21 október 2010

Verum kjörkuð - þorum að breyta

Hér er erindi sem ég flutti á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Erindið fjallar um skólamál, kemur kannski lítið á óvart. Ég var hvött til að birta hana hér. Læt tengilinn nægja.

18 október 2010

Þegar Samfó og Besti stálu jólunum

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur nú til meðferðar drög að leikreglum um samskipti skóla og trúfélaga. Menntaráð mun fá málið til umsagnar, sem og ÍTR og velferðarráð.

Umræða um skólamál, hlutverk skólans og hlutverk annarra stofnana í samfélaginu er alltaf fagnaðarefni. Hins vegar hefur umræðan síðustu daga verið nokkuð í æsifréttastíl og því koma hér nokkrar staðreyndir áður en lengra verður haldið:

1) Það er enginn að eyðileggja jólin. Í drögunum er þess sérstaklega getið að ekki er ætlunin með þeim að hrófla við hefðbundnum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. Litlu-jólin, jólaföndrið, jólaböllin og annar sígildur undirbúningur jóla verður eftir sem áður veruleiki reykvískra leik- og grunnskólabarna.

2) Það er enginn að leggja niður trúarbragðafræðslu í skólum. Í drögunum er hvergi vikið einu orði að trúarbragða- eða kristinfræðslu. Sú fræðsla fylgir ákvæðum aðalnámskrár hverju sinni og reykvískir skólar munu því hér eftir sem hingað til fræða börn um ólík trúarbrögð, kristna trú sem og aðra.

Í drögunum gerir mannréttindaráð tilraun til að skerpa á hlutverki skólans annars vegar og kirkjunnar hins vegar. Síðustu ár hefur það færst í aukana að prestar komi í reglulegar heimsóknir í skóla, núningur kemur upp vegna fermingarfræðslu á skólatíma og brunnið hefur við að starf á vegum kirkjunnar sé orðið óeðlilega samtvinnað skólastarfinu. Það samræmist hvorki mannréttindastefnu borgarinnar né hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sem kveður á um að taka beri tillit til allra barna, óháð atgervi þeirra eða trúarskoðunum.

Það er foreldra að sinna trúaruppeldi barna sinna, skólans að uppfræða og kirkjunnar að boða trú. Allar hafa þessar stofnanir (ef fjölskyldan er stofnun) merkilegu og ekki síst ólíku hlutverki að gegna.

Spurt er: Hvað með samstarf í hverfum? Getur hvert og eitt samfélag ekki fundið út úr þessu sjálft?

Ég er mikill talsmaður hverfanálgunar á alla þjónustu við börn og unglinga. En það mun aldrei skapast sátt um það að kirkjan hafi bein ítök í skóla- og frístundastarfi. Til þess eru nægilega margir foreldrar sem vilja ekki slík afskipti. Í sumum hverfum virða prestar hlutverk skólans og skilja hlutverk kirkjunnar - í öðrum ekki. Um sumt verða að gilda miðlægar reglur.

Spurt er: Mikill meirihluti barna er í þjóðkirkjunni, er verið að breyta öllu fyrir háværan minnihlutahóp?

Fræðsluyfirvöld og menntaráðsfólk þurfa ávallt að hafa sína miklu ábyrgð í huga. Hún er sú að skólinn er griðastaður allra barna, hvers eins og einasta. Barna með sérþarfir og barna sem koma úr fjölskyldum sem aðhyllast önnur lífsviðhorf en kristin. Röksemdarfærslan um háværa minnihlutahópinn þykir mér sérkennileg. Eigum við þá ekki að taka tillit til barna með sérþarfir í skólunum, þau eru nú ekki nema um 10-15% af barnafjöldanum? En mitt hlutverk er að gæta að réttindum þeirra barna, rétt eins og allra hinna.

Spurt er: En er kirkjan og prestar að boða eitthvað hættulegt?

Að sjálfsögðu ekki. En skólar eru ekki vettvangur fyrir trúboð. Kirkjan og önnur trúfélög hafa mýmörg tækifæri til að koma sínum boðskap á framfæri við börn og unglinga. Vandað og gott barna- og unglingastarf þekkist af afspurn, og í sumum sóknum er gríðarlega blómlegt æskulýðsstarf. Það er ekki í nokkurri hættu þó svo við skerpum á reglum borgarinnar þegar kemur að beinni þátttöku kirkjunnar í skólastarfi.

Spurt er: Hvar er samráðið?

Þessi umræða datt ekki af himnum ofan í þessari viku. Á árinu 2007 skilaði starfshópur á vegum mennta- og leikskólasviðs vandaðri skýrslu um samskipti skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Við það borð sátu fulltrúar Biskupsstofu, KHÍ, Alþjóðahúss og fulltrúar annarrar trúfélaga. Niðurstöðurnar voru einmitt á þá leið að skýrar starfsreglur skorti og að ekki mætti mismuna börnum og unglingum í starfi skóla í Reykjavík vegna trúar- og lífsskoðunar þeirra. Eins var það áréttað að skólar hafa eitt hlutverk - kirkjan annað.

Spurt er: Hvað með hin gömlu og góðu kristnu gildi? Eiga þau að hverfa úr skólunum?

Gömul og góð gildi um kærleik, réttlæti, hófsemi og virðingu einkenna mörg trúarbrögð og lífsskoðanir okkar flestra. Þau gildi lifa góðu lífi í skólum borgarinnar og munu gera það áfram. Skólar hafa lagt sig fram um að skapa andrúmsloft virðingar og náungakærleika með milljón aðferðum síðustu ár og áratugi.

Lítil er trú fólks á fagmennsku kennara og þeirra góða starf ef það heldur að framlag þjóðkirkjunnar gegni mikilvægu hlutverki í mótun kærleiksríks og umburðarlynds skólaumhverfis!

Spurt er: Eru miðlægar reglur á borð við þessar ekki bara olía á eld þeirra sem vilja snúa öllu upp neikvætt upp á innflytjendur?

Ég hræðist ekki málefnalega umræðu. Og ég er baráttumaður fyrir því að öllum börnum líði vel í skólanum, óháð lífsskoðunum þeirra. Ómálefnalega umræðu hræðist ég hins vegar eins og pestina - sér í lagi þegar hún tekur á sig mynd útlendingahaturs.

En sú hræðsla kemur ekki í veg fyrir að við mótum samfélag sem tekur sífellt meira tillit til margbreytileikans.

Ég hlakka til að vinna umsögn menntaráðs um tillögur mannréttindaráðs á næstu vikum. Um þær verður að ríkja sátt en ég lít ekki svo á að skólinn þurfi að taka mikið tillit til þjóðkirkjunnar - þjóðkirkjan verður hins vegar að taka tillit til grunnskólans og þeirrar sérstöðu hans sem stofnunar að öll börn eru þar við nám og leik. Ekki bara 80 eða 90% þeirra - heldur hvert eitt og einasta.