30 apríl 2008

Hendum vigtinni og fögnum fjölbreytileikanum

6. maí er merkilegur dagur sem helgaður er baráttunni fyrir sjálfsvirðingu og fjölbreytileika. MEGRUNARLAUSI DAGURINN eða The International No-Diet Day hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1992 og á Íslandi er kyndilberi hans Sigrún Daníelsdóttir - sálfræðingur á Barna og unglingageðdeild.

Sigrúnu hef ég fylgst með lengi og ég dáist innilega að baráttu hennar. Í ár verður Megrunarlausi dagurinn haldinn hátíðlegur í þriðja skiptið og í hvert skiptið verð ég opinmynntari og meira undrandi á þeim ævintýralegu fordómum sem búa innra með mér, þér og okkur öllum í garð þeirra sem eru ekki mjóir, grannir, flottir og spengilegir.

Heilsa óháð holdafari. Hvað er nú það? Af hverju fáum við ekki sting í magann og finnum fyrir vott af viðbjóði þegar við sjáum ungt (en grannt) fólk reykja? Af hverju hugsum við ekki - þú brjálaði einstaklingur með enga sjálfstjórn, veistu hvað þú ert að gera heilsu þinni með þessu!

Af hverju hellast fordómarnir yfir okkur þegar við sjáum feitlagin börn, feitar konur, feita karla? Þá hugsum við einmitt: Þú brjálaði einstaklingur með enga sjálfstjórn, þú baggi á samfélaginu, þú óhamingjusami, óheppni og heilsulausi einstaklingur.

Ég man að ég gapti þegar Sigrún Daníelsdóttir var fyrst að kynna mér þennan málstað. Því takið eftir: Okkur hefur verið talin trú um að grannur vöxtur sé forsenda heilbrigðis. Því hefur verið haldið fram að ekki sé hægt að vera heilbrigður ef viðkomandi er yfir ákveðinni þyngd.

Það er vont að vera í vondu formi - fyrir feita og granna. Rannsóknir sýna hins vegar að langlífasta fólkið er yfir skilgreindri kjörþyngd. Hah!

Áróðurinn gegn feitu fólki er alls staðar. Hann býr innra með okkur, ekki þarf að nefna auglýsingaefni með tággrönnu fólki alls staðar, athugasemdir, baktal og einhvers konar heilagur sannleikur um það að við mættum öll ,,missa nokkur kíló".

Ég þekki ótal konur, flottar konur með mjaðmir og mitti og dásamlegan barm og heillandi framkomu - en þeim finnst eins og þær ættu AÐ VERA ÖÐRUVÍSI. Þær fæddust þó í sínum líkama, þær verða líklega alltaf eins og þær eru, en viti menn - um leið og þeim tekst með ærnum tilkostnaði, blóði, svita og tárum að missa 1-3 kíló þá byrjar kórinn:

,,Mikið ofboðslega líturðu vel út!!!!"

Hættum þessu - í eitt skipti fyrir öll. Hættum að biðjast afsökunar á þyngd okkar.

Sjúkdómar tengdir átröskun, álag tengt lágu sjálfsmati vegna dóma samfélagsins, tilfinningalegir erfiðleikar vegna þess að samfélagið (við, ég og þú) dæmir þá sem ekki eru grannir - eru margfalt alvarlegra samfélagsmein en... líkami fólks
- fólks sem er fjölbreytilegt, fólks sem er alls konar í laginu og hefur allan heimsins rétt til að vera þannig um alla tíð.

Stay tuned...
Hér er að finna marga gagnlega tengla

Eins mæli ég með þætti Kolfinnu og Ásdísar á ÍNN þann 2. maí - klukkan 20.
Þar mun Sigrún Daníelsdóttir fara í gegnum markmið Megrunarlausa dagsins ásamt Katrínu Önnu femínista og Björku Vilhelmsdóttur borgarfulltrúa.

Aðalsteinn Jónsson

Þá er Aðalsteinn Jónsson allur. Hann var mágur ömmu minnar Oddnýjar Gísladóttur sem var gift bróður hans Kristni Jónssyni í tæplega 20 ár.

Minningar mínar af þeim bræðrum eru ekki margar en þeir voru þó sveipaðir dýrðarljóma í æskuminningum mínum og hús Kristins og ömmu Oddnýjar, Víðivellir á Eskifirði er í minningunni eins og óðalshús með ævintýralegum garði. Þar var Aðalsteinn heimagangur sem vera ber og þeim bræðrum fylgdi mikil atorka og framkvæmdagleði - það var gaman að vera samvistum við þá, það greini ég af foreldrum mínum og móðurfólki sem kynntist þeim betur en ég.

Kristinn dó ungur, ég var rétt fimm ára og stuttu síðar flutti amma í bæinn eftir 17 ára dvöl á Eskifirði. Milli hennar, Laugu og Alla ríkti þó alltaf góður vinskapur og mitt móðurfólk er stolt af þeim tengslum sem okkar fjölskyldur höfðu um áratugaskeið.

Blessuð sé minning Alla ríka. Þeir bræður geta nú látið verkin tala í efra.

Hvað er mikilvægara?

Ég hef áhyggjur af metnaðarleysi meirihluta borgarstjórnar í jafnréttismálum, innflytjendamálum, málefnum fatlaðra og aldraðra. Fyrir tveimur árum var samþykkt samhljóða í borgarstjórn, af fulltrúum allra flokka, ákaflega metnaðarfull mannréttindastefna. Hún hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana og það var hugur í borgarfulltrúum Reykjavíkurlista að viðhalda frumkvæði Reykjavíkurborgar í jafnréttis- og innflytjendamálum.

Að mótun stefnunnar komu öll þau hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum fólks í samfélaginu sem oft hallar á. Þau hagsmunasamtök hafa eðlilega miklar áhyggjur af stöðu mála hjá Reykjavíkurborg - mannréttindastjóri farinn, enginn metnaður, nýtt fólk er ekki ráðið til starfa og því miður verð ég að segja að þekking nýs meirihluta á mikilvægi þess að SAMÞÆTTA VIRKA MANNRÉTTINDASTEFNU öllum sviðum borgarinnar er lítil. Lítil sem engin.

Reykjavík hefur staðið í fararbroddi undanfarin ár í jafnréttismálum. Hvernig? Jú, með því að flétta jafnréttismálin saman við alla málaflokka, færa stjórn jafnréttismála upp við hliðina á borgarstjóranum í skipuritinu, vera meðvituð um að hvert skref sem jafn risavaxið stjórnvald sem Reykjavíkurborg er tekur - sé skref í átt til jafnréttis.

Með mannréttindastefnunni var tekið það hugrakka skref að dýpka jafnréttishugtakið. Því var fléttað saman við ábyrgð borgarinnar sem atvinnurekenda og veitenda þjónustu, því var fléttað saman við hagsmuni aldraðra, fatlaðra, innflytjenda.

Þesi þróun hefur átt sér stað erlendis og það er grátlegt að sjá áratuga vinnu, orðstír og frábært starf seytla í burtu í metnaðarlausum höndum meirihlutans í borgarstjórn. Það heitir að spara eyrinn en kasta krónunni.

Borgarstjóri talar um að stórsókn hundraðdagameirihlutans í mannréttindamálum hafi verið viðleitni til að belgja út báknið. Við erum hér að tala um þrjú stöðugildi sem myndu styrkja við og efla það frábæra starf sem á sér stað úti á hverju einasta sviði í þágu fjölbreytts mannlífs borgarinnar. Þrjú stöðugildi.

Af hverju í ósköpunum samþykktu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins metnaðarfulla mannréttindastefnu vorið 2006 ef þeir meintu ekkert með henni?

Hvað getur verið mikilvægara en að efla málaflokk sem kemur við jafnan rétt kvenna og karla, fatlaðra og ófatlaðra, ungra og gamallra, innfæddra og aðfluttra?

Hvar er metnaðurinn?!

28 apríl 2008

Samkomulag undirritað

og þá er að sjá hvað kennarar segja.

Ég er ánægð með að samningsmarkmið hafi náðst;
stuttur samningur, engin breyting á vinnutímafyrirkomulagi

- bara hækkun launa og það fljótlega.

Samningsaðilar hafa lært sína lexíu og feta friðarslóðann í þetta skiptið. Það er gott - gott fyrir skólastarf, gott fyrir börnin í borginni - gott fyrir kennara.

Ég hlakka til að kynna mér samninginn betur, vonandi boðar hann nýtt upphaf fyrir menntun íslenskra barna og unglinga. Vonandi boðar hann betri tíma fyrir kennara þessa lands sem allt of lengi hafa unnið frábært starf - á lágum launum.

Um daginn heyrði ég af stórri alþjóðlegri rannsókn meðal kennara þar sem leitað var eftir svari við því hvers vegna fólk valdi sér kennslu að ævistarfi.

50% þeirra svöruðu á þessa leið:
Ég ætlaði alltaf að verða kennari.

Áfram var spurt og þá af hverju? Svörin koma kennarabarni eins og mér ekki á óvart. Innri endurgjöf, persónuleg samskipti við nemendur, að sjá þá blómstra og ná árangri, ná tökum á færni og leikni. Að gefa af sér og sjá afrakstur starfs síns í börnum á öllum aldri.

Það er kennsla. Og mikið ósköp er hún skemmtileg.

25 apríl 2008

Barflugur

Bráðum lítur ljósmyndabókin BARFLIES dagsins ljós. Hún inniheldur portrettmyndir Snorranna tveggja sem lituðu miðbæ Reykjavíkur sterkum litum á síðustu öld. Lítil (bar)fluga hvíslaði því að mér að útgáfupartýinu yrði fundinn staður á Kaffibarnum. Kæmi þar vel á vonda því Barflugurnar á myndunum eru jú bundnar órjúfanlegum böndum við þann ágæta bar. Sem síðar var gerð góð skil í ágætri bók sem nefnist 101 Reykjavík.

En það er nú önnur saga.

Svo skemmtilega vildi til að þegar Einar Snorri, annar Snorranna, flutti heim frá NY - hvar þeir Snorrar höfðu komið ár sinni vel fyrir borð með listsköpun - tók hinn Snorrinn, Eiður Snorri, að vinna með Snorra Sturlusyni bróður mínum. Snorrarnir héldu því áfram að vera Snorribros og jú gott ef hún Snorrabúð stekkur ekki jafn fimlega og hún gerði með hinum Snorranum.

(Ef einhver er orðinn ringlaður við lesninguna þá lái ég honum ekki).

Nema hvað. Það er vel hægt að skemmta sér yfir portrett myndunum og rifja upp gamla tíma með því að smella hér. (veljið PHOTO á upphafssíðunni og svo BARFLIES).

Þarna má sjá Björk og fleiri góða spámenn. Og bróður minn nokkuð hárfagran (nr. 61) og spúsa hennar Bryndísar Ísfold vinkonu minnar (nr. 67).

Og þá að lestri tilkynninga: Í dag er dagur umhverfisins og jafnframt afmælisdagur 12 tóna. Sumarið gengið í garð og Styrmir að hætta á Mogganum. Til hamingju með og njótið vel.

Tímamótatímamót

Um hádegisbil lagði Tjarnarkvartettinn fram tillögu í borgarráði sem markar á margan hátt tímamót. Hún hljóðar svo:

,,Borgarráð samþykki að fela sviðsstjórum Menntasviðs og ÍTR að hefja þegar í stað undirbúning að frekari samþættingu tómstunda- og skólastarfs í tilraunaskólum næsta haust. Horft verði til barna í 1.-3. bekk.

Með frekari samþættingu er átt við að frístundafræðingar, kennarar og annað starfsfólk skólanna vinni samsíða og skapi innihaldsríkan skóladag þar sem tómstundir og nám fléttast saman. Gengið verði út frá því að frístundafræðingar sinni 100% starfi og því verði ekki lengur um það að ræða að Frístundaheimilin starfi frá 14-17 heldur verði frístundastarfið hluti af skólastarfinu."

Þetta hljómar nógu sakleysislega en er slíkt lykilatriði í samfélagslegri þjónustu og ábyrgð gagnvart yngstu skólabörnunum að það hálfa væri nóg!

Hér eru nokkrir punktar sem vert er að halda á lofti í umræðunni:

Síðan ÍTR tók við rekstri frístundaheimilanna, eða allt frá árinu 2000, hafa ýmsir annmarkar staðið starfseminni fyrir þrifum. Mannekla, aðstöðumál og veik staða frístundastarfsins gagnvart hinu lögboðna skólastarfi eru meðal þeirra annmarka og ljóst er að stærri skref verður að taka í samþættingarátt eigi starfsemin að blómstra og þrífast innan veggja grunnskólans.

Það verður ekki hjá því litið að veruleiki íslenskra barna í yngstu bekkjum grunnskólans er sá að þau þurfa á samfélagslegri athygli að halda frá morgni þar til vinnudegi foreldranna lýkur.

Með því að gefa nokkrum skólum lausan tauminn hvað varðar viðmiðunarstundaskrá og tilraunir með sveigjanlega kjarasamninga væri hægt að þróa skóla sem byggja sína stundaskrá á því að nám og frístundastarf yngstu barnanna fléttist saman. Ótal möguleikar skapast við slíkt samstarf enda augljóst að nemendur með ólíkar þarfir, ekki síst krefjandi hegðun, njóta góðs af fjölbreyttri uppbyggingu skóladagsins þar sem frístundastarf fer jafnt fram á morgnana sem síðdegis. Eins má benda á möguleika þess að flétta saman frímínútur, útikennslu, íþróttir og list- og verkgreinakennslu við frístundastarfið.

Ekki þarf að fjölyrða um gagnsemi slíkrar samvinnu þegar kemur að aðstöðumálum frístundaheimilanna sem víðast hvar eru í ólestri. Húsnæðið nýtist margfalt betur ef aðgreining skóla- og frístundastarfs heyrir sögunni til.

Mannekla sú sem hefur fylgt starfsemi frístundaheimilanna um alllangt skeið tengist ekki síst óhagstæðum vinnutíma. Með samþættingu og samstarfi væri hægt að ráða frístundafræðinga í 100% starf.

Einsýnt er að aukin samvinna milli ÍTR og Menntasviðs létti á starfsmannavanda skólanna þar sem öflugir frístundafræðingar geta í auknum mæli komið að námi í t.a.m. lífsleikni. Möguleikarnir eru óþrjótandi.

Að öllum líkindum er þess ekki langt að bíða að e.k. lögbinding frístundastarfs sé á næsta leyti, svo mikilvægt starf er hér á ferð. Um það var fjallað í 24 stundum á miðvikudaginn en það dagblað á hrós skilið fyrir að sýna þessu máli mikinn áhuga. Enda hefur þróunin síðustu ár verið á þann veg að tómstunda- og frístundafræði eru á háskólastigi og mikil ásókn hefur verið í það metnaðarfulla nám undanfarin misseri.

Því ætti Reykjavíkurborg að hafa hugrekki til að hefja strax næsta haust tilraunir í þessa veru. Það er ákall foreldra að yngstu börn þeirra njóti innihaldsríkrar kennslu og frístundastarfs frá upphafi skóladagsins til loka vinnudags – innan sömu veggjanna og á ábyrgð samhents starfsfólks sem lítur á börnin sem sína sameign.

Meirihluti borgarráðs frestaði tillögunni en málið er komið á dagskrá.
Til allrar hamingju.

Kvaldir klárar

Þetta er ,,mikið tekið" þessa dagana. Klofningsframboðið, einmenningurinn, flokksbrotið leitar aftur í faðm síns gamla flokks.

Bæði í Bolungar- og Reykjavík. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Í Bolungarvík mun hinn spræki og dugmikli bæjarstjóri Grímur Atlason láta af störfum. Þar missa Vestfirðingar góðan talsmann og Bolvíkingar þó mest. Hann kom málefnum Bolvíkinga heldur betur á kortið með frumlegum og skeleggum hætti. Það er vont þegar efnisfólk víkur fyrir kvöldum klárum.

Bæði í Bolungar- og Reykjavík.

23 apríl 2008

Grænaborg 25 ára

Í dag er haldið upp á afmæli Grænuborgar. Hún var vígð á holtinu Sumardaginn fyrsta árið 1983 en á sér þó mun lengri og mjög merkilega sögu.

Barnavinafélagið Sumargjöf var stofnað árið 1924 af Bandalagi kvenna. Í 2. grein laga félagsins sagði ,,Tilgangur félagsins er að stuðla að andlegu og líkamlegu heilbrigði og þroska barna í Reykjavík og vernda þau fyrir óhollum áhrifum."

Sumarið '24 stofnaði Sumargjöf barnaheimili og rak það fyrst um sinn í Kennarahúsinu við Laufásveg. Félagið lenti í vandræðum með að fá húsnæði leigt og því var efnt til fjársöfnunar til að reisa Grænuborg á túninu við Landspítalann sumarið 1931.

Barnavinafélagið Sumargjöf stóð í kjölfarið að byggingu og rekstri fjölmargra dagheimila - allt til ársins 1978 þegar Reykjavíkurborg tók við rekstrinum.

Þetta kemur fram í stórfínni bók Bergs Felixsonar ,,Leikskóli fyrir alla" sem kom út í fyrra. Bergur var framkvæmdastjóri Dagvistar barna, síðar Leikskóla Reykjavíkur um áratugaskeið og hann settist einmitt í stól framkvæmdastjóra Sumargjafar árið 1975.

Í bókinni segir hann sögu leikskóla Reykjavíkur og rifjar upp gamansögur og minningar af merku fólki sem stóð í stafni leikskólauppbyggingar í Reykjavík.

Á árshátíð fóstrufélagsins á miðjum 8. áratugnum var sungið gamankvæði sem lýsti reynslu Bergs af því að taka við stjórnartaumunum hjá Sumargjöf en þar voru fyrir þrjár stólpakonur sem höfðu haft mikil áhrif í starfi og félagsmálum fóstra á sinni tíð. Þá var Sumargjöf með skrifstofu að Fornhaga 8. Hér er vísan:

,,Hver getur húkt upp á Fornhaga
innan um allar þær kerlur
gamlar, þreyttar og gráhærðar
enginn nema hann Bergur."

Syni Bergs, Felix, hef ég starfað með í borgarstjórnarflokknum síðastliðin ár og hann er ekki síðri félagi en Bergur pabbi hans í augum fóstranna hér áður.

En til hamingju með daginn Grænuborg!

Sigrast á fjöllum

Seiglan í Hillary Clinton er með ólíkindum. Nú segist hún vera komin á sigurbraut.

Það er hugrökk yfirlýsing - en trúin getur flutt fjöll!

Við skulum hafa það hugfast að þegar kemur að stórsigrum í kvennabaráttunni hefur alltaf, alltaf þurft að flytja til fjöll.

- stundum nokkur.

Áfram Hillary.

22 apríl 2008

Hver á börnin?

Skýrslan sem 24 stundir segja frá í dag er svört. Húsnæðismál frístundaheimilanna eru ekki í góðum farvegi. Nýir skólar gera ráð fyrir starfseminni en eldri skólar hafa þurft að grípa til ýmissa ráða til að koma starfseminni fyrir.

Frístundaheimilin voru svar við kalli tímans enda langflestir foreldrar sem vinna lengur en til klukkan 14 á daginn þegar skólinn er búinn.

Framtíðarsýnin mín er ósköp einföld. Fá frístundafræðingana frá ÍTR til að koma inn í skólana og vinna samsíða kennurunum og öðru starfsfólki skólanna. Hætta þessari aðgreiningu skólastarfs (frá 8-14) og svo frístundastarfs (frá 14-17). Skipuleggja skóladaginn út frá þörfum barnanna sem sum hver þurfa að hreyfa sig meira en önnur, þurfa á því að halda að skóladagurinn sé brotinn upp með tómstundastarfi.

Í dag er staðan þannig að frístundaheimilin standa á flestum stöðum tóm á meðan skólastarf er í gangi - og omvendt. Með samþættingunni nýtum við húsnæðið mun betur, við nýtum mannauðinn betur og munum ekki eiga í neinum vandræðum með að manna 100% stöður í hverjum skóla með frístundafræðingum. Í dag er mikil mannekla í frístundaheimilum og ég spyr: er það skrýtið? Það eru ekki margir að leita sér að vinnu frá 14-17.

,,Fridtidspedagok" er í örum vexti á Íslandi, KHÍ og HÍ kenna frístundafræði og ég get ekki beðið eftir að fá það starfsfólk í auknum mæli inn í skólana. Ég veit að þeir munu hafa jákvæð áhrif á skólastarfið, skólabraginn og foreldrarnir vilja sannarlega sjá meiri samvinnu þess starfsfólks sem ber sameiginlega ábyrgð á börnunum þeirra.

Það er með þetta eins og með svo margt annað: Ef fullorðna fólkið er tilbúið til að hætta karpinu og núningnum um fermetra, vinnutímaskilgreiningar, skipulag stundaskrár og eignarhald á húsnæði - og setur hagsmuni og vellíðan barnanna í fyrsta sæti - þá gengur allt svo miklu betur.

Því þegar öllu er á botninn hvolft þá eigum við börnin saman.

Við eigum börnin saman. Foreldrar, kennarar, frístundafræðingar, þjálfarar. Við getum öll lært mikið hvert af öðru og með það að leiðarljósi skipulagði meirihluti menntaráðs í hundraðdagameirihlutanum skólastarfið í nýju grunnskólunum í Úlfarsárdal. Engin aðgreining milli náms og sköpunar, kennslu og frístunda.

Við gætum meira að segja byrjað strax í haust með tilraunaverkefni í nokkrum skólum. Ef áhugi væri fyrir því hjá meirihluta dagsins í dag.

Ég er gamalt Árselsbarn, alin upp í tómstundastarfi og unglingalýðræði hjá Vöndu Sigurgeirsdóttur sem nú er lektor í KHÍ í tómstundafræðum. Ég hef tröllatrú á gildi tómstundastarfs fyrir börn og unglinga - og að aðgreiningar er ekki þörf milli skólastarfs og tómstunda. Við eigum nefnilega börnin saman.

21 apríl 2008

Meirihluti þings & þjóðar

Bubbi er flottur. En barnapían mín var fljótari.

Það er verst að meirihluti þingheims er ekki á sömu skoðun og þjóðin sem kaus hann.

Hvað gera bændur þá?

18 apríl 2008

á ótrúlega rauðum skóm

Borgarfulltrúar minnihlutans bjóða borgarbúum að koma og spjalla um borgarmálin yfir kaffibolla í Ráðhúskaffi á morgun, laugardaginn 19. apríl milli klukkan 10 og 12.

Harmónikkuleikur og létt stemning eins og segir í auglýsingunni.

Kaffi með borgarfulltrúum hefði raunar átt að eiga sér stað á Vetrarhátíð í febrúar en meirihlutanum sem þá var nýtekinn við hugnaðist ekki að láta verða af því. Enda munum við hvernig andrúmsloftið í borginni var þá, fólk var almennt séð ekki dús við þá atburðarrás og stuðningur við hinn nýja meirihluta með Ólaf F. Magnússon í broddi fylkingar var í minni kantinum.

Svo ekki sé fastar að orði kveðið.

En á morgun verður af kaffinu og allir velkomnir.

Vonandi verður morgundagurinn jafn fallegur og dagurinn í dag.

Kannski verður Fröken Reykjavík skædd sínum ótrúlegu rauðu skóm?

17 apríl 2008

Barnapíu borgað

Ég fékk staðfestingu á hinu þunga kalli tímans í kvöld þegar við hjónaleysin komum heim af dásamlegum hátíðartónleikum FTT í Íslensku óperunni.

Tónleikunum mun ég gera góð skil síðar, þegar tíminn er kristilegri, en hið þunga kall tímans hjó mig í herðar niður þegar við stóðum okkur að því að vera í alvarlegum viðræðum við barnapíuna
- um breytt greiðslufyrirkomulag vegna barnagæslu.

Nefnilega það að hún fái greitt í evrum.

Og ekkert okkar var að grínast.

F-11

Er málið ekki komið fram yfir síðasta söludag?

Leiðari Moggans

Ég mæli með lestri leiðara Morgunblaðsins í dag. Þar er fjallað um þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar að fara ofan í saumana á atburðarásinni sem kennd er við Kjúklingastræti. Utanríkisráðherra sýnir hugrekki með þessari ákvörðun.

Og fyrst fólk er með augun á leiðarasíðunni þá er vel hægt að gjóa þeim á hinn leiðarann, þann neðri. Svona í leiðinni.

16 apríl 2008

Virðing

Þessa dagana er svolítið rætt um auglýsingar sem beint er að börnum. Þá aðallega skaðlegar auglýsingar og nóg er víst af þeim.

Hér er ein góð. Mikilvæg og falleg.

Þessa vil ég að sonur minn sjái.

Lengi býr að fyrstu gerð.

15 apríl 2008

Skammstafaðar mömmur og íslenska ofurkonan

Ég sat fagnaðarfund í Ráðhúsinu í dag (ekki borgarstjórnarfund þó...) þar sem glaðst var yfir nýsamþykktum jafnréttislögum. Þar stigu valinkunnar konur og einn Mörður á stokk og margt var tekið fyrir. Meðal annars staðsetning Jafnréttisstofu, sem með nýju lögunum fær sterkari heimildir til aðgerða, en Jafnréttisstofa er á Akureyri. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra stofunnar, þurfti einmitt að rjúka úr pallborðinu áður en yfir lauk til að ná flugi. Sú ótímabæra brottför varð kveikjan að fyrirspurnum og umræðu um staðsetningu Jafnréttisstofu.

Kristín Ástgeirsdóttir rakti sögu jafnréttislaganna - fyrir hverju hefur verið barist, tregðulögmálin, hvað hefur einkennt lögin hverju sinni og hvernig Samtök Atvinnulífsins, áður VSÍ, hafa ávallt barist eins og ljón gegn ýmsum ákvæðum laganna.

Það var Hannibal gamli sem fyrst talaði fyrir lögum um jafna stöðu kynjanna. Hann var þá forseti ASÍ og eðlilega í miklum tengslum við láglaunakonur á þeim tíma.

Valgerður B. Eggertsdóttir var með flott innlegg. Hún talaði um smáu hlutina - sem þó skipta svo miklu máli. Eins og B-ið í nafninu hennar sem stendur fyrir Bergþórudóttir. Þegar Valgerður var menntaskólamær skokkaði hún á skrifstofu Þjóðskrár og vildi fá eftirnafnið Bergþórudóttir skráð jafnhliða föðurnafni sínu. Það samrýmdist ekki reglum þjóðskrárinnar - var of langt. Henni var boðið að stytta á alla mögulega kanta, t.a.m. Eggertsd. og Bergþórud. og jafnvel skírnarnafnið - ,,Valg."

Sem óneitanlega kemur spánskt fyrir sjónir!

Hvorki gekk né rak og á endanum þurfti hún að sætta sig við að mamman yrði skammstöfuð.

Stóru málin snúa að launum hefðbundinna kvennastétta, afnámi launaleyndar, þátttöku kvenna á öllum sviðum þjóðlífsins og þá sérstaklega þar sem ráðum er ráðið. Þar sem kjötkatlarnir eru heitastir.

Ekki síður fer að verða ákaflega áríðandi að skoða vinnuálag ungra kvenna með lítil börn, allt of stutt fæðingarorlof, mikla atvinnuþátttöku og fjölda barna per konu. Allt þetta þarf að skoða í samhengi og færa inn á hið pólitíska svið.

Hversdagsleg tilvera íslenskra kvenna á barneignaraldri er þrungin álagi, oft sektarkennd, tvöfaldri vinnuskyldu og gríðarlegum kröfum sem nútímakonan á bágt með að mæta. Íslensku ,,ofurkonuna" kannast ég ágætlega við, sé henni stundum bregða fyrir í speglinum á morgnana. En ég er ekki alltaf viss um að hún sé á réttri leið.

Tregðulögmál

Tregðulögmálið hér er með ólíkindum. Á Reykjavíkurlistatímabilinu lúrðu hundruðir milljóna á biðreikningum borgarinnar og sífellt var beðið eftir ríkinu. Borgin var tilbúin - en það var djúpt á mótframlagi ríkisins.

Ráðríki & borg. Samskiptin þeirra á milli hafa ekki alltaf verið góð og það hefur óneitanlega læðst að konu sá grunur að pólitíkin leiki málefnin svo grátt að mönnum sjáist ekki fyrir.

Það sést alla vega ekki í hjúkrunarheimilin ennþá.

Jóhanna er þó að mýkja liðböndin ríkisins megin. Loksins.

,,Viðhafnaraðkoman"

Umræðan um Fríkirkjuveg 11 er um margt sniðug. Eigendur hússins hafa mikinn áhuga á því að eiga við Hallargarðinn og breyta ýmsu bakatil, þ.e.a.s. á litla fótboltavellinum í undurfallegu hestagerði austan við húsið.

Ég var hlynnt sölu hússins á sínum tíma en Samfylking hefur alltaf sagt að garðinn og nánasta umhverfi hússins ætti að umgangast af mikilli virðingu og skerða á engan hátt aðgengi íbúa að garðinum. Enda var gengið út frá því þegar salan átti sér stað að eingöngu húsið væri til sölu. Ekki garðurinn.

Eigendur hafa síðar í ferlinu fært sig upp á skaftið og mótað ýmsar hugmyndir, til dæmis um ,,viðhafnaraðkomu fyrir tigna gesti", sem er eitt kómískasta fyrirbæri sem ég hef heyrt um í langan tíma. Viðhafnaraðkoman er e.k. vegur frá Fríkirkjuveginum, í gegnum Hallargarðinn og upp að húsinu. Um það bil 30 metrar. Enda hræðilegt fyrir tigna gesti að þurfa jafnvel að takast á við þá löngu göngu á sínum tveimur jafnfljótu. Í öllum veðrum.

Vegagerð í Hallargarðinum hljómar afar, afar illa í mínum eyrum. Í umræðum hér á borgarstjórnarfundi kom Björk mín Vilhelmsdóttir með snjalla athugasemd. Tignir gestir munu miklu frekar láta heillast af þeim sjarmerandi þrönga stíg sem liggur meðfram hestagerðinu austan við Fríkirkjuveg 11 - og niður að húsinu. Þar er andblær gömlu Reykjavíkur; sjarmerandi, einstakur og upprunalegur.

En leiðinlegast af öllu er þó að borgarstjóri gat alls ekki svarað okkur því hvort leikvöllurinn bakvið Fríkirkjuveg 11 eigi að fara eða vera. Sá undurfallegi fótboltavöllur sem hvílir í grófinni milli F-11 og Skemmtihússins er mikið nýttur af börnum hverfisins. Á þessu svæði er ósköp lítið um leiksvæði. Ég þekki tvo tápmikla og fjöruga drengi á Laufásvegi sem leika sér oft á vellinum og þeir segja mér að þar sé oft fjör og fjölmenni.

Nú hafa afkomendur Thor Jensen keypt Fríkirkjuveg 11 og það fer ágætlega á því. Þeir hafa metnaðarfullar hugmyndir um varðveislu hússins og munu hugsa vel um það. Þeir vilja opna sögusafn í húsinu til minningar um Thor Jensen og það fer vel á því að opna hluta hússins almenningi svo við fáum áfram notið þess.

En hallargarðarins hafa borgarbúar notið í aldanna rás og svo verður að vera áfram. Leikvöllinn verður að vernda og hestagerðið ætti að friða eins og skot og ekki hrófla við þeim augasteini í hjarta borgarinnar.

Skondið er þó að hugsa til þess að fermetraverð hins glæsilega húss að Fríkirkjuvegi 11 var lægra en húsanna að Laugavegi 4 og 6.

Jafnréttislögum fagnað

Á afmælisdegi Vigdísar Finnbogadóttur er ætlunin að fagna jafnréttislögunum nýsamþykktu. Það mun vera í dag, 16. apríl, í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 17.

Erindi og skemmtilegheit - eins og vera ber.

13 apríl 2008

Engum háð

Við hjónaleysin buðum verðandi tengdasyni okkar í læri í gær. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mágkonu sinni, tveggja ára gamallri heimasætunni og 22 ára aldursmunur háir kærleiksríku sambandinu ekki hætishót.

Yfir borðum hnerrar sú stutta af miklu alefli, þrisvar í röð. Mágurinn lítur blíðlega á hana og segir:

,,Guð hjálpi þér".

Þá segir sú stutta, rólega og yfirvegað.

,,Nei. Enginn."

Foreldrarnir klóruðu sér lengi í hausnum yfir mögulegum túlkunum á orðum dótturinnar.

10 apríl 2008

Stjörnukíkir - skapandi kennsla og nám

Ég kíkti til Elísabetar Indru í Stjörnukíkinn og viðtalið verður á dagskrá á Rás 1 klukkan 14 í dag. Ef einhver hefði áhuga. Ef mig skyldi kalla.

Þar spjölluðum við um Vegvísi UNESCO um listfræðslu, mikilvægi sköpunar í lífi og tilveru barna (og fullorðinna!)

Það beið okkar stórkostlegt verkefni í október þegar Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum - nefnilega það að móta framtíðarsýn og skólastefnu fyrir fjóra nýja grunnskóla í Úlfarsárdal. Margt og mikið er um það að segja en helst þó að sköpun var rauður þráður í skólastarfinu og með töluvert stærri skrefum en hingað til hefur verið reynt.

Eins stigum við stórt skref með því að teikna upp nýtt form af samspili skóla og frístunda. Gert var ráð fyrir í framtíðarsýn okkar að ÍTR-frístundastarfið og skólastarfið myndu fléttast saman - frístundafræðingarnir og kennararnir hefðu starfað hlið við hlið, skólahúsnæðið nýtist betur, virkir krakkar með mikla hreyfiþörf hefðu fengið meira út úr skóladeginum og ótal möguleikar hefðu opnast á samspili íþrótta, lista, námsgreina og útivistar.

En heyrn er bloggi ríkari - Rás 1 klukkan 14 í dag. Nú brenn ég austur fyrir fjall á Kvennaþing Samfylkingarinnar. Ég hlakka til umræðnanna en þó ekki síður til þess að sjá uppáhalds hljómsveitina mína - ROKKSLÆÐUNA - spila fyrir dansi. Hin goðsagnakennda kvennasveit kemur saman í fyrsta skipti í þrjú ár, í tilefni Kvennaþings. Það held ég nú.

Réttlætinu náð

Óánægjubylgja barst um borgarsamfélagið í vikunni vegna undarlegrar ákvörðunar valdhafa í Reykjavíkurborg að hætta við aukafjárveitingu til sumarstarfs fatlaðra barna á aldrinum 10-16 ára. Landssamtökin Þroskahjálp, hagsmunafélag foreldra barna með fötlun, ályktaði gegn ákvörðuninni og við fulltrúar minnihlutans í ÍTR vorum steinhissa á skyndilegri breytingu á tillögu sem var samþykkt í febrúar.

Það lýsir sérkennilega gamaldags viðhorfi að skera niður í þjónustu við börn með fötlun - kannski hugsunarleysi? Kannski erum við orðin svo vön því að foreldrar og fjölskyldur barna með fötlun hafa sífellt þurft að berjast fyrir sínu, aftur og aftur, sýnkt og heilagt? Ég vona ekki.

En nú er búið að tryggja fjármagn til frístundaklúbbanna - borgarráð var rétt í þessu að samþykkja tillögu þess efnis að áeggjan minnihlutans. Starfsemi fyrir fötluð börn er tryggð næsta sumar. Annars er mér að mæta.

Að mínu mati ættu börn með fötlun að hafa forgang í sumarstarfi. Ég þekki það vel sjálf, eftir fimm sumra reynslu af leikja- og ævintýranámskeiðum í Árseli, hvað börn með fötlun nutu sín vel í frábæru starfi ÍTR. Mér dettur oft í hug lagið ,,Ain´t no mountain high enough" þegar ég rifja upp ýmis atvik þar sem hellaskoðun, klettasig, útilegur og hefðbundnir leikir innan borgarlandsins voru á dagskrá - og það var aldrei í boði að láta börn með líkamlega fötlun sitja og horfa á. Starfsmennirnir einfaldlega settu þau á bakið og báru yfir lækinn, inn um hellismunnann og upp á fjallið!

Ég man sérstaklega eftir Frikka sem var með okkur í Árseli ár eftir ár. Kári bróðir minn var hans fylgisveinn og þurfti oft að bera Frikka, stóran og stæðilegan strák, upp og niður þrönga stíga í útilegum, upp á svefnloft og yfir læki. Á endanum urðu Kári og Frikki eins og gömul hjón, mestu mátar og það var alltaf mesta stuðið hjá þeim.

Enda héldu þeir tengslum í mörg ár eftir að leikja- og ævintýranámskeiðunum sleppti.

Samfélag án aðgreiningar byggir á þeirri hugsun að það eigi ekki að stefna að því að hafa sér-skóla, sér-frístundaklúbba, sér-námskeið fyrir fötluð börn. Börn með fötlun eru börn eins og önnur börn og eiga í lengstu lög að stunda nám, tómstundir og leiki með öðrum börnum. Góðir sérskólar eru þó nauðsynlegir því ekki hentar það sama öllum börnum og góður sérskóli gegnir líka mikilvægu hlutverki þekkingarmiðstöðvar.

En grunnskólinn og tómstundastarfið á að vera fyrir öll börn.

Flug-Café, þráðlaust net í strætó og...

endalaust margar góðar hugmyndir kviknuðu í hugmyndasmiðju miðborgar sem Samfó stóð fyrir í kvöld.

Flug-Café gæti verið staðsett í Hljómskálagarði. Kaffihús með hátölurum sem spila flugvélagný með reglulegu millibili - fyrir þá sem eru aðframkomnir af söknuði til flugvallarins - þegar hann víkur.

Einnig var stungið upp á

1) rolluhlaupi niður Laugaveginn, a la Pamplona
2) aðstöðu fyrir listafólk í auðum húsum
3) umboðsmanni borgara í skipulagsmálum
4) leiktækjum í Alþingisgarðinum
5) frídagahlunnindum starfsmanna fyrirtækja sem taka strætó í vinnuna
6) og ótal öðrum sem nánar verða gerð skil á næstu dögum.

09 apríl 2008

Hugmyndasmiðja miðborgar í kvöld!

Ef þú hefur góða hugmynd að betri miðborg skaltu láta sjá þig á Hallveigarstíg 1 klukkan 20.30 í kvöld, miðvikudagskvöld.

Hvort sem það varðar hús, gömul eða ný, nýtt hlutverk gamalla húsa, leynistíga, leikvelli, uppákomur, ný torg, nýja starfsemi, öðruvísi skipulag, samgöngur, mannlíf eða menningu, götuhátíðir, íbúalýðræði, verslanabrag, veggjakrot.

Sjáumst í kvöld!

08 apríl 2008

Allt er frosið úti Gore

Það var sól og sumarylur í morgun þegar ég mætti í Háskólabíó að hlusta á Al Gore. Ekki hafði spáin ræst um hin alræmdu kuláhrif sem nærvera Gore hefur á lönd og þjóðir sem hann sækir heim.

En sem ég er að horfa á tíu fréttir sé ég snjóflygsurnar falla virðulega til jarðar. Dettur mér þá í hug eftirfarandi erindi:

„Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor
:,:svengd er metti mína.:,:
Ef að húsum heim ég fer
heimafrakkur bannar mér
:,:seppi´ úr sorpi að tína:,:

P.S. Fyrirlesturinn var frábær en fyrir þá sem voru búnir að sjá myndina, jafnvel tvisvar, bætti hann litlu við. En þó er alltaf skemmtilegra að sjá hlutina ,,live". Ég saknaði þess þó að sjá hvergi Egil Helgason.

04 apríl 2008

Nýtt hlutverk fyrir auðu húsin

Það allra klókasta sem við gætum gert núna er að gera listnemum og skapandi fólki af öllum gerðum kleift að nýta sér auðu húsin - að því gefnu að borgin/eigendur geri á þeim lágmarks andlitslyftingu svo engin hætta skapist.

Kling og Bang var gríðarlega vel heppnað. Nú standa auðu húsin á bestu stöðum borgarinnar, í miðbænum þar sem suðupottur sköpunar og lista er.

Af hverju ekki að kýla á það í stað þess að tala illa um miðbæinn í öðru hverju orði?

Sköpun, kraftur og gleði einkenna miðbæ Reykjavíkur. Hann er frægur langt út fyrir landsteinana. Sláum tvær flugur í einu höggi, gefum ungu listafólki tækifæri á að nýta sér húsin á meðan skipulagsmálin hökta löturhægt sína leið innan kerfisins.

Ungir listnemar hafa því miður varla ráð á því að leigja sér aðstöðu til sköpunar í 101 - svo há er húsaleigan.

En umfram allt fyllum miðbæinn af lífi í stað þess að taka hann af lífi.

03 apríl 2008

Borgarstjórinn okkar

Það fór hreinlega um mig hrollur þegar ég heyrði borgarstjórann okkar lýsa því yfir í kvöldfréttum í kvöld að ,,miðborgin væri beinlínis hættuleg". Eru því engin takmörk hvað tveir borgarstjórar - Ólafur F. og Vilhjálmur Þ. - geta fengið af sér að tala miðborgina okkar mikið niður í dómsdagsstíl?

Er þetta það sem verslunareigendur þurfa núna á að halda? Að borgarbúar þori ekki niður í bæ? Er þetta rétta leiðin til að snúa vörn í sókn? Er það þetta sem fasteignaeigendur í 101 þurfa á að halda?

Það hefur alltaf verið utangarðsfólk og fólk í annarlegu ástandi í miðborg Reykjavíkur. Síðan ég man eftir mér. En við skúrum það ekki í burtu eins og veggjakrot. Við losum okkur ekki við það með öryggismyndavélum. Við sjáum til þess að það séu til úrræði fyrir þau, að þau fari sér ekki að voða og að þau brjóti ekki lögin. Við hvetjum þau að sjálfsögðu til að snúa blaðinu við. Allt eru þetta velferðarmál - sem lítið fór fyrir af fréttamannafundinum í dag þar sem borgarstjóri sagði miðborgina vera hættulega.

En það er fólk í annarlegu ástandi út um alla borg - um daginn réðust nokkrir menn inn í íbúð í Breiðholti og lömdu þar mann og annan. Hverju eigum við von á næst þegar slíkur atburður á sér stað? Að borgarstjóri birtist þungbúinn í fréttum og segi:

Breiðholtið er beinlínis hættulegt.

Svona talar maður ekki. Borgarstjóri á að vera manneskja sem talar traustinu í fólk. Stendur með miðbænum sínum, Breiðholtinu sínu, stappar í fólk stálinu, grípur til aðgerða, talar styrkri röddu um sýnilega löggæslu og hvetur fólk til að standa saman.

Að hræða úr fólki líftóruna og dekkja enn frekar myndina af miðborginni er svo óábyrgt að það tekur engu tali.

Það er nefnilega til nokkuð sem heitir öryggistilfinning - og hún skiptir gríðarlega miklu máli á litríkum svæðum þar sem íbúar, kaffihús, verslanir, barir, menningarhús koma saman. Svæði sem byggja allt sitt á því að fjöldinn - íbúar annarra hverfa og sveitarfélaga - vilji sækja þangað.

Það tekur langan tíma að byggja upp tilfinningu fyrir öryggi - og veggjakrot, fegrun og hreinsun skipta miklu máli í því samhengi. En það tekur örstuttan tíma að rústa öryggistilfinningu. Sérstaklega ef hæst setta manneskja borgarinnar fer þar fremst í flokki.

Ég er reið fyrir hönd miðborgarinnar, hverfisins sem ég hef búið í í 12 ár, og þekki eins og handarbakið á mér.

Þar hef ég aldrei fundið til hræðslu.

Þangað til í kvöld - þegar ég hlustaði á borgarstjórann okkar í fréttunum.

01 apríl 2008

Dæmisaga um skóla

Holl og góð lesning fyrir þá sem hafa áhuga á skólastarfi.

Galdurinn er að ýta undir styrkleika nemenda -

þess vegna er ég á móti stöðluðum prófum sem reikna með því að allir læri það sama - á sama tíma og á sama hraða.

Og að allir hafi jafn gaman að öllu!

Tíminn og borgin

50 blaðsíðna skýrsla með fantagóðum tillögum um nær allt sem tengist miðborginni -

skipulag
viðhald húsa
umgengni á lóðum
sambýli kráa og íbúa
veggjakrot
samstarf hagsmunaaðila
betri borgarbrag
ölvun á almannafæri
greiðar samgöngur að næturlagi um helgar
sýnilega löggæslu
fjölgun öryggismyndavéla
og almennan sóðaskap

var tilbúin þann 21. janúar en í gær, 1. apríl, var fyrst talað um hana í borgarstjórn Reykjavíkur.

Meirihlutinn hafði ekki rænu á eða gleymdi því bara eða fannst hún ekki merkileg eða hefur ekki áhuga á miðbænum eða er bara ekki nógu vel skipulagður... ég veit ekki - Hann hefur ekki haft vilja til þess að nýta niðurstöðurnar - úr hinni frábæru skýrslu.

Ég myndi nýta mér hana ef ég væri borgarstjóri. Og jafnvel byrja strax í dag, 2. apríl, að hrinda atriðum úr henni í framkvæmd.

En borgarstjóri ákvað á borgarstjórnarfundi í gær að skipa nýjan hóp. Búa til aðra nefnd. Sem mun líklega búa til aðra skýrslu sem segir það sama á 50 blaðsíðum.

Borgarstjóri lýsti því líka yfir að það stæði til að fara í hreinsunarátak í miðbænum. Svo mörg voru þau orð.

Það er kannski táknrænt að stóra klukkan í borgarstjórnarsalnum stendur í stað.

Hún var 13.51 í allan gærdag og langt fram á kvöld.

Úa

Vináttubönd sem myndast í leikskóla eru sterkari en stál. Dóttir mín hefur verið heimavinnandi undanfarnar þrjár heilar vikur vegna páskafrís og hlaupabólu. Í þrjár vikur hitti hún ekki vini sína og vinkonur á Grænuborg og söknuðurinn var að bera hana ofurliði.

Besta vinkonan heitir Elísabet Úa - kölluð Úa - og hlaupabólótt teiknaði heimasætan af henni myndir við eldhúsborðið, samdi um hana vísur, söng til hennar óð, lék um hana leikrit, spann um hana sögur.

Hún spurði um Úu í sífellu, skipulagði framtíðina með henni, bauð henni í afmælið sitt, bakaði handa henni ímynduð brauð, lagði fyrir hana á ímyndað borð, byggði handa henni ímynduð hús.

That´s what friends are for.

Á kvöldin átti hún það til að spangóla til hennar saknaðarsöngva. ,,Úúúúúúúa er vinur minn" heyrðist óma um Skólavörðuholtið.

Margrét María og Elísabet Úa eru tveggja ára. Í öruggu skjóli leikskólans - í faðmi frábærs starfsfólks - þroska þær með sér mikilvægustu element manneskjunnar:

Tilfinningaþroska, virðingu og umhyggju. Það er ekki lítið merkilegt.