28 mars 2011

Hvað kostar leikskólaplássið?

Reykvíkingar hafa verið að kalla eftir raunkostnaði við leikskólaplássið. Hér eru allar upplýsingar um það.

Ekki vita allir að hvert leikskólabarn kostar að meðaltali 1,4 milljón á ári. Hlutur foreldra (leikskólagjöldin) er að meðaltali rúmlega 200.000 krónur á ári. Ég er stolt af því að hafa forgangsraðað í þágu stærsta árgangs Íslandssögunnar (börn fædd 2009). Það útheimtir mikla fjármuni og þess vegna þarf að hagræða á móti.

Í haust fara 1500 börn í 1. bekk, börn fædd 2005. Börnin sem verða tveggja ára á árinu - og þurfa leikskólapláss - eru langtum fleiri, eða á milli 1800-1900 talsins.

Þessi meirihluti forgangsraðaði í þeirra þágu. Þessi meirihluti jók framlög til Leikskólasviðs um 658 milljónir króna á milli ára við gerð síðustu fjárhagsáætlunar. Stór hluti þeirrar viðbótar er til að koma til móts við þennan stóra árgang. Okkur sem stjórnum í Reykjavík fannst óhugsandi að færa leikskólaþjónustuna aftur til þess sem Reykvíkingar þekktu áður en Reykjavíkurlistinn kom til sögunnar. Árið 1994 komust börn inn á leikskóla rúmlega þriggja ára - og í boði var vistun hálfan daginn fyrir hjón.

Í dag treysta reykvískar fjölskyldur á þjónustu leikskólanna, enda eru þeir frábærir og metnaðarfullir. Hagræðingaraðgerðir sem við erum með í undirbúningi núna snúa að sparnaði í yfirstjórn og tengdum þáttum. Áfram verða börn í sínum leikskólum, litlum og stórum, á leikskóladeildinni sem þau þekkja, með starfsfólki sem þau treysta. Yfirstjórnin verður sameiginleg og við treystum okkar öflugu leikskólastjórum vel til þess að takast á við stærri verkefni.

Ég myndi aldrei láta það gerast á minni vakt að börn fái fyrst leikskólapláss þriggja ára, hvað þá á fjórða ári. En til þess að ná því markmiði þarf að hagræða.

Því öll þjónusta kostar fjármuni - og það er snúið að fjölga leikskólaplássum á meðan borgin tapar tekjum og þarf að sníða sér stakk eftir vexti.

Aðrir flokkar í borgarstjórn voru með aðrar lausnir í huga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að leikskólapláss fyrir svona stóran árgang sé allt of ,,dýr lausn". Frekar ætti að borga foreldrum heimgreiðslur (20.000 krónur) og hvetja þá til þess að redda sér sjálfir með vistun fyrir ung börn sín.

Það er vissulega sparnaður. En það er einfaldlega ekki boðlegt. Og mikið er ég glöð fyrir hönd reykvískra smábarnaforeldra að sú ,,lausn" leit aldrei dagsins ljós.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

En hvað um að tekjutengja leikskólagjöld?
Hvað um að sameina yfirstjórnir þeirra skóla sem hafa mótað sér líka menningu, starfshætti og stefnu en hafa ekki bara landfræðilega nálægð að leiðarljósi. Skólar hafa síðustu áratugi þróað sína skólastefnu sem er að mörgu leyti mjög ólík innbyrðis og sameinging skóla sem eru mjög ólíkir endar bara í katastrófíu. Hvað um að beita aðferðum í samræmingu aðfanga að einhverju leyti. Hvað um að gera skólana sjálfa, starfsmenn þeirra og foreldra ábyrga fyrir að finna leiðir að sparnaðarmarkmiðum? Hvað um að stinga upp á að kennarar sem eru svo heppnir að hafa "þægilegar" bekkjardeildir eða leikskóladeildir finni leiðir til að hafa færri starfsmenn eða fjölga í barnahópi. Hvað um að hvetja til að finna nýjar leiðir til sparnaðar, þannig gæti það verið hluti af heimilisfræðikennslu, bæði í leik og grunnskólum að baka allt brauð, þrífa húsgögn og fleira í þeim dúr? Það er uppbyggilegt. Hvað um aukið foreldraframlag? Það er ótal margt hægt að gera til að spara ef fólk lofar sér að hugsa út fyrir rammann. Ég vona að ykkur gangi vel en mér sýnist þetta gert í flaustri.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki mikið sem bendir til þess að þetta séu vel ígrundaðar aðgerðir.

Kostnaður við "leikskóla" annars vegar og kostnaður vegna "Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar" hinsvegar eru tveir skildir en ólíkir þættir.

Umtalsverður hluti heildar kostnaðar virðist tengjast þáttum sem liggja fyrir utan veggi hins einstaka leikskóla. --Má ekki leggja stóra hluta miðlægrar stjórnunar af? (manni virðist einhver miðlæg skrifstofa og tölvudeild fá ansi stórar summur - er þörf á þessu?).

Nafnlaus sagði...

Þegar ég var með börn í leikskóla á níunda áratugnum var vonlaust fyrir hjón að fá heilsdagspláss. Ég neyddist því til að vinna hálft starf þó ég hefði í raun ekki efni á því fjárhagslega. Launin mín dugðu ekki fyrir dagmömmu. Í dag er ég þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma með þeim því hann kemur aldrei aftur. Þetta er þó ósanngjarnt með tilliti til jafnræðis foreldra gagnvart börnum og vinnu. En í atvinnuleysi kreppunnar væri þá ekki vert að stytta vinnudaginn, bæði hjá börnum foreldrum og öðrum?

Nafnlaus sagði...

"Áfram verða börn í sínum leikskólum, litlum og stórum, á leikskóladeildinni sem þau þekkja, með starfsfólki sem þau treysta."

Hvernig getur þú verið viss um það? Þú hefur margoft sagt það sjálf að það verði undir nýjum stjórnendum komið hvernig þeir skipuleggja sína skóla þegar þeir taka við?

Katla Stefánsdóttir

Þorbjörg Helga sagði...

Það er ótrúleg vörn Oddný að tala hér eins og við í Sjálfstæðisflokknum viljum ekki kosta til leikskólapláss. Þú velur vonandi aðra smjörklípu í framtíðinni því hvergi hefur neitt þessu líkt verið sett svona fram. Og ef svo væri hefðum við væntanlega ekki tryggt 2008 árgangnum leikskólapláss eins og við gerðum!

Ég vakti hins vegar athygli á því að sameiningar og samrekstursumræðan sé of mikið keyrð áfram út af stórum árgangi barna 2009.

Það er hins vegar búið að vera mikil umræða frá því að ég bað um að raunkostnaður við leikskóladvöl væri gerður opinber um hver kostnaðarhlutdeild foreldra eigi að vera. Ég fagna því að þú vekjir athygli á þessu hér. Foreldrar eru meira að segja farnir að velta vöngum yfir þessu sjálfir. Sumir segja tekjutenging, en við skoðuðum það líka manstu Oddný árið 2009.

Rök okkar hafa snúið að því að þjónustutrygging/heimgreiðslan sem hafði lækkað mikið frá efnahagshruni þyrfti að halda áfram, einmitt til að foreldrar sem hefðu ekki dagforeldra né leikskólapláss gætu haft eitthvað úrræði, eitthvað á milli handanna til að borga þriðja aðila fyrir aðstoð.

Ég veit ekki betur en að hundruðir foreldra séu núna ekki með neitt úrræði og ég hlakka og fagna því ef öll 2009 börn komast inn í leikskóla í haust. Allt annað er útúrsnúningur.

kveðja,
Þorbjörg Helga

Nafnlaus sagði...

En hvað um að tekjutengja leikskólagjöld?.

Er það ekkert skrítið í þrepaskiptu skattkerfi - þá við eitthvað mark ferðu beinlínis að tapa á því að vinna meira?

Annars er framlag foreldra náttúrulega miklu hærra en kr. 200.000. Þetta fólk borgar útsvar.

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Haldið ykkar striki og afsannið allan hræðsluáróðurinn