leiki utandyra. 

Það þriðja bezta er að fylgjast með svefninum ná yfirhöndinni örfáum sekúndum eftir að þau leggja höfuðin á koddann. Líkamlega eru þau örþreytt, sólbrún (ennþá skítug...?), en jafnvel sofandi ljóma þau eins og íslenska sólin í heiði. 

Íslenska sólin ætlar að skína á síbúa sem og nýbúa næstkomandi sunnudag. Þá verður á dagskrá stofnfundur ,,Landnemans", nýs félags tengdu mínum góða flokki. 

Landneminn er fyrir aðflutta sem innfædda, þá sem dvalið hafa langdvölum erlendis og þá sem eru að festa rætur sínar á Íslandi. Heimsborgara sem heimamenn. 

Ingibjörg Sólrún, Hrannar Björn og Bjartur Logi Ye Shen flytja ávörp, stjórn verður kosin og rúsínan í pylsuendanum er Leone Tinganelli and his great band Delizi Italiane.

Á sama tíma verða frumsýndir bæklingar á átta tungumálum um jafnaðarstefnuna og Samfó. 

Markmið fyrstu stjórnar verða að gera innflytjendur sýnilegri í stjórnmála- og þjóðmálaumræðunni, vera ráðgefandi ráðherra félagsmálaráðherra í málefnum innflytjenda sem og að vera öflugur þrýstihópur á stjórnvöld. 

Stofnfundurinn er á Hressó klukkan 16 á sunnudaginn kemur. Bis dann schöne Freunde.

07 júní 2008

Harðsnúna Hanna

Framtíð tveggja stjórnmálakvenna réðst í dag. Niðurstöðurnar koma ekki á óvart, hvorki í Bandaríkjunum né Ráðhúsi Reykjavíkur. Sjálfstæðismenn í Reykjavík gátu ekki með nokkru móti slegið oddvitavalinu lengur á frest og borgarbúum hugnast Hanna Birna augljóslega best. 


Hillary er mín kona og ég vona sannarlega að Bandaríkjamenn fái notið hennar krafta þótt þessi slagur hennar hafi tapast.  

Það er svo annað mál hvernig dúettinn Hanna Birna og Ólafur F á eftir að hljóma. Málefnasamningur janúarmánaðar kvað á um að Ólafur og Vilhjálmur myndu skiptast á að vera borgarstjórar. 

Hvað segir Ólafur F. Magnússon nú? Hvernig mun honum ganga að vinna með Hönnu Birnu?  

Ég óska Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innilega til hamingju. Hún er vel að þessu komin hvað sem öðru líður. Og Sjálfstæðismenn hafa ekki státað af kvenkyns borgarstjóra síðan Auður Auðuns var og hét.   

03 júní 2008

Af málefnasamningagerð

Hvað getur kona sagt við ummælum sem þessum?