Sú mæta skólakona, Margrét Pála Ólafsdóttir var í Silfrinu í gær og útvarpinu í morgun. Ég komst því miður ekki til að hitta hana hjá Agli en þakka henni fyrir yfirvegað innlegg í umræðu þar sem upphrópanir gera meira ógagn en gagn.
Margrét Pála hefur gagnrýnt okkur fyrir að vilja miðstýra skipulagsbreytingum og hagræðingu í leikskólunum um of. Hún vill að við gerum hagræðingarkröfu á hvern skóla fyrir sig og látum þá svo ,,finna út úr því". Ég er sammála henni svo langt sem það nær: eitt helsta hlutverk stjórnenda í leikskólum er vissulega að nýta fjármagn eins vel og kostur er. Til þess þurfa stjórnendur svigrúm og frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í samráði við foreldra og fræðsluyfirvöld.
Nú erum við hins vegar að gera skipulagsbreytingar sem fela í mörgum tilfellum í sér verulegar breytingar á högum stjórnendanna sjálfra. Við erum að stækka einingar í leikskólakerfinu til að skapa sterkari og sveigjanlegri leikskóla sem eiga fleiri og betri valkosti í stjórnun. Við erum að spara í yfirstjórn og við getum hreinlega ekki ætlast til þess að stjórnendur taki ákvarðanir sem ganga gegn þeirra eigin hagsmunum.
Gagnvart foreldrum er staðan ekki ósvipuð: við getum ekki ætlast til að foreldrar berjist fyrir skipulagsbreytingum og raski. Langflestir foreldrar í Reykjavík eru ánægðir með grunnskólann og leikskólann sinn og hafa ekki nokkra ástæðu til að krefjast breytinga. Frumkvæði um slíkt verður að koma frá okkur. Breytingarnar eru í öllu falli miklu betri en flatur niðurskurður og hvað getur verið skynsamlegra en að spara í yfirstjórn og betri nýtingu húsnæðis, til að verja skólastarfið sjálft?
Ég er með öðrum orðum sammála Margréti Pálu um aðalatriðin: ég vil ekki miðstýra leikskólum, ég vil að stjórnendur beri ábyrgð á sínum skólum og hafi svigrúm til að nýta fé sitt sem best. Þær skipulagsbreytingar sem nú eru á borðinu eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa nægilega burðugar og sveigjanlegar einingar til að gera þetta mögulegt. Og Margrét Pála hefur viðurkennt að margir leikskólar í Reykjavík eru alltof litlir til að vera hagkvæmar einingar í rekstri og stjórnun. Hún mælti raunar með lokun þeirra í Silfrinu í gær, en það er sannarlega ekki á dagskrá.
Annað sem Margréti Pálu verður tíðrætt um er tekjutenging leikskólagjalda. Þá myndum við hækka gjaldið eftir tekjum foreldranna eftir einhverri formúlu með það fyrir augum að hækka heildartekjur af leikskólagjöldum án þess að þyngja byrðar foreldra að ráði. Við höfum skoðað þessa leið og erum enn að skoða hana, en hún er af ýmsum ástæðum furðu flókin í framkvæmd. Sumir óttast að með henni sé opnað á leið sem liggur á endanum til ójafnréttis og að í henni felist lúmskur ósigur fyrir alla þá sem hafa barist fyrir uppbyggingu frábærs leikskólakerfis fyrir allar fjölskyldur í borginni, óháð efnahag.
22 mars 2011
Rétt og rangt hjá Margréti Pálu
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Mér sýnast vera svona 25 áskoranir hérna gegn ykkur frá grunn og leikskólum að finna hérna:
Börn.is.
Ég las viðtalið við Jón í DV um helgina og sá að hann hafði enga sérstaka löngun til að halda áfram í pólitík.
Hvað með þig?
Mér sýnist að verið sé að leggja til góða hluti í skipulagi skólamála í Reykjavík. Minnihlutinn kyndir skart undir þeirr óánægju sem upp kemur ætíð við svona breytingar. Skólar virka á mig eins og heilagar kýr sem ekki megi hrófla við á nokkurn hátt. Dáist að ykkur og hvet ykkur til að standa við ykkar plön.
Margir eru til í að hagræða, endurskipuleggja reksturinn og spara til að ná endum saman. Nema bara ekki hjá sér. . . . . . !
Kjartan, ég held að margir séu tilbúnir að spara en það þarf þá að vera raunverulegur sparnaður.
Hvaða sparnaður er að segja upp húsnæði sem borgin á nú þegar. Ætlar borgin að selja stakar skólastofur?
Miðað við framsetningu þína hér þá er búið að ákveða að keyra þær sameiningar í gegn sem eru tilgreindar í skýrslu starfshópsins. Það eru þá sömu sameiningar og sem er búið að leita umsagna hjá foreldraráðum og foreldrafélögum vegna. Það er vert að benda á það hér að skilafrestur vegna þeirra umsagna er ekki liðinn. Er þá bara verið að leita umsagna til að geta sagst hafa haft samráð við foreldra? Þetta lítur allavega þannig út.
Þú verður að fyrirgefa Oddný en ég get ekki séð annað en það að þú sért að segja að leikskólastjórnendur annars vegar og foreldrar hins vegar séu of nátengdir þessu máli til að geta lagt neitt til málanna. Ef þetta er skoðun borgarstjórnarmeirihlutans af hverju er þá verið að halda því fram að sameiningarnar eigi að vera gerðar í sátt og samlyndi við þessa tvo hópa? Kristallast ekki í þessu það "sýndarsamráð" sem hefur verið gagnrýnt svo mjög af þeim sem hagsmuna eiga að gæta?
Mín skoðun er allavega sú að í þessum pistli endurspeglist sá vandi sem uppi er. Vandinn virðist vera sá, og undir það hafa fjölmargir tekið sem ég hef rætt þetta mál við, að formaður menntaráðs veit best. Miðað við skrif þín hér er ástæðan fyrir því sú að hagmunaaðilarnir í málinu(stjórnendur, starfsfólk, foreldrar) eru allt of nátengdir málinu, já allt of ánægðir með núverandi fyrirkomulag, til að geta haft vitrænar skoðanir á því sem má hugsanlega breyta.
Þetta kallast yfirlæti á góðri íslensku.
kv.
Ómar
Þetta er ekki yfirlæti og nei, það er ekki búið að "keyra sameiningarnar í gegn" og nei, þetta er ekkert sýndarsamráð. Ég stend hins vegar með tillögum starfshópsins af því að ég er sannfærð um að þær eru langbesta leiðin sem við höfum til að verja skólastarfið á erfiðum tímum.
Ég mun skoða allar athugasemdir vandlega og ef betri leið finnst til að ná þeim sparnaði sem við þurfum að ná skal ég svo sannarlega velja hana!
Ég held því alls ekki fram að stjórnendur hafi ekkert til málanna að leggja. Þvert á móti, þeir munu gegna lykilhlutverki í þessum aðgerðum eins og áður. Ég bendi einungis á að í þessari hagræðingarumferð erum við að gera breytingar á skipulagi ýmissa leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og að þær breytingar snerta óhjákvæmilega hagsmuni stjórnendanna sjálfra. Þess vegna get ég ekki ætlast til að frumkvæðið komi frá þeim, þó ég ætlist að sjálfsögðu til að stjórnendur í skólakerfinu leggi sig fram af fagmennsku og krafti nú sem fyrr og taki fullan þátt í því starfi sem framundan er.
Ástæðan fyrir þessum aðgerðum nú er í rauninni þríþætt: í fyrsta lagi sló síðasti meirihluti allri raunverulegri endurskipulagningu á frest (enda eru þetta óvinsælar aðgerðir eins og við sjáum ljóslega núna). Í öðru lagi náði síðasti meirihluti (með stuðningi okkar í minnihlutanum) talsverðum árangri í hagræðingu án endurskipulagngar - þar er ekki mikið meira að hafa að okkar mati.
Í þriðja lagi eru þessar aðgerðir að okkar mati faglega áhugaverðar og til bóta, án tillits til sparnaðarins sem af þeim hlýst.
Ég þykist ekki vita best, en það er á mína ábyrgð, okkar í Menntaráði og fólksins í miðlægu stjórnsýslunni að gera þær skipulagsbreytingar sem þarf til að kerfið verði skilvirkara, hagkvæmara og betra.
Undan þeirri ábyrgð skorast ég ekki.
Kveðja, Oddný.
Oddný þú stendur þig vel við erfiðar aðstæður og færir góð rök fyrir máli þínu.
Allt virðist vera gert til að niðurskurðurinn komi sem minnst niður á börnunum. Þeir sem gagnrýna hvað harðast koma ekki með neinar lausnir en segja samt að það sé hægt skera niður annarstaðar án þess að svara hvar og hverju það skilar.
Auðvitað er það skiljanlegt að þeir sem missa yfirmannastöður séu sárir og einnig er það eðli mannsins að hræðast óvissuna sem skapast við breytingar, en breytingar eru stundum nauðsynlegar og geta verið til góðs þegar fram í sækir eins og mig grunar að verði í þessu tilfelli.
Með kv., Garðar Garðarsson.
Oddný, þakka þér svarið.
Mig langar að benda þér á ritið Sameining ríkisstofnana og það sem þar kemur fram um hvernig haga eigi sameiningu stofanna. Samband íslenskra sveitarfélaga vísar til þessa rits í leiðbeiningum sínum til rekstraraðila samrekinna leik-, grunn- og tónlistarskóla. Þar kemur fram að erlendar rannsóknir, sem gerð er nánari grein fyrir í ritinu, bendi til þess að sameiningar og aðrar meiriháttar breytingar skili sjaldan þeim árangri sem vonast er eftir eða í undir 15% tilvika. Helstu ástæður eru sagðar þessar:
• Markmið og framtíðarsýn eru ekki nógu skýr eða ekki útskýrð nógu vel.
• Fjárhagsleg samlegð er ofmetin.
• Undirbúningi og skipulagningu er áfátt.
• Ekki tekst að kveikja nægan áhuga á sameiningunni.
• Starfsmannamálum er ekki sinnt nógu vel.
• Breytingastarfið lognast út af áður en því er lokið.
Hvað telur þú að mörg ofangreindra atriða eigi við um þá takmörkuðu undirbúningsvinnu sem meirihlutinn hefur lagt í fyrirhugaðar sameiningar?
Ef 15% þeirra sameinga sem lagt er af stað með skila þeim árangri sem til er ætlast er sparnaður af fyrirhuguðum sameiningaráformum sáralítill.
Þykir þér það réttlætanlegt hlutfall með öllum þeim fórnarkostnaði sem mun falla til við framgang þessa máls, þ.á m. líklegur starfsmannaflótti?
kv.
Ómar
Skrifa ummæli