31 mars 2008

Höfuðverkur í miðri höfuðborg eða frábærar fréttir?

Frá árinu 1999 hef ég viljað flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni. Ég arkaði um með aktivistum í aðdraganda íbúakosninga um flugvöllinn um síðustu aldamót, með merki í barminum sem á stóð "102 Reykjavík". Mín helstu rök voru - og eru þessi:

Tækifæri til uppbyggingar í Vatnsmýri og þar með ljúka borgarmyndinni í eldri hluta hennar eru of dýrmæt til að nýta þau ekki.

Öryggissjónarmið - ég hef búið á ótal stöðum í 101 Reykjavík og fæ alltaf hroll þegar flugvélarnar fljúga svo nálægt þéttustu íbúabyggð landsins að vel má greina hver situr í sæti 8b.

Umhverfissjónarmið - a) mengun af flugi í þéttbýlasta kjarna landsins b) þétt íbúabyggð í 102 sem vonandi nær því markmiði að vera kjörin fyrir Reykvíkinga sem vilja búa nálægt vinnu og hjóla/ganga í stað þess að keyra bíl.

Og jú - mér finnst það á vissan hátt eigingirni að farþegar innanlandsflugs (og Færeyja-Grænlands og einkaþotuflugs) þurfi að lenda í túnfætinum hjá þúsundum Reykvíkinga. Og ég er ekki ein um það.

Þó bý ég vel hvað varðar aðgengi að flugvellinum, í ca. 3ja mínútna göngufjarlægð og þyrfti - ef flugvöllurinn færi - að þræla mér í bíl upp á Hólmsheiði eða alla leið til Keflavíkur þegar ég flýg norður.

En það búa tugir þúsunda Reykvíkinga og annarra víkinga s.s. úr Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, nær t.d. Hólmsheiði. Keflavíkin er svo ekki langt undan ef við ráðumst í verulegar samgöngubætur. Þannig myndum við fara best með almannafé því það kostar sáralítið að sameina innanlandsflug millilandaflugi í Keflavík.

Að öllu þessu framansögðu verð ég að viðurkenna að samgöngumiðstöðin hefur verið mér töluverður höfuðverkur. Höfuðverkur í miðri höfuðborg. En sá verkur er á undanhaldi. Því ég sé alltaf betur og betur að alvöru samgöngumiðstöð á góðum stað - stað sem heildarskipulag Vatnsmýrarinnar kallar á - eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja sjá byggð í Vatnsmýri.

Því ef flugvöllurinn fer - þurfum við alvöru samgöngumiðstöð, fyrir lest til Keflavíkur til dæmis, fyrir strætó sem þarf að hugsa fyrir í tengslum við grænar samgöngur í 102 Reykjavík, fyrir rúturnar sem koma frá Keflavík með millilandafarþegana. En hún þarf að vera á góðum stað og í verðlaunatillögu Skotanna er einmitt gert ráð fyrir henni, fyrir norðan Hótel Loftleiði.

En samgöngumiðstöðin verður að vera á forsendum bættra samgangna - ekki flugvallar. Þó svo að flugfélög geti nýtt sér hana á meðan flugvöllurinn er ennþá í Vatnsmýrinni. Síðan er hægt að breyta flugstöðvarhlutanum í verslunarmiðstöð, skrifstofur, diskótek eða flugstöðvarsafn. Þess vegna er ég ekki nógu ánægð með útfærslu Ólafs F og Kristjáns Möller. Í fyrsta lagi er útfærslan sem við sáum í tölvumyndunum ekki góð, tröllaukið svæði undir bíla og þeir voru með mjög glannalegar yfirlýsingar um hraða uppbyggingar.

Við megum ekki kasta til höndum þegar byggja á samgöngumiðstöð sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir allar samgöngur í Reykjavík næstu 100 árin. Til þess er ábyrgð okkar of mikil. Ég heiti á unga fólkið í borgarstjórn að stuðla að því að samgöngumiðstöðin verði byggð með það fyrir augum að hún gagnist jafn vel eftir að flugvöllurinn fer. Það er algjört höfuðatriði.

Ný samgöngumiðstöð verður að veruleika og það eru góðar fréttir fyrir þá sem vilja byggð í Vatnsmýri. Ef rétt er á spilum haldið. Þar fyrir utan er BSÍ frá 1967 og það ágæta hús er barn síns tíma. Svo verulega vægt sé til orða tekið.

Engin ummæli: