29 ágúst 2008

Bókmenntaborgin Reykjavík

Í bókmenntaheimum er mikið rætt um þann heiður sem íslenskum bókmenntum verður sýndur á bókamessunni í Frankfurt 2011. Það ár verður Ísland aðalgestur messunnar sem mun draga gríðarlega athygli að íslenskum bókum og rithöfundum.

Í kjölfarið hefur olíu verið kastað á gamlar glæður og ekki er þar minna spennandi verkefni á ferðinni. Nefnilega sá möguleiki að Reykjavík öðlist þann sess að verða ,,bókmenntaborg UNESCO" - eða UNESCO City of Literature.

Þennan draum hafa margir talsmenn íslenskra bókmennta alið með sér um hríð en það má segja að hjólin séu farin að snúast hraðar nú en áður. Að frumkvæði Katrínar Júlíusdóttur þingkonu mun undirbúningshópur koma saman í haust með fulltrúum menntamálanefndar Alþingis, ráðuneytis menntamála og Reykjavíkurborgar. Eins hafa bókaútgefendur og það ágæta fólk sem skipuleggur aðkomu Íslands að bókamessunni 2011 talað sig saman og mikill hugur er í fólki að fá unga sem aldna rithöfunda með í undirbúning verkefnisins.

Svo vel ber í veiði að við Íslendingar eigum sérfræðing í þessum málum sem búsettur er í Edinborg, en sú borg ber einmitt hinn rómaða titil, ,,Bókmenntaborg UNESCO". Sá sérfræðingur heitir Auður Rán Þorgeirsdóttir og hennar lokaritgerð frá háskólanum í Edinborg fjallaði um það ferli sem Edinborg fór í gegnum til að landa titlinum eftirsótta.

Lítil sendinefnd frá Reykjavíkurborg, ég og tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, hittum téða Auði í Edinborg í vor á ferð okkar um Bretland og Skotland til að skoða barnalistahátíðir. Þar leiddi hún okkur í allan sannleikann um þetta verkefni sem kvisaðist svo út til fulltrúa í menntamálanefnd Alþingis. Og eins og fyrr segir leiðir Katrín Júlíusdóttir undirbúningshópinn sem senn mun funda í fyrsta sinn og vonandi njótum við krafta Auðar Ránar svo þessi draumur megi rætast.

Þeir þættir sem helst er horft til þegar slíkur heiður er veittur til borga eru;
Rík bókmenntahefð, merkilegur bókmenntaarfur og orðspor lands og borgar t.d. hvort borgin státi af rómaðri bókmenntahátíð.

Allt er þetta til staðar í Reykjavík - og gott betur.

Engin ummæli: