04 apríl 2011

Minnihlutinn í borgarstjórn

Minnihlutinn í borgarstjórn er ævintýralega óábyrgur. Fulltrúi minnihlutans í starfshópi sem lagði fram tillögur til sparnaðar í yfirstjórn skóla telur nú tillögurnar einkennast af stefnuleysi. Tillögurnar eru þó í 100% eigu Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, sem sat alla 19 fundi starfshópsins, skipulagði samráðsferlið með foreldrum og starfsfólki án þess að gera við það eina athugasemd, mætti á alla hverfafundi og talaði fyrir verkefninu, hóf sjálf sameiningarvinnu á Leikskólasviði sem formaður í meirihluta og hefur talað fyrir því að nóg væri komið af sparnaði í skólastarfinu sjálfu - nú skyldi skoða sameiningar og skipulagsbreytingar.

Ljúft er lífið minnihlutans...

Þegar í ljós kom andstaða við fyrirhugaðar breytingar, sem reynslan sýnir okkur að er alltaf þó nokkur, stökk Þorbjörg Helga frá, á síðustu metrum vinnunar, og reynir nú án afláts að sverta vinnu starfshópsins. Einn mesti sameiningarsinni sem ég hef kynnst, einlægur talsmaður uppstokkunar í skólakerfinu. Og hver var ástæðan? Jú. Of lítill fjárhagslegur ávinningur. Sem hlýtur að vekja upp spurningu hjá mörgum: Hversu langt var Þorbjörg Helga tilbúin til að ganga? Hún vissi vel sem fráfarandi formaður Leikskólaráðs að hver og ein sameining skilar engum hundruðum milljóna. Hvað vildi hún margar sameiningar í viðbót? Vildi hún kannski loka skólum í Reykjavík? Í því felst sannarlega mikill fjárhagslegur ávinningur.

Sú saga verður sögð einhvern tímann seinna. Því fólki hefnist gjarnan fyrir lýðskrum og tækifærismennsku.

Ábyrgi minnihlutinn á Alþingi

Á dauða mínum átti ég von en að ég myndi hrósa minnihlutanum á Alþingi fyrir heilindi. En Bjarni Benediktsson hefur þó sýnt þann manndóm að standa með niðurstöðu Icesave samninganefndarinnar, þó að þægilegra hefði verið fyrir hann að gera það ekki. Svo ærlegur er minnihlutinn í borgarstjórn ekki. Þrátt fyrir að taka á fullan þátt í starfi hóps sem lagði á sig gríðarmiklu vinnu fyrir börnin í borginni við að greina tækifæri til samrekstrar og sameiningar í yfirstjórn. Allt til þess að vernda skólastarfið sjálft.

,,Því er ekki að heilsa í Reykjavík"

Á landsþingi sambands íslenskra sveitarfélaga sem fram fór fyrir rúmri viku síðan var eðlilega mikið rætt um skipulagsbreytingar í skólakerfinu. Út um allt land hafa verið gerðar breytingar í yfirstjórnum skóla. Gjarnan hafa þær breytingar mætt andstöðu meðal íbúa og starfsfólks og það er eðlilegt. Það takast á þrenns konar kraftar þegar við breytum í skólastarfi: Fjárhagsleg rök, fagleg rök og tilfinningaleg rök. Þetta eru jú skólar barnanna okkar, starfsstaðir með ríka menningu, auðvitað höfum við á því sterka skoðun hvernig þeir eru skipulagðir.

Stundum hefur þessi andstaða farið býsna hljótt, undirbúningsferlið hefur gengið vel og þokkaleg sátt hefur náðst um breytingarnar. Það gerir þó ekki lítið úr því að tekist hefur verið á um faglegu, fjárhagslegu og tilfinningalegu rökin.

En hvað einkennir þær breytingar? Jú, ábyrgur minnihluti. Einn sveitarstjórnarmaður - flokksbróðir Þorbjargar Helgu og Hönnu Birnu - gat ekki orðað það betur þegar við ræddum þessi mál á landsþingi Sambandsins:

,,Það er ekki öllum gefið að standa með breytingum, þegar foreldrar og starfsfólk krefjast þess að minnihlutinn snúist á sveif með þeim og láti öllum illum látum. Ábyrgur minnihluti er lykilatriði. Því er nú sannarlega ekki að heilsa í Reykjavík þessa dagana."

Svo mörg voru þau orð.

Hvernig átti að hagræða?

Enn er því ósvarað hvernig í ósköpunum minnihlutinn í borgarstjórn hafði hugsað sér að hagræða í Reykjavík þetta árið. Sjálfstæðismenn hugðust enga skatta hækka, sem hefði stækkað gatið sem við þurftum að brúa um 810 milljónir króna. Þá peninga átti að ná í með grimmri hagræðingu á svið borgarinnar. Er einhver búinn að gleyma því hvað minnihlutinn fjargviðraðist yfir gjaldskrárhækkunum í borginni? Þær hækkanir skiluðu um 920 milljónum króna. Þá peninga átti líklega líka að ná fram með grimmri hagræðingu í skólum, velferð, frístund, menningu og framkvæmdum.

En þetta stóra gat er líka tilkomið vegna skýrrar forgangsröðunar meirihlutans til barnafjölskyldna og þeirra sem minnst mega sín. Þessi meirihluti hækkaði fjárhagsaðstoð til fátæks fólks í Reykjavík og hann jók framlög til Leikskólasviðs um nærri 500 milljónir króna milli ára til að standa straum af leikskólaplássum fyrir stærsta árgang Íslandssögunnar, og nýjum plássum hjá dagforeldrum.

Þessa forgangsröðun hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir kallað ,,ýmis ný verkefni sem meirihlutinn kaus að setja peninga í".

Svona eins og leikskólapláss og fjárhagsaðstoð séu gæluverkefni.

Ég er þá stolt af því að forgangsraða í gæluverkefni, feykilega stolt.

Ef Sóley Tómasdóttir væri þingkona...

VG er svo sér kapítuli út af fyrir sig. Þar á bæ má ekkert hagræða. Ekki í harða geiranum, ekki í strætó, ekki í skólamálum, ekki í velferð og svo má alls, alls engar gjaldskrár hækka. Ég hef þó þá trú að Sóley Tómasdóttir hefði forgangsraðað í sömu ,,gæluverkefni" og við í meirihlutanum - en hvernig hún hefði hugsað sér að mæta fimm milljarða króna gati er enn ósvarað. Sóley Tómasdóttir væri líklegast komin með rekstur þessarar borgar út á næfurþunnan ís ef hún væri við stjórnvölinn.

Merkilegast er að hennar fólk í ríkisstjórn stendur í stórræðum, umdeildum, óvinsælum en umfram allt ábyrgum niðurskurði. Miðað við framgöngu Sóleyjar Tómasdóttur í umræðum um fjárhag Reykjavíkurborgar er ekki vafi í mínum huga hvernig hún hefði varið atkvæði sínu við afgreiðslu fjárlaga - væri hún þingmaður.

Hún hefði setið hjá. Ef ekki bara greitt atkvæði á móti.

Ég er hugsi yfir síðustu fjórum árum, þar sem ég hef setið sem minnihlutamanneskja í menntaráði, leikskólaráði og ÍTR. Ósköp mikið hefur verið hagrætt á þeim tíma. Í skólum, tónlistarskólum og leikskólum. Óteljandi oft sköpuðust tækifæri fyrir lýðskrum, maður minn. Við hefðum getað fyllt pallana af óánægðum foreldrum, kennurum, tónlistarfólki. Oft, margoft. Okkur var legið á hálsi fyrir að vera svona fjári ábyrg - ætliði ekkert að æsa ykkur yfir niðurskurði til skólamála?

Staða borgarinnar eftir efnahagshrun var okkur fullljós. Við hefðum þurft að gera slíkt hið sama. Þannig hagar ábyrgur minnihluti sér. Við hefðum farið ólíkar leiðir að einhverju leyti en mjög margt var óumflýjanlegt. Og allir vissu að árið 2011 yrði þungt, mjög þungt.

Ég hefði ekki breytt öðruvísi þó ég hefði átt kristalskúlu og séð fram í tímann. Séð hversu ævintýralega óábyrgur minnihlutinn í borgarstjórn er.

Hún er sannarlega skrýtin tík, hún pólitík.

29 mars 2011

,,mjög, mjög mikið lausafé"

Allt frá því á síðasta ári hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir klifað á því að sjóðir borgarinnar væru svo digrir að þyrftum ekki að gera neitt óvinsælt eða sársaukafullt, þyrftum ekki að fullnýta útsvar, ekki hækka gjaldskrár og alls ekki endurskipuleggja í skólakerfinu.

,,...Og þegar því er til svarað, eins og borgarstjóri gerði hér áðan, að við verðum jú að eiga eitthvert lausafé til þess að standa vörð um Orkuveitu Reykjavíkur, sem við flest vitum hér, enda var þeim sjóðum safnað upp á síðasta kjörtímabili, er því til að svara að sú staða hefur verulega batnað á þessu ári og nú er svo komið að afrakstur aðgerða undanfarinna ára og líka undanfarinna mánaða hefur skilað sér í áætluðum hagnaði Orkuveitu Reykjavíkur upp á rúma 20 milljarða. ...Reykjavíkurborg á mjög, mjög mikið lausafé og mér sýnist samkvæmt tölum sem ég sá í morgun að miðað við einhver sveitarfélög allavega eigi Reykjavíkurborg margfalt meira heldur en aðrir íbúar."

- Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, í umræðum í borgarstjórn 30. nóvember árið 2010.

Ég treysti mér í allt mögulegt, umdeildar hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu á öllum þáttum borgarrekstrarins. Það er einfaldlega verkefni dagsins - og skömminni skárra en að treysta á ímyndaða milljarða.

28 mars 2011

Hvað kostar leikskólaplássið?

Reykvíkingar hafa verið að kalla eftir raunkostnaði við leikskólaplássið. Hér eru allar upplýsingar um það.

Ekki vita allir að hvert leikskólabarn kostar að meðaltali 1,4 milljón á ári. Hlutur foreldra (leikskólagjöldin) er að meðaltali rúmlega 200.000 krónur á ári. Ég er stolt af því að hafa forgangsraðað í þágu stærsta árgangs Íslandssögunnar (börn fædd 2009). Það útheimtir mikla fjármuni og þess vegna þarf að hagræða á móti.

Í haust fara 1500 börn í 1. bekk, börn fædd 2005. Börnin sem verða tveggja ára á árinu - og þurfa leikskólapláss - eru langtum fleiri, eða á milli 1800-1900 talsins.

Þessi meirihluti forgangsraðaði í þeirra þágu. Þessi meirihluti jók framlög til Leikskólasviðs um 658 milljónir króna á milli ára við gerð síðustu fjárhagsáætlunar. Stór hluti þeirrar viðbótar er til að koma til móts við þennan stóra árgang. Okkur sem stjórnum í Reykjavík fannst óhugsandi að færa leikskólaþjónustuna aftur til þess sem Reykvíkingar þekktu áður en Reykjavíkurlistinn kom til sögunnar. Árið 1994 komust börn inn á leikskóla rúmlega þriggja ára - og í boði var vistun hálfan daginn fyrir hjón.

Í dag treysta reykvískar fjölskyldur á þjónustu leikskólanna, enda eru þeir frábærir og metnaðarfullir. Hagræðingaraðgerðir sem við erum með í undirbúningi núna snúa að sparnaði í yfirstjórn og tengdum þáttum. Áfram verða börn í sínum leikskólum, litlum og stórum, á leikskóladeildinni sem þau þekkja, með starfsfólki sem þau treysta. Yfirstjórnin verður sameiginleg og við treystum okkar öflugu leikskólastjórum vel til þess að takast á við stærri verkefni.

Ég myndi aldrei láta það gerast á minni vakt að börn fái fyrst leikskólapláss þriggja ára, hvað þá á fjórða ári. En til þess að ná því markmiði þarf að hagræða.

Því öll þjónusta kostar fjármuni - og það er snúið að fjölga leikskólaplássum á meðan borgin tapar tekjum og þarf að sníða sér stakk eftir vexti.

Aðrir flokkar í borgarstjórn voru með aðrar lausnir í huga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að leikskólapláss fyrir svona stóran árgang sé allt of ,,dýr lausn". Frekar ætti að borga foreldrum heimgreiðslur (20.000 krónur) og hvetja þá til þess að redda sér sjálfir með vistun fyrir ung börn sín.

Það er vissulega sparnaður. En það er einfaldlega ekki boðlegt. Og mikið er ég glöð fyrir hönd reykvískra smábarnaforeldra að sú ,,lausn" leit aldrei dagsins ljós.

24 mars 2011

Litlir eða stórir grunnskólar?

Tveir farsælir skólastjórar, Haraldur Finnsson og Gunnlaugur Sigurðsson skrifa um breytingar í skólaumhverfinu. Sérstaklega fjalla þeir um stærð unglingadeilda. Í upphafi greinarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Því miður virðast viðbrögð við tillögunum einkennast af andstöðu við allar breytingar en ekki faglegum rökum."

Að mörgu leyti rétt, þó er eðlilegt og hefur ávallt fylgt breytingum í skólaumhverfinu, að þar takist á rökstuðningur af þrenns konar toga: Fagleg rök, fjárhagsleg rök og tilfinningaleg rök.

Sveitarfélög og kommúnur, hérlendis sem og erlendis, eru að skoða breytingar í skólaumhverfinu; stjórnun, strúktúr, skólagerðir, aldurssamsetningu nemenda og margt fleira. Sveitarfélög fara mismunandi leiðir með samráð en allir eru sammála um að höfuðatriðið er að upplýsa um nauðsyn breytinganna.

Fjárhagskrísa sveitarfélaganna má öllum vera ljós og grein skólastjóranna er frábært innlegg í faglegu umræðuna.

Eins má benda á viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrum fræðslustjóra í Reykjavík, í Speglinum nýverið. Þar víkur hún einmitt orðum að þessari eðlilegu andstöðu við breytingar sem hún upplifði sjálf oft í sínu starfi.

23 mars 2011

Viljum við breytingar eða flatan niðurskurð?

Tillögur til breytinga á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík eru nú í umsagnarferli. Tillögurnar snúa að sameiningu í yfirstjórn nokkurra grunnskóla og leikskóla og sameiginlegri yfirstjórn frístundaheimila og grunnskóla. Eins eru tillögur sem snúa að breyttri aldursskiptingu, stækkun unglingadeilda og tvær tillögur snúa að sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundar.

Breytingar í leikskólum

Tillögur okkar kalla á breytingar og þær skila líka dýrmætri hagræðingu. Margar þeirra eiga sér forsögu, t.d. hafa sameiningar í yfirstjórn leikskóla verið í umræðunni frá 2008. Í Reykjavík eru margir litlir leikskólar og einnig er algengt að tveir leikskólar standi bókstaflega á sömu lóð. Fjöldi barna á hvern stjórnanda í leikskólum Reykjavíkur er langt undir meðaltali. Reykjavík hefur sameinað leikskóla og önnur sveitarfélög hafa sameinað leikskóla. Það hefur gengið vel. Áfram verður hægt að bjóða öllum stjórnendum störf áfram á leikskólum borgarinnar.

Allir aðrir hagræðingarkostir voru taldir verri á leikskólunum. Það hefði mátt skerða kjör þeirra sem lægst hafa launin eða fjölga börnum á hvern starfsmann. Það hefði mátt lengja biðlistana og gefast upp fyrir því verkefni haustsins að fjölga leikskólaplássum fyrir stærsta árgang Íslandssögunnar. Við vildum ekkert af þessu. Við mættum hagræðingu á Leikskólasviði með afnámi heimgreiðslna og endurskipulagningu í stjórnun leikskóla. Ekkert verður skorið niður í innra starfi leikskólanna, ekki neitt. Tæplega 500 milljónum var bætt í ramma Leikskólasviðs til að koma til móts við yngstu Reykvíkingana.

Þetta er skýr forgangsröðun í þágu leikskólastarfs og fjölskyldna í borginni.

10-15 börn í árgangi?

Borgin er að sligast undan leigukostnaði vegna slæmrar nýtingar húsnæðis grunnskóla. Í sumum hverfum eru hins vegar skólar að springa svo þörf er á viðbyggingum. Við höfum byggt fína og dýra skóla, svo eldast hverfin og yngjast á víxl, skólarnir eru hálftómir eða sneisafullir. Við getum ekki haldið áfram að byggja í hvert skipti sem nemendum fjölgar til þess eins að sitja uppi með hálftómt skólahúsnæði fáum árum seinna. Við verðum að endurskipuleggja. Það mun að sjálfsögðu hafa rask í för með sér fyrir börn og foreldra, en nú þegar Reykjavíkurborg hagræðir þriðja árið í röð verðum við að horfast í augu við staðreyndir. Sums staðar er fækkun barna farin að há skólastarfi og félagslífi barna og unglinga.
Tíu börn í árgangi, er það gott fyrir skólastarf?

Ef börn hefja skólagöngu í Hagaskóla ári fyrr má spara verulegar fjárhæðir í stofnkostnaði bygginga og tilheyrandi leigu til framtíðar. Með nýjum lausnum má finna öllum nýju leikskólabörnunum sem fæddust 2009 og 2010 stað í leikskóla, án þess að taka eina skóflustungu. Þannig spörum við um 700 milljónir í stofnkostnað. Slíkar lausnir og margar fleiri blasa við en það þarf kjark til breytinga. Og breytingar mæta oft áhyggjum og andstöðu. Það er ekkert skrýtið því þær snerta börnin okkar. Það er þó ágætt að rifja upp að margar óvinsælar aðgerðir sem fræðsluyfirvöld hafa ráðist í í gegnum tíðina hafa reynst afar vel.

Og fæstir vilja fara til baka.

Frístundastarf

Í dag koma fjölmargir að námi og frístundastarfi 6-9 ára barna. Kennarar og annað starfsfólk skóla, tómstunda- frístunda- og félagsmálafræðingar. Við getum nýtt fjármagn og mannauð betur með því að horfa á skóla- og frístundadag barna sem eina heild. Þetta eru sömu börnin, fyrir og eftir hádegi. Núna verjum við fjármagni til sérkennslu á tveimur stöðum, við kaupum inn og skipuleggjum starf með sömu börnum á tveimur stöðum. Höfum við efni á því? Er það betra fyrir börnin? Er ekki lag að nýta kraftinn úr frábæru frístundastarfi börnum til góða allan daginn? Við leggjum til að í a.m.k. einu hverfi verði gerð tilraun með samþættan skóla- og frístundadag yngstu barna.

Samráð

Samráð okkar við foreldra og starfsfólk hefur mætt mikilli gagnrýni sem er að mestu ómakleg. Á frumstigum vinnu starfshóps um greiningu tækifæra var tekið einstaklingsviðtal við alla stjórnendur í leikskólum, grunnskólum og frístund. Því næst var fundað með öllum kjörnum fulltrúum foreldra og starfsfólks í hverjum einasta skóla og frístundaheimili til að greina tækifæri í hverju hverfi. Rýnihópar, frekara stjórnendasamráð og loks ótal fundir með foreldrum og starfsfólki um alla borg. Ótrúlega margar ábendingar komu fram, einnig áhyggjur sem og róttækar og djarfar hugmyndir. Og margir vilja engu breyta.

Eitt er víst. Við myndum aldrei fara út í þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum nema nauðsyn krefði, fagleg jafnt sem fjárhagsleg. Okkur þykir vænt um skólana okkar og við óttumst breytingar. Ég óttast þó meira aðgerðarleysi og óábyrga meðferð fjármuna. Það er einfaldlega ekki í boði að gera ekki neitt. Ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga munu 3-400 milljónir króna sparast árlega og vel á annan milljarð ef stofnkostnaður við nýbyggingar er tekinn með í reikninginn. Það er ekki lítið.

Breytingar á yfirstjórn og skipulagi skólastarfs verða ávallt viðkvæmar. En fjárhagur borgarinnar er líka viðkvæmur og á honum berum við sameiginlega ábyrgð. Næstu ár verða mögur og við neyðumst til að hagræða. Það er börnum borgarinnar fyrir bestu að við förum vel með fjármuni, nýtum allt húsnæði borgarinnar til fullnustu og lækkum kostnað við yfirstjórn eins og kostur er.

Einungis þannig getum við komið í veg fyrir flatan niðurskurð í skólastarfinu sjálfu.

22 mars 2011

Rétt og rangt hjá Margréti Pálu

Sú mæta skólakona, Margrét Pála Ólafsdóttir var í Silfrinu í gær og útvarpinu í morgun. Ég komst því miður ekki til að hitta hana hjá Agli en þakka henni fyrir yfirvegað innlegg í umræðu þar sem upphrópanir gera meira ógagn en gagn.

Margrét Pála hefur gagnrýnt okkur fyrir að vilja miðstýra skipulagsbreytingum og hagræðingu í leikskólunum um of. Hún vill að við gerum hagræðingarkröfu á hvern skóla fyrir sig og látum þá svo ,,finna út úr því". Ég er sammála henni svo langt sem það nær: eitt helsta hlutverk stjórnenda í leikskólum er vissulega að nýta fjármagn eins vel og kostur er. Til þess þurfa stjórnendur svigrúm og frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í samráði við foreldra og fræðsluyfirvöld.

Nú erum við hins vegar að gera skipulagsbreytingar sem fela í mörgum tilfellum í sér verulegar breytingar á högum stjórnendanna sjálfra. Við erum að stækka einingar í leikskólakerfinu til að skapa sterkari og sveigjanlegri leikskóla sem eiga fleiri og betri valkosti í stjórnun. Við erum að spara í yfirstjórn og við getum hreinlega ekki ætlast til þess að stjórnendur taki ákvarðanir sem ganga gegn þeirra eigin hagsmunum.

Gagnvart foreldrum er staðan ekki ósvipuð: við getum ekki ætlast til að foreldrar berjist fyrir skipulagsbreytingum og raski. Langflestir foreldrar í Reykjavík eru ánægðir með grunnskólann og leikskólann sinn og hafa ekki nokkra ástæðu til að krefjast breytinga. Frumkvæði um slíkt verður að koma frá okkur. Breytingarnar eru í öllu falli miklu betri en flatur niðurskurður og hvað getur verið skynsamlegra en að spara í yfirstjórn og betri nýtingu húsnæðis, til að verja skólastarfið sjálft?

Ég er með öðrum orðum sammála Margréti Pálu um aðalatriðin: ég vil ekki miðstýra leikskólum, ég vil að stjórnendur beri ábyrgð á sínum skólum og hafi svigrúm til að nýta fé sitt sem best. Þær skipulagsbreytingar sem nú eru á borðinu eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa nægilega burðugar og sveigjanlegar einingar til að gera þetta mögulegt. Og Margrét Pála hefur viðurkennt að margir leikskólar í Reykjavík eru alltof litlir til að vera hagkvæmar einingar í rekstri og stjórnun. Hún mælti raunar með lokun þeirra í Silfrinu í gær, en það er sannarlega ekki á dagskrá.

Annað sem Margréti Pálu verður tíðrætt um er tekjutenging leikskólagjalda. Þá myndum við hækka gjaldið eftir tekjum foreldranna eftir einhverri formúlu með það fyrir augum að hækka heildartekjur af leikskólagjöldum án þess að þyngja byrðar foreldra að ráði. Við höfum skoðað þessa leið og erum enn að skoða hana, en hún er af ýmsum ástæðum furðu flókin í framkvæmd. Sumir óttast að með henni sé opnað á leið sem liggur á endanum til ójafnréttis og að í henni felist lúmskur ósigur fyrir alla þá sem hafa barist fyrir uppbyggingu frábærs leikskólakerfis fyrir allar fjölskyldur í borginni, óháð efnahag.

11 febrúar 2011

Það er hægt að verja gott skólastarf með endurskipulagningu

Eftir hrunið hafa skatttekjur borgarinnar dregist saman að núvirði um 20%. Núverandi borgarstjórn stóð frammi fyrir vanda upp á um 4.5 milljarða króna. Ekki bara vegna tekjufalls heldur líka vegna nýrra verkefna. Þau tengjast bæði neikvæðum afleiðingum hrunsins, sem er fjölgun fólks sem þarf á fjárhagsaðstoð borgarinnar að halda og meiri útgjöldum til velferðarmála.

Jákvæðu afleiðingarnar eru fjöldi nýrra barna sem auðvitað vilja komast í frábæra leikskóla borgarinnar.

4.5 milljarðar króna. Á þeim vanda þurfum við að taka og hann er ansi stór. Til samanburðar myndi fullnýting útsvars gefa okkur um 125 milljónir króna á þessu ári svo ekki kæmumst við langt á því. Við megum ekki taka háar fjárhæðir að láni til þess að reka borgina okkar og við megum ekki ganga á varasjóð borgarinnar. Þeir stjórnmálamenn sem halda öðru fram eru ekki að segja satt.

Hlífum eftir mætti

Rekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila heyrir undir þrjú svið sem taka til sín rúmlega 30 milljarða króna, rúmlega helming allra útgjalda borgarinnar. Við getum ekki varið óbreytt útgjöld til þessa málaflokks og látið allan niðurskurðinn lenda á hinum helmingnum. Við getum hlíft eftir mætti en það er óhugsandi að ekki verði einhver samdráttur í fjárhagsáætlun Menntasviðs, Leikskólasviðs og ÍTR á þessu ári og því næsta. Við munum spara í malbiki og steypu, í stjórnkerfi borgarinnar og á ótal öðrum sviðum, en það er ekki nóg. Við verðum líka að spara í skóla- og frístundastarfi barna.

Við þetta bætast þau ánægjulegu tíðindi að óvenjumargir borgarbúar hafa notað kreppuna til barneigna. Á næsta ári má búast við um 400 fleiri börnum inn í leikskólana en fara út í 1. bekk grunnskólans, 20% meira en árin á undan. Við þurfum því að fjölga leikskólaplássum á versta hugsanlega tíma.

Samhengi hlutanna

Þetta er staðan. Við munum bregðast við henni með því annars vegar að endurskipuleggja reksturinn, og hins vegar með hagræðingarkröfu á sviðin þrjú, frá 2,2% - 5% lækkun á framlagi til sviðanna. Endurskipulagningunni er ætlað að minnka þörfina á beinum niðurskurði og skapa skólakerfi sem er hagkvæmara en áður en að minnsta kosti jafngott og það sem við búum við í dag. Vönduð endurskipulagning er besta tækið sem við höfum til að verja sjálft starfið í skólunum okkar og tryggja hagsmuni barnanna sjálfra.

Þetta er það sem við meinum með því að forgangsraða í þágu barna og unglinga.

Það má gera skipulagsbreytingar

Allar fyrirhugaðar breytingar eru í fullu samræmi við lög frá 2008 um leik- og grunnskóla. Nýju lögin opnuðu á möguleikana á samrekstri skóla sem mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hafa nú nýtt sér. Markmið lagabreytinganna var skýrt; að efla skólana faglega og fjárhagslega, stuðla að samfellu milli skólastiga, hreyfanleika kennara milli skólastiga og auka möguleika á endurskipulagningu skólastarfs út frá hagkvæmni, fagstarfi og ávallt með hagsmuni barna og unglinga í huga.

Hvernig breytingar viljum við?

Allar breytingar á skipulagi skólastarfsins verða að hafa skýr markmið: Að draga úr húsnæðiskostnaði og þörf fyrir nýbyggingar, að minnka kostnað við stjórnun, að lækka ýmsa kostnaðarliði (mötuneyti o.fl.), og á sama tíma að efla – eða í það minnsta verja – skóla, leikskóla og frístundaheimili borgarinnar. Þetta er hægt að gera ef skynsemi og fagmennska fá að ráða för.

Húsnæðiskostnaður skóla er afar hár í Reykjavík og við nýtum skólahúsnæði ekki nógu vel. Sumsstaðar má flytja elstu nemendur leikskóla yfir í húsnæði grunnskólans á sömu lóð og fá þannig pláss fyrir nýju börnin án þess að byggja meira húsnæði. Annars staðar er rökrétt að sameina lítinn og stóran leikskóla og mynda hagkvæmari einingu með eitt mötuneyti og betri nýtingu starfsfólks. Enn annars staðar eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að sameina unglingadeildir grunnskóla og þannig mætti áfram telja. Þetta eru ekki breytingar breytinganna vegna, heldur viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu í hverfum, auknum kröfum um hagkvæmni og knýjandi þörf fyrir að nýta skólahúsnæði betur.

Tækifærin

Ég er sannfærð um að margar þeirra hugmynda sem nú eru til skoðunar eru til mikilla bóta, jafnt faglega sem fjárhagslega. Til dæmis gefa stærri unglingadeildir kost á fjölbreyttari faggreinakennslu, auðugra félagslífi og betri nýtingu fjármagns. Opnun leikskóladeilda í grunnskóla sparar verulegar fjárhæðir í nýbyggingum og gefur tækifæri til þróunar á samfellu skólastiganna og samspili við frístundastarf. Samþætting frístunda- og skólastarfs opnar á samstarf ólíkra fagstétta, kennara og frístundafræðinga, sem saman myndu skipuleggja skóladag yngstu barnanna út frá þörfum hvers og eins. Þarna eru ótvíræðir möguleikar til innihaldsríkari skóladags. Hér eru margir spennandi kostir sem spara til lengri tíma verulegar fjárhæðir sem nýta má í innra starf skólanna, börnin sjálf.

Hvað eru aðrir að gera?

Skólar hafa verið sameinaðir víða, líka í Reykjavík. Á síðasta ári voru sex leikskólar sameinaðir í þrjá, undir þremur stjórnendum. Í Kópavogi, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ hafa skólar verið sameinaðir á síðustu árum og fleiri sameiningar eru í farvatninu. Við sameiningu skóla taka stjórnendur á sig stærra hlutverk í stjórnun, og aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar takast á við meiri ábyrgð. Í Reykjavík eru margir litlir skólar, gjarnan nálægt hvor öðrum. Með sameiningu yfirstjórnar vinnur stærri hópur fagfólks saman, hægt er að nýta sérþekkingu í starfsmannahópnum fyrir stærri barnahóp, endurskipuleggja afleysingar, stjórnun, sérkennslu, mötuneyti og eldhús, innkaup og margt fleira sem stór skóli á auðveldara með en lítill. Þeir leikskólar sem við höfum sameinað nú þegar í Reykjavík styrkja okkur í vinnunni framundan og augljós tækifæri til betri nýtingar fjármagns eru til staðar.

Við eigum skólana saman

Lykillinn að farsælli innleiðingu nýs skóla er að starfsfólk og foreldrar taki þátt í og hafi áhrif á skipulag skólastarfsins, faglega stefnu hans og að ný stefna byggi á styrk hvors skóla fyrir sig. Ekkert bendir til þess að breytingar á borð við þessar hafi neikvæð áhrif á líðan barna í skólunum og þess verður ávallt gætt að nægilegur stuðningur verði til staðar fyrir nýja skóla til að breytingarnar gangi sem best fyrir sig.

Umdeilt samráð - en eina leiðin

Í starfshópnum var valin sú leið að eiga samtal við fulltrúa foreldra og starfsfólks í öllum skólum og frístundaheimilum. Samráðsferlið uppfyllir leikreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga um undirbúning samreksturs skóla, og gott betur. Alls hafa um 600 manns komið með beinum hætti að þessum undirbúningi, fulltrúar foreldra og starfsfólks, stjórnendur og starfsfólk sviðanna þriggja. Líklega verðum við seint öll sammála um hvernig best er haldið á undirbúningi slíkra breytinga og víst er að samráðsferlið getur alið á ótta og óöryggi. Ein leið hefði verið að ákveða allt á lokuðum fundi borgarráðs. Það viljum við ekki. Við viljum hlusta á öll sjónarmið og við viljum taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir. Þess vegna liggja nú fyrir á sjötta tug hugmynda sem verið er að fara í saumana á til að kanna hagkvæmni og faglegan ávinning eða áhættu. Í lokaskýrslu hópsins munum við velja það besta úr þessum tillögum, rökstyðja hvert skref sem við viljum stíga og gera ítarlega áætlun um innleiðingu.

Framtíðin

Leiðarljós starfshópsins hefur frá upphafi verið að standa vörð um faglegt starf, stækka og styrkja einingar svo betur megi nýta sameiginlega sjóði borgarbúa í skólastarfið sjálft. Það mun skila sér til komandi ára, sem verða þung í róðri fyrir sveitarfélög í landinu.

Það er rík nauðsyn á endurskipulagningu til framtíðar. Eingöngu þannig sköpum við svigrúm til að hlúa að frábæru skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.

02 febrúar 2011

Um tónlistarnám í Reykjavík

Hér er ræðan mín úr borgarstjórn í gær þegar rætt var um tónlistarnám í Reykjavík.

Nokkrum staðreyndum þarf að halda til haga í byrjun.

Við ætlum ekki að hætta að borga með öllum 16 ára og eldri næsta haust.

Við ætlum ekki að horfa upp á gamalgróna skóla, sem hafa skilað frábæru starfi og þjóðinni frábærum tónlistarmönnum, loka.

Við ætlum ekki að rústa tónlistarskólum í Reykjavík. Það er einfaldlega ekki á dagskrá.

Það sem er á dagskrá hjá okkur í borgarstjórn er að ákveða hvert við viljum fara með tónlistarfræðsluna, forgangsraða í þágu barna og ungmenna, setja upp einhvers konar aldursviðmið og ná samkomulagi við ráðherra mennta- og menningarmála um framtíðarskipulag tónlistarfræðslu þeirra sem eldri eru og komnir lengst. Það samkomulag er í vinnslu, er að taka jákvæða stefnu og það sem meira er um vert – er að þróast í þá átt að taka meira mið af forsendum tónlistarnámsins og sérstöðu þess.

Það er gott og því ber að fagna og ég hvet ykkur til að láta líka í ykkur heyra við ráðuneyti menntamála. Núverandi ráðherra er raunverulega og einlæglega áfram um að leysa þessi mál með sveitarfélögunum. Hún sat einu sinni í menntaráði í Reykjavík, og hún kann vel að meta gæði reykvískra tónlistarskóla. Það sem skiptir mestu máli fyrir slíkt samkomulag er að þá skiptir ekki lengur máli hvar á landinu efnilegt tónlistarfólk býr, landið verður eitt kjördæmi tónlistarnámslega séð. Það er einn aðalhvatinn að því að ríki og sveitarfélög standa í þessum viðræðum og hafa gert undanfarin sjö ár.

Allir flokkar í borgarstjórn samþykktu í lok ágúst að móta stefnu til framtíðar og gera þjónustusamninga á þeim grunni. Þeir samþykktu að forgangsraða í þágu barna og ungmenna og setja upp aldursviðmið. En á sama tíma samþykktum við aukafjárveitingu því fjárhagsáætlun var samþykkt fyrir 2010 án þess að gert væri ráð fyrir nemendum 16ára og eldri í þeirri von að ríkið kæmi að því verkefni og við vildum tryggja starfsemi tónlistarskóla og nám eldri nemenda fyrir skólaárið 2010-11.

Það er auðvitað hvorki borg né sveitarfélögum til sérstaks hróss að þetta hafi tekið svona langan tíma. Ég viðurkenni það fúslega. Það er óþolandi að tónlistarnám þeirra sem eldri eru sé í stöðugri óvissu. En ég er stolt af kollegum mínum í borgarráði og menntaráði að hafa samþykkt að bíða ekki lengur með að móta sínar áherslur, vinda sér í að móta stefnu borgarinnar og kalla til skólastjóra og kennara úr tónlistarskólum auk annarra úr tónlistargeiranum.

Vinna við stefnuna hefur staðið yfir síðan í september og hún er svo gott sem tilbúin. Að hluta til er þetta fagleg vinna og að hluta til pólitísk. Við gerðum könnun meðal tónlistarkennara um hvernig þeir sæu fyrir sér þróun tónlistarfræðslu í Reykjavík og við lögðum pólitískt mat á mikilvægi tónlistarkennslu í samfélaginu og stöðu tónlistarkennslu í þjónustuframboði borgarinnar. Stefna borgarinnar hefur verið kynnt skólastjórum tónlistarskólanna.

Niðurstaðan er ekkert sérstaklega róttæk stefna um tónlistarnám, en hún er leiðarljós um gæði, fjölbreytni, eftirlit, foreldrasamstarf, námsframvindu og að tónlistarskólar, eins og aðrir skólar borgarinnar, eigi að vera án aðgreiningar. Hún felur í sér virðingu fyrir mikilvægi tónlistarnáms og gæðum tónlistarskólanna. Hún stefnir að aukinni fjölbreytni í námsleiðum, auknu eftirliti af hálfu borgarinnar og auknum kröfum um námsframvindu nemenda.

Næsta skref er að setjast niður með tónlistarkennurum, skólastjórum og nemendum og átta okkur á því: Hvernig munu þjónustusamningar við tónlistarskóla í Reykjavík líta út, á grundvelli stefnunnar? Hvernig getum við, í sameiningu, komist í gegnum næsta vetur, þannig að við getum áfram borið höfuðið hátt, þrátt fyrir krappa stöðu borgarinnar og margvíslegar skyldur hennar gagnvart öllum íbúum sínum?

Tónlistarnemendur eru reiðir núna, og það skil ég, enda hefur umræðan um þennan niðurskurð verið allsvakaleg á köflum. En tónlistarmenn eru líka ákaflega róttækir og lausnamiðaðir. Ég hef fengið tugi tölvupósta með hugmyndum frá tónlistarfólki, kennurum og nemendum, gömlum og ungum, um leiðir til að nýta þessa viðkvæmu stöðu til að endurskipuleggja. Margir skólastjórar í okkar góða hópi skólastjóra eru framsæknir í hugsun, eru raunsæir og sjá fyrir sér breytingar af ýmsu tagi.

Nú þurfum við að setjast niður og skoða hvað vel er gert og hverju má breyta. Erum við á réttri leið með kerfið okkar eins og það er að öllu leyti? Eru skólarnir of margir? Þarf að kenna söng á svona mörgum stöðum í ekki stærri borg? Við hvaða aldur á að miða? Þessum spurningum geta nefnilega margir svarað því við höfum öll skoðun á þessu. Og við ættum að ná sameiginlegum skilningi á framhaldinu: Hver eiga markmiðin að vera og hvaða kröfur eigum við að gera um framvindu? Söngur hefur sérstöðu og sum hljóðfæri hafa sérstöðu, hvernig leysum við það af þekkingu og innsæi? Við eigum að geta komist að samkomulagi um svona hluti.

Hvernig getum við tryggt að börn, með ólíkar þarfir, geti sem flest komist í tæri við hljóðfæri og helst öll lært undirstöðuatriði í tónlist? Og hvernig getum við á sama tíma tryggt að börn sem sýna framfarir fái notið sín og blómstrað?

Ég lærði sjálf á píanó í tónlistarskólum í Reykjavík í 15 ár og kláraði mitt framhaldsnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég þekki styrkleika okkar kerfis ákaflega vel, en ég þekki líka veikleikana og er óhrædd við að ávarpa hvort tveggja. Styrkleikana og veikleikana þurfum við að ræða í sameiningu og við verðum að vilja ræða saman. Við eigum þessa skóla nefnilega saman. Jú, þeir eru vissulega sjálfstæðar stofnanir en borgin greiðir launin fyrir kennsluna.

Við getum ekki án skólanna verið og þeir geta ekki án okkar verið.

Of lengi hefur þetta samband einkennst af tortryggni og tali um peninga, eingöngu. Ég er ekki sátt við það. Mér finnst eðlilegt að borgarfulltrúar sem sitja inni í þessum sal, hafi á því sterka skoðun hvernig tónlistarskólar mæta þörfum barna og unglinga í Reykjavík. Við eigum að hafa skoðun á þessum málum – annars værum við ekki starfi okkar vaxin og værum ekki að standa okkur sem fulltrúar og talsmenn allra íbúa Reykjavíkur.

Ég þekki aðalnámskrá fyrir tónlistarnám vel, las hana samviskusamlega þegar ég var í píanókennaranáminu. Þar er talað um að tónlistarnám eigi að fullnægja eftirfarandi markmiðum: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. Skólar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt, kennarar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt. Það er allt í lagi því hver hefur sinn stíl, en það er spennandi umræða að taka með skapandi hópi fólks: Hvað einkennir tónlistarfræðslu í Reykjavík?

Er hún kannski að einhverju leyti meira að einblína á leikni- og skilningsmarkmiðin en þau samfélagslegu? Hvað kemur barni til manns, eflir sjálfstraust þess og virðingu fyrir hinu smáa, fallega, óútskýranlega og dásamlega? Er það að upplifa þá nánd og þá nautn sem það er að koma saman með frábærum kennara og mússísera, einn og með öðrum? Er það einfaldlega þroskandi ferli að eiga samskipti við aðra í gegnum tónlist, koma fram á tónleikum, rétta úr sér, á eiginlegan og óeiginlegan hátt? Eða skiptir öllu máli að komast í gegnum ákveðinn bunka af lögum og tónstigum og ná framförum?

Hentar það sama öllum? Getum við haldið í frábæran árangur en spurt: Hvert er markmið tónlistarfræðslunnar? Eiga öll börn að fá grunnmenntun í tónlist? Ætlum við að framleiða hlustendur? Ætlum við að mennta afburðartónlistarfólk? Getum við farið einhvern milliveg?

Óvissa er erfitt ástand. Nú erum við á tímamótum með mjög margt í skólakerfinu. Við erum að skoða tækifæri til sameiningar, auðvitað til að spara – við felum það ekki – en líka til að endurskoða margt og gera jafnvel betur. Við reynum að vinna hratt og vel því óvissan tekur á fyrir stjórnendurna okkar, nemendur, foreldra og kennara. Og við megum engan tíma missa því það verður æ erfiðara að standa vörð um grunnskólann og leikskólann þegar svo mikið fjármagn fer í yfirbyggingu, hvort sem það er húsnæði, mötuneytin eða stjórnun. Sameiningar í skólakerfinu þýða að við felum færri stjórnendum stærri verkefni, þær þýða ótal tækifæri til að gera hlutina betur, nýta betur húsnæði, starfsfólk með dýrmæta sérhæfingu og svona mætti lengi telja.
Þessa umræðu þurfum við líka að taka um tónlistarskólana, hispurslaust og án allrar viðkvæmni.

Það er líka annað sem við þurfum að hafa í huga, og það eru aðstæðurnar sem gerðu það að verkum að þið eruð hér á pöllunum í dag og margir, eflaust allir í þjóðfélaginu eru uggandi um næstu misseri. Við búum við breyttar aðstæður. Við vitum að biðlistarnir töldu yfir þúsund nemendur þegar mest var. Nú er staðan allt önnur. Og auðvitað finna skólastjórar tónlistarskóla fyrir því að foreldrar draga börn sín úr tónlistarnámi vegna minnkandi tekna. Það ætti að gefa okkur enn ríkara tækifæri til að setjast niður og ræða þessi mál í sameiningu, nú þegar liggur fyrir á næstu vikum að ganga til samstarfs um næsta vetur.

Það er auðvitað grátlegt að þurfa að minnka framlög til tónlistarskóla og grunnskóla – en við verðum að horfa raunsæjum augum á leiðirnar, kostina og aðferðirnar.

Það hefur í umræðunni verið hent á lofti að íþróttirnar séu frekar til fjörsins og taki til sín allt fjármagn sem fer til tómstunda barna. Því geta aðrir svarað, m.a. formaður ÍTR, borgarfulltrúi Eva Einarsdóttir, og það er að mörgu leyti holl umræða, sérstaklega þegar við skoðum fjármagnið sem hefur farið í uppbyggingu á ýmsum mannvirkjum. Þar er margt sem við getum lært af, við Íslendingar. Annað mannvirki sem er nokkuð frekt til fjörsins stendur hér niður við höfn og verður senn opnað. Tónlistarfólk bað um gott tónlistarhús og hafði gert lengi um áratuga skeið, en ég held að enginn úr þeirra röðum hafi heimtað þessi fínheit, þennan íburð og þessa stærð. Af biturri reynslu munum við vonandi öll læra að innihaldið skiptir meira máli en ytra byrði.

Og tónlistarfólk hefur spurt af hverju niðurskurður sé meiri til tónlistarskóla en t.d. leik- og grunnskóla. Við sem berum ábyrgð á allri starfsemi borgarinnar þurfum mjög oft að velja. Valið er oft erfitt en ég get vel varið það, eins mikið og mér er annt um hag tónlistarskóla í Reykjavík, að við reynum af öllum mætti að hlífa grunnskólakerfinu okkar. Við gátum valið að hlífa tónlistarskólum við niðurskurði en skera harkalegar niður í grunnskólum. Það gat ég ekki gert. Þar fá öll börn tækifæri til að þroska sig, mennta sig og njóta sinna styrkleika, það hlýtur að ganga fyrir. Leik- og grunnskólarnir eru að mínu mati mikilvægasta grunnþjónusta borgarinnar og við það stend ég.

Ég fagna allri umræðu um uppbyggilegt tómstundaframboð fyrir börn og ungmenni, sem byggir á styrkleikum hvers og eins, ekki eingöngu afreksmiðun og heldur ekki stefnuleysi, hvað þá metnaðarleysi. Við munum ná lendingu með ráðherra um framtíðarskipan tónlistarmála, ég er sannfærð um það. Næstu vikur og mánuði nýtum við til að setjast niður með þeim skólum sem vilja vera í samstarfi við borgina næstu árin, á grundvelli nýrra þjónustusamninga sem hvíla á nýrri stefnu og samþykkt borgarinnar. Öll él birtir upp um síðir – þó útlitið geti verið dökkt um stundarsakir.

Ég hlakka til að vinna með ykkur, ég hlakka til að sjá afrakstur allra þessara viðkvæmu ákvarðanna sem við erum að taka á öllum vígstöðvum hjá borginni svo við getum í framtíðinni varið peningum úr okkar sameiginlegu sjóðum í innihald, metnað, fegurð og raunveruleg gæði.