29 mars 2011

,,mjög, mjög mikið lausafé"

Allt frá því á síðasta ári hefur Hanna Birna Kristjánsdóttir klifað á því að sjóðir borgarinnar væru svo digrir að þyrftum ekki að gera neitt óvinsælt eða sársaukafullt, þyrftum ekki að fullnýta útsvar, ekki hækka gjaldskrár og alls ekki endurskipuleggja í skólakerfinu.

,,...Og þegar því er til svarað, eins og borgarstjóri gerði hér áðan, að við verðum jú að eiga eitthvert lausafé til þess að standa vörð um Orkuveitu Reykjavíkur, sem við flest vitum hér, enda var þeim sjóðum safnað upp á síðasta kjörtímabili, er því til að svara að sú staða hefur verulega batnað á þessu ári og nú er svo komið að afrakstur aðgerða undanfarinna ára og líka undanfarinna mánaða hefur skilað sér í áætluðum hagnaði Orkuveitu Reykjavíkur upp á rúma 20 milljarða. ...Reykjavíkurborg á mjög, mjög mikið lausafé og mér sýnist samkvæmt tölum sem ég sá í morgun að miðað við einhver sveitarfélög allavega eigi Reykjavíkurborg margfalt meira heldur en aðrir íbúar."

- Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, í umræðum í borgarstjórn 30. nóvember árið 2010.

Ég treysti mér í allt mögulegt, umdeildar hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu á öllum þáttum borgarrekstrarins. Það er einfaldlega verkefni dagsins - og skömminni skárra en að treysta á ímyndaða milljarða.

28 mars 2011

Hvað kostar leikskólaplássið?

Reykvíkingar hafa verið að kalla eftir raunkostnaði við leikskólaplássið. Hér eru allar upplýsingar um það.

Ekki vita allir að hvert leikskólabarn kostar að meðaltali 1,4 milljón á ári. Hlutur foreldra (leikskólagjöldin) er að meðaltali rúmlega 200.000 krónur á ári. Ég er stolt af því að hafa forgangsraðað í þágu stærsta árgangs Íslandssögunnar (börn fædd 2009). Það útheimtir mikla fjármuni og þess vegna þarf að hagræða á móti.

Í haust fara 1500 börn í 1. bekk, börn fædd 2005. Börnin sem verða tveggja ára á árinu - og þurfa leikskólapláss - eru langtum fleiri, eða á milli 1800-1900 talsins.

Þessi meirihluti forgangsraðaði í þeirra þágu. Þessi meirihluti jók framlög til Leikskólasviðs um 658 milljónir króna á milli ára við gerð síðustu fjárhagsáætlunar. Stór hluti þeirrar viðbótar er til að koma til móts við þennan stóra árgang. Okkur sem stjórnum í Reykjavík fannst óhugsandi að færa leikskólaþjónustuna aftur til þess sem Reykvíkingar þekktu áður en Reykjavíkurlistinn kom til sögunnar. Árið 1994 komust börn inn á leikskóla rúmlega þriggja ára - og í boði var vistun hálfan daginn fyrir hjón.

Í dag treysta reykvískar fjölskyldur á þjónustu leikskólanna, enda eru þeir frábærir og metnaðarfullir. Hagræðingaraðgerðir sem við erum með í undirbúningi núna snúa að sparnaði í yfirstjórn og tengdum þáttum. Áfram verða börn í sínum leikskólum, litlum og stórum, á leikskóladeildinni sem þau þekkja, með starfsfólki sem þau treysta. Yfirstjórnin verður sameiginleg og við treystum okkar öflugu leikskólastjórum vel til þess að takast á við stærri verkefni.

Ég myndi aldrei láta það gerast á minni vakt að börn fái fyrst leikskólapláss þriggja ára, hvað þá á fjórða ári. En til þess að ná því markmiði þarf að hagræða.

Því öll þjónusta kostar fjármuni - og það er snúið að fjölga leikskólaplássum á meðan borgin tapar tekjum og þarf að sníða sér stakk eftir vexti.

Aðrir flokkar í borgarstjórn voru með aðrar lausnir í huga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að leikskólapláss fyrir svona stóran árgang sé allt of ,,dýr lausn". Frekar ætti að borga foreldrum heimgreiðslur (20.000 krónur) og hvetja þá til þess að redda sér sjálfir með vistun fyrir ung börn sín.

Það er vissulega sparnaður. En það er einfaldlega ekki boðlegt. Og mikið er ég glöð fyrir hönd reykvískra smábarnaforeldra að sú ,,lausn" leit aldrei dagsins ljós.

24 mars 2011

Litlir eða stórir grunnskólar?

Tveir farsælir skólastjórar, Haraldur Finnsson og Gunnlaugur Sigurðsson skrifa um breytingar í skólaumhverfinu. Sérstaklega fjalla þeir um stærð unglingadeilda. Í upphafi greinarinnar kemur eftirfarandi fram:

,,Því miður virðast viðbrögð við tillögunum einkennast af andstöðu við allar breytingar en ekki faglegum rökum."

Að mörgu leyti rétt, þó er eðlilegt og hefur ávallt fylgt breytingum í skólaumhverfinu, að þar takist á rökstuðningur af þrenns konar toga: Fagleg rök, fjárhagsleg rök og tilfinningaleg rök.

Sveitarfélög og kommúnur, hérlendis sem og erlendis, eru að skoða breytingar í skólaumhverfinu; stjórnun, strúktúr, skólagerðir, aldurssamsetningu nemenda og margt fleira. Sveitarfélög fara mismunandi leiðir með samráð en allir eru sammála um að höfuðatriðið er að upplýsa um nauðsyn breytinganna.

Fjárhagskrísa sveitarfélaganna má öllum vera ljós og grein skólastjóranna er frábært innlegg í faglegu umræðuna.

Eins má benda á viðtal við Gerði G. Óskarsdóttur, fyrrum fræðslustjóra í Reykjavík, í Speglinum nýverið. Þar víkur hún einmitt orðum að þessari eðlilegu andstöðu við breytingar sem hún upplifði sjálf oft í sínu starfi.

23 mars 2011

Viljum við breytingar eða flatan niðurskurð?

Tillögur til breytinga á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík eru nú í umsagnarferli. Tillögurnar snúa að sameiningu í yfirstjórn nokkurra grunnskóla og leikskóla og sameiginlegri yfirstjórn frístundaheimila og grunnskóla. Eins eru tillögur sem snúa að breyttri aldursskiptingu, stækkun unglingadeilda og tvær tillögur snúa að sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundar.

Breytingar í leikskólum

Tillögur okkar kalla á breytingar og þær skila líka dýrmætri hagræðingu. Margar þeirra eiga sér forsögu, t.d. hafa sameiningar í yfirstjórn leikskóla verið í umræðunni frá 2008. Í Reykjavík eru margir litlir leikskólar og einnig er algengt að tveir leikskólar standi bókstaflega á sömu lóð. Fjöldi barna á hvern stjórnanda í leikskólum Reykjavíkur er langt undir meðaltali. Reykjavík hefur sameinað leikskóla og önnur sveitarfélög hafa sameinað leikskóla. Það hefur gengið vel. Áfram verður hægt að bjóða öllum stjórnendum störf áfram á leikskólum borgarinnar.

Allir aðrir hagræðingarkostir voru taldir verri á leikskólunum. Það hefði mátt skerða kjör þeirra sem lægst hafa launin eða fjölga börnum á hvern starfsmann. Það hefði mátt lengja biðlistana og gefast upp fyrir því verkefni haustsins að fjölga leikskólaplássum fyrir stærsta árgang Íslandssögunnar. Við vildum ekkert af þessu. Við mættum hagræðingu á Leikskólasviði með afnámi heimgreiðslna og endurskipulagningu í stjórnun leikskóla. Ekkert verður skorið niður í innra starfi leikskólanna, ekki neitt. Tæplega 500 milljónum var bætt í ramma Leikskólasviðs til að koma til móts við yngstu Reykvíkingana.

Þetta er skýr forgangsröðun í þágu leikskólastarfs og fjölskyldna í borginni.

10-15 börn í árgangi?

Borgin er að sligast undan leigukostnaði vegna slæmrar nýtingar húsnæðis grunnskóla. Í sumum hverfum eru hins vegar skólar að springa svo þörf er á viðbyggingum. Við höfum byggt fína og dýra skóla, svo eldast hverfin og yngjast á víxl, skólarnir eru hálftómir eða sneisafullir. Við getum ekki haldið áfram að byggja í hvert skipti sem nemendum fjölgar til þess eins að sitja uppi með hálftómt skólahúsnæði fáum árum seinna. Við verðum að endurskipuleggja. Það mun að sjálfsögðu hafa rask í för með sér fyrir börn og foreldra, en nú þegar Reykjavíkurborg hagræðir þriðja árið í röð verðum við að horfast í augu við staðreyndir. Sums staðar er fækkun barna farin að há skólastarfi og félagslífi barna og unglinga.
Tíu börn í árgangi, er það gott fyrir skólastarf?

Ef börn hefja skólagöngu í Hagaskóla ári fyrr má spara verulegar fjárhæðir í stofnkostnaði bygginga og tilheyrandi leigu til framtíðar. Með nýjum lausnum má finna öllum nýju leikskólabörnunum sem fæddust 2009 og 2010 stað í leikskóla, án þess að taka eina skóflustungu. Þannig spörum við um 700 milljónir í stofnkostnað. Slíkar lausnir og margar fleiri blasa við en það þarf kjark til breytinga. Og breytingar mæta oft áhyggjum og andstöðu. Það er ekkert skrýtið því þær snerta börnin okkar. Það er þó ágætt að rifja upp að margar óvinsælar aðgerðir sem fræðsluyfirvöld hafa ráðist í í gegnum tíðina hafa reynst afar vel.

Og fæstir vilja fara til baka.

Frístundastarf

Í dag koma fjölmargir að námi og frístundastarfi 6-9 ára barna. Kennarar og annað starfsfólk skóla, tómstunda- frístunda- og félagsmálafræðingar. Við getum nýtt fjármagn og mannauð betur með því að horfa á skóla- og frístundadag barna sem eina heild. Þetta eru sömu börnin, fyrir og eftir hádegi. Núna verjum við fjármagni til sérkennslu á tveimur stöðum, við kaupum inn og skipuleggjum starf með sömu börnum á tveimur stöðum. Höfum við efni á því? Er það betra fyrir börnin? Er ekki lag að nýta kraftinn úr frábæru frístundastarfi börnum til góða allan daginn? Við leggjum til að í a.m.k. einu hverfi verði gerð tilraun með samþættan skóla- og frístundadag yngstu barna.

Samráð

Samráð okkar við foreldra og starfsfólk hefur mætt mikilli gagnrýni sem er að mestu ómakleg. Á frumstigum vinnu starfshóps um greiningu tækifæra var tekið einstaklingsviðtal við alla stjórnendur í leikskólum, grunnskólum og frístund. Því næst var fundað með öllum kjörnum fulltrúum foreldra og starfsfólks í hverjum einasta skóla og frístundaheimili til að greina tækifæri í hverju hverfi. Rýnihópar, frekara stjórnendasamráð og loks ótal fundir með foreldrum og starfsfólki um alla borg. Ótrúlega margar ábendingar komu fram, einnig áhyggjur sem og róttækar og djarfar hugmyndir. Og margir vilja engu breyta.

Eitt er víst. Við myndum aldrei fara út í þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum nema nauðsyn krefði, fagleg jafnt sem fjárhagsleg. Okkur þykir vænt um skólana okkar og við óttumst breytingar. Ég óttast þó meira aðgerðarleysi og óábyrga meðferð fjármuna. Það er einfaldlega ekki í boði að gera ekki neitt. Ef tillögur starfshópsins ná fram að ganga munu 3-400 milljónir króna sparast árlega og vel á annan milljarð ef stofnkostnaður við nýbyggingar er tekinn með í reikninginn. Það er ekki lítið.

Breytingar á yfirstjórn og skipulagi skólastarfs verða ávallt viðkvæmar. En fjárhagur borgarinnar er líka viðkvæmur og á honum berum við sameiginlega ábyrgð. Næstu ár verða mögur og við neyðumst til að hagræða. Það er börnum borgarinnar fyrir bestu að við förum vel með fjármuni, nýtum allt húsnæði borgarinnar til fullnustu og lækkum kostnað við yfirstjórn eins og kostur er.

Einungis þannig getum við komið í veg fyrir flatan niðurskurð í skólastarfinu sjálfu.

22 mars 2011

Rétt og rangt hjá Margréti Pálu

Sú mæta skólakona, Margrét Pála Ólafsdóttir var í Silfrinu í gær og útvarpinu í morgun. Ég komst því miður ekki til að hitta hana hjá Agli en þakka henni fyrir yfirvegað innlegg í umræðu þar sem upphrópanir gera meira ógagn en gagn.

Margrét Pála hefur gagnrýnt okkur fyrir að vilja miðstýra skipulagsbreytingum og hagræðingu í leikskólunum um of. Hún vill að við gerum hagræðingarkröfu á hvern skóla fyrir sig og látum þá svo ,,finna út úr því". Ég er sammála henni svo langt sem það nær: eitt helsta hlutverk stjórnenda í leikskólum er vissulega að nýta fjármagn eins vel og kostur er. Til þess þurfa stjórnendur svigrúm og frelsi til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í samráði við foreldra og fræðsluyfirvöld.

Nú erum við hins vegar að gera skipulagsbreytingar sem fela í mörgum tilfellum í sér verulegar breytingar á högum stjórnendanna sjálfra. Við erum að stækka einingar í leikskólakerfinu til að skapa sterkari og sveigjanlegri leikskóla sem eiga fleiri og betri valkosti í stjórnun. Við erum að spara í yfirstjórn og við getum hreinlega ekki ætlast til þess að stjórnendur taki ákvarðanir sem ganga gegn þeirra eigin hagsmunum.

Gagnvart foreldrum er staðan ekki ósvipuð: við getum ekki ætlast til að foreldrar berjist fyrir skipulagsbreytingum og raski. Langflestir foreldrar í Reykjavík eru ánægðir með grunnskólann og leikskólann sinn og hafa ekki nokkra ástæðu til að krefjast breytinga. Frumkvæði um slíkt verður að koma frá okkur. Breytingarnar eru í öllu falli miklu betri en flatur niðurskurður og hvað getur verið skynsamlegra en að spara í yfirstjórn og betri nýtingu húsnæðis, til að verja skólastarfið sjálft?

Ég er með öðrum orðum sammála Margréti Pálu um aðalatriðin: ég vil ekki miðstýra leikskólum, ég vil að stjórnendur beri ábyrgð á sínum skólum og hafi svigrúm til að nýta fé sitt sem best. Þær skipulagsbreytingar sem nú eru á borðinu eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa nægilega burðugar og sveigjanlegar einingar til að gera þetta mögulegt. Og Margrét Pála hefur viðurkennt að margir leikskólar í Reykjavík eru alltof litlir til að vera hagkvæmar einingar í rekstri og stjórnun. Hún mælti raunar með lokun þeirra í Silfrinu í gær, en það er sannarlega ekki á dagskrá.

Annað sem Margréti Pálu verður tíðrætt um er tekjutenging leikskólagjalda. Þá myndum við hækka gjaldið eftir tekjum foreldranna eftir einhverri formúlu með það fyrir augum að hækka heildartekjur af leikskólagjöldum án þess að þyngja byrðar foreldra að ráði. Við höfum skoðað þessa leið og erum enn að skoða hana, en hún er af ýmsum ástæðum furðu flókin í framkvæmd. Sumir óttast að með henni sé opnað á leið sem liggur á endanum til ójafnréttis og að í henni felist lúmskur ósigur fyrir alla þá sem hafa barist fyrir uppbyggingu frábærs leikskólakerfis fyrir allar fjölskyldur í borginni, óháð efnahag.