23 mars 2011

Viljum við breytingar eða flatan niðurskurð?

Tillögur til breytinga á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík eru nú í umsagnarferli. Tillögurnar snúa að sameiningu í yfirstjórn nokkurra grunnskóla og leikskóla og sameiginlegri yfirstjórn frístundaheimila og grunnskóla. Eins eru tillögur sem snúa að breyttri aldursskiptingu, stækkun unglingadeilda og tvær tillögur snúa að sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundar.

Breytingar í leikskólum

Tillögur okkar kalla á breytingar og þær skila líka dýrmætri hagræðingu. Margar þeirra eiga sér forsögu, t.d. hafa sameiningar í yfirstjórn leikskóla verið í umræðunni frá 2008. Í Reykjavík eru margir litlir leikskólar og einnig er algengt að tveir leikskólar standi bókstaflega á sömu lóð. Fjöldi barna á hvern stjórnanda í leikskólum Reykjavíkur er langt undir meðaltali. Reykjavík hefur sameinað leikskóla og önnur sveitarfélög hafa sameinað leikskóla. Það hefur gengið vel. Áfram verður hægt að bjóða öllum stjórnendum störf áfram á leikskólum borgarinnar.

Allir aðrir hagræðingarkostir voru taldir verri á leikskólunum. Það hefði mátt skerða kjör þeirra sem lægst hafa launin eða fjölga börnum á hvern starfsmann. Það hefði mátt lengja biðlistana og gefast upp fyrir því verkefni haustsins að fjölga leikskólaplássum fyrir stærsta árgang Íslandssögunnar. Við vildum ekkert af þessu. Við mættum hagræðingu á Leikskólasviði með afnámi heimgreiðslna og endurskipulagningu í stjórnun leikskóla. Ekkert verður skorið niður í innra starfi leikskólanna, ekki neitt. Tæplega 500 milljónum var bætt í ramma Leikskólasviðs til að koma til móts við yngstu Reykvíkingana.

Þetta er skýr forgangsröðun í þágu leikskólastarfs og fjölskyldna í borginni.

10-15 börn í árgangi?

Borgin er að sligast undan leigukostnaði vegna slæmrar nýtingar húsnæðis grunnskóla. Í sumum hverfum eru hins vegar skólar að springa svo þörf er á viðbyggingum. Við höfum byggt fína og dýra skóla, svo eldast hverfin og yngjast á víxl, skólarnir eru hálftómir eða sneisafullir. Við getum ekki haldið áfram að byggja í hvert skipti sem nemendum fjölgar til þess eins að sitja uppi með hálftómt skólahúsnæði fáum árum seinna. Við verðum að endurskipuleggja. Það mun að sjálfsögðu hafa rask í för með sér fyrir börn og foreldra, en nú þegar Reykjavíkurborg hagræðir þriðja árið í röð verðum við að horfast í augu við staðreyndir. Sums staðar er fækkun barna farin að há skólastarfi og félagslífi barna og unglinga.
Tíu börn í árgangi, er það gott fyrir skólastarf?

Ef börn hefja skólagöngu í Hagaskóla ári fyrr má spara verulegar fjárhæðir í stofnkostnaði bygginga og tilheyrandi leigu til framtíðar. Með nýjum lausnum má finna öllum nýju leikskólabörnunum sem fæddust 2009 og 2010 stað í leikskóla, án þess að taka eina skóflustungu. Þannig spörum við um 700 milljónir í stofnkostnað. Slíkar lausnir og margar fleiri blasa við en það þarf kjark til breytinga. Og breytingar mæta oft áhyggjum og andstöðu. Það er ekkert skrýtið því þær snerta börnin okkar. Það er þó ágætt að rifja upp að margar óvinsælar aðgerðir sem fræðsluyfirvöld hafa ráðist í í gegnum tíðina hafa reynst afar vel.

Og fæstir vilja fara til baka.

Frístundastarf

Í dag koma fjölmargir að námi og frístundastarfi 6-9 ára barna. Kennarar og annað starfsfólk skóla, tómstunda- frístunda- og félagsmálafræðingar. Við getum nýtt fjármagn og mannauð betur með því að horfa á skóla- og frístundadag barna sem eina heild. Þetta eru sömu börnin, fyrir og eftir hádegi. Núna verjum við fjármagni til sérkennslu á tveimur stöðum, við kaupum inn og skipuleggjum starf með sömu börnum á tveimur stöðum. Höfum við efni á því? Er það betra fyrir börnin? Er ekki lag að nýta kraftinn úr frábæru frístundastarfi börnum til góða allan daginn? Við leggjum til að í a.m.k. einu hverfi verði gerð tilraun með samþættan skóla- og frístundadag yngstu barna.

Samráð

Samráð okkar við foreldra og starfsfólk hefur mætt mikilli gagnrýni sem er að mestu ómakleg. Á frumstigum vinnu starfshóps um greiningu tækifæra var tekið einstaklingsviðtal við alla stjórnendur í leikskólum, grunnskólum og frístund. Því næst var fundað með öllum kjörnum fulltrúum foreldra og starfsfólks í hverjum einasta skóla og frístundaheimili til að greina tækifæri í hverju hverfi. Rýnihópar, frekara stjórnendasamráð og loks ótal fundir með foreldrum og starfsfólki um alla borg. Ótrúlega margar ábendingar komu fram, einnig áhyggjur sem og róttækar og djarfar hugmyndir. Og margir vilja engu breyta.

Eitt er víst. Við myndum aldrei fara út í þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum nema nauðsyn krefði, fagleg jafnt sem fjárhagsleg. Okkur þykir vænt um skólana okkar og við óttumst breytingar. Ég óttast þó meira aðgerðarleysi og óábyrga meðferð fjármuna. Það er einfaldlega ekki í boði að gera ekki neitt. Ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga munu 3-400 milljónir króna sparast árlega og vel á annan milljarð ef stofnkostnaður við nýbyggingar er tekinn með í reikninginn. Það er ekki lítið.

Breytingar á yfirstjórn og skipulagi skólastarfs verða ávallt viðkvæmar. En fjárhagur borgarinnar er líka viðkvæmur og á honum berum við sameiginlega ábyrgð. Næstu ár verða mögur og við neyðumst til að hagræða. Það er börnum borgarinnar fyrir bestu að við förum vel með fjármuni, nýtum allt húsnæði borgarinnar til fullnustu og lækkum kostnað við yfirstjórn eins og kostur er.

Einungis þannig getum við komið í veg fyrir flatan niðurskurð í skólastarfinu sjálfu.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Breytingar.

Uppskurður þyrfti að vera mun meiri.

Draga þarf úr miðstýringu menntasviðsins og íþyngjandi afskiptum þess með tilheyrandi fundafargani og skýrslugerð.

Aukum sjálfstæðin skólanna.

Þannig má líka spara mikið fé.

Nafnlaus sagði...

Þú segir "Við myndum aldrei fara út í þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum nema nauðsyn krefði, fagleg jafnt sem fjárhagsleg." Nú stendur fyrir dyrum að sameina leikskólann sem dóttir mín er í öðrum leikskóla. Á leikskóla dóttur minnar er allt starf til fyrirmyndar, þar er frábært starfsfólk sem er ánægt (eða var í það minnsta áður en hringlandaháttur með framtíð þeirra byrjaði) og allur aðbúnaður, faglegt starf og umönnun til fyrirmyndar. Í ljósi þessa langar mig að spyrja þig að því hver sé hina faglega nauðsyn á því að sameina þennan skóla öðrum skóla, sem er rekinn eftir annarri kennslustefnu?

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný. Það kemur alltaf betur og betur í ljós að borgarstjóri Reykjavíkur þessa stundina er trúður. Gerir þú þér grein fyrir því að með því að starfa með trúðum "Besta flokksins" ert þú og Samfylkingin að taka á ykkur ábyrgð á því að hafa okkur borgarana í Reykjavík að fíflum? Ég hefði til skamms tíma litið væst annars af þér enda hafði ég væntingar til þín fyrir síðustu kosningar. Bestu kveðjur, Heiða

Hólmfríður Bjarnadóttir sagði...

Dáist að þér duglega kona - þú sýnir framsýna og skipulagða hugsun - áfram Oddný

Nafnlaus sagði...

Takk Oddný fyrir góða greinargerð á fyrirhugaðri hagræðingu.

Nú verður spennandi að sjá hvernig fjölmiðlar bregðast við þessum góðu skýringum og rökum. Hingað til hafa fjölmiðlar hlaupið eftir allri gagnrýni og látið kranablaðamennsku buna á almenning án þess að skoða málin til hlítar og fá svör hvort til séu betri sparnaðarleiðir og þá hverjar og hverju þær myndu skila.

Kveðja, Garðar Garðarsson.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist menntasvið borgarinnar með Oddný í broddi fylkingar færa mjög góð rök fyrir máli sínu. Auðvitað mun þetta hafa áhrif á litla skóla/leikskóla sem nú eru forréttindi. En slíkum litlum einingum fylgja líka gallar. Annars vegar fylgir smæð skortur á sérhæfingu og hins vegar eru slíkar eininga dýrar í rekstri. Þetta verða Reykvíkingar að horfast í augu við. Við rekum mjög dýrt grunnskólakerfi, það gengur ekki endalaust að loka augum fyrir því meðan allt annað er skorið niður. Heilbrigðismál og háskólar, sem hvoru tveggja eru hlutfallslaga ódýrar einingar hjá okkur eru búinn að taka á sig mun meiri niðurskurð.
Ómaklegar árásir á Besta flokkinn eru ákaflega ómálefnalegar - hann virðist koma sem ferskur andblær inn í stjórnmál og tekur faglega við hörmulegu búi. Nú þegar er hann búinn að taka myndarlega til í rústum orkuveitunnar og nú að fara faglega undir forystu Oddnýjar (og samfylkingar) í gegnum erfiðan niðurskurð í viðkvæmum málaflokki.
Oddný - þú munt koma sterkari sem pólitíkus út úr þessu erfiða tímabili, sjáðu til.

Nafnlaus sagði...

Það er verið að skjóta sendiboðann í tætlur í umræðunni. Af mörgum slæmum kostum leggja menn sig fram um að velja bestu sparnaðarleiðina.
Ég myndi ekki treysta nokkrum öðrum betur fyrir þessum erfiðu ákvörðunum. kv. P.hildur

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Ágæt rök Oddný. Þær upplýsingar sem þú ert að gefa hérna og í viðtalinu í Fréttatímanum fyrir nokkrum vikum eru ágætar. Hins vegar upplifi ég það að þetta er ekki að komast niður á gólf, hvorki til starfsfólks né foreldra.

Ég á barn á Hlíðaborg og var á fundinum í Hlíðaskóla á laugardaginn. Sá fundur var mjög yfirborðskenndur enda alltof alltof stór.

Það sem ég upplifi er mikið óöryggi meðal starfsfólks og foreldra í leikskólunum. Aðalvandamálið er að mér finnst þið vera að fókusa of mikið á heildarmyndina sem er eðlilega sá fókus sem hentar ykkur borgarfulltrúunum. Við, þ.e. foreldrar og starfsfólk, þurfum sértækari fókus pr. sameiningu. Þetta á við um kynningarefni, fundi o.þ.h. Dæmi um þetta var fundurinn í Hlíðaskóla á laugardaginn sem var alltof yfirborðskenndur þar sem fólk kom úr öllum áttum.

Þar var t.d. dreift töflu úr skýrslunni þar sem sýndur er sparnaðurinn af verkefninu í heild. Sá sparnaður var ekki sýndur niður á hverja sameiningu heldur voru t.d. 14 sameiningar í sömu línu og eru að skila 105 milljónum á ári.
Okkar aðkoma að málinu er að sameina, í mínu tilfelli Hlíðaborg og Sólhlíð. Það er því ÞAÐ ferðalag sem VIÐ erum að fara í. Þess vegna þurfum við sértækar upplýsingar um OKKAR sameiningu sem hafa hvergi birst. Það er ekki búið að selja okkur það að OKKAR sameining spari eitthvað eða fara með okkur í gegnum það hvernig unnið verði úr henni.

Það sem vantar:
1. Upplýsingar um forsendur hverrar sameiningar fyrir sig.
2. Fundur með starfsfólki og foreldrum fyrir hverja sameiningu fyrir sig. Þar verði lögð áhersla á að draga úr óöryggi með því að ræða framhaldið, svara spurningum og virkja starfsfólk og foreldra í að leggja línurnar og sjá fyrir sér hvernig þau ætla að hafa hlutina eftir sameiningu.

Guðmundur Daðason sagði...

Sæl Oddný.

"Breytingar eins og þessi eru alltaf betri en flatur niðurskurður. Nú erum við að standa vörð um innra starf skólanna."
Þetta var haft eftir þér í Fréttablaðinu s.l. þriðjudag.


Ég og langflestir foreldrar barna á leikskólanum Seljaborg upplifum alls ekki að það sé verið að standa vörð um innra starf leikskólans. Við erum alls ekki á móti hagræðingu og t.d. er fullt tilefni til að nýta húsnæði betur.

Þegar hins vegar á að sameina mjög ólíka leikskóla og a.m.k. annar þeirra mjög vel rekin, á alveg eftir að selja okkur að sameining sé góð hugmynd. Við óttumst mjög að faglegt starf muni hljóta varanlegan skaða.

Það þarf hugrekki til að koma fram með svona tillögur eins og þið hafið gert. Það þarf hins vegar enn meira hugrekki til að hlusta á og taka tillit til athugasemda sem fram koma og draga aðeins í land.

Kærleikskveðjur frá Hjallastefnuleikskóla,
Guðmundur Daðason