13 júní 2008

Bis dann!

Það bezta við sumarið er að sækja grútskítug en alsæl börn á leikskólann. Í hárinu eru kleprar eftir vandlega smurningu sólaráburðs. Fötin eru það skítug að kona veltir fyrir sér hvort þau eigi að fara í óhreinatauið - eða hreinlega ruslakörfuna. 


Það næstbezta við sumarið er að reyna að þrífa af þeim skítinn eftir kvöldmat. Í ljós kemur að skíturinn er ekki skítur, heldur sólbrúnka eftir linnulausa leiki utandyra. 

Það þriðja bezta er að fylgjast með svefninum ná yfirhöndinni örfáum sekúndum eftir að þau leggja höfuðin á koddann. Líkamlega eru þau örþreytt, sólbrún (ennþá skítug...?), en jafnvel sofandi ljóma þau eins og íslenska sólin í heiði. 

Íslenska sólin ætlar að skína á síbúa sem og nýbúa næstkomandi sunnudag. Þá verður á dagskrá stofnfundur ,,Landnemans", nýs félags tengdu mínum góða flokki. 

Landneminn er fyrir aðflutta sem innfædda, þá sem dvalið hafa langdvölum erlendis og þá sem eru að festa rætur sínar á Íslandi. Heimsborgara sem heimamenn. 

Ingibjörg Sólrún, Hrannar Björn og Bjartur Logi Ye Shen flytja ávörp, stjórn verður kosin og rúsínan í pylsuendanum er Leone Tinganelli and his great band Delizi Italiane.

Á sama tíma verða frumsýndir bæklingar á átta tungumálum um jafnaðarstefnuna og Samfó. 

Markmið fyrstu stjórnar verða að gera innflytjendur sýnilegri í stjórnmála- og þjóðmálaumræðunni, vera ráðgefandi ráðherra félagsmálaráðherra í málefnum innflytjenda sem og að vera öflugur þrýstihópur á stjórnvöld. 

Stofnfundurinn er á Hressó klukkan 16 á sunnudaginn kemur. Bis dann schöne Freunde.

Engin ummæli: