29 júní 2009

Er framhaldsskólinn fyrir alla nemendur?

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að framhaldsskólinn er framhald af grunnskólanum, ekki síður en undirbúningur fyrir háskólanám. Við eigum ekki að sætta okkur við að tæp 40% nemenda hverfi frá framahaldsnámi. Þess vegna hef ég talað fyrir því að Reykjavík taki að sér rekstur eins framhaldsskóla í tilraunaskyni. Það er til svo mikils að vinna að þessi tvö skólastig vinni betur saman, til að sigrast á brotthvarfi sem er með mesta móti í Evrópu.

,,Á síðustu mánuðum hafa þúsundir grunnskólanema sótt um skólavist í framhaldsskólum um allt land. Oftast eru reykvískir framhaldsskólar þeir ásetnustu og árið í ár var engin undantekning. Þetta vor er þó sérstakt að því leytinu til að engin samræmd vorpróf voru þreytt í grunnskólum landsins en nýsamþykkt grunnskólalög kveða á um upptöku samræmda könnunarprófa í byrjun 10. bekkjar og þau verða lögð fyrir í fyrsta sinn næsta haust. Fjölbreytt námsmat hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og er nú einn helsti vaxtarbroddur í skólaþróun á Íslandi. Sjálfstæð vinnubrögð, rannsóknir og skapandi þættir fá byr undir báða vængi í fjölbreyttu námsmati.

Í vor tefldu 10. bekkingar í Reykjavík fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskólavist. Besta námsmatið er sennilega það sem byggist á samspili niðurstaðna úr samræmdum könnunarprófum og skólaeinkunnum sem taka mið af fjölbreyttu skólastarfi. Mikilvægt er að námsmat leiðbeini nemendum til aukinna framfara alla skólagönguna og gefi glögga mynd um námslega stöðu við lok grunnskólagöngunnar.

Nú taka margir að lofsyngja gömlu samræmdu vorprófin. Þau þjónuðu vissulega tilgangi sínum sem n.k. inntökupróf inn í framhaldsskóla en viljum við halda áfram á þeirri braut? Þau höfðu sína kosti en einnig sína galla. Hvernig mældu samræmdu prófin skapandi þætti, félagslegan styrk nemandans og frumkvæði? Allt það sem atvinnulíf framtíðarinnar á að byggja á? Það gerðu þau aldrei og munu aldrei gera. Því var að mínu mati hárrétt skref stigið að hverfa frá samræmdum vorprófum sem hertóku allt skólastarf á síðasta ári grunnskólans og jafnvel lengur.

Nú er sagt að jafnræðisreglan hafi verið brotin með því að nemendur tefli fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskóla. En hvað er jafnræði þegar kemur að skólagöngu? Jafnræði felst í því að nemandi komi sterkur út úr grunnskólanum sínum, fullur trú á eigin getu, sama hver hún er. Jafnræðið felst í því að hefja nám í einum af okkar fjölmörgu góðu framhaldsskólum og blómstra í námi. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Umræðan síðustu daga hefur einskorðast við miklar vinsældir nokkurra bóknámsskóla sem taldir eru ,,betri” en aðrir skólar. En hvað gerir góðan framhaldsskóla góðan? Um það vitum við fátt. Er það skóli sem tekur inn nemendur með háar einkunnir og útskrifar þá með jafn háar einkunnir? Er það skóli sem fagnar nemendum með margvíslegar þarfir og getu, kveikir hjá þeim námsáhuga, eflir framfarir og veitir aðhald og aga? Þegar skoðuð er námsframvinda háskólanemenda úr ólíkum framhaldsskólum kemur í ljós að munur þeirra á milli er lítill, eftir að tekið hefur verið tillit til námsárangurs nemendanna þegar þeir hefja framhaldsskólanámið. Hver er þá mælikvarðinn?

Í umræðum síðastliðinna daga finnst mér sem fingrinum sé beint að röngu skólastigi. Grunnskólinn er fyrir alla þar sem styrkleiki hvers og eins fær að njóta sín. Langt er síðan horfið var frá tossabekkjum og elítubekkjum. Sem betur fer. Framhaldsskólarnir okkar eru hluti af íslensku skólakerfi sem einkennist af jöfnuði og félagslegu réttlæti. Skólinn er spegilmynd samfélagsins og það getur ekki verið hollt fyrir viðhorf ungs fólks til samfélagsins að halda áfram á þeirri braut að nokkrir skólar geti valið sér nemendur með tilteknar einkunnir og nokkur hópur nemenda fái sterk skilaboð höfnunar vegna þess að eitthvað vantaði upp á einkunn í tilteknu fagi. Strákar jafnt sem stelpur, ungmenni af erlendum uppruna, námsmenn með ólíkan námsstíl, mismunandi getu og færni í ólíkum greinum eiga að rúmast innan veggja allra framhaldsskóla á landinu. Þeim á ekki að vísa á dyr vegna einkunna, ekki frekar en að nemendur með tilteknar einkunnir eigi að ganga fyrir.

Umræða undanfarinna daga kallar fyrst og fremst á umfjöllun um til hvers framhaldsskólarnir séu og á hvaða forsendum þeir ákvarði hvaða nemendum þeir taki við. Vandi stofnana sem þurfa að velja er skiljanlegur en verður að mínu mati ekki leystur með því að skýla sér á bakvið samræmdar prófseinkunnir við lok grunnskólans. Hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar þarf að ná upp til framhaldsskólastigsins, slíkir skólar skapa andrúmsloft sem einkennist af fjölbreytni og virðingu fyrir náunganum. Ef við þorum að stíga skrefið þá uppskerum við sterkari skóla, sterkari einstaklinga og sterkara samfélag. Það er til mikils að vinna."