Mér þótti súrt í broti að heyra að skipta ætti um formann í menntaráði á miðju kjörtímabili (ekki vegna þess að ég sakna fráfarandi formanns af persónulegum ástæðum heldur vegna þess að menntaráð er eitt allra mikilvægasta fagráð borgarinnar með mjög viðamikil verkefni á sinni könnu og gríðarlega ábyrgð á velferð þúsunda barna og kennara í Reykjavík).
Mér hefði þótt farsælla að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hefðu sett stöðugleika í málefnum grunnskólabarna ofar en allt annað - en það er þó ljós í myrkrinu að í fyrsta skipti í langan tíma er formaður menntaráðs og formaður ÍTR eini og sami maðurinn: Kjartan Magnússon. Á sama tíma er oddviti stærsta stjórnarandstöðuflokksins í menntaráði og ÍTR eina og sama konan: Oddný Sturludóttir. Í þessu felast heilmikil tækifæri!
Það gleður mig einnig og fyllir mig nýrri von eins og segir í laginu - að Kjartan var sá borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sem tók hvað jákvæðast í tillögu T-kvartetts frá því í vor um samþættingu skóla- og frístundastarfs. Til þess að tilraunin geti skotið rótum og vaxið af alvöru verða þessi tvö fagsvið að vinna saman.
Velkominn í menntaráð Kjartan, eitt allra skemmtilegasta fagráð Reykjavíkurborgar - hvenær brettum við upp ermarnar?
1 ummæli:
þetta hljómar mjög skynsamlega að menntaráð og tómstundaráð vinni saman.
Vonandi gæta þeir sem sitja í ráðinu hagsmuna þeirra barna sem ekki eru núna í tómstundastarfi og þar sem foreldrar af einhverjum ástæðum m.a. fjárhagslegum nota ekki frístundakort.
Skrifa ummæli