25 júlí 2008

H-R-Í-S-E-Y

Fjölskylduhátíð Hríseyinga var síðastliðna helgi og eins og lög gera ráð fyrir var myndarleg kvöldvaka á laugardagskvöldinu. Ég var beðin um að segja nokkur orð og lenti auðvitað í stökustu vandræðum því hvernig lýsir kona svo fallegum stað með fátæklegum orðum? 


Alla vega fæddist þessi hugleiðing og ég lofaði Ingimar í búðinni og fleiri góðum Hríseyingum að koma þessu frá mér á einn eða annan hátt. Er Eyjan ekki góður staður fyrir hugvekju um eyjuna Hrísey?

H-R-Í-S-E-Y 
Sex stafa paradís og besti staður í heimi

H stendur fyrir

hákarla-Jörund, hressandi hafgolu, hlýlegt andrúmsloft, séra Huldu, himneska bláskel, Hönnu hans Narfa, haganlega smíðaðar hrífur, hávært hljóð kríanna, hossandi heyvagninn hans Alla Bergdal með saklausum ferðamönnum innanborðs og háhraðatenginguna hans Ingimars í búðinni.

R stendur fyrir

rjúpu, rjóðar kinnar barna eftir útiveru, rómantík, rjómablíðu jafnt sem rok, rautt sólarlag og Rósu Kára.

Í stendur fyrir

ísinn á Brekku, ímynd Hríseyjar sem perlu Eyjafjarðar, nýju íþróttamiðstöðina, íslenska framkvæmdagleði og kraft sem blessað hefur Hríseyinga í gegnum tíðina.

S stendur fyrir

síbúa og sumarbúa, sól, sjávarloft og sælu, skituna sem fylgir rjúpunni á haustin og eyðileggur alla BYKO-palla sem verða á vegi hennar, Syðsta-bæ, snyrtileg hús og götur, Sæborg og síldarárin, suðandi flugur í gluggum, Stekkjarnef, Sólbakka, Skjöldu og séra Kára, ferjuna Sævar, sómafólkið í Kelahúsi sem gott er að leita til og sundlaugarvörðinn og fuglaskoðarann ,,Steina rjúpu”.

E stendur fyrir

Eyjafjörð, elskulega gestrisni, endalausa orku frá Kaldbak, erfiðar og léttar gönguleiðir, Elsu og Geira, ekta soðbrauð og elegant prjónavörur í Gallerí Perlu, eldklára og kurteisa krakka, eftirtektarverða, eftirminnilega og einkennilega pínulitla búningsklefa í nýju sundlauginni.

Y stendur fyrir

Ysta-bæ, yndislegar sumarnætur, ykkur öll og yfirnáttúrulega fegurð sem engin orð fá lýst...

16 júlí 2008

Eyjublogg

Í svo til internetlausu (þráðlausu...?!) sumarfríi á eyju norður í landi er hressandi að ganga á land á Eyjunni og rekast á þau sómahjón og presta Jónu Hrönn og Bjarna. Ánægja mín með Eyjuna minnkar sannarlega ekki við að vera í félagsskap við þau. Velkomin!


Skjótt yfirlit yfir fréttir vikunnar eru vitanlega þær sem tengjast ESB-aðild. Slíkur stígandi er í umræðunni að fljótlega hlýtur að draga til tíðinda. Ég bæti smátt og smátt í sarpinn í bloggfærslu mína sem kennd er við reyksprengjur - gott að hafa yfirlit yfir fylgismenn aðildar, nú síðast stórkaupmenn. 

Þetta vissum við hins vegar. Jákvæð en hæg þróun. Það er óskiljanlegt að við Íslendingar skulum ekki taka flugið í jafnréttismálum og verða virkilega leiðandi í heiminum á því sviði. 

Kuldi á norðurlandi út vikuna svo gammósíurnar komu sér vel. Nýja sundlaugin í Hrísey er hreint út sagt frábær og næstu helgi verður blásið til hinnar árlegu fullveldishátíðar. Enn eigum við eftir að gæða okkur á bláskel en hún hefur verið nokkuð í fréttum undanfarið og sýnist mörgum sem góðir framtíðarmöguleikar séu henni tengdir. 

Góða gesti hefur borið að garði og nú er fullmannað í samfélagi sumarfugla sem geymir margan góðan manninn og konuna. 

Kveðja úr Hrísey.

02 júlí 2008

Af reyksprengjum

Af rælni rifja ég upp þá fjölmörgu sem hafa kastað reyksprengjum upp á síðkastið:


Allir bankarnir (nema einn)

Um stuðning Guðfinnu Bjarnadóttur og Ólafar Nordal og ýmislegt annað þessu tengt má lesa hér.

Sum fyrirtæki eru þegar komin lengra en önnur...

Þeir sem vilja ýta málinu áfram - kannski ekki reyksprengjur... hurðasprengjur?


Slíkur er reykurinn að mér finnst ótrúlegt að Birgir Ármannsson rati milli herbergja!

Bætt við 6. júlí.


Bætt við 16. júlí


Bætt við 20. september

Sæla Egils

Ég óska Agli og Sigurveigu innilega til hamingju með ráðahaginn og sendi hlýjar kveðjur til eyjarinnar fögru.

Hér er linkur á agalega rómantískt lag hvers texti er einkennilega lítið rómantískur, nema rómantíkerar leggi sérlega vel við hlustir.

Í leiðinni sendi ég hlýjar kveðjur til annars eyjaskeggja með þessu lagi hér.

ESB aðild

Það er beinlínis pínlegt að halda því fram að réttlætanlegt sé að fresta þessu mikið lengur.

Jafnvel þó að tveir stjórnmálaflokkar hafi gert með sér sáttmála þar sem kveðið var á um að innganga í ESB væri ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nær allir hafa ákallað Sjálfstæðisflokkinn, þeirra á meðal þeirra eigin kjósendur.

Hvenær er nóg nóg?