31 ágúst 2008

Gever Tulley & Herdís Storgaard

Ég leita stundum uppi sniðuga fyrirlestra á þessari frábæru síðu; www.ted.com. Þar er að finna allt milli himins & jarðar en þessi er ekki fyrir viðkvæmar foreldrasálir.


Í fyrirlestrinum segir tölvunarfræðingurinn Gever Tulley frá sumarbúðum sem hann stendur fyrir; The Tinkering School. Viðfangsefni sumarbúðanna má að mörgu leyti lesa í út frá heiti fyrirlestursins: ,,Five dangerous things you should let your children do".

Herra Tulley er heilinn á bak við áðurnefndar sumarbúðir þar sem áherslan er á að krakkarnir upplifi og skapi það sem þeim dettur í hug og... leiki sér með eld, prófi að keyra bíl, handfjatli og vinni með ýmsa hættulega hluti eins og vasahnífa, beitt verkfæri og fleira skemmtilegt.

Herra Tulley er á þeirri skoðun að nútímaforeldrar hafi bóluplastað veröld barnanna svo rækilega að þau kunna ekki lengur fótum sínum forráð. Hann er alfarið andsnúinn þeirri áráttu að setja öryggisstaðla um allt smátt og stór og vill meina að börn séu hjálparlaus í heimi sem treystir þeim varla til að umgangast neitt sem er beittara en golfkúla.

Að hans mati sé vænlegra að leyfa börnum að fara höndum um eld, hnífa og svo framvegis til að þau öðlist færni í að handleika ýmis fyrirbæri sem þau fyrr eða síðar handleika. Enda eru börn lunkin að leita uppi spennandi/og hættulega hluti - sama hvað við setjum marga öryggisstaðla.

Upplifunin er sannarlega skemmtileg - síðastliðið sumar var hálfgildings smíðaverkstæði úti á túni fyrir utan sumarhús fjölskyldunnar og fjögurra ára sonur minn var með (alvöru) hamar, nagla, sög og skrúfjárn í hönd svo gott sem allt sumarið. Það fór stundum um mig, ég viðurkenni það, en hann varð slíkur hagleikssmiður eftir sumarið (og skemmti sér konunglega!) að ég sé ekki eftir því að hafa sett kíkinn fyrir blinda augað... og gleyma öllu því góða sem Herdís Staargard hefur kennt mér.

Ég er ekki endilega sammála Gever Tulley í einu og öllu (þegar hann mælir með því að börn prófi að keyra bíl hugsa ég t.a.m. stíft til Herdísar Storgaard) en hann hefur þó á vissan hátt mikið til síns máls.

Sjón er sögu ríkari. Tékkið á forsvarsmanni The Tinkering School.

29 ágúst 2008

Bókmenntaborgin Reykjavík

Í bókmenntaheimum er mikið rætt um þann heiður sem íslenskum bókmenntum verður sýndur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Það ár verður Ísland aðalgestur messunnar sem mun draga gríðarlega athygli að íslenskum bókum og rithöfundum.

Í kjölfarið hefur olíu verið kastað á gamlar glæður og ekki er þar minna spennandi verkefni á ferðinni. Nefnilega sá möguleiki að Reykjavík öðlist þann sess að verða ,,bókmenntaborg UNESCO" - eða UNESCO City of Literature.

Þennan draum hafa margir talsmenn íslenskra bókmennta alið með sér um hríð en það má segja að hjólin séu farin að snúast hraðar nú en áður. Að frumkvæði Katrínar Júlíusdóttur þingkonu mun undirbúningshópur koma saman í haust með fulltrúum menntamálanefndar Alþingis, ráðuneytis menntamála og Reykjavíkurborgar. Eins hafa bókaútgefendur og það ágæta fólk sem skipuleggur aðkomu Íslands að bókamessunni 2011 talað sig saman og mikill hugur er í fólki að fá unga sem aldna rithöfunda með í undirbúning verkefnisins.

Svo vel ber í veiði að við Íslendingar eigum sérfræðing í þessum málum sem búsettur er í Edinborg, en sú borg ber einmitt hinn rómaða titil, ,,Bókmenntaborg UNESCO". Sá sérfræðingur heitir Auður Rán Þorgeirsdóttir og hennar lokaritgerð frá háskólanum í Edinborg fjallaði um það ferli sem Edinborg fór í gegnum til að landa titlinum eftirsótta.

Lítil sendinefnd frá Reykjavíkurborg, ég og tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hittum téða Auði í Edinborg í vor á ferð okkar um Bretland og Skotland til að skoða barnalistahátíðir. Þar leiddi hún okkur í allan sannleikann um þetta verkefni sem kvisaðist svo út til fulltrúa í menntamálanefnd Alþingis. Og eins og fyrr segir leiðir Katrín Júlíusdóttir undirbúningshópinn sem senn mun funda í fyrsta sinn og vonandi njótum við krafta Auðar Ránar svo þessi draumur megi rætast.

Þeir þættir sem helst er horft til þegar slíkur heiður er veittur til borga eru;
Rík bókmenntahefð, merkilegur bókmenntaarfur og orðspor lands og borgar t.d. hvort borgin státi af rómaðri bókmenntahátíð.

Allt er þetta til staðar í Reykjavík - og gott betur.

28 ágúst 2008

Af boðsferðum

Ég er sammála félaga mínum Stefáni Jóhanni Stefánssyni um margt. Margir vilja bjóða borgarfulltrúum í hitt og þetta, golf og útreiðartúra og margir þeir viðburðir byggja á gömlum merg og gamalli hefð. Það má því kannski teljast eðlilegt að fólk hafi ekki spurt sjálft sig í gegnum tíðina - er þetta eðlilegt? 


En sem betur fer verður umræða um boðsferðir kjörinna fulltrúa sífellt háværari - svona langt erum við komin í dag og loksins hillir undir verklok og samþykkt siðareglna fyrir kjörna fulltrúa í Reykjavík. 

Ég hef bæði farið í golfboðið (mætti þó seint og sleppti golfinu) og í vor fór ég í svokallaða Fáksreið. En bæði Golfklúbbur Reykjavíkur og Fákur eiga í ýmsum samskiptum við borgina, bæði hvað varðar styrki og lóðir. Nú ætla ég hvorki GR né Fáki að hafa eitthvað misjafnt í huga með þessum boðum - en öll vötn renna nú í þá átt að stjórnmálamenn verða að vera hafnir yfir allan vafa, hvort sem um lax, golf, útreiðar eða berjamó er að ræða. 

Við getum vel haldið áfram að eiga góða stund saman í golfi eða útreiðum.
En við borgarfulltrúar erum borgunarmenn fyrir slíku sjálf - og rúmlega það. 

Meistari tungumáls og andagiftar

...allt, sem eftir oss liggur í hinum sýnilega heimi, týnist með kulnuðum eða logandi hnetti út í tómið, með jörð, sem hefur lokið ætlunarverki sínu og verður köld og dimm og líflaus eyðistjarna á öræfaslóðum geimsins, eða blossar upp og hverfur samstundis. En yfir oss hvílir annað og meira en hverfulleiki duftsins, sem vér lifum í og fæðumst og nærumst af. Yfir oss hvílir auglit hins eilífa og orð hins eilífa í náð og í dómi.“

Úr prédikun Sigurbjörns Einarssonar. Það er magnaður lestur að fara í gegnum texta Sigurbjörns, þvílík tök sem hann hafði á íslenskri tungu.

Hér er afbragðs góð mynd dregin upp af manninum, prédikaranum og orðsnillingnum - eftir Sigurð Árna Þórðarson.

Blessuð sé minning Sigurbjörns Einarssonar.

27 ágúst 2008

Eins og fullur Svíi...

Ég brá mér í Norræna húsið á eitt af mörgum afmæliskvöldum hússins en það eru 40 ár síðan húsið var vígt. Húsið sjálft er dásamlega vel lukkað að innan sem utan - svo útsjónarsöm er hönnun hússins að hvert einasta sjónarhorn er fallegt, hvort sem ég sit eða stend í kaffiteríu, sal, frammi á gangi eða inni á bókasafni. 


Í gær var níundi áratugurinn rómaður og yfirskrift kvöldsins var 1988. Það ár fékk Thor Vilhjálmsson bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir Grámosann og áratugurinn sem slíkur var áratugur íslensku skáldsögunnar. Kárason skrifaði Eyjabækurnar, Pétur Gunnarsson lauk við Andrabálkinn, Tímaþjófur Steinunnar kom út og fleiri öndvegisverk. Öllu þessu gerði Halldór Guðmundsson rithöfundur með meiru góð skil í ávarpi. En hann rifjaði líka upp kostuleg atvik frá fyrstu sporum bókmenntahátíðar - sem oftar en ekki hefur notið skjóls af meistarasmíð Alvars Aalto í Vatnsmýrinni. 

Ég leyfi mér að halda því fram að gestir kvöldsins hafi velflestir heyrt sögurnar áður - en það kom ekki að sök því þeir veltust hver um annan þveran af hlátri. 

Frægust er sagan af Halldóri Kiljan Laxness og Knud Ödegaard. Halldór var verndari hátíðarinnar og hana sóttu mörg norsk skáld og rithöfundar. Halldóri var meinilla við nýnorsku og tjáði sig gjarnan fjálglega um það ef blaðamenn voru nærri. Því fór svo að eftirfarandi staðhæfing Halldórs komst á prent: 

,,Nýnorska minnir mig á fullan Svía að reyna að tala forn-íslensku." 

Norðmenn voru ekki par hrifnir en Knud Ödegaard gerðist mannasættir og reyndi að bera í bætifláka fyrir Kiljan. Lítið gekk því Norðmenn voru sármóðgaðir svo Knud brá á það ráð að grípa til orðanna: ,,Hann er nú orðinn gamall maður." 

Það var einum of stór biti fyrir stolt Nóbelsskáld og Halldór Laxness neitaði með öllu að mæta á setningu bókmenntahátíðar - þeirrar fyrstu í Reykjavík og hann sjálfur verndarinn. Thor Vilhjálmsson miðlaði málum og tókst að fá Halldór til að mæta gegn því að hann þyrfti örugglega ekki að heilsa Knud. Allt fór vel að lokum. 

Ekki fór jafn vel fyrir Isabel Allende sem var alla hátíðina hundelt af norskum rithöfundi sem var yfirmáta, ofurheitt og aðeins of mikið fyrir hennar smekk - ástfanginn af henni. Henni var því laumað út bakdyramegin af öllum upplestrum og veislum hátíðarinnar. 

Annar rithöfundur, Kurt Vonnegut, varð svo frá sér numinn af leiðsögumanni sínum og gestgjafa - Sigurði Valgeirssyni - að hann sagði með tilþrifum á kveðjustund: 
,,Þú hefur verið mér sem móðir." Eftir það var Sigurður ávallt kallaður móðir af innstu koppum í búri bókmenntahátíðar í Reykjavík. 

Síðast en ekki síst tókst aðstandendum hátíðarinnar að týna heilu færeysku ljóðskáldi. Að endingu fannst ljóðskáldið þó í þvottahúsi húss vestur í bæ, heldur reikult í spori en tókst þó að stynja upp tveimur orðum (sem komu honum í réttar hendur); Thor Vilhjálmsson. 

Að ávörpum loknum söng Ragnheiður Gröndal lög Tómasar R. Einarssonar við ljóð íslenskra ljóðskálda - aðallega kvenna - og gerði það vel eins og annað sem hún tekur sér fyrir hendur. 

Ljúfur endir á skemmtilegu kvöldi í einu fallegasta húsi landsins. 

Til hamingju með daginn Norræna hús. Allt er fertugum fært. 

26 ágúst 2008

Einmitt!

Ósköp var gaman að vakna upp við það að heyra borgarstjóra lýsa þeirri skoðun að nýja hugsun vanti í þjónustu frístundaheimila. Eða eins og hún sagði sjálf: ,,Hvernig samþættum við betur þjónustu skóla og frístundaheimila...?" og einnig ,,við stöndum frammi fyrir því að fá ekki fólk til þessara starfa (...) og þess vegna þurfum við kannski nýja hugsun ..."

Um þetta má lesa hér, hér, hér, hér og hér. Og hér (leiðari blaðsíðu 14). Tjarnarkvartettinn setti þessa góðu hugmynd á dagskrá í janúar síðastliðnum og gerði gott betur með því að mæla fyrir því í borgarstjórn (liður 2) og borgarráði (liður 32) á vordögum.

Á þessu hausti stefnir í að tæplega 3000 umsóknir fyrir börn í 1.-4. bekk skili sér inn til ÍTR. Það er jafn og þéttur stígandi ár frá ári og því löngu morgunljóst að það fyrirkomulag sem við búum við í dag er úr sér gengið.

Borgarstjóra er guðvelkomið að skreyta sig með þessum stolnu fjöðrum því að mínu mati er sama hvaðan gott kemur.

22 ágúst 2008

Bein útsending á Grænuborg

Bóndi minn leit við á leikskóla barnanna í hálfleik og þar var geggjuð stemning. Börnin voru hvött til að mæta í fötum í fánalitum í dag, þau veifa íslenskum fána og í stórasal er bein útsending frá leiknum. Þriggja ára heimasætan fór í bláum kjól með rauðum og hvítum hjörtum í skólann í morgun, með íslenska fánann í höndinni. Foreldrar voru boðnir velkomnir að fylgjast með leiknum og það þykir mér til fyrirmyndar, skólarnir ættu einmitt að nýta hvert tækifæri til að tengja saman foreldra og börn í skólunum. 


Við horfðum saman á leikinn gegn Pólverjum um daginn - á náttfötunum. Hún var frá sér numin af fegurð hins eina sanna Ólympíuanda: ,,Allir eru svo duglegir að hjálpa hver öðrum", klifaði hún á í sífellu þegar einn liðsmaður datt í gólfið og annar hjálpaði honum á fætur. 

Og hún hélt með gula liðinu, þ.e.a.s. markmanni íslenska liðsins. Og skyldi engan undra - magnaður leikmaður. 

Meira um frístundaheimili & skóla

Mér þótti súrt í broti að heyra að skipta ætti um formann í menntaráði á miðju kjörtímabili (ekki vegna þess að ég sakna fráfarandi formanns af persónulegum ástæðum heldur vegna þess að menntaráð er eitt allra mikilvægasta fagráð borgarinnar með mjög viðamikil verkefni á sinni könnu og gríðarlega ábyrgð á velferð þúsunda barna og kennara í Reykjavík). 


Mér hefði þótt farsælla að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hefðu sett stöðugleika í málefnum grunnskólabarna ofar en allt annað - en það er þó ljós í myrkrinu að í fyrsta skipti í langan tíma er formaður menntaráðs og formaður ÍTR eini og sami maðurinn: Kjartan Magnússon. Á sama tíma er oddviti stærsta stjórnarandstöðuflokksins í menntaráði og ÍTR eina og sama konan: Oddný Sturludóttir. Í þessu felast heilmikil tækifæri!

Það gleður mig einnig og fyllir mig nýrri von eins og segir í laginu - að Kjartan var sá borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sem tók hvað jákvæðast í tillögu T-kvartetts frá því í vor um samþættingu skóla- og frístundastarfs. Til þess að tilraunin geti skotið rótum og vaxið af alvöru verða þessi tvö fagsvið að vinna saman. 

Velkominn í menntaráð Kjartan, eitt allra skemmtilegasta fagráð Reykjavíkurborgar - hvenær brettum við upp ermarnar? 

Frístundaheimili & skólar

200 starfsmenn vantar á frístundaheimili borgarinnar og stefnir í að hundruðir barna í 1.-4. bekk eigi ekki í nein hús að venda eftir að skóla lýkur á daginn. Þetta er gömul saga og ný og tími til kominn að skoða aðrar lausnir. 


Staðreyndir um frístundaheimili: 

Þau starfa að langmestu leyti milli klukkan 14 og 17 á daginn - nema á starfsdögum skóla og í skólafríum en þá starfa þau allan daginn. 

Kannanir sýna að foreldrar eru hæstánægðir með frístundaheimilin en þykir þó aðstaða þeirra bágborin og þjónustan oft ótrygg, samanber biðlistana á þessu hausti. 

Umsjónarmenn eru í 100% starfi en langstærsti hhluti starfsfólksins er með lítið starfshlutfall enda vinnutíminn frá ca. 14-17. Þessar stöður hefur verið mjög erfitt að manna og starfsmannavelta er mikil. 

Frístundaheimilin eru rekin af ÍTR eftir hugmyndafræði tómstunda en þeirri fræðigrein vex sífellt meira fiskur um hrygg og er nú kennd á háskólastigi undir styrkri stjórn Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors í frístundafræðum. Frístundaheimilin eru afar fjölbreytileg og sum hafa farið skapandi leiðir til að marka sér sérstöðu og sína eigin hugmyndafræði sem er fagnaðarefni.

Frístundaheimili eru staðsett í eða við skólana en oft nýta þau skólahúsnæðið ekki nema að hluta. Þau eru gjarnan staðsett í skúrum á skólalóð, í sérstökum húsum í nágrenni skólanna en í nýrri skólum hefur verið gert ráð fyrir þeim strax á hönnunarstigi þó deila megi um hvort þau rými séu nógu stór. 

Á vordögum talaði ég fyrir tillögu í borgarstjórn f.h. Tjarnarkvartetts. Hún byggir á hugmyndafræði sem Tjarnarkvartettinn þróaði í hundraðdagameirihlutanum fyrir nýju skólana í Úlfarsárdal. Hér er góð útlistun á henni en í örstuttu máli gerir hún ráð fyrir því að flétta saman skóla- og frístundastarf yngstu barnanna þannig að frístundafræðin verði hluti af stundaskrá barnanna og fingri sig saman við skólastarfið. Þannig er litið á að skóladagur yngstu barnanna sé frá morgni allt til klukkan 17 og því þá ekki að leiða saman krafta kennara og annars starfsfólks skólanna - og frístundafræðinganna? 
Við berum jú ábyrgð á börnunum saman.

Þessi tillaga er róttæk og vekur upp margar krefjandi spurningar og álitaefni hvað varðar gjaldtöku, sjónarmið lögbundins náms og valkvæðs frístundastarfs, vinnutíma og vinnuaðstöðu kennara, nýtingu á húsnæði og ótal margt fleira. 

Ef tilraunin nær fram að ganga verður hún fyrst og fremst til mikilla hagsbóta fyrir börnin. Hún leysir húsnæðiskreppu frístundaheimilanna því skólahúsnæðið nýtist fyrir börnin allan daginn, ekki bara til klukkan 14. Jafnframt skapar hún vettvang fyrir áhugasama frístundaleiðbeinendur - og fræðinga til að starfa 100% í sínu fagi. 

Allt eru þetta ögrandi verkefni til að leysa úr og ég veit fyrir víst að nokkrir skólar í Reykjavík eru reiðubúnir í tilraun af þessu tagi. 

Þeir hafa líka hvíslað því að mér að þá klæji í lófana að hefjast handa.

20 ágúst 2008

Áfram Ísland

Það er undantekningalítið gaman að vera Íslendingur. En alveg sérstaklega þegar okkur gengur vel í handbolta. 


Til hamingju öll þið sem eigið þátt í árangri íslenska handboltalandsliðsins - og takk fyrir skemmtunina í morgunsárið!

18 ágúst 2008

Wild moves and savvy battle for chairs...

Framkvæmdastýra UJ er góður penni eins og raunar allir pennar á Vefritinu. Eva Bjarnadóttir á grein dagsins og fer þar á kostum. Greinin er ætluð til kynningar á gleðiborginni Reykjavík, er á ensku og lýsir athyglisverðum uppákomum í Ráðhúsi Reykjavíkur. 


Tákn nýrra tíma í utanríkisráðuneytinu

Í dag á fröken Reykjavík afmæli og hún fær mínar bestu afmælisóskir. Í kjölfarið kemur menningarnótt - sem verður um næstu helgi - og þar kennir ýmissa grasa eins og venjulega.

Eitt það athyglisverðasta sem verður á boðstólum er á vegum Utanríkisráðuneytisins - í fyrsta sinn (og fyrst allra ráðuneyta) verður almenningi boðið að skoða húsakynni utanríkisráðuneytisins og kynna sér starfsemi þess. Þetta er tímanna tákn því utanríkisráðuneytinu hefur ekki beinlínis verið stjórnað þannig í gegnum tíðina að almenningur ætti mikla hlutdeild í því. Utanríkisþjónustan er þó þjónusta allra landsmanna og stendur vörð um um hagsmuni ríkisins á erlendri grundu. Þjónusta þess á ekki að einkennast af launhelgi og því á ekki að vera stjórnað eins og um einkaklúbb væri að ræða.

Næstkomandi laugardag verða starfsmenn á staðnum að kynna sín störf og boðið verður upp á fyrirlestra, tölvukosningu til öryggisráðs SÞ, sýningu á vegum friðargæslunnar, á veggjunum verða verk listamanna sem tekið hafa þátt í Fenyja-tvíæringnum, Ólöf Arnalds verður með tónlistaratriði, teiknisamkeppni verður fyrir börnin og þau fá að velja sér andlitsmálningu úr fánum heimsins.

Ferskir vindar leika sannarlega um ráðuneyti utanríkismála - einhvern veginn þykir mér ólíklegt að forverar núverandi utanríkisráðherra hafi lagt sig eftir því að opna ráðuneytið upp á gátt, bjóða fólki í heimsókn og það alla leið inn á skrifstofu ráðherra.

Hvað þá andlitsmálningu fyrir börnin.

15 ágúst 2008

Marsibil - sagan endurtekur sig.

Það var ýmislegt sem fór í gegnum huga minn í janúar þegar Ólafur F. Magnússon og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihluta. Það sem mér blöskraði þó mest var framkoma Ólafs - og Sjálfstæðisflokksins - við Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur. Margrét hafði að mestu séð um málefni F-listans í borgarstjórn vegna veikinda Ólafs. Margrét og Guðrún áttu ekki lítinn þátt í 10% fylgi F-listans í kosningunum 2006 enda fara þar heiðarlegar, skapandi og réttsýnar manneskjur sem gott er að vinna með.

Þá skildist manni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið miður sín yfir því að Margréti og Guðrúnu vantaði í hópinn og eðlilega kviðu borgarfulltrúar því að Ólafur F. Magnússon mætti svo til einn í nýja samstarfið - án síns varamanns, enginn til að manna formennsku í ráðum og nefndum.

Margrét og Guðrún voru sigurvegarar gærdagsins, ósköp sem ég held að þær hafi verið glaðar að hafa ekki tekið þátt í myndun meirihlutans í janúar!

En lítið hefur fólk lært. Í annað skipti gengur karlmaður í oddvitasæti freklega framhjá kvenkyns varamanni sínum, manneskju númer tvö á lista. Marsibil hafði sannarlega gert honum grein fyrir því að hún ætlaði ekki að kasta björgunarhring til Sjálfstæðismanna, hún ætlaði ekki að styðja nýja meirihlutann. Samt lýgur Óskar því blákalt að fjölmiðlum að samskipti þeirra hefðu verið með öðrum hætti - hann ætti eftir að ,,kynna málið betur fyrir henni". En hann var sannarlega oft búinn að ráðfæra sig við ,,þungaviktarMENN" í Framsóknarflokknum. En gleymdi óvart sínum helsta samstarfsmanni, Marsibil Jónu Sæmundardóttur.

Ég er stolt af Marsibil. Hún hefur fína reynslu í borgarmálunum, hefur verið varaborgarfulltrúi í sex ár og farið með formennsku í ráðum. En hún treystir sér ekki í þetta samstarf og stendur með sjálfri sér.

Það er gaman að velta því fyrir sér hvort þetta yfirgengilega virðingarleysi hefði átt sér stað ef varamenn Ólafs F og Óskars Bergssonar hefðu verið karlkyns. Ég efast um það.

En stóra spurningin er: Af hverju lét Hanna Birna þetta gerast í tvígang, eftir að hafa brennt sig á því einu sinni?

Næsta manneskja á eftir Marsibil á lista er Ásrún Kristjánsdóttir. Hún er hætt í Framsókn.

13 ágúst 2008

Hallveig

Hallveig er nýtt nafn á félagi ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. UJ samþykkti nýverið að skíra félögin sín í höfuðið á þekktum bókmenntapersónum. Ugla heitir félag ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum og nú er Hallveig orðin til - nafnavalið fór fram á aðalfundi UJR/Hallveigar í kvöld, á Hallveigarstíg 1. 


Hallveig var enda fyrsta húsfreyja Reykjavíkur og hennar var getið í Landnámu. Hún var kvinna Ingólfs og ku hafa verið stólpakvendi. 

Nafnið Hallveig atti kappi við nokkrar aðrar velþekktar persónur úr íslenskri bókmenntasögu - meðal annars Hlyn nokkurn úr skáldsögunni 101 Reykjavík. Hlynur fékk ekki brautargengi, raunar ekki eitt einasta atkvæði. Góð tillaga engu að síður en það hefði skotið ansi skökku við ef Reykjavíkurdeild einnar öflugustu ungliðahreyfingar fyrr og síðar héti í höfuðið á lötum auðnuleysingja!

Það var gaman á aðalfundinum, ótrúlegur kraftur í UJ-fólki. Ég er einlæglega skotin í ungliðahreyfingu míns góða flokks, kannski vegna þess að ég var sjálf aldrei í ungliðahreyfingu og sakna þess oft. Það hefur vissa kosti að gefa kost á sér til starfa fyrir stjórnmálahreyfingu án þess að þekkja innviðina vel, því glöggt er gests augað. En félagsskapurinn, róttæknin og hugsjónaeldurinn í vel mannaðri ungliðahreyfingu er eftirsóknarverður. 

Ellert B. Schram flutti ræðu á fundinum ásamt mér og hann er flottur. Á milli okkar eru 40 ár en mér finnst hann þó alltaf vera yngri, kvikari og frjórri í hugsun en ég og margir á mínum aldri. 

Til hamingju Hallveig með nýja nafnið. Það klæðir þig vel. 

06 ágúst 2008

Ég gefst upp

Ég tel mig ala börn mín upp í jafnréttissinnuðum anda. 

(Ég ætla að umorða þessa setningu því fyrirmyndir skipta jú meira máli en falleg markmið); 

Setningin hljóðar svo: 

Það ríkir jafnrétti á mínu heimili og því fá börnin mín að sjá foreldra sína í alls kyns hlutverkum og störfum, með tusku í hönd sem og í Silfri Egils að ræða búfjársamninga. 

Engu að síður hallar töluvert á mig. Og hér er saga til að styðja þann barlóm minn. 

Dóttir mín þriggja ára er í eilífum hlutverkaleik - tímunum saman. Þar kallast á börn og fullorðnir, vinir, álfar og risaeðlur. Hún er barn, hún er foreldri, hún er stóra systir og hún er freka frænkan. En alltaf - ALLTAF - þegar hún bregður sér í hlutverk umhyggjusama foreldrisins og nostrar við bangsa, dúkkur, lítil börn og dýr er foreldrið PABBI. Þegar ég spyr hana hvar mamman sé er svarið stutt og laggott; Hún er á fundi. 

Ég strengdi því þess heit að vera ofurmóðir í sumarfríinu. Svaraði nær engum tölvupóstum, gleymdi að hlaða símann minn svo dögum skipti, tók mér bæði bloggfrí og Fésbókarfrí (sem var svínslega erfitt) og var, þó ég segi sjálf frá, lygilega gefandi og góð móðir. Undir lok frísins sögðum við skilið við fjölskylduföðurinn og hann hélt til vinnu. Ég eyddi síðustu vikunni ein með börnunum og við nýttum tímann vel til að heimsækja ömmur og afa í sumarbústaði víðs vegar um suðurlandsundirlendið. Ég og börnin, ég við stýrið og þau aftur í. 

Við komuna í bæinn hentist heimasætan inní herbergi og þóttist himin höndum hafa tekið. Allt dótið sem hún hafði ekki séð svo vikum skipti var dregið fram á gólf og hlutverkaleikurinn fór af stað. Einstaka sinnum varð rof á leik og hún kom hlaupandi til mín í leit að hjálp og í eitt skiptið var það óþægilega þröngur Playmóbíll sem hún þurfti hjálp við að festa bílstjórann í. 

Hún rétti mér bílinn og Playmó-manneskjuna og ég myndast við að festa hana í bílstjórasætið. Hún rekur upp ramakvein í hneykslunartón og segir: Nei, hinu megin! 

-Nú, í farþegasætinu? Spyr ég. 

-Já auðvitað, þetta er mamman! 

Móðurhlutverkið getur verið svo dásamlega gefandi...

Þessi sena minnir mig á hugleiðingu Kate Reddy, aðalpersónu bókar sem ég þýddi fyrir nokkrum árum og ber nafnið Móðir í hjáverkum. Hún upplifði hið sama með dóttur sína og komst þá nokkurn veginn svona að orði: 

Children never remember the times you´re with them - only the times when you´re away. 

Það er nokkuð til í því.