01 apríl 2008

Úa

Vináttubönd sem myndast í leikskóla eru sterkari en stál. Dóttir mín hefur verið heimavinnandi undanfarnar þrjár heilar vikur vegna páskafrís og hlaupabólu. Í þrjár vikur hitti hún ekki vini sína og vinkonur á Grænuborg og söknuðurinn var að bera hana ofurliði.

Besta vinkonan heitir Elísabet Úa - kölluð Úa - og hlaupabólótt teiknaði heimasætan af henni myndir við eldhúsborðið, samdi um hana vísur, söng til hennar óð, lék um hana leikrit, spann um hana sögur.

Hún spurði um Úu í sífellu, skipulagði framtíðina með henni, bauð henni í afmælið sitt, bakaði handa henni ímynduð brauð, lagði fyrir hana á ímyndað borð, byggði handa henni ímynduð hús.

That´s what friends are for.

Á kvöldin átti hún það til að spangóla til hennar saknaðarsöngva. ,,Úúúúúúúa er vinur minn" heyrðist óma um Skólavörðuholtið.

Margrét María og Elísabet Úa eru tveggja ára. Í öruggu skjóli leikskólans - í faðmi frábærs starfsfólks - þroska þær með sér mikilvægustu element manneskjunnar:

Tilfinningaþroska, virðingu og umhyggju. Það er ekki lítið merkilegt.

Engin ummæli: