Við erum í hópi mjög fárra ríkja í OECD þar sem skattbyrði barnafólks og lágtekjufólks hefur aukist undanfarin ár. Tilhneigingin annars staðar er sú að létta skattbyrðinni af þessum hópum.
Þetta eru kaldar kveðjur til barnafólks. Ekkert, nákvæmlega ekkert er þjóðhagslega hagkvæmara og ábatasamara fyrir þjóðarbúið en barneignir. Íslenskar konur eignast næstflest börn í Evrópu - bara tyrkneskar konur skjóta okkur ref fyrir rass í þeim efnum. Ég hef þó fulla trú á að við siglum fram úr þeim innan tíðar. Áfram Ísland!
En þrátt fyrir öfluga framleiðslu afkvæma vinna íslenskar konur mest allra kvenna úti - 82% íslenskra kvenna eru útivinnandi. Hæsta hlutfall innan OECD ríkjanna. Í öðrum ríkjum er þessu þveröfugt farið, í mörgum hinna stóru Evrópulanda standa konur frammi fyrir því erfiða vali að
a) eignast barn/börn eða
a) eignast barn/börn eða
b) byggja upp starfsframa.
Mörgum konum kynntist ég í Þýskalandi sem kysstu drauminn um barneignir bless - og bölvuðu bitrar því þjóðfélagi sem neyddi þær til að velja.
Þessar tvær íslensku staðreyndir; barneignatölur & atvinnuþátttaka kvenna hafa verið eldsneytið í uppgangi síðustu ára og áratuga. Við þurfum á hverri vinnandi hönd að halda - við þurfum líka fleiri í landsliðið til að halda þjóðfélaginu í horfinu.
Aðra athyglisverða staðreynd hefur Jafnréttis-Ingólfur verið duglegur að benda á. Hún er sú að bætt fæðingarorlofslöggjöf fjölgar beinlínis fæðingum. Það hljómar lokkandi fyrir þjóð sem telur 313.000 íbúa. Af Skandinavíuþjóðunum er okkar fæðingarorlof styst. 15-16 mánuðir í Svíþjóð og Noregi. Hið minnsta 12 mánuðir í Danmörku og Finnlandi. 9 mánuðir á Íslandi.
Jákvætt skref hefur verið stigið varðandi barnabæturnar og vaxtabæturnar eiga að hífast örlítið upp á við. Ég legg þó til að við gerum enn betur við barnafólk og leggjum höfuðáherslu á að lengja fæðingarorlofið. Við gætum safnað nokkrum góðum barnhvetjandi aðgerðum saman í kippu og kallað það svo mótvægisaðgerðir.
Við ýmis tilefni er það fína orð brúkað. Svo mikið er víst.
2 ummæli:
Hjartanlega sammála.
Næringarstofa mælir með því að konur séu með börn á brjósti ef hægt er án þess að þau neyti annarrar fæðu til sex mánaða aldurs eða þar um bil. Því er varla val um það hvort konur, sem á annað borð eru með börnin sín á brjósti, geti farið fyrr út á vinnumarkaðinn. Þess vegna taka næstum allar konur 6 mánuði í dag og karlarnir einungis sína 3 mánuði.
Það er mjög mikilvægt að karlarnir haldi sínum þremur mánuðum. Hugsanlega ætti þó að ánafna þeim 4 mánuði og að 2 mánuðir yrðu sameiginlegir. Alls 12 mánuðir. Það yrðu margir feður þakklátir fyrir það. Við átta mánaða aldur eru börnin farin að borða meira en mjólk og móðirin getur auðveldlega verið lengur að heiman en áður.
Allar hugmyndir hins vegar um að einstæðar mæður fái mánuði karlanna mega aldrei fara í gegn. Það er fallegt á pappír en ekki í raunveruleikanum. Ef ríkið vill bæta við mánuðum hjá þeim þá er það allt í lagi en ef þær geta tekið mánuði karlanna þá er útséð með að þeir fái fæðingarorlof með börnunum sínum. Þetta eru nefnilega börnin þeirra þrátt fyrir að þau búi ekki saman.
Heyr heyr Oddný, svo ættu fjölburaforeldrar auðvitað að fá amk 2 ár og hærra orlof í samræmi við fjölda barna, ekki satt? Við fáum samtals 12 mánuði í orof, tökum 3 saman, þá eru eftir 6 og af þeim tek ég 5 og pabbinn 1. Svo í rauninni verð ég bara í orlofi í 8 mánuði, 2 mánuðum lengur en með eitt barn.. Samt er þetta tvöföld vinna að vera með þau á brjósti og maður gerir nákvæmlega EKKI NEITT annað inni á heimilinu en að sinna börnunum.
Mér finndist líka að einstæðar mæður mættu taka pabbamánuðina, en auðvitað með samþykki eða í samráði við barnsföður, sé það í boði... Kveðja frá Barnavélinni.
Skrifa ummæli