13 ágúst 2008

Hallveig

Hallveig er nýtt nafn á félagi ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. UJ samþykkti nýverið að skíra félögin sín í höfuðið á þekktum bókmenntapersónum. Ugla heitir félag ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum og nú er Hallveig orðin til - nafnavalið fór fram á aðalfundi UJR/Hallveigar í kvöld, á Hallveigarstíg 1. 


Hallveig var enda fyrsta húsfreyja Reykjavíkur og hennar var getið í Landnámu. Hún var kvinna Ingólfs og ku hafa verið stólpakvendi. 

Nafnið Hallveig atti kappi við nokkrar aðrar velþekktar persónur úr íslenskri bókmenntasögu - meðal annars Hlyn nokkurn úr skáldsögunni 101 Reykjavík. Hlynur fékk ekki brautargengi, raunar ekki eitt einasta atkvæði. Góð tillaga engu að síður en það hefði skotið ansi skökku við ef Reykjavíkurdeild einnar öflugustu ungliðahreyfingar fyrr og síðar héti í höfuðið á lötum auðnuleysingja!

Það var gaman á aðalfundinum, ótrúlegur kraftur í UJ-fólki. Ég er einlæglega skotin í ungliðahreyfingu míns góða flokks, kannski vegna þess að ég var sjálf aldrei í ungliðahreyfingu og sakna þess oft. Það hefur vissa kosti að gefa kost á sér til starfa fyrir stjórnmálahreyfingu án þess að þekkja innviðina vel, því glöggt er gests augað. En félagsskapurinn, róttæknin og hugsjónaeldurinn í vel mannaðri ungliðahreyfingu er eftirsóknarverður. 

Ellert B. Schram flutti ræðu á fundinum ásamt mér og hann er flottur. Á milli okkar eru 40 ár en mér finnst hann þó alltaf vera yngri, kvikari og frjórri í hugsun en ég og margir á mínum aldri. 

Til hamingju Hallveig með nýja nafnið. Það klæðir þig vel. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju heyrðist ekki bofs í Ellerti þegar frumvarp Valgerðar Bjarnadóttur um afnám eftirlaunaósómans lá fyrir allsherjarnefnd?

Lítill vandi að belgja sig út í veislum. Erfiðara að standa uppréttur þegar á reynir.

Rómverji

Unknown sagði...

Hvernig í ósköpunum ég að samsvara mér við nafnið Hallveig?

Vinsamlegast