21 september 2008

Tónskáldið og kennarinn Atli Heimir

Þjóðin stendur í þakkarskuld við afmælisbarn dagsins fyrir falleg lög sem allir þekkja, allt frá Haustvísum til Máríu, Kvæðið um fuglana (Snert hörpu mína) til hinna húmorísku Tengdamæðra. Tónsköpunarsvið Atla er gríðarlega víðfeðmt; allt frá vinsælum sönglögum í stíl dægurtónlistar stríðsáranna til nýtísku og stundum rappskotinna hljómsveitarverka, konserta, sjónvarpsóperu og raftónlistar. 


Uppáhalds lagið mitt heitir Siesta og er afar stutt og snoturt. Textinn er eftir Stein Steinarr.

En Atli er ekki bara tónskáld, hann er róttækur listpólitíkus og hefur ekki legið á skoðunum sínum þegar listir eru annars vegar. Hann er einnig afbragðsgóður kennari og þess naut ég á námsárunum í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Atli kenndi píanókennaraefnum tvö fög; Píanóbókmenntir II og III. Hið síðarnefnda fól í sér yfirferð um píanóbókmenntir 20. aldarinnar og þar fór Atli Heimir hreinlega á kostum. 

Atli Heimir hefur alltaf verið umdeildur. Sumum hefur þótt nóg um þegar hann ýjar að því að ýmsar stórkanónur tónlistarsögunnar séu ofmetnar - eitthvað rámar mig í Prokofieff í því samhengi. Þá supu margir í Tónó hveljur! 

Til hamingju með daginn Atli Heimir. Megi gleði og kraftur halda áfram að einkenna allt þitt starf.

Engin ummæli: