29 september 2008

Skyndifundur

Nú mætti ætla að drægi senn til tíðinda.

28 september 2008

Í Herðubreið er þetta helst

Kona hlakkar yfirleitt til dynksins úr forstofunni þegar Herðubreið skellur í gólfið. Enda tímaritið sneisafullt af góðu efni sem höfðar misvel til manns hverju sinni, sem von er. 


Rósa Erlingsdóttir á góða grein um stjórnmál og kynjahlutverk sem er allrar athygli verð. Þar fjallar hún um dönsk stjórnmál og það sem mætti kalla afdrifarík mistök Helle Thorning-Schmidt og jafnaðarmannaflokksins að setja ekki jafnréttismálin ákveðið á dagskrá í síðustu kosningum. 

Eins er skemmtileg ferðasaga þeirra Önnu Pálu og Evu Bjarnadóttur frá Ísrael þar sem þær lýsa örvæntingarfullum tilraunum til að ná eyrum sofandi Íslendinga eftir að hafa verið klófestar af yfirvöldum í Tel Aviv.

Páll Ólafsson - hið eina sanna ástarskáld Íslendinga - fær umfjöllun af hendi Guðmundar Andra. Ljóðin hans eru einfaldlega stórkostleg og vandfundin sú manneskja íslensk sem elskað hefur heitar en hann. 

...Mig langar svo að lifa og vaka,
sú löngun vex með hverri stund,
og lífsglaður þér mín kvæði kvaka.
Þá kviði´eg ekki að hníga í blund,
ef að samviskan sagt mér getur
seinast þegar andann dreg:
Konu sína´enginn kyssti betur
né kvað um hana líkt og ég. 

Rómantískara verður það varla.

26 september 2008

Sjálfsögð þjónusta

Við eigum Ríkissjónvarp. Um það eru ekki allir sáttir en þó flestir sáttir um að sjónvarp í eigu skattborgara eigi að veita góða þjónustu, vera öryggistæki og sinna vel menningarhlutverki sínu sem ríkisfjölmiðill.

16% landsmanna eru heyrnarskertir og gætu notið íslensks efnis ef það væri textað. Sem það er ekki nema við hátíðleg tækifæri.

Auðvitað á Ríkissjónvarpið okkar að texta alla fréttatíma, alla íslenska gaman- og glæpaþætti, spjallþætti, fréttatengda þætti og barnaefni. 888-síðan er þegar til - af hverju ekki að veita þessa sjálfsögðu þjónustu?

Ég get mér þess til að þetta séu í mesta lagi tvö stöðugildi sem þyrfti til að sinna textavinnu af þessu tagi. Kannski jafnvel minna.

Tímum við því ekki fyrir 16% landsmanna? Drífum í þessu og gerum það strax.

25 september 2008

Að hlusta

Kona veit eiginlega ekki hvað hún á að halda með stöðu lögreglumála í landinu. Bullandi ósættið er yfirþyrmandi og ekki hægt að segja að traust ríki á milli lögreglumanna- og stjóra og ráðherra.

Nú er bráðum ár síðan fjórir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar stóðum næturvaktina með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar kynntumst við öguðu og faglegu lögregluliði en kynntumst því líka að kjörin eru lök, álagið mikið og skorturinn sár á meiri sýnilegri löggæslu.

Ég hef mikið álit á lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, Stefáni Eiríkssyni og finnst hann mæla allra manna heilastur hér.

Það er góð regla fyrir stjórnmálamenn að hafa í huga að hlusta á fólkið sem sinnir störfum sínum dags og nætur og þekkir best hvar þörfin er brýnust.

Almenn löggæsla má ekki líða fyrir uppbyggingu verkefna hjá Ríkislögreglustjóra.

24 september 2008

Hugsa fyrst, kaupa svo

Hallveig fer af stað með neytendaherferð í kvöld á Hallveigarstíg 1. Hallveig er félag ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og spyr viðeigandi spurninga í tilefni herferðarinnar.

Hvernig getum við orðið siðrænir neytendur?
Hvaðan koma hlutirnir sem við kaupum?
Hver bjó þá til?
Þurfum við að temja okkur nýja neysluhætti í kreppu?

Ég myndi sjálf vilja bæta við spurningunni

Hvar enda hlutirnir sem við kaupum?

Enda benda kannanir til þess að ,,endurvinnsluvitund" er mjög lítil meðal ungs fólks.

Húrra Hallveig! Flottasta ungliðafélag í heimi.

Æskan í dag - gömul saga og ný

,,The children now love luxury [...] Children are tyrants, not the servants of their households.

They no longer rise when elders enter the room [...] and they tyrannize their teachers."

Hvenær ætli þessi orð hafi fallið?

Það er nokkuð langt síðan - eða í kringum 450 fyrir krist.

Höfundur er Sókrates.

22 september 2008

Stelpa eða kona?

Stundum les kona pistla sem koma við hjartað í henni. Hér er einn slíkur.

Árið 2000 skrifaði ég bók ásamt tveimur öðrum stelpukonum. Aðalpersónan í bókinni velti því stöðugt fyrir sér hvort hún væri stelpa - eða kona. Venjulega óvenjuleg eða óvenjulega venjuleg. Umræða án enda, endalausar vangaveltur og engin svör.

Bókin höfðaði til kvenna á öllum aldri, eiginlega mest til kvenna sem voru tveimur áratugum eldri en skáldasagnapersónan Dís - og konustelpurnar sem skrifuðu söguna hennar.

Það þótti okkur furðulegt. En eftir því sem árin færast yfir verður mér ljósara að kona verður alltaf stelpa og öfugt. Það er bæði gleðiefni og veldur mér áhyggjum.

Hvað um það. Obba verður að skrifa bók fyrir okkur. Þeirri áskorun er hér með komið á framfæri.

21 september 2008

Fjórar raddir fúgunnar

Það er ekki á færi margra að útskýra galdurinn á bakvið góða fúgu. Atli Heimir reyndi það í stórskemmtilegum þætti Evu Maríu í kvöld. Hér er önnur tilraun í boði YouTube - skondin en skýr upplifun af því merkilega fyrirbæri sem fúgur Bachs eru. 


Fjórar raddir en allar jafn réttháar. Tónsmíðin lýtur ströngustu reglum og er í raun ákaflega kerfisbundin. Samt svo sindrandi falleg og áhrifarík. Þannig er J.S. Bach. Mæli með honum. 

Tónskáldið og kennarinn Atli Heimir

Þjóðin stendur í þakkarskuld við afmælisbarn dagsins fyrir falleg lög sem allir þekkja, allt frá Haustvísum til Máríu, Kvæðið um fuglana (Snert hörpu mína) til hinna húmorísku Tengdamæðra. Tónsköpunarsvið Atla er gríðarlega víðfeðmt; allt frá vinsælum sönglögum í stíl dægurtónlistar stríðsáranna til nýtísku og stundum rappskotinna hljómsveitarverka, konserta, sjónvarpsóperu og raftónlistar. 


Uppáhalds lagið mitt heitir Siesta og er afar stutt og snoturt. Textinn er eftir Stein Steinarr.

En Atli er ekki bara tónskáld, hann er róttækur listpólitíkus og hefur ekki legið á skoðunum sínum þegar listir eru annars vegar. Hann er einnig afbragðsgóður kennari og þess naut ég á námsárunum í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Atli kenndi píanókennaraefnum tvö fög; Píanóbókmenntir II og III. Hið síðarnefnda fól í sér yfirferð um píanóbókmenntir 20. aldarinnar og þar fór Atli Heimir hreinlega á kostum. 

Atli Heimir hefur alltaf verið umdeildur. Sumum hefur þótt nóg um þegar hann ýjar að því að ýmsar stórkanónur tónlistarsögunnar séu ofmetnar - eitthvað rámar mig í Prokofieff í því samhengi. Þá supu margir í Tónó hveljur! 

Til hamingju með daginn Atli Heimir. Megi gleði og kraftur halda áfram að einkenna allt þitt starf.

Þór og naglinn

Þarna hittir Þór Sigfússon naglann á höfuðið. 

20 september 2008

Ekki bakdyramegin inn

Dr. Jónas Haralz er dálítið merkilegur kall. Hann er aldraður, á einungis eitt ár eftir í nírætt. Tilgáta: þegar fólk nær svo háum aldri en gefur sig enn að samfélagslegri umræðu hefur það meiri kjark til að segja nákvæmlega það sem því finnst. 


Ef sú tilgáta er rétt hlakka ég til að verða níræð. Ég vona reyndar að við verðum gengin í Evrópusambandið árið 2066 en í dag snérist umræðan að miklu leyti um inngöngu í ESB í efnahagspallborði flokksstjórnarfundar Samfylkingarinnar. 

Þar var rætt um hinar ýmsu leiðir sem hent hefur verið á loft: Evra án aðildar, aðild í gegnum EES-samninginn, tveggja fasa atkvæðagreiðsla meðal þjóðarinnar og sitthvað fleira. Það kom fram augljós þreyta hjá hinum almenna flokksmanni með hvað seint gengur að sjá til sólar - Samfylkingarfólk hefur verið á sömu skoðun allt frá stofnun flokksins eða svo gott sem - það skýrir þreytuna. Aðrir flokkar eru á báðum áttum og eftir þeim þurfum við að bíða. Það er grábölvað, ég fer ekkert ofan af því!

En Dr. Jónas Haralz er sannarlega ekki á báðum áttum. Hann vill enga atkvæðagreiðslu eða hálfkák. Hann vill að við sækjum fullum fetum um aðild og ef eitthvað kemur upp á í ferlinu, einhverjir stórkostlegir vankantar á stöðu Íslands innan ESB, þá á ESB að bjóða upp á valkosti svo Íslendingar geti vel við unað. ESB vill fá Ísland inn í sambandið, látum sambandið þá sýna okkur spilin og tökum svo ákvörðun. 

Íslendingar eiga ekki að mæta til leiks með hálfum hug og ganga bakdyramegin inn með ósk um sérmeðferð og undanþágur. Við eigum að storma upp að aðaldyrunum og banka hraustlega upp á. Eða eins og Jónas sagði í dag: 

,,Af hverju getum við ekki verið eins og allir aðrir"!

18 september 2008

Aðeins um minnisvarða skálda...

Ég bjó í Dublin árið 1997 og sá með eigin augum hvað er hægt að fara nýstárlegar leiðir til að minnast horfinna borgarskálda. James Joyce var í brennidepli og borgarbúar fögnuðu því að 75 ár voru liðin frá því Ulysses kom út. Út um alla borg gat að líta línur úr verkinu. Stafirnir trónuðu á efstu hæðum bygginga hér og þar um borgina og voru - haldið ykkur fast - upplýstir og neonbleikir.

Þetta gaf yndislega fallegan blæ og hélt mér hugfanginni á löngum strætóferðum um alla borg.

Og á endanum las ég Ulysses.

Íslenskur veruleiki og nauðsyn vandaðra frístundatilboða

Í allri umræðu um frístundaheimilin og það samhenta átak sem borgaryfirvöld þurfa að einhenda sér í til að skapa fullnægjandi uppeldisaðstæður fyrir yngstu börnin - virðist oft gleymast hvað íslenskur veruleiki er ólíkur þeim sem er að finna í löndunum í kringum okkur.

Við miðum okkur oft við Skandinavíu. Þar hefur frístundastarf þróast og þroskast í mun lengri tíma en starf ÍTR. Veruleikinn þar er sá að 50-65% kvenna vinna fullan vinnudag. Karlar vinna h.u.b. allir fullan vinnudag víðast hvar í hinum vestræna heimi.

Ergo: Þrýstingurinn er minni, ,,uppvaxtarskilyrði" frístundastarfs eðlilegri og framþróun þeirra í takti við þarfir og eftirspurn.

Á Íslandi er saga frístundaheimilanna afar stutt og í raun ótrúlegt hvað ÍTR hefur byggt upp gott og faglegt starf þrátt fyrir að hafa þurft að byggja skipið nokkurn veginn úti á rúmsjó. Húsnæði er ábótavant, starfsmannaekla og aðstæður óviðunandi á margan hátt.

Íslenski veruleikinn er hins vegar þessi: Vel yfir 90% foreldra 6-9 ára barna, konur jafnt sem karlar, vinna fullan vinnudag.

Ergo: 90% barna, a.m.k. þeirra sem eru allra yngst, þurfa á vönduðu frístundatilboði að halda eftir að skóla sleppir.

Í kjölfar könnunar á atvinnuþátttöku kvenna í Skandinavíu setti Evrópuráðið sér það markmið að allt að 65% kvenna á barneignaraldri ynnu fullan vinnudag árið 2012.

Aldeilis háleit markmið þar á ferð! Þau koma óneitanlega spánskt fyrir sjónir Íslendinga.

Það er staðreynd að þær þjóðir sem hafa sterkt leikskólakerfi, öflugt og vandað frístundatilboð fyrir lítil börn þegar skólanum sleppir og sterka hefð fyrir aðstoð frá stórfjölskyldunni - þær halda áfram að stækka sinn stofn.

Þess vegna eru Íslendingar Evrópumethafar í barneignum. Og þess vegna þurfum við að spýta í lófana til að uppeldisaðstæður yngstu skólabarnanna verði sem best verður á kosið.

Jón og séra Jón

Nú eru dugmiklir menn að mála skrifstofur borgarfulltrúa á Tjarnargötu. Ekki fyrir löngu síðan voru hér dugmiklir menn að laga og dytta að ýmsu innanhúss. Í sumar var öll framhlið hússins tekin í gegn. Ef eitthvað bilar eru dugmiklir menn fljótir á staðinn. Þeir eru eiginlega komnir áður en maður lyftir símtólinu. Fyrir nú utan hvað margir dugmiklir menn hafa eytt mörgum vinnustundum í að færa borgarfulltrúa á milli skrifstofa í eilífum meirihlutaskiptum.

(Meirihlutinn er nefnilega á 2. hæð, minnihlutinn á 3. hæð. Og það er víst hoggið í stein sem ég hef reyndar ekki fundið þrátt fyrir mikla leit).

Ég er ekki viss um að umsjónarmenn frístundaheimila, skólastjórar og kennarar hafi sömu sögu að segja þegar laghenta iðnaðarmenn þarf á staðinn vegna viðhalds og skemmda. Ég veit fullvel að við dugmiklu mennina er ekki að sakast.

Allt er þetta spurning um forgangsröðun.

17 september 2008

Jafnrétti í skólanum

Hér er stigið þarft skref. Með opnun heimasíðu um jafnréttismál í skólum er hægt að halda utan um og miðla milli skóla og landshluta þeim verkefnum sem ganga vel og aðrir gætu lært af. 


Ég vona sannarlega að heimasíðan vaxi og dafni og að jafnréttisfræðsla verði snar þáttur í skólastarfinu. Ekki veitir af. Kynbundinn launamunur vex og dafnar þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda um annað, gamaldags viðhorf eru því miður áberandi hjá ungu fólki þegar kemur að hefðbundnum kynhlutverkum og svona mætti lengi telja. Hér skipta góðar fyrirmyndir öllu máli, fyrirmyndir á heimilunum, í sjónvarpinu, í vinahópnum, í opinberri umræðu og í stjórnmálum. Og skólinn getur sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar. Ég get reyndar vart ímyndað mér skemmtilegri nálgun við kennslu á unglingastigi en að fjalla um jafnréttismál og tengja jafnréttisumræðuna við námsefnið. 

En hvað er jafnrétti í skólastarfi? Með því er ég ekki eingöngu að vísa til jafnréttisfræðslu til nemenda heldur líka jafnrétti til náms, jafnan rétt stráka og stelpna til að njóta sín í skólanum, jafnréttisvitund unglinga, jafnrétti á kennarastofunni... 

Tækifærin eru óþrjótandi og fyrsta skref er að hvetja áhugasama kennara til að byggja upp námsefni og námsaðferðir sem skila árangri. Þess vegna var ýtt úr vör símenntunarprógrammi fyrir kennara í hundraðdagameirihlutanum. Það verður spennandi að sjá ávöxt þess. 

12 september 2008

Lýsistrata 2008

Ég sé að Lýsiströtuleiðin er viðruð á síðum Eyjunnar, nú þegar illa gengur að ná samningum við ljósmæður. Hún er auðvitað barn síns tíma því í dag fara nútímakonur ekki í kynlífsverkfall - getnaðarvarnir gera okkur kleift að fara í barneignaverkfall.


Um það skrifaði ég í jólablaði Nýs Lífs árið 2004. Greinin heitir ,,Ársuppgjör móður" og er hér í fullri lengd.

En hér eru lokaorðin. Þau eiga glettilega vel við í dag. Ekki bara stefnir í óefni í deilu ljósmæðra og ríkisins heldur hefur kynbundinn launamunur, sá landsins forni fjandi, aukist á milli ára. Það er alltént kominn tími á að við konur látum sverfa til stálsins svo um munar...

,,Ársuppgjör mitt er ekki sérlega vísindalegt, enda er ég nýgræðingur í femínistabransanum. En ég kasta á borðið nokkrum prakkaralegum tillögum: Vegna þess að konur eru líffræðilega forritaðar til að ganga með börn og eru þar af leiðandi dálítið uppteknar af því stundum, væri í lagi að gefa þeim oggulítinn séns í hinum harða heimi atvinnulífsins? Svo við getum öll fengið að njóta okkur, menn, konur og börn? Og væri ekki möguleiki að stytta vinnutímann svo pabbarnir þyrftu ekki að vinna svona lengi og vera svona þreyttir? Svo fjölskyldan geti blómstrað og notið lífsins, nammi namm?

Nýverið voru kennarar í löngu verkfalli eins og alþjóð veit. Hvernig væri að konur færu líka í verkfall og legðu niður BARNEIGNIR? Nýttu sér þennan sáraeinfalda en áhrifaríka verkfallsrétt sinn til að knýja fram jafnrétti á öllum vígstöðvum. Samfélagið myndi smátt og smátt lamast, heilu árgangarnir hyrfu úr leik- og grunnskólum, markaður fyrir bíla og fasteignir yrði skugginn af sjálfum sér, gjörvallur barnavagnabransinn legðist í rúst. Barnalæknar, gangbrautaverðir og Dýrin í Hálsaskógi sætu hnípin og aðgerðalaus hjá, dag eftir dag á meðan ríkiskassinn borgaði þeim laun fyrir að sinna börnunum.

Þetta er þvingunaraðgerð sem segir sex - en engin börn. Og daufur er barnlaus bær.

Alvarlegustu eftirköstin eru vitanlega þau að hinni fámennu þjóð, Íslendingum, myndi fækka hratt - og ef ekki verður gengið að kröfum okkar mun hún að lokum deyja út. Hvað gera bændur þá?

Vopnið er í okkar höndum dömur. Kýlum á það.''

Fallegasta hljóðfærið

Tónleikarnir með Tindersticks voru stórfínir. En þrátt fyrir stórkostlegan söngvara og dásamlegar lagasmíðar tókst sellistanum algjörlega að stela minni athygli. 


Selló koma reyndar iðulega hressilega við hjartað í píanistum. Ekkert hljóðfæri rímar jafn vel við píanóið í samspili. Fallegustu tónsmíðar í heimi hafa verið samdar fyrir selló og píanó. 

Og hér er eyrnakonfekt, nammi namm. Pablo Casals faðmar sellóið en eftir hann liggur ein besta ævisaga sem ég hef lesið; Ljós og skuggar á langri leið. En í framhjáhlaupi verð ég að geta annarrar ævisögu fyrir þá sem áhuga hafa á þessari ,,sjönru" yfirleitt, en það er ævisaga ,,Galínu". Rússneskrar óperusöngkonu sem byggði upp sinn feril í Sovétríkjunum kommúnismans.

Báðar þessar bækur eru ófáanlegar en Bragi gæti átt eintak. 

Í dag klófesti ég loksins Blótgælur Kristínar Svövu Tómasdóttur eftir langa leit. Bóksalinn í Eymundsson Austurstræti sagði að ég hefði líklega keypt síðasta eintakið í landinu. Þá er ekki eftir neinu að bíða að skríða til hvílu með því efnilega ungskáldi

Vonandi verður hitt skáldið ekki abbó.

11 september 2008

Frammi á gangi

Hugur minn er hjá þunguðum konum og nýbökuðum mæðrum. Það er hræðilegt til þess að vita að nýbakaðar mæður liggi frammi á gangi. Hvert stefnir þessi deila eiginlega?

Stundum er sagt að frumburður konu geri konuna sjálfa að frumburði. Ég tek undir það. Þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn þurfti ég mikla aðstoð frá ljósmæðrum með brjóstagjöf og að endingu fór svo að ég dvaldi fjórar nætur samtals í Hreiðri og sængurkvennagangi.

Ef ég hefði fætt mitt fyrsta barn í nótt þá lægi ég á gangi og væri líklegast á heimleið í dag. Viðkvæm og óörugg.

Frammi á gangi. Mér blöskrar þetta ástand og biðla til deiluaðila að höggva á hnútinn. Við metum störf ljósmæðra meira en svo að viðkvæmar, nýbakaðar mæður liggi frammi á gangi og séu sendar heim.

10 september 2008

Laufásborg

Í dag var á fundi menntaráðs samþykkt umsókn Hjallastefnunnar um stofnun sjálfstæðs rekins grunnskóla í Reykjavík. Samfylkingin lagðist ekki gegn umsókninni, ekki frekar en Samfylkingarfólk hefur gert í öðrum sveitarfélögum. Nægir þar að nefna Hafnarfjörð þar sem Hjallastefnan skaut rótum árið 1990 með stuðningi jafnaðarmanna og það er sagnfræðilega skemmtilegt að rifja upp að þá var Sjálfstæðisflokkurinn alfarið á móti þessari nýju skólastefnu!

Prinsipp Samfylkingarinnar varðandi sjálfstæðan rekstur í skólakerfinu eru einföld.

1) sjálfstætt reknir skólar eiga ekki að innheimta skólagjöld. Öll börn eiga að sitja við sama borð, óháð efnahag. Þannig er það í Hafnarfirði og gengur vel.

2) þótt sjálfstætt reknir skólar auki á fjölbreytileika innan skólakerfisins koma þeir ekki í staðinn fyrir borgarrekna hverfisskóla. Sveitarfélögin geta aldrei skorast undan þeirri ábyrgð sinni að reka góða hverfisskóla í öllum hverfum, sjálfstætt reknir skólar eru kærkomin viðbót við þá.

3) stærstur hluti skóla á að vera í húsnæði í eigu borgarinnar, til að tryggja stöðugleika í rekstri og góða meðferð fjármuna. Það eru mörg dæmi þess að húsnæði skóla sem byggt hefur verið fyrir tilstilli einkaframtaksins, hefur reynst sveitarfélögum dýrari kostur en ef sveitarfélagið sjálft hefði byggt og rekið skólann. Þá er betra heima setið en af stað farið því okkar hlutverk er að fara vel með sameiginlega sjóði borgarbúa.

Senn verður vonandi gengið til þess verks að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík. Í þeirri vinnu mun koma í ljós hvort meirihlutinn er sammála sjónarmiðum Samfylkingarinnar - og hvort sátt náist um það að allir skólar í borginni standi öllum börnum í borginni til boða, óháð efnahag og ytri aðstæðum fjölskyldna.

Því skal þó til haga haldið að grunnskóli á Laufásborg getur einvörðungu verið þar tímabundið því húsnæði Laufásborgar á að nýta undir leikskólastarf. Næg er eftirspurnin eftir leikskólum, ekki síst hér í vesturhluta borgarinnar. Annað sem er leiðinlegur blettur á afgreiðslu málsins er sú staðreynd að umsóknin barst hræðilega seint frá Hjallastefnunni, og það þó forsvarsfólk hennar hafi verið í stöðugum viðræðum við meirihlutann meira og minna allt árið. Slíkt sleifarlag er engum til framdráttar og skapar óþolandi óvissu fyrir foreldra og börn á Laufásborg.

Faglegri vinnubrögð takk fyrir!

En ég óska börnum, starfsfólki og foreldrum á Laufásborg velfarnaðar í leik og starfi.

Siljuskaup

Silja vinkona mín Hauksdóttir mun leikstýra skaupinu í ár eins og lesa má í Fréttablaðinu í dag. Góðar fréttir fyrir gamlárskvöld því Silja er snillingur - og það segi ég þrátt fyrir bullandi hlutdrægni. 


Skaupið er krefjandi sköpunarverk og það veit ég að gamlárskvöld hjá Skaupshöfundum og leikstjórum fer mestmegnis í að naga neglur og svitna í lófum!

En ég get ekki látið undir höfuð leggjast að kryfja aðeins fréttina í Fréttablaðinu í dag og ýmislegt sem þar kemur fram. Viðmælendur leggja áherslu á að þarna fari ungur leikstjóri og sérstaklega tekið fram að henni sé algjörlega treystandi fyrir verkinu þó ung sé. 

Ég minni á að Reynir Lyngdal sem leikstýrði Skaupinu í fyrra er jafnaldri okkar Silju og ég man ekki sérstaklega eftir því að forsvarsmenn Sjónvarpsins hafi tekið það fram að hann væri ungur að árum og að þeir hafi keppst við að sannfæra fólk um að þeir treystu honum!

04 september 2008

Þolinmæði ljósmæðra

Ég heyrði viðtal við forsvarskonu ljósmæðra í sumar. Talið barst sem von var að yfirvofandi kjarabaráttu þeirra. Það var svo flott sem hún sagði þegar hún lýsti baráttuandanum í hópnum.


Það var einhvern veginn á þessa leið: 

Við erum yfirsetukonur og vanar því að bíða. En við hættum aldrei fyrr en barnið er komið í heiminn. 

Ég óska þess sannarlega að deiluaðilar leysi hnútinn sem fyrst. Ljósmæður eiga að fá laun í samræmi við sína menntun. Fleiri eru á sama máli. 

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lýsa þeirri yndislegu alúð og faglegu umhyggju sem þessi stétt kvenna hefur sýnt mér og minni fjölskyldu. Með þeim hafa foreldrar á Íslandi deilt sínum dýrustu stundum. 

Ljósmæður eiga stuðning okkar hjónaleysa í sinni baráttu.

Valkostur?

Í gær var borinn í hús snotur bæklingur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar. Bæklingurinn ber nafnið Uppbygging - fleiri valkostir fyrir foreldra ungra barna.

Í kjölfarið hef ég fengið fjölda bréfa frá foreldrum í fæðingarorlofi sem lásu bæklinginn, vongóðir í fyrstu. Þeir átta sig ekki alveg á því hvað ,,þjónustutrygging" upp á 35.000 krónur gerir fyrir þá.
Þjónustutryggingu er ætlað að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið byrjar í leikskóla. 35.000 krónur er auðvitað ekki framfærsla, varla þriðjungur lágmarksframfærslu og það er því ekki skrýtið að foreldrar sem senn halda aftur út á vinnumarkaðinn spyrji sig:

Á ég að sætta mig við að 260 milljónir úr sameiginlegum sjóðum okkar verði varið næstu 15 mánuðina í lágar greiðslur til foreldra í stað þess að verja þeim í uppbyggingu raunverulegra valkosta?

Ég hef lengi talað fyrir því að fæðingarorlofið þarf að lengja. Fjölskyldum verður að vera gert kleift að vera heima með nýjum fjölskyldumeðlimi í a.m.k. eitt ár. Fyrir fæðingarorlofsgreiðslur sem eru 80% af launum foreldra. Það er raunverulegur valkostur.

En foreldrarnir tala sínu máli:

,,Í morgun barst mér bæklingur frá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar sem ber heitið Uppbygging, fleiri valkostir fyrir foreldra ungra barna. Ég er heima í fæðingarorlofi sem lýkur um miðjan janúar þegar ég hef verið heima í tæpt ár, svo ég vonaði að í þessum bæklingi væri lausn á mínum dagvistunarmálum. En svo var ekki - þar er kynnt staða mála eins og hún er í dag og var fyrir sex árum þegar ég stóð síðast í þessum sporum. Nema nú hefur valkostunum fjölgað um einn - hægt er að fá 35.000 kr greiðslu á mánuði ef önnur þjónusta fæst ekki. Hverskonar grín er þetta, hver hefur efni á því að vera heima fyrir 35.000 kr á mánuði?"

(Í bæklingnum er),,...bent á að hægt sé að fá ættinga til að gæta barnsins og nýta greiðsluna - en ekki kemur fram hvort litið verður á greiðsluna sem tekjur og hvort t.d. lífeyrisgreiðslur skerðist. Hjá dagmæðrum eru börnin tryggð og lágmarksgæði þjónustunnar tryggð með eftirliti - varla verður um slíkt að ræða hjá ættingjum. Ætla má að verið sé að búa til “svarta” daggæslu með þessu. Í Noregi þar sem svo kallaðar heimgreiðslur hafa tíðkast um nokkurt skeið varð það raunin."

,,Ég held að gegnum gangandi séu foreldrar á því að betra sé að vista börn á leikskólum en hjá dagmæðrum og ég get ekki ímyndað mér þá fjölskyldu sem getur tekið aðra fyrirvinnuna af vinnumarkaði fyrir 35.000."

,,Þær lausnir sem kynntar eru í bæklingnum leysa akkúrat ekki neitt og eru bara innatómt gylliboð. Ég eignaðist mitt annað barn í febrúar 2008 og þar sem ég valdi að dvelja heima í ár þá þarf ég á gæslu að halda í janúar á næsta ári - eftir að hafa rætt við nokkrar dagmæður og daggæslu fulltrúa í hverfismiðstöð skynja ég að útlitið er ekki bjart enda aðeins “fardagar” að hausti í þessu bransa. Ég vona að þau mál leysist farsællega og ég fá gæslu frá 8-14 fyrir drenginn minn því ég hef ekki efni á að vera heima með hann fyrir 35.000 kr á mánuði þó ég fegin vildi. Ég treysti því að þú haldir áfram baráttu þinni fyrir því að þessi vitleysa verði ekki að veruleika."

03 september 2008

Egg og skegg

Það sló bónda minn illa þegar ég sagðist hlakka til að fá að skeggræða menntamál borgarbúa á löngum starfsdegi menntaráðs í Elliðarárdal. 


Að skeggræða. Það var þó aldeilis karllæg orðanotkun! Því var snarlega breytt í ,,að eggræða". Enda geymum við konurnar eggin - en karlarnir skeggin. 

Svona getur tungumálið leikið okkur grátt. Eða bleikt. Eftir því hvernig við lítum á það. 

Við hjónaleysin höfum náð sáttum eftir þetta. 
Enda var hér kannski bara verið að deila um keisarans egg. 

02 september 2008

14-1

Tillaga var flutt á borgarstjórnarfundi í dag um íbúakosningu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Henni var vísað frá með öllum greiddum atkvæðum nema einu; atkvæði Ólafs F. Magnússonar sem flutti tillöguna.

Það er hollt og gott fyrir Reykvíkinga að rifja upp íbúakosninguna árið 2001 þar sem kosið var á milli þess að flugvöllurinn færi - eða væri áfram í Vatnsmýrinni eftir árið 2016.

Ég man vel eftir þessum tíma og var í hópi þeirra sem vildu sjá flugvöllinn fara annað, í hópi þeirra sem vildu sjá uppbyggingu íbúa- þekkingar- og atvinnusvæðis í mikilli nálægð við miðborgina.

Ýmsu er hent á loft í umræðunni og sumir hafa gert lítið úr íbúakosningunni árið 2001. Hún olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma og mikil umræða var í samfélaginu um kosti og galla þess að flytja flugvöllinn. Hollvinir flugvallarins hafa talað um að þátttaka í kosningunni hafi verið dræm. Þó kusu 37% þeirra sem voru á kjörskrá. Atkvæðin skiptust þannig að 48% vildu hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni en 49% vildu að hann færi.

Ýmsar staðreyndir um kosninguna: Of lítið af ungu fólki tók þátt og ég fann sjálf fyrir því að jafnaldrar mínir á þeim tíma voru lítið meðvitaðir um skipulagsmál. Þó vakti kosningin athygli fyrir það að rúmur þriðjungur borgarbúa tók þátt en í Evrópu var vandfundin önnur eins þátttaka í staðbundinni kosningu um skipulagsmál.

Mjótt á munum - sannarlega. En engu að síður niðurstöður kosninga þar sem þriðji hver Reykvíkingur á kosningaaldri gerði sér ferð í kjörklefann til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Stór alþjóðleg hugmyndasamkeppni hefur verið haldin og nú fer fram skipulagsvinna byggð á henni.

En dveljum aðeins lengur í sögubókunum: Að lokinni íbúakosningunni - þar sem mættust stálin stinn - slíðruðu borgaryfirvöld og hagsmunaaðilar sverðin og gengu nokkuð sáttir til þess verkefnis að finna annan stað fyrir flugvöllinn. Meira að segja F-listinn, þ.e.a.s. Ólafur F. Magnússon, var sammála því að skoða aðra kosti t.a.m. Hólmsheiði og Löngusker.

Í síðustu borgarstjórnarkosningum spilaði Ólafur út merkilegu trompi og setti sáttaferlið allt í uppnám. Hann setti það fram sem helsta baráttumál F-listans að flugvöllurinn færi hvergi og var alls ekki til umræðu um að skoða aðra kosti. Það lá fyrir að allir aðrir flokkar höfðu aðra skoðun og fyrir lágu niðurstöður íbúakosningar sem sýndi að meirihluti var fyrir því að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni eftir 2016. Einn einasti borgarfulltrúi F-lista hefur ekki áhrif á þær.

Gleymum því ekki að í síðustu borgarstjórnarkosningum greiddu 90% borgarbúa flokkum atkvæði sem höfðu það skýrt og skilmerkilega á sinni stefnuskrá að flugvöllurinn viki úr Vatnsmýrinni í fyllingu tímans.

Aftur í sögubækurnar: Fyrir viku síðan voru 40 ár síðan Danir unnu okkur 14-2 í fótbolta.

Margsinnis hefur staðan í borgarstjórn Reykjavíkur verið 14-1.

Framtíð Reykjavíkur í hag.