20 nóvember 2009

Áherslur og verk Oddnýjar

Ég hef komið víða við í störfum mínum fyrir borgarbúa síðastliðin fjögur ár og starfað að menningar- og miðborgarmálum, jafnréttis- velferðar- og skipulagsmálum. En líklega slær hjarta mitt örast með mennta- og menningarmálunum. Í raun öllu sem viðkemur börnum og ungmennum.

Mamma er kennari og heitir María Norðdahl. Hún vinnur hjá Kennarasambandi Íslands. Pabbi er hugbúnaðarsérfræðingur og formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Ég á þrjá bræður, Snorra sem starfar við kvikmynda- og auglýsingagerð í New York, Kára sem starfar í tónlistargeiranum og Tómas sem er nemi í Austurbæjarskóla. Ég á tvö börn, Margréti Maríu (4) og Kára Daníel (6).

Ég lifi bíllausum lífsstíl. Það getur verið dálítið krefjandi með tvö lítil börn en einhvern veginn gengur það upp. Ég bjó í Þýskalandi fyrir sex árum og komst þar upp á lagið með metnaðarfulla endurvinnslu heima fyrir. Þar eigum við Reykvíkingar verk að vinna.

Eflum listsköpun og listræna upplifun í skólum

Ég er píanókennari að mennt og hef mestmegnis starfað við tónlist og ritstörf. Þýddi meðal annars metsölubókina Móðir í hjáverkum og skrifaði bókina Dís með vinkonum mínum sem síðar varð að kvikmynd eftir handriti okkar. Ég skrifaði fyrir grínþættina Stelpurnar og hef komið að gerð og vinnslu handrita og bóka. Og spilað í hljómsveit og kammerhópum um alla borg.

Mín stærsta árstríða er að efla listsköpun, listfræðslu og listupplifun í skólum. Ekki má gleyma samstarfi listamanna, menningarstofnanna og skóla ásamt samþættingu frístunda- og skólastarfs sem gera mun skóladaginn innihaldsríkari.

Íslenski skólinn er fyrir öll börn, óháð uppruna og atgervi. Það er áskorun á hverjum degi að hlúa að skólastarfinu, ýta undir framfarir og skólaþróun, koma auga á veikleika og bæta úr. Stoltust er ég af því að hafa komið á samstarfi við háskóla um eflingu læsis í grunnskólum Reykjavíkur. Nú eru þróunarverkefni tengd því í fjölmörgum skólum í Reykjavík og árangurinn lætur ekki á sér standa. Metnaður, sköpun og margbreytileiki eiga að einkenna skólana okkar svo hvert barn njóti sinna styrkleika.

Atvinna er stóra velferðarmálið

Ég hef leitt atvinnumálahóp borgarstjórnar síðan í júní 2009. Þar er fylgst með þróun og áhrifum atvinnuleysis á íbúa Reykjavíkur. Í desember kynnti atvinnumálahópurinn viðamikla úttekt á atvinnuleysi í Reykjavík sem leiddi til þess að 150 milljónum verður úthlutað til ýmissa atvinnuátaksverkefna á árinu 2010. Stuttar, langar og fjölbreyttar námsleiðir, auk samstarfs milli framhaldsskóla, félagsmiðstöðva og grunnskóla: þetta er gríðarlega mikilvægt nú þegar stór hluti atvinnulausra eru ungmenni með litla formlega menntun. Hér er verk að vinna.

Samstarf ríkis og borgar í atvinnumálum er algjört lykilatriði og ég er stolt af því að hafa leitt saman hesta fjölmargra aðila sem koma að ráðgjöf, virkniúrræðum og námsleiðum fyrir atvinnulausa. Reykjavíkurborg verður að rækja samfélagslega mikilvægt hlutverk sitt gagnvart atvinnulausum, það er stóra velferðarmálið á árinu 2010, ári gegn fátækt í Evrópu.


Mér þykir vænt um Samfylkinguna


Ég hef óskaplega gaman af því að taka þátt í innra starfi flokksins. Ég skráði mig seint til leiks í stjórnmálaflokk og hélt satt best að segja að þar væri leiðinlegt að vera. En mér var kennt að hafa áhrif á umhverfi mitt – og breyta og bæta úr. Sem formaður Borgarmálaráðs hef ég verið óhrædd við að brydda upp á nýjungum, ,,Hugmyndasmiðjum” í stað hefðbundinna miðvikudagsfunda, ,,Hringborðsfundum” úti í hverfunum með máttarstólpum á hverjum stað.

Og eftir að hafa haft miklar áhyggjur af því hversu illa gekk að fá íbúa af erlendum uppruna til að taka þátt í starfi stjórnmálaflokks þá tók ég þátt í að stofna ,,Landnemann”, félag Samfylkingarfólks um fjölmenningu og innflytjendur. Og hef setið þar í stjórn frá upphafi með frábærum hópi nýbúa og síbúa. Ég er varaformaður menntamálanefndar Samfylkingarinnar og setti á laggirnar femíníska bloggsíðu ásamt öðrum, www.truno.blog.is.

Heiðarlega, skapandi og skemmtilega borg

Reykjavík er borg margbreytileikans. Íbúarnir koma frá öllum heimsins hornum og störfin eru fjölbreytt. Leyfum þúsund blómum að blómstra í atvinnusköpun á höfuðborgarsvæðinu. Engin töfralausn er til önnur en sú að styðja við smá sem stór fyrirtæki, menningarverkefni, ferðamennsku og framrtakssemi. Regluvirki borgarinnar á að vera einfalt og skilvirkt fyrir duglegt fólk á öllum aldri.

Reykjavíkurborg gegnir mikilvægu hlutverki við mótun lýðræðislegra samfélags á Íslandi. Ábyrgð hennar á því að innleiða ný vinnubrögð í anda samstarfs og samþættingar er mikil. Flutningur verkefna til sveitarfélaga sem tengjast öldruðum og fötluðum íbúum þeirra er mikilvægt skref í átt til aukinnar velferðar og metnaðarfyllri þjónustu. Samstarf sparar bæði spor og fjármagn, við höfum ekki lengur efni á múrum milli stofnanna og stjórnsýslustiga. Til þess að koma auga á samstarfsmöguleikana þarf fólk sem hugsar í lausnum og lætur verkin tala. Við þurfum gagnsæja og heiðarlega stjórnsýslu þar sem einkavinir fá sömu meðferð og ókunnugir og almannafé rennur til verkefna í almannaþágu.

Verkin tala

Hér er sýnishorn af tillögum og málum sem ég hef talað fyrir í borgarstjórn og á vettvangi menntaráðs. Nær allar tillögurnar voru samþykktar og eru komnar í farveg. Sumar alla leið.

- Tillaga um að Reykjavík verði bókmenntaborg UNESCO
- Tillaga um endurskoðun húsverndaráætlanna Reykjavíkur
- Tillaga um formlegt samstarf ríkis og borgar um virkni, ráðgjöf og námsleiðir handa atvinnulausu fólki.
- Tillaga um jafnréttisátak í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því að konur settust í bæjarstjórn Reykjavíkur.
- Tillaga um ný ritsmíðaverðlaun veitt börnum og ungmennum til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur
- Tillaga um betrumbætur á þjónustu við lesblind börn í skólum Reykjavíkur
- Mótun nýrrar skólastefnu fyrir grunnskóla Úlfarsárdals sem byggja á samþættingu listgreina við aðrar námsgreinar og nýrri hugsun í skipulagi skóladagsins.
- Tillaga um endurskoðun eineltisáætlanna Reykjavíkurborgar.
- Tillaga um að Reykjavíkurborg skrifi undir Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum.
- Tillaga um að Reykjavíkurborg leiði tilraunaverkefni um ráðgjöf, sjálfsstyrkingu og menntunarúrræði fyrir langtímaatvinnulaust fólk yngra en 30 ára í Reykjavík.

Eins hef ég verið fyrsti talsmaður í borgarstjórn fyrir stefnumótun í málefnum innflytjenda sem leiddi til mikilla umbóta fyrir börn af erlendum uppruna í skólum. Auk þess hef ég talað fyrir samþættingu frístunda- og skólastarfs, atvinnumálum ungmenna og aukins samstarfs borgarstofnana við íbúa og frjáls félagasamtök í hverfum borgarinnar.

Von og bjartsýni fyrir framtíðina

Reykvíkingar þurfa von og bjartsýni fyrir framtíðina. Dugmikla borgarfulltrúa sem eiga gott með að leiða saman hesta allra þeirra sem sinna þjónustu við borgarbúa. Fólk sem brennur af metnaði fyrir hönd sinnar borgar.

Við eigum endurnýjanlega orkugjafa og vatn í hreinum lindum. Auðlindirnar verðum við að nýta um ókomna tíð og því þarf sjálfbærni að vera rauður þráður í öllum ákvörðunum borgarstjórnar. Byggðina þurfum við að þétta, það er bæði hagkvæmt og skynsamt. Hverfin okkar eru sterk og skemmtilega fjölbreytt.

En íbúarnir kalla á meira samstarf um börnin, þjónustuna sem næst heimilinu og að hægt sé að leika sér, fullorðnast og eldast í sama hverfi. Samfylkingin hefur bjargfasta trú á gildi hverfamiðaðrar þjónustu og ég vil stíga enn stærri skref í þá átt. Reykvíkingar eru umburðarlyndir og skipa sér í fremstu röð hvað varðar aðgengi allra barna að sínum heimaskóla. Það lýsir metnaði og réttsýni.

Ég treysti mér til að fylgja eftir hugsjónum jafnaðarmanna um réttsýnt samfélag þar sem öll börn fá notið sinna styrkleika. Þannig byggjum við góða borg. Borg beggja kynja, borg allra þjóðarbrota, borg tækifæra og lífsgæða.

Kær kveðja, Oddný.

Engin ummæli: