Í dag á fröken Reykjavík afmæli og hún fær mínar bestu afmælisóskir. Í kjölfarið kemur menningarnótt - sem verður um næstu helgi - og þar kennir ýmissa grasa eins og venjulega.
Eitt það athyglisverðasta sem verður á boðstólum er á vegum Utanríkisráðuneytisins - í fyrsta sinn (og fyrst allra ráðuneyta) verður almenningi boðið að skoða húsakynni utanríkisráðuneytisins og kynna sér starfsemi þess. Þetta er tímanna tákn því utanríkisráðuneytinu hefur ekki beinlínis verið stjórnað þannig í gegnum tíðina að almenningur ætti mikla hlutdeild í því. Utanríkisþjónustan er þó þjónusta allra landsmanna og stendur vörð um um hagsmuni ríkisins á erlendri grundu. Þjónusta þess á ekki að einkennast af launhelgi og því á ekki að vera stjórnað eins og um einkaklúbb væri að ræða.
Næstkomandi laugardag verða starfsmenn á staðnum að kynna sín störf og boðið verður upp á fyrirlestra, tölvukosningu til öryggisráðs SÞ, sýningu á vegum friðargæslunnar, á veggjunum verða verk listamanna sem tekið hafa þátt í Fenyja-tvíæringnum, Ólöf Arnalds verður með tónlistaratriði, teiknisamkeppni verður fyrir börnin og þau fá að velja sér andlitsmálningu úr fánum heimsins.
Ferskir vindar leika sannarlega um ráðuneyti utanríkismála - einhvern veginn þykir mér ólíklegt að forverar núverandi utanríkisráðherra hafi lagt sig eftir því að opna ráðuneytið upp á gátt, bjóða fólki í heimsókn og það alla leið inn á skrifstofu ráðherra.
Hvað þá andlitsmálningu fyrir börnin.
18 ágúst 2008
Tákn nýrra tíma í utanríkisráðuneytinu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Heldurðu að ráðherrann (frúin) verði á landinu til að lýsa yfir afnámi eftirlaunaósómans. Það væri táknið sem alþýðan hefur beðið eftir. Annað skiptir okkur minna máli af hálfu stjórnmálamanns sem einna hæst hefur talað um heiðarleika sinn og sinnar hreyfingar. Að undanskildum verðandi fyrrverandi borgarstjóra.
Skrifa ummæli