11 febrúar 2011

Það er hægt að verja gott skólastarf með endurskipulagningu

Eftir hrunið hafa skatttekjur borgarinnar dregist saman að núvirði um 20%. Núverandi borgarstjórn stóð frammi fyrir vanda upp á um 4.5 milljarða króna. Ekki bara vegna tekjufalls heldur líka vegna nýrra verkefna. Þau tengjast bæði neikvæðum afleiðingum hrunsins, sem er fjölgun fólks sem þarf á fjárhagsaðstoð borgarinnar að halda og meiri útgjöldum til velferðarmála.

Jákvæðu afleiðingarnar eru fjöldi nýrra barna sem auðvitað vilja komast í frábæra leikskóla borgarinnar.

4.5 milljarðar króna. Á þeim vanda þurfum við að taka og hann er ansi stór. Til samanburðar myndi fullnýting útsvars gefa okkur um 125 milljónir króna á þessu ári svo ekki kæmumst við langt á því. Við megum ekki taka háar fjárhæðir að láni til þess að reka borgina okkar og við megum ekki ganga á varasjóð borgarinnar. Þeir stjórnmálamenn sem halda öðru fram eru ekki að segja satt.

Hlífum eftir mætti

Rekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila heyrir undir þrjú svið sem taka til sín rúmlega 30 milljarða króna, rúmlega helming allra útgjalda borgarinnar. Við getum ekki varið óbreytt útgjöld til þessa málaflokks og látið allan niðurskurðinn lenda á hinum helmingnum. Við getum hlíft eftir mætti en það er óhugsandi að ekki verði einhver samdráttur í fjárhagsáætlun Menntasviðs, Leikskólasviðs og ÍTR á þessu ári og því næsta. Við munum spara í malbiki og steypu, í stjórnkerfi borgarinnar og á ótal öðrum sviðum, en það er ekki nóg. Við verðum líka að spara í skóla- og frístundastarfi barna.

Við þetta bætast þau ánægjulegu tíðindi að óvenjumargir borgarbúar hafa notað kreppuna til barneigna. Á næsta ári má búast við um 400 fleiri börnum inn í leikskólana en fara út í 1. bekk grunnskólans, 20% meira en árin á undan. Við þurfum því að fjölga leikskólaplássum á versta hugsanlega tíma.

Samhengi hlutanna

Þetta er staðan. Við munum bregðast við henni með því annars vegar að endurskipuleggja reksturinn, og hins vegar með hagræðingarkröfu á sviðin þrjú, frá 2,2% - 5% lækkun á framlagi til sviðanna. Endurskipulagningunni er ætlað að minnka þörfina á beinum niðurskurði og skapa skólakerfi sem er hagkvæmara en áður en að minnsta kosti jafngott og það sem við búum við í dag. Vönduð endurskipulagning er besta tækið sem við höfum til að verja sjálft starfið í skólunum okkar og tryggja hagsmuni barnanna sjálfra.

Þetta er það sem við meinum með því að forgangsraða í þágu barna og unglinga.

Það má gera skipulagsbreytingar

Allar fyrirhugaðar breytingar eru í fullu samræmi við lög frá 2008 um leik- og grunnskóla. Nýju lögin opnuðu á möguleikana á samrekstri skóla sem mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hafa nú nýtt sér. Markmið lagabreytinganna var skýrt; að efla skólana faglega og fjárhagslega, stuðla að samfellu milli skólastiga, hreyfanleika kennara milli skólastiga og auka möguleika á endurskipulagningu skólastarfs út frá hagkvæmni, fagstarfi og ávallt með hagsmuni barna og unglinga í huga.

Hvernig breytingar viljum við?

Allar breytingar á skipulagi skólastarfsins verða að hafa skýr markmið: Að draga úr húsnæðiskostnaði og þörf fyrir nýbyggingar, að minnka kostnað við stjórnun, að lækka ýmsa kostnaðarliði (mötuneyti o.fl.), og á sama tíma að efla – eða í það minnsta verja – skóla, leikskóla og frístundaheimili borgarinnar. Þetta er hægt að gera ef skynsemi og fagmennska fá að ráða för.

Húsnæðiskostnaður skóla er afar hár í Reykjavík og við nýtum skólahúsnæði ekki nógu vel. Sumsstaðar má flytja elstu nemendur leikskóla yfir í húsnæði grunnskólans á sömu lóð og fá þannig pláss fyrir nýju börnin án þess að byggja meira húsnæði. Annars staðar er rökrétt að sameina lítinn og stóran leikskóla og mynda hagkvæmari einingu með eitt mötuneyti og betri nýtingu starfsfólks. Enn annars staðar eru fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að sameina unglingadeildir grunnskóla og þannig mætti áfram telja. Þetta eru ekki breytingar breytinganna vegna, heldur viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu í hverfum, auknum kröfum um hagkvæmni og knýjandi þörf fyrir að nýta skólahúsnæði betur.

Tækifærin

Ég er sannfærð um að margar þeirra hugmynda sem nú eru til skoðunar eru til mikilla bóta, jafnt faglega sem fjárhagslega. Til dæmis gefa stærri unglingadeildir kost á fjölbreyttari faggreinakennslu, auðugra félagslífi og betri nýtingu fjármagns. Opnun leikskóladeilda í grunnskóla sparar verulegar fjárhæðir í nýbyggingum og gefur tækifæri til þróunar á samfellu skólastiganna og samspili við frístundastarf. Samþætting frístunda- og skólastarfs opnar á samstarf ólíkra fagstétta, kennara og frístundafræðinga, sem saman myndu skipuleggja skóladag yngstu barnanna út frá þörfum hvers og eins. Þarna eru ótvíræðir möguleikar til innihaldsríkari skóladags. Hér eru margir spennandi kostir sem spara til lengri tíma verulegar fjárhæðir sem nýta má í innra starf skólanna, börnin sjálf.

Hvað eru aðrir að gera?

Skólar hafa verið sameinaðir víða, líka í Reykjavík. Á síðasta ári voru sex leikskólar sameinaðir í þrjá, undir þremur stjórnendum. Í Kópavogi, Hafnarfirði, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ hafa skólar verið sameinaðir á síðustu árum og fleiri sameiningar eru í farvatninu. Við sameiningu skóla taka stjórnendur á sig stærra hlutverk í stjórnun, og aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar takast á við meiri ábyrgð. Í Reykjavík eru margir litlir skólar, gjarnan nálægt hvor öðrum. Með sameiningu yfirstjórnar vinnur stærri hópur fagfólks saman, hægt er að nýta sérþekkingu í starfsmannahópnum fyrir stærri barnahóp, endurskipuleggja afleysingar, stjórnun, sérkennslu, mötuneyti og eldhús, innkaup og margt fleira sem stór skóli á auðveldara með en lítill. Þeir leikskólar sem við höfum sameinað nú þegar í Reykjavík styrkja okkur í vinnunni framundan og augljós tækifæri til betri nýtingar fjármagns eru til staðar.

Við eigum skólana saman

Lykillinn að farsælli innleiðingu nýs skóla er að starfsfólk og foreldrar taki þátt í og hafi áhrif á skipulag skólastarfsins, faglega stefnu hans og að ný stefna byggi á styrk hvors skóla fyrir sig. Ekkert bendir til þess að breytingar á borð við þessar hafi neikvæð áhrif á líðan barna í skólunum og þess verður ávallt gætt að nægilegur stuðningur verði til staðar fyrir nýja skóla til að breytingarnar gangi sem best fyrir sig.

Umdeilt samráð - en eina leiðin

Í starfshópnum var valin sú leið að eiga samtal við fulltrúa foreldra og starfsfólks í öllum skólum og frístundaheimilum. Samráðsferlið uppfyllir leikreglur Sambands íslenskra sveitarfélaga um undirbúning samreksturs skóla, og gott betur. Alls hafa um 600 manns komið með beinum hætti að þessum undirbúningi, fulltrúar foreldra og starfsfólks, stjórnendur og starfsfólk sviðanna þriggja. Líklega verðum við seint öll sammála um hvernig best er haldið á undirbúningi slíkra breytinga og víst er að samráðsferlið getur alið á ótta og óöryggi. Ein leið hefði verið að ákveða allt á lokuðum fundi borgarráðs. Það viljum við ekki. Við viljum hlusta á öll sjónarmið og við viljum taka réttar og skynsamlegar ákvarðanir. Þess vegna liggja nú fyrir á sjötta tug hugmynda sem verið er að fara í saumana á til að kanna hagkvæmni og faglegan ávinning eða áhættu. Í lokaskýrslu hópsins munum við velja það besta úr þessum tillögum, rökstyðja hvert skref sem við viljum stíga og gera ítarlega áætlun um innleiðingu.

Framtíðin

Leiðarljós starfshópsins hefur frá upphafi verið að standa vörð um faglegt starf, stækka og styrkja einingar svo betur megi nýta sameiginlega sjóði borgarbúa í skólastarfið sjálft. Það mun skila sér til komandi ára, sem verða þung í róðri fyrir sveitarfélög í landinu.

Það er rík nauðsyn á endurskipulagningu til framtíðar. Eingöngu þannig sköpum við svigrúm til að hlúa að frábæru skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.

02 febrúar 2011

Um tónlistarnám í Reykjavík

Hér er ræðan mín úr borgarstjórn í gær þegar rætt var um tónlistarnám í Reykjavík.

Nokkrum staðreyndum þarf að halda til haga í byrjun.

Við ætlum ekki að hætta að borga með öllum 16 ára og eldri næsta haust.

Við ætlum ekki að horfa upp á gamalgróna skóla, sem hafa skilað frábæru starfi og þjóðinni frábærum tónlistarmönnum, loka.

Við ætlum ekki að rústa tónlistarskólum í Reykjavík. Það er einfaldlega ekki á dagskrá.

Það sem er á dagskrá hjá okkur í borgarstjórn er að ákveða hvert við viljum fara með tónlistarfræðsluna, forgangsraða í þágu barna og ungmenna, setja upp einhvers konar aldursviðmið og ná samkomulagi við ráðherra mennta- og menningarmála um framtíðarskipulag tónlistarfræðslu þeirra sem eldri eru og komnir lengst. Það samkomulag er í vinnslu, er að taka jákvæða stefnu og það sem meira er um vert – er að þróast í þá átt að taka meira mið af forsendum tónlistarnámsins og sérstöðu þess.

Það er gott og því ber að fagna og ég hvet ykkur til að láta líka í ykkur heyra við ráðuneyti menntamála. Núverandi ráðherra er raunverulega og einlæglega áfram um að leysa þessi mál með sveitarfélögunum. Hún sat einu sinni í menntaráði í Reykjavík, og hún kann vel að meta gæði reykvískra tónlistarskóla. Það sem skiptir mestu máli fyrir slíkt samkomulag er að þá skiptir ekki lengur máli hvar á landinu efnilegt tónlistarfólk býr, landið verður eitt kjördæmi tónlistarnámslega séð. Það er einn aðalhvatinn að því að ríki og sveitarfélög standa í þessum viðræðum og hafa gert undanfarin sjö ár.

Allir flokkar í borgarstjórn samþykktu í lok ágúst að móta stefnu til framtíðar og gera þjónustusamninga á þeim grunni. Þeir samþykktu að forgangsraða í þágu barna og ungmenna og setja upp aldursviðmið. En á sama tíma samþykktum við aukafjárveitingu því fjárhagsáætlun var samþykkt fyrir 2010 án þess að gert væri ráð fyrir nemendum 16ára og eldri í þeirri von að ríkið kæmi að því verkefni og við vildum tryggja starfsemi tónlistarskóla og nám eldri nemenda fyrir skólaárið 2010-11.

Það er auðvitað hvorki borg né sveitarfélögum til sérstaks hróss að þetta hafi tekið svona langan tíma. Ég viðurkenni það fúslega. Það er óþolandi að tónlistarnám þeirra sem eldri eru sé í stöðugri óvissu. En ég er stolt af kollegum mínum í borgarráði og menntaráði að hafa samþykkt að bíða ekki lengur með að móta sínar áherslur, vinda sér í að móta stefnu borgarinnar og kalla til skólastjóra og kennara úr tónlistarskólum auk annarra úr tónlistargeiranum.

Vinna við stefnuna hefur staðið yfir síðan í september og hún er svo gott sem tilbúin. Að hluta til er þetta fagleg vinna og að hluta til pólitísk. Við gerðum könnun meðal tónlistarkennara um hvernig þeir sæu fyrir sér þróun tónlistarfræðslu í Reykjavík og við lögðum pólitískt mat á mikilvægi tónlistarkennslu í samfélaginu og stöðu tónlistarkennslu í þjónustuframboði borgarinnar. Stefna borgarinnar hefur verið kynnt skólastjórum tónlistarskólanna.

Niðurstaðan er ekkert sérstaklega róttæk stefna um tónlistarnám, en hún er leiðarljós um gæði, fjölbreytni, eftirlit, foreldrasamstarf, námsframvindu og að tónlistarskólar, eins og aðrir skólar borgarinnar, eigi að vera án aðgreiningar. Hún felur í sér virðingu fyrir mikilvægi tónlistarnáms og gæðum tónlistarskólanna. Hún stefnir að aukinni fjölbreytni í námsleiðum, auknu eftirliti af hálfu borgarinnar og auknum kröfum um námsframvindu nemenda.

Næsta skref er að setjast niður með tónlistarkennurum, skólastjórum og nemendum og átta okkur á því: Hvernig munu þjónustusamningar við tónlistarskóla í Reykjavík líta út, á grundvelli stefnunnar? Hvernig getum við, í sameiningu, komist í gegnum næsta vetur, þannig að við getum áfram borið höfuðið hátt, þrátt fyrir krappa stöðu borgarinnar og margvíslegar skyldur hennar gagnvart öllum íbúum sínum?

Tónlistarnemendur eru reiðir núna, og það skil ég, enda hefur umræðan um þennan niðurskurð verið allsvakaleg á köflum. En tónlistarmenn eru líka ákaflega róttækir og lausnamiðaðir. Ég hef fengið tugi tölvupósta með hugmyndum frá tónlistarfólki, kennurum og nemendum, gömlum og ungum, um leiðir til að nýta þessa viðkvæmu stöðu til að endurskipuleggja. Margir skólastjórar í okkar góða hópi skólastjóra eru framsæknir í hugsun, eru raunsæir og sjá fyrir sér breytingar af ýmsu tagi.

Nú þurfum við að setjast niður og skoða hvað vel er gert og hverju má breyta. Erum við á réttri leið með kerfið okkar eins og það er að öllu leyti? Eru skólarnir of margir? Þarf að kenna söng á svona mörgum stöðum í ekki stærri borg? Við hvaða aldur á að miða? Þessum spurningum geta nefnilega margir svarað því við höfum öll skoðun á þessu. Og við ættum að ná sameiginlegum skilningi á framhaldinu: Hver eiga markmiðin að vera og hvaða kröfur eigum við að gera um framvindu? Söngur hefur sérstöðu og sum hljóðfæri hafa sérstöðu, hvernig leysum við það af þekkingu og innsæi? Við eigum að geta komist að samkomulagi um svona hluti.

Hvernig getum við tryggt að börn, með ólíkar þarfir, geti sem flest komist í tæri við hljóðfæri og helst öll lært undirstöðuatriði í tónlist? Og hvernig getum við á sama tíma tryggt að börn sem sýna framfarir fái notið sín og blómstrað?

Ég lærði sjálf á píanó í tónlistarskólum í Reykjavík í 15 ár og kláraði mitt framhaldsnám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ég þekki styrkleika okkar kerfis ákaflega vel, en ég þekki líka veikleikana og er óhrædd við að ávarpa hvort tveggja. Styrkleikana og veikleikana þurfum við að ræða í sameiningu og við verðum að vilja ræða saman. Við eigum þessa skóla nefnilega saman. Jú, þeir eru vissulega sjálfstæðar stofnanir en borgin greiðir launin fyrir kennsluna.

Við getum ekki án skólanna verið og þeir geta ekki án okkar verið.

Of lengi hefur þetta samband einkennst af tortryggni og tali um peninga, eingöngu. Ég er ekki sátt við það. Mér finnst eðlilegt að borgarfulltrúar sem sitja inni í þessum sal, hafi á því sterka skoðun hvernig tónlistarskólar mæta þörfum barna og unglinga í Reykjavík. Við eigum að hafa skoðun á þessum málum – annars værum við ekki starfi okkar vaxin og værum ekki að standa okkur sem fulltrúar og talsmenn allra íbúa Reykjavíkur.

Ég þekki aðalnámskrá fyrir tónlistarnám vel, las hana samviskusamlega þegar ég var í píanókennaranáminu. Þar er talað um að tónlistarnám eigi að fullnægja eftirfarandi markmiðum: Uppeldislegum markmiðum, leikni- og skilningsmarkmiðum og samfélagslegum markmiðum. Skólar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt, kennarar uppfylla þessi markmið á mismunandi hátt. Það er allt í lagi því hver hefur sinn stíl, en það er spennandi umræða að taka með skapandi hópi fólks: Hvað einkennir tónlistarfræðslu í Reykjavík?

Er hún kannski að einhverju leyti meira að einblína á leikni- og skilningsmarkmiðin en þau samfélagslegu? Hvað kemur barni til manns, eflir sjálfstraust þess og virðingu fyrir hinu smáa, fallega, óútskýranlega og dásamlega? Er það að upplifa þá nánd og þá nautn sem það er að koma saman með frábærum kennara og mússísera, einn og með öðrum? Er það einfaldlega þroskandi ferli að eiga samskipti við aðra í gegnum tónlist, koma fram á tónleikum, rétta úr sér, á eiginlegan og óeiginlegan hátt? Eða skiptir öllu máli að komast í gegnum ákveðinn bunka af lögum og tónstigum og ná framförum?

Hentar það sama öllum? Getum við haldið í frábæran árangur en spurt: Hvert er markmið tónlistarfræðslunnar? Eiga öll börn að fá grunnmenntun í tónlist? Ætlum við að framleiða hlustendur? Ætlum við að mennta afburðartónlistarfólk? Getum við farið einhvern milliveg?

Óvissa er erfitt ástand. Nú erum við á tímamótum með mjög margt í skólakerfinu. Við erum að skoða tækifæri til sameiningar, auðvitað til að spara – við felum það ekki – en líka til að endurskoða margt og gera jafnvel betur. Við reynum að vinna hratt og vel því óvissan tekur á fyrir stjórnendurna okkar, nemendur, foreldra og kennara. Og við megum engan tíma missa því það verður æ erfiðara að standa vörð um grunnskólann og leikskólann þegar svo mikið fjármagn fer í yfirbyggingu, hvort sem það er húsnæði, mötuneytin eða stjórnun. Sameiningar í skólakerfinu þýða að við felum færri stjórnendum stærri verkefni, þær þýða ótal tækifæri til að gera hlutina betur, nýta betur húsnæði, starfsfólk með dýrmæta sérhæfingu og svona mætti lengi telja.
Þessa umræðu þurfum við líka að taka um tónlistarskólana, hispurslaust og án allrar viðkvæmni.

Það er líka annað sem við þurfum að hafa í huga, og það eru aðstæðurnar sem gerðu það að verkum að þið eruð hér á pöllunum í dag og margir, eflaust allir í þjóðfélaginu eru uggandi um næstu misseri. Við búum við breyttar aðstæður. Við vitum að biðlistarnir töldu yfir þúsund nemendur þegar mest var. Nú er staðan allt önnur. Og auðvitað finna skólastjórar tónlistarskóla fyrir því að foreldrar draga börn sín úr tónlistarnámi vegna minnkandi tekna. Það ætti að gefa okkur enn ríkara tækifæri til að setjast niður og ræða þessi mál í sameiningu, nú þegar liggur fyrir á næstu vikum að ganga til samstarfs um næsta vetur.

Það er auðvitað grátlegt að þurfa að minnka framlög til tónlistarskóla og grunnskóla – en við verðum að horfa raunsæjum augum á leiðirnar, kostina og aðferðirnar.

Það hefur í umræðunni verið hent á lofti að íþróttirnar séu frekar til fjörsins og taki til sín allt fjármagn sem fer til tómstunda barna. Því geta aðrir svarað, m.a. formaður ÍTR, borgarfulltrúi Eva Einarsdóttir, og það er að mörgu leyti holl umræða, sérstaklega þegar við skoðum fjármagnið sem hefur farið í uppbyggingu á ýmsum mannvirkjum. Þar er margt sem við getum lært af, við Íslendingar. Annað mannvirki sem er nokkuð frekt til fjörsins stendur hér niður við höfn og verður senn opnað. Tónlistarfólk bað um gott tónlistarhús og hafði gert lengi um áratuga skeið, en ég held að enginn úr þeirra röðum hafi heimtað þessi fínheit, þennan íburð og þessa stærð. Af biturri reynslu munum við vonandi öll læra að innihaldið skiptir meira máli en ytra byrði.

Og tónlistarfólk hefur spurt af hverju niðurskurður sé meiri til tónlistarskóla en t.d. leik- og grunnskóla. Við sem berum ábyrgð á allri starfsemi borgarinnar þurfum mjög oft að velja. Valið er oft erfitt en ég get vel varið það, eins mikið og mér er annt um hag tónlistarskóla í Reykjavík, að við reynum af öllum mætti að hlífa grunnskólakerfinu okkar. Við gátum valið að hlífa tónlistarskólum við niðurskurði en skera harkalegar niður í grunnskólum. Það gat ég ekki gert. Þar fá öll börn tækifæri til að þroska sig, mennta sig og njóta sinna styrkleika, það hlýtur að ganga fyrir. Leik- og grunnskólarnir eru að mínu mati mikilvægasta grunnþjónusta borgarinnar og við það stend ég.

Ég fagna allri umræðu um uppbyggilegt tómstundaframboð fyrir börn og ungmenni, sem byggir á styrkleikum hvers og eins, ekki eingöngu afreksmiðun og heldur ekki stefnuleysi, hvað þá metnaðarleysi. Við munum ná lendingu með ráðherra um framtíðarskipan tónlistarmála, ég er sannfærð um það. Næstu vikur og mánuði nýtum við til að setjast niður með þeim skólum sem vilja vera í samstarfi við borgina næstu árin, á grundvelli nýrra þjónustusamninga sem hvíla á nýrri stefnu og samþykkt borgarinnar. Öll él birtir upp um síðir – þó útlitið geti verið dökkt um stundarsakir.

Ég hlakka til að vinna með ykkur, ég hlakka til að sjá afrakstur allra þessara viðkvæmu ákvarðanna sem við erum að taka á öllum vígstöðvum hjá borginni svo við getum í framtíðinni varið peningum úr okkar sameiginlegu sjóðum í innihald, metnað, fegurð og raunveruleg gæði.