17 desember 2009

Stjórnir fyrirtækja borgarinnar

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi skrifaði athyglisverða grein um stjórnkerfi borgarinnar síðastliðinn mánudag. Hún kemur inn á hversu erfitt fámenn borgarstjórn á með að sinna sínum hlutverkum og virðist helsta vandamálið vera að borgarfulltrúar bítast um sæti í nefndum og stjórnum með fégræðgina eina að leiðarljósi. Þetta kannast ég reyndar ekki við en hef núna öðlast dýrmæta innsýn í þankagang borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þau skilja ekki stjórnkerfisbreytingar síðasta kjörtímabils því þau nálgast breytingar nær eingöngu út frá launa- og starfsumhverfi borgarfulltrúa. Hið rétta er að stjórnkerfisbreytingarnar snérust um aukið lýðræði, nærþjónustu við íbúa úti í hverfum og minni miðstýringu.

Þorbjörg Helga víkur einnig að fyrirkomulagi í stjórnum fyrirtækja borgarinnar. Hér vil ég skoða málið í víðara samhengi og spyrja hvort eðlilegt sé að borgarfulltrúar sitji yfirleitt í stjórnum fyrirtækja? Það er andstætt nútímalegum stjórnarháttum í fyrirtækjum að sama fólk sinni bæði hlutverki stjórnarmanna og eigenda, borgarfulltrúar ættu að einbeita sér að því síðarnefnda. Í ofanálag er um starfandi stjórnmálamenn að ræða og það er ekkert launungarmál að t.d. Orkuveita Reykjavíkur hefur liðið fyrir það allt of lengi að stjórnmálamenn noti hana sem vígvöll í pólitískum slag. Trúnaðarbrestur og átök á opinberum vettvangi eru algeng. Það er varla til hagsbóta fyrir fyrirtækið. Borgarfulltrúar eru kjörnir fulltrúar íbúanna sem eiga jarðvarmann og vatnsbólin. Borgarfulltrúar eru því eins og hluthafar í fyrirtæki og koma að grundvallarstefnumótun fyrirtækisins; móta t.d. græna stefnu og fjárfestingarstefnu. Það gætu þeir hæglega gert í sérstöku orku- og auðlindaráði, sem hefði sama sess og önnur fagráð borgarinnar. Í stjórn fyrirtækisins eiga hins vegar að sitja einstaklingar með víðtæka þekkingu og reynslu, skipaðir af stjórnmálaflokkum til að ábyrgð þeirra sé skýr. Slíkt fyrirkomulag var viðhaft í 100 daga meirihlutanum með góðum árangri.

Samfylkingin hefur ávallt staðið fyrir lýðræðislegum og gagnsæjum stjórnarháttum og að stjórnun fyrirtækja sé fagleg og hagsmunaárekstrar sem fæstir. Það er því tímabært að Samfylkingin í Reykjavík fylgi í orði eftir lýðræðislegum stjórnkerfisbreytingum síðasta kjörtímabils. Þar eru fyrirtæki borgarinnar ekki undanskilin.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. desember 2009

p.s. Ég fékk skömm í hattinn frá Ólafi Mathiesen um daginn fyrir að safna ekki greinarkornum mínum á einn stað, t.d. á bloggsíðu. Ég bæti hér með úr því - vænn skammtur frá september til dagsins í dag.

List- og menningaruppeldi

Á árinu 2007 var fræjum sáð sem nú hafa borið merkilegan ávöxt. Fyrir frumkvæði Samfylkingar og VG í borgarstjórn voru tveir starfshópar settir á laggirnar sem báðum var ætlað að grandskoða hvernig efla mætti list- og menningaruppeldi í leik- og grunnskólum borgarinnar. Margar góðar tillögur eru afrakstur vinnunnar auk mikilvægrar upplýsingasöfnunar um stöðu listgreinakennslu og menningaruppeldis í skólum borgarinnar. Eins fór fram mikilvæg úttekt á samstarfi skóla við menningarstofnanir, kröftug umræða átti sér stað milli Mennta- og Leikskólasviðs og listgreinakennara, forstöðumanna menningarstofnanna og fulltrúa lista- og menningarlífsins. Nú þegar er hafið spennandi tilraunaverkefni um menningartengilið milli skólasviðanna og menningar- og ferðamálasviðs sem miklar vonir eru bundnar við. Fjölmargar aðrar tillögur liggja fyrir og bíða þess að komast til framkvæmda og vonandi verður þess ekki langt að bíða.

Menning geymir sjálfsmynd þjóðar. Seint verður ítrekað nægilega mikilvægi þess að börn og ungmenni fái ríkuleg tækifæri til að kynnast menningu og listum. Það eflir sjálfstraust þeirra og skilning, víkkar sjóndeildarhringinn og reynir á ólíka hæfileika þeirra. Nú þegar öllum skólum er gert að hagræða sem kostur er brýnt að hafa í höndunum vandaða úttekt á stöðu list- og menningaruppeldis í skólum. Við vitum nú hvað vel er gert, hvar við getum gert betur og hvað við viljum standa vörð um. Á Þjóðfundi Íslendinga kom fram eindreginn vilji þjóðarinnar til að efla menntun og menningu. Því ber að fagna. Nú gefst dýrmætt tækifæri til að endurskoða áherslur skólakerfisins og undirstrika gildi menningarinnar í menntun barna og unglinga. Samræmdar mælingar á bóklegum fögum eru mikilvægar en segja einungis hálfa söguna. Unga kynslóðin er skapandi. Ábyrgð okkar sem förum með stefnumótun er að styðja við skapandi skólasamfélag, fjölbreytt nám og námsmat. Það er skóli framtíðarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. nóvember 2009

Samfélagið og skólinn

Gæði skólastarfs er mælikvarði á gæði samfélags. Gott samfélag býr yfir góðum skólum. Skólum þar sem börn fá notið sinna styrkleika, þar sem þeim líður vel og ná færni og árangri í námi sínu. Skólum þar sem börn og unglingar þroska félagslega hæfileika sína og efla með sér lýðræðilega og gagnrýna hugsun. En skólinn er aldrei eyland og börn mótast ekki nema að litlu leyti í skólastofum. Skólinn er ávallt spegilmynd samfélagsins.

Í alþjóðlegum samanburði koma íslenskir grunnskólanemendur bæði vel og illa út. Við megum vera stolt af því hvað nemendum líður vel og hvað þeir telja umsjónarkennarann sinn sinna sér vel, það má lesa úr niðurstöðum PISA. En árangur fer þverrandi í mörgum fögum, m.a. lestri og náttúruvísindum. Það er verulegt áhyggjuefni. Stærsta áskorunin í stefnumótun menntamála er áhugaleysi nemenda en niðurstöður rannsókna segja okkur að mörgum íslenskum börnum leiðist í skólanum. Sýnt hefur verið fram á að áhugi ungra drengja á skólanámi dalar mjög mikið á fyrstu árum skólagöngunnar og mun meira en hjá drengjum í öðrum löndum.

Hvað er til ráða?

Áhugaleysi barna verður ekki til í skólastofunni, áhugaleysi barna á námi endurspeglast því miður í áhugaleysi samfélagsins. Það hefur viðgengist of lengi að um nám, starf kennarans og skóla almennt sé ekki talað af mikilli virðingu. Foreldrar eru auðlind í skólastarfi og skólarnir mega gera stórátak í að opna dyr sínar fyrir þessum helstu bandamönnum sínum. Margir foreldrar taka virkan þátt og eru sannir bandamenn skólanna en við foreldrar ættum öll sem eitt að gera stórátak í að taka það hlutverk okkar alvarlega. Hefur þú talað neikvætt um skóla barnsins þíns og starfið sem þar fer fram? Hefur þú talað neikvætt um kennara barnsins þíns svo barnið heyri eða tekið undir neikvætt tal barnsins í garð skólans eða kennarans? Slík skilaboð auka ekki virðingu og áhuga barna á námi. Rýnum til gagns og tökum þátt í skólastarfinu á uppbyggilegum nótum. Ekki er hægt að undanskilja þátt fjölmiðla hér, áhugaleysi samfélagsins á menntamálum endurspeglast kannski hvað gleggst í fátæklegri fjölmiðlaumfjöllun um menntamál. Þörf er á krefjandi skólapólitískri umræðu víðar en í háskólasamfélaginu.

Bjart framundan

Nú hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi og gjarnan spurt: Hvað höfum við lært af kreppunni? Margar breytinganna eru neikvæðar; atvinnuleysi, tekjutap og erfið skuldastaða heimilanna. Þessi veruleiki blasir við okkur í dag en í ofanálag hefur ójöfnuður á Íslandi aukist stórlega undanfarin áratug. Hátekjufólki var hlíft við skattahækkunum en hoggið í lág- og millitekjufólk. Sú skuggalega þróun hefur valdið ójöfnuði og breikkað bilið milli ríkra og fátækra. Í samfélagi ójafnaðar fá sumir gæðamenntun – og aðrir ekki. Jöfnuður í íslensku skólakerfi er eitt hið dýrmætasta sem við eigum, og af þeirri braut megum við ekki snúa.
En jákvæðar breytingar eru margar. Nýleg og vönduð rannsókn sýnir fram á að börnum og unglingum líður betur í kreppunni, neysla vímugjafa dregst sífellt saman, bóklestur eykst og margt bendir til þess að árangur í ýmsum námsgreinum, m.a. læsi sé að aukast. Foreldrar taka ríkari þátt í skólastarfi og hafa rýmri tíma. Neysluhyggjan er á undanhaldi, eftirsókn eftir vindi minnkar.

Lærum við af reynslunni?

Mun okkur takast að byggja upp samfélag sem setur menntun og menningaruppeldi á oddinn, virðir gildi samstöðu og samhjálpar og styður við mikilvægustu stofnanir samfélagsins, skólana? Sjaldan er sú góða vísa of oft kveðin að ein sterkasta vísbendingin um árangur og líðan barna í skólum er áhugi og viðhorf foreldra til skólastarfsins, sem og gæði samverustunda barna og foreldra. Velferð barna er sameiginlegt verkefni fjölskyldna og skóla. Einungis í sameiningu getum við breytt samfélaginu til hins betra. Einungis í sameiningu getum við skapað börnunum okkar framúrskarandi menntun sem eykur alhliða árangur þeirra og gerir þau að hamingjusömum og sterkum manneskjum. Þegar kreppunni lýkur og við spyrjum hvort annað hvað við lærðum þá vona ég að við getum sagt með stolti að við settum börnin í forgang og að þau verði full sjálfstrausts og vel menntuð fyrir þá framtíð sem bíður þeirra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. nóvember 2009

Gegn atvinnuleysi í Reykjavík

Einn alvarlegasti fylgifiskur efnahagshrunsins sem varð á Íslandi síðasta haust er atvinnuleysið. Nú eru 14.780 þúsund einstaklingar atvinnulausir á landinu öllu, í Reykjavík voru í september 6.177 manns atvinnulausir, þar af höfðu 3.507 verið atvinnulausir í sex mánuði eða lengur. Spá borgarhagfræðings um atvinnuleysi á árinu 2010 gerir ráð fyrir 11,5% atvinnuleysi.
Atvinnuleysi er böl þeirra sem fyrir því verða og samfélagsins alls. Að ráða bug á því er erfitt viðfangsefni sem krefst samstillts átaks margra. Hlutverk stjórnvalda er vitanlega fyrst og fremst að skapa efnahagslegt jafnvægi svo atvinnulífið nái sér á strik á nýjan leik en ekki má gleyma að sinna þeim þúsundum sem eru án atvinnu í dag.

Sérstakur atvinnumálahópur hefur starfað á vettvangi borgarstjórnar og fylgst með þróun atvinnuleysis og undirrituð tók við stjórn hans í júní síðastliðnum. Stærsta verkefni hans er að miðla upplýsingum til borgarstjórnar um þróun atvinnuleysis og vinna leiðbeinandi viðmið við gerð fjárhagsáætlunar sem snúa að því að lágmarka áhrif atvinnuleysis á ólíka hópa samfélagsins.
Hversu mörg störf skapar hver króna?

Það er sérstaklega mikilvægt að borgarfulltrúar staldri við hverja einustu krónu sem fer til framkvæmda og verkefna á vegum borgarinnar og spyrji sig: Hversu mörg störf skapar hún? Í þessum anda eru ofangreind viðmið. Mikið verk hefur verið unnið af hálfu hins opinbera til að sporna gegn neikvæðum afleiðingum atvinnuleysis, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. En ekki síst hafa ótal verkefni sprottið upp síðastliðið ár á vettvangi stéttarfélaga, grasrótarsamtaka, háskólanna, símenntunar- og fræðsluaðila í formi námskeiða, virkniverkefna og ráðgjafar.
Mín skoðun er hins vegar sú að verk sé að vinna þegar kemur að samvinnu. Atvinnuleysið er af slíkri stærðargráðu á Íslandi að það er algjört forgangsmál að þétta raðirnar, stilla strengi og samhæfa aðgerðir.

Nú er fjármagn af skornum skammti. Þar af leiðandi ríður á að leita allra hugsanlegra leiða til að nýta sem best þá fjármuni, þekkingu, aðstöðu, og mannafla sem þegar er til staðar. Gæfuríkt spor væri að ríki og borg geri með sér nokkurs konar sáttmála um að nýta allar sínar bjargir, hvort sem um þekkingu, mannafla eða aðstöðu er að ræða.

Tangarsókn

Við höfum vítin til að varast þau. Nærtækasta dæmið er Finnland, en reynsla þeirra sýnir að sú kynslóð sem verst fór út úr efnahagslægðinni í Finnlandi á árunum ´91-´93 var unga kynslóðin sem festist í djúpum sporum atvinnuleysis í upphafi starfsferils síns. Afleiðingarnar voru skelfilegar fyrir stóran hóp fólks. Það er víðtæk skoðun fræðimanna sem rannsakað hafa samfélög sem glímt hafa við mikið atvinnuleysi að afleiðingar þess verða alvarlegri því yngra sem fólk er.

Glíman við atvinnuleysið er þess eðlis að blása þarf til tangarsóknar. Hverri krónu sem varið er til ráðgjafar, starfsþjálfunarúrræða og virkniverkefna er vel varið. Það er sameiginlegt verkefni samfélagsins alls að aðstoða atvinnuleitendur á Íslandi enda eru félagslegar afleiðingar atvinnuleysis margþættar. Veraldleg áhrif eru augljós og birtast í víðtækum efnahagslegum erfiðleikum. Andleg áhrif atvinnuleysis eru lágt sjálfsmat, kvíði og depurð. Einstaklingur sem ekki hefur atvinnu og nýtir sér ekki menntunarúrræði, ráðgjöf eða námskeið bíður þess oft ekki bætur. Það er fórnarkostnaður sem má fyrir alla muni aldrei komast á gjalddaga.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. október 2009

Hugsjónin um Evrópu - eftir OS og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur þingkonu.

Eftir seinni heimsstyrjöldina varð siðferðislegt hrun í Evrópu. Álfan var í sárum og ljóst var að hörmungar tveggja styrjalda máttu ekki endurtaka sig. Sjö árum eftir styrjaldarlok var Kol- og stálbandalag Evrópu stofnað árið 1951. Markmið þess var að útiloka að þjóðir Evrópu gætu vígbúist gegn hver annarri. Þá voru sex þjóðir aðilar að bandalaginu. Í dag eru 27 Evrópulönd aðilar að Evrópusambandinu og friður hefur ríkt meðal þeirra frá styrjaldarlokum.

Evrópusambandið á sér ekki hliðstæðu í öðrum ríkjasamböndum.Yfir 500 milljónir manna búa í Evrópusambandsríkjum, í 27 fullvalda ríkjum, sem hafa ákveðið að framselja fullveldi sitt í ákveðnum málum til sameiginlegra stofnana Evrópusambandsins. Helstu stofnanir þess eru: Leiðtogaráðið þar sem allir æðstu þjóðhöfðingjarnir sitja, ráðherraráðin, þar sem ráðherrar mismunandi málaflokka sitja, framkvæmdastjórnin þar sem hvert ríki á einn framkvæmdastjóra á ákveðnu sviði og svo þingið. Lýðræðisþróunin síðustu ár hefur styrkt mjög stöðu þingsins og raunar er það svo að allir stórir sáttmálar sem hafa verið samþykktir síðan árið 1986 hafa stóraukið vald þingsins.

Smáríki hafa hlutfallslega meira vægi atkvæða í ráðherraráðinu og rík hefð er fyrir því innan Evrópusambandsins að taka tillit til sjónarmiða allra aðildarlanda, stórra sem smárra. Það sem er þó mikilvægast í allri umræðu um Evrópusambandið og virkni þess er sú staðreynd að í 85% tilvika eru mál afgreidd án ágreinings. Þar skiptir miklu tilurð sambandsins sem friðarbandalags Evrópu, samhljómur og samstaða er ofar öllu, Evrópusambandið byggir á ,,consensus”, að ná samstöðu um mikilvæg mál.

Árangur samstarfs Evrópuþjóða

Á síðastliðnum 15 árum hafa 25.000 Íslendingar þegið styrki og verið þátttakendur í evrópsku samstarfi á sviðum mennta, vísinda, nýsköpunar og æskulýðsmála. Evrópusambandið er leiðandi í mennta- og nýsköpunarmálum þar sem opið samráð, skilgreind markmið og árangursmat eru lykilþættir.

Evrópusambandsríkin eru ótvíræðir leiðtogar í loftslagsmálum. Skiptir þar mestu órofa samstaða Evrópusambandsríkja við ákvarðanatökuborð heimsins, sérstaklega gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Evrópusambandið hefur sett sér það markmið að fyrir árið 2020 náist 20% samdráttur í kolefnislosun og að 20% orkunnar kom frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland hefur alla burði til að verða leiðandi í þessu starfi og er auk þess eitt örfárra Evrópuríkja sem státar af víðfemri, ósnortinni náttúru.

Byggðastefna Evrópusambandsins er um margt nútímaleg og ólík því sem við þekkjum. Hún er hugsuð heildrænt, jafnt fyrir strjálbýli sem borgir, hún er ekki hugsuð á þeim núningsnótum að þéttbýli og dreifbýli séu keppinautar. Rúmlega þriðjungur fjárlaga Evrópusambandsins fer til byggðamála, til að jafna kjör íbúa álfunnar. Höfuðmarkmið byggðastefnunnar er samkeppnishæfni, atvinnusköpun og samstarf svæða. Það er auðvelt að vera vitur eftir á en gott hefði verið að Íslendingar hefðu tamið sér góð vinnubrögð fyrr, nú þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa farið fram úr sér í nýbyggingum svo um munar. Samstarf sveitarfélaga er hér hinn mikli galdur og Íslendingar geta lært heilmikið í öguðum vinnubrögðum af öðrum Evrópuþjóðum.

Endurheimtum fullveldið

Deilur hafa staðið á Íslandi frá miðri síðustu öld um það grundvallarsjónarmið hvort landið eigi að vera opið fyrir alþjóðlegu samstarfi, eða lokað. Erfitt er að mótmæla því að alþjóðlegt samstarf hefur gert Íslandi gott og Íslendingar eru margtengdir inn í margvíslegt samstarf á ótal sviðum utanríkis-, mennta-, menningar-, umhverfis- og mannréttindamála og svona mætti lengi telja. Við þurfum á alþjóðlegu samstarfi að halda, hér eftir sem hingað til og það sem meira er um vert – við höfum heilmikið fram að færa á alþjóðavettvangi, í samstarfi norrænna þjóða og í samfélagi Evrópuþjóða. Enginn er eyland og rödd Íslands í alþjóðasamfélaginu verður að heyrast. Við erum þjóð meðal þjóða og tökum okkur alvarleg sem slík. Evrópusambandið er ekki fullkomið, ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar, Alþingi Íslendinga eða Norðurlandaráð. En til þess að hafa áhrif á þróun mála í Evrópusambandinu, sem hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur mikil áhrif á nær alla þætti íslensks samfélags, verðum við að bera höfuðið hátt og taka þátt. Við erum nú þegar aðilar að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og tökum því upp fjölda tilskipana Evrópusambandsins í íslensk lög. En við höfum engin áhrif á gerð tilskipananna innan Evrópusambandsins því við stöndum fyrir utan. Við höfum því afsalað okkur fullveldi á ýmsum sviðum en með aðild að Evrópusambandinu værum við að endurheimta fullveldið.

Við höfnum því að Ísland standi áfram á hliðarlínunni. Spilum heldur sóknarleik og verum virkir þátttakendur í bandalagi sem var stofnað af Evrópuþjóðum með frið, menningu og lífsgæði borgaranna að leiðarljósi. Verum stolt þjóð meðal þjóða.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. september 2009

Forgangsröðun menntamála

Nú liggja fyrir forsendur fjárhagsáætlunar fyrir Reykjavíkurborg og myndin er dökk. Menntasvið, með starfsemi grunnskóla undir, þarf að skera niður um rúman milljarð. Fyrir ári síðan tókst starfsfólk skólanna á við niðurskurð af svipaðri stærðargráðu, af þrautseigju og fagmennsku. Það bíður okkar borgarfulltrúa afar erfitt verkefni í vinnu við næstu fjárhagsáætlun. Þá ríður á gott samstarf og skilning skólasamfélagsins og forgangsröðunin verður að vera sanngjörn.

Á síðasta borgarstjórnarfundi samþykkti meirihluti borgarstjórnar stofnun nýs einkarekins skólagjaldagrunnskóla, þann þriðja á tveimur árum. Nemendum í borginni fer þó fækkandi og margir grunnskólanna ekki full nýttir, það á jafnt við um almenna grunnskóla sem einkarekna. Þessi ákvörðun meirihluta borgarstjórnar er með öllu óskiljanleg og hefur vakið reiði í skólasamfélaginu. Það er sannarlega ekki forgangsmál nú að fjölga einkaskólum í borginni með tilheyrandi tugmilljóna aukakostnaði úr borgarsjóði, á sama tíma og þrengt er að almennum grunnskólum.

Nú ríður á að horfast í augu við staðreyndir, yfirvofandi niðurskurð sem verður þungur í skauti fyrir alla skóla borgarinnar. Nú er lag að hlúa að innviðunum, styðja við grunnskólana svo þeir geti sinnt faglegu skólastarfi sem best miðað við aðstæður.

Hægrimenn í borgarstjórn bera gjarnan fyrir sig að fjölbreytni í rekstrarformi ýti undir þróun og nýbreytni í skólastarfi. Það þykir mér hæpin staðhæfing. Ekki nema borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geti sannað það með óyggjandi hætti að eftirtektarverð og margverðlaunuð þróunar- og nýbreytniverkefni grunnskóla borgarinnar séu allt tilvist einkarekinna grunnskóla að þakka? Nei, þau bera vitni um fagmennsku, grósku og gæði reykvískra grunnskóla.. Borgarbúar geta treyst því að Samfylkingin forgangsraðar í þágu samfélagsins. Grunnskólinn er ein mikilvægasta stofnun þess og að honum ber að hlúa. Ég geri bókun reykvískra skólastjóra og kennara í menntaráði að mínum lokaorðum: ,,Almennir grunnskólar Reykjavíkurborgar vinna innihaldsríkt og skapandi starf með nemendum sínum og eru fullfærir um að sinna skólagöngu allra barna í borginni - án sérstakrar gjaldtöku”.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. september 2009

Besta veganestið

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Með það í huga sting ég niður penna og í þetta sinn til að fjalla um læsi reykvískra barna og unglinga. Læsi er lykill að öllu námi og velferðar hvers og eins og læsi er aðgöngumiði að upplýsingum. Læsi er regnbogahugtak yfir lestur, lesskilning og læsi á alla mögulega miðla og mikilvægt að rugla því ekki saman við lestur, sem er einungis einn angi læsis. Hjá Reykjavíkurborg er unnið gott starf á sviði menntamála en ég held að það sé óhætt að segja að læsi barna í grunnskólum borgarinnar hefur fengið verðskuldaða athygli – sem skilað hefur árangri.

Félagsvísindastofnun skilaði á dögunum af sér skýrslu um stöðu lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum. Niðurstöður skýrslunnar eru mjög í takt við mína upplifun á síðustu þremur árum, eða síðan ég tók sæti í menntaráði Reykjavíkurborgar. Lítið er um formlega lestarkennslu á mið- og efsta stigi grunnskólans og námsgögn, kennsluaðferðir og matstæki vantar fyrir eldri nemendur grunnskólans. Eins telja skýrsluhöfundar að auka þurfi samstarf milli skóla, skólastjórnenda, sérfræðinga, skólaskrifstofa og menntastofnanna við að þróa aðferðir til lestrarkennslu og að nauðsynlegt sé að efla skilning kennara og skólastjóra á samþættingu lestrarkennslu við allar námsgreinar. Samþætting er hér enn og aftur hinn stóri galdur.

Á réttri leið

Við erum þó á réttri leið og sérstaklega er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi við Háskólann á Akureyri í formannstíð minni í menntaráði borgarinnar. Það leiddi til innleiðingu á svokölluðu ,,Byrjendalæsi" sem ellefu grunnskólar í Reykjavík taka nú þátt í. Það er skemmst frá því að segja að færni nemenda í lestri hefur aukist í öllum skólunum og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu en nú þegar hafa nokkrir skólar til viðbótar lýst yfir áhuga á að taka upp Byrjendalæsið í lestrarkennslu yngstu árganganna næsta vetur. Eins er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi Menntasviðs Reykjavíkur og Rannsóknarstofu um mál, þroska og læsi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands en sá samningur gerir m.a. ráð fyrir fræðslu til handa foreldrum barna sem eru að hefja lestrarnám. Einnig felur samningurinn í sér fræðslu til grunnskólakennara og standa starfsmenn Rannsóknarstofunnar fyrir námskeiðum um lestrarkennslu byrjenda fyrir kennara í þremur grunnskólum í borginni í vetur. Með samningnum við rannsóknarstofuna vildi ég auka skilning og efla umræðu um þann galdur sem mál- og lesskilningur er og hversu mikilvægt er að efla hann á alla lund hjá börnum, unglingum og ungmennum á aldrinum 0-20 ára.

Umræðan hefur að mínu mati einskorðast of mikið við upphaf lestrarkennslu, hvort hún eigi að hefjast við fimm eða sex ára aldur. Það er aukaatriði ef okkur tekst að skapa lærdómssamfélag á báðum skólastigum sem einkennist af skapandi námsaðferðum þar sem börn fá stöðuga örvun í öllum þáttum tungumálsins, hvort sem það er lestur, lesskilningur, málskilningur, rím, ljóð, bókmenntir, hlustun, tjáning eða skapandi skrif. Leikskólar um alla borg státa af frábærum þróunarverkefnum tengd leik og ritmáli, þjóðsögum, rími og kveðskap og viðfangsefnin á leikskólastiginu eru óþrjótandi þegar kemur að örvun tungumálsins hjá ungum börnum.

Góð vísa

Samkvæmt PISA-könnun koma íslenskir nemendur ekki nægilega vel út í lesskilningi, en lesskilningur er algjört lykilatriði í námi barnanna okkar og möguleikum þeirra á að tileinka sér færni í námi, lífi og leik. Fyrir utan þá staðreynd að enginn einn þáttur örvar hin ólíkustu skilningarvit betur en þegar við leggjum höfuðið í bleyti lesskilningsins! Lestri er ekki náð þegar barn hefur lært að lesa, áfram þarf að vinna með læsið. Læsi upplýsinga, læsi á bókmenntir, læsi og túlkun, læsi og tjáningu – bæði á rituðu sem og mæltu máli.

Að lokum kemur önnur góð vísa sem sjaldan er of oft kveðin; niðurstöður rannsókna benda til þess að stuðningur foreldra við lestrarnám barna sinna skipti sköpum samhliða hágæða lestrarkennslu í skólanum. Því er brýnt að við foreldrar lesum fyrir börnin á hverjum degi, líka þegar þau eru orðin læs og að við hvetjum þau áfram í skapandi skrifum og tjáningu. Það er besta veganestið. Og bragð er að þá barnið finnur.

Greinin birtist í Mogganum 21. september 2009

20 nóvember 2009

Áherslur og verk Oddnýjar

Ég hef komið víða við í störfum mínum fyrir borgarbúa síðastliðin fjögur ár og starfað að menningar- og miðborgarmálum, jafnréttis- velferðar- og skipulagsmálum. En líklega slær hjarta mitt örast með mennta- og menningarmálunum. Í raun öllu sem viðkemur börnum og ungmennum.

Mamma er kennari og heitir María Norðdahl. Hún vinnur hjá Kennarasambandi Íslands. Pabbi er hugbúnaðarsérfræðingur og formaður Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Ég á þrjá bræður, Snorra sem starfar við kvikmynda- og auglýsingagerð í New York, Kára sem starfar í tónlistargeiranum og Tómas sem er nemi í Austurbæjarskóla. Ég á tvö börn, Margréti Maríu (4) og Kára Daníel (6).

Ég lifi bíllausum lífsstíl. Það getur verið dálítið krefjandi með tvö lítil börn en einhvern veginn gengur það upp. Ég bjó í Þýskalandi fyrir sex árum og komst þar upp á lagið með metnaðarfulla endurvinnslu heima fyrir. Þar eigum við Reykvíkingar verk að vinna.

Eflum listsköpun og listræna upplifun í skólum

Ég er píanókennari að mennt og hef mestmegnis starfað við tónlist og ritstörf. Þýddi meðal annars metsölubókina Móðir í hjáverkum og skrifaði bókina Dís með vinkonum mínum sem síðar varð að kvikmynd eftir handriti okkar. Ég skrifaði fyrir grínþættina Stelpurnar og hef komið að gerð og vinnslu handrita og bóka. Og spilað í hljómsveit og kammerhópum um alla borg.

Mín stærsta árstríða er að efla listsköpun, listfræðslu og listupplifun í skólum. Ekki má gleyma samstarfi listamanna, menningarstofnanna og skóla ásamt samþættingu frístunda- og skólastarfs sem gera mun skóladaginn innihaldsríkari.

Íslenski skólinn er fyrir öll börn, óháð uppruna og atgervi. Það er áskorun á hverjum degi að hlúa að skólastarfinu, ýta undir framfarir og skólaþróun, koma auga á veikleika og bæta úr. Stoltust er ég af því að hafa komið á samstarfi við háskóla um eflingu læsis í grunnskólum Reykjavíkur. Nú eru þróunarverkefni tengd því í fjölmörgum skólum í Reykjavík og árangurinn lætur ekki á sér standa. Metnaður, sköpun og margbreytileiki eiga að einkenna skólana okkar svo hvert barn njóti sinna styrkleika.

Atvinna er stóra velferðarmálið

Ég hef leitt atvinnumálahóp borgarstjórnar síðan í júní 2009. Þar er fylgst með þróun og áhrifum atvinnuleysis á íbúa Reykjavíkur. Í desember kynnti atvinnumálahópurinn viðamikla úttekt á atvinnuleysi í Reykjavík sem leiddi til þess að 150 milljónum verður úthlutað til ýmissa atvinnuátaksverkefna á árinu 2010. Stuttar, langar og fjölbreyttar námsleiðir, auk samstarfs milli framhaldsskóla, félagsmiðstöðva og grunnskóla: þetta er gríðarlega mikilvægt nú þegar stór hluti atvinnulausra eru ungmenni með litla formlega menntun. Hér er verk að vinna.

Samstarf ríkis og borgar í atvinnumálum er algjört lykilatriði og ég er stolt af því að hafa leitt saman hesta fjölmargra aðila sem koma að ráðgjöf, virkniúrræðum og námsleiðum fyrir atvinnulausa. Reykjavíkurborg verður að rækja samfélagslega mikilvægt hlutverk sitt gagnvart atvinnulausum, það er stóra velferðarmálið á árinu 2010, ári gegn fátækt í Evrópu.


Mér þykir vænt um Samfylkinguna


Ég hef óskaplega gaman af því að taka þátt í innra starfi flokksins. Ég skráði mig seint til leiks í stjórnmálaflokk og hélt satt best að segja að þar væri leiðinlegt að vera. En mér var kennt að hafa áhrif á umhverfi mitt – og breyta og bæta úr. Sem formaður Borgarmálaráðs hef ég verið óhrædd við að brydda upp á nýjungum, ,,Hugmyndasmiðjum” í stað hefðbundinna miðvikudagsfunda, ,,Hringborðsfundum” úti í hverfunum með máttarstólpum á hverjum stað.

Og eftir að hafa haft miklar áhyggjur af því hversu illa gekk að fá íbúa af erlendum uppruna til að taka þátt í starfi stjórnmálaflokks þá tók ég þátt í að stofna ,,Landnemann”, félag Samfylkingarfólks um fjölmenningu og innflytjendur. Og hef setið þar í stjórn frá upphafi með frábærum hópi nýbúa og síbúa. Ég er varaformaður menntamálanefndar Samfylkingarinnar og setti á laggirnar femíníska bloggsíðu ásamt öðrum, www.truno.blog.is.

Heiðarlega, skapandi og skemmtilega borg

Reykjavík er borg margbreytileikans. Íbúarnir koma frá öllum heimsins hornum og störfin eru fjölbreytt. Leyfum þúsund blómum að blómstra í atvinnusköpun á höfuðborgarsvæðinu. Engin töfralausn er til önnur en sú að styðja við smá sem stór fyrirtæki, menningarverkefni, ferðamennsku og framrtakssemi. Regluvirki borgarinnar á að vera einfalt og skilvirkt fyrir duglegt fólk á öllum aldri.

Reykjavíkurborg gegnir mikilvægu hlutverki við mótun lýðræðislegra samfélags á Íslandi. Ábyrgð hennar á því að innleiða ný vinnubrögð í anda samstarfs og samþættingar er mikil. Flutningur verkefna til sveitarfélaga sem tengjast öldruðum og fötluðum íbúum þeirra er mikilvægt skref í átt til aukinnar velferðar og metnaðarfyllri þjónustu. Samstarf sparar bæði spor og fjármagn, við höfum ekki lengur efni á múrum milli stofnanna og stjórnsýslustiga. Til þess að koma auga á samstarfsmöguleikana þarf fólk sem hugsar í lausnum og lætur verkin tala. Við þurfum gagnsæja og heiðarlega stjórnsýslu þar sem einkavinir fá sömu meðferð og ókunnugir og almannafé rennur til verkefna í almannaþágu.

Verkin tala

Hér er sýnishorn af tillögum og málum sem ég hef talað fyrir í borgarstjórn og á vettvangi menntaráðs. Nær allar tillögurnar voru samþykktar og eru komnar í farveg. Sumar alla leið.

- Tillaga um að Reykjavík verði bókmenntaborg UNESCO
- Tillaga um endurskoðun húsverndaráætlanna Reykjavíkur
- Tillaga um formlegt samstarf ríkis og borgar um virkni, ráðgjöf og námsleiðir handa atvinnulausu fólki.
- Tillaga um jafnréttisátak í tilefni af því að 100 ár voru liðin frá því að konur settust í bæjarstjórn Reykjavíkur.
- Tillaga um ný ritsmíðaverðlaun veitt börnum og ungmennum til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur
- Tillaga um betrumbætur á þjónustu við lesblind börn í skólum Reykjavíkur
- Mótun nýrrar skólastefnu fyrir grunnskóla Úlfarsárdals sem byggja á samþættingu listgreina við aðrar námsgreinar og nýrri hugsun í skipulagi skóladagsins.
- Tillaga um endurskoðun eineltisáætlanna Reykjavíkurborgar.
- Tillaga um að Reykjavíkurborg skrifi undir Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum.
- Tillaga um að Reykjavíkurborg leiði tilraunaverkefni um ráðgjöf, sjálfsstyrkingu og menntunarúrræði fyrir langtímaatvinnulaust fólk yngra en 30 ára í Reykjavík.

Eins hef ég verið fyrsti talsmaður í borgarstjórn fyrir stefnumótun í málefnum innflytjenda sem leiddi til mikilla umbóta fyrir börn af erlendum uppruna í skólum. Auk þess hef ég talað fyrir samþættingu frístunda- og skólastarfs, atvinnumálum ungmenna og aukins samstarfs borgarstofnana við íbúa og frjáls félagasamtök í hverfum borgarinnar.

Von og bjartsýni fyrir framtíðina

Reykvíkingar þurfa von og bjartsýni fyrir framtíðina. Dugmikla borgarfulltrúa sem eiga gott með að leiða saman hesta allra þeirra sem sinna þjónustu við borgarbúa. Fólk sem brennur af metnaði fyrir hönd sinnar borgar.

Við eigum endurnýjanlega orkugjafa og vatn í hreinum lindum. Auðlindirnar verðum við að nýta um ókomna tíð og því þarf sjálfbærni að vera rauður þráður í öllum ákvörðunum borgarstjórnar. Byggðina þurfum við að þétta, það er bæði hagkvæmt og skynsamt. Hverfin okkar eru sterk og skemmtilega fjölbreytt.

En íbúarnir kalla á meira samstarf um börnin, þjónustuna sem næst heimilinu og að hægt sé að leika sér, fullorðnast og eldast í sama hverfi. Samfylkingin hefur bjargfasta trú á gildi hverfamiðaðrar þjónustu og ég vil stíga enn stærri skref í þá átt. Reykvíkingar eru umburðarlyndir og skipa sér í fremstu röð hvað varðar aðgengi allra barna að sínum heimaskóla. Það lýsir metnaði og réttsýni.

Ég treysti mér til að fylgja eftir hugsjónum jafnaðarmanna um réttsýnt samfélag þar sem öll börn fá notið sinna styrkleika. Þannig byggjum við góða borg. Borg beggja kynja, borg allra þjóðarbrota, borg tækifæra og lífsgæða.

Kær kveðja, Oddný.

08 september 2009

Á alþjóðlegum degi læsis...

... er vert að minnast á áfanga og áskoranir þegar kemur að læsi ungra Íslendinga.

Menntamálaráðuneytið bað Félagsvísindastofnun um að vinna skýrslu um stöðu lestrarkennslu í íslenskum grunnskólum. Sérstaklega er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi við Háskólann á Akureyri í formannstíð minni í menntaráðinu. Það leiddi til innleiðingu á svokölluðu ,,Byrjendalæsi" sem Rósa Eggertsdóttir og hennar öfluga fólk hefur þróað undanfarin ár. Byrjendalæsi hefur samstundis sýnt fram á meiri færni í lestri nemenda.

Eins er ég stolt af því að hafa komið á samstarfi Menntasviðs Reykjavíkur og Rannsóknarstofu um mál, þroska og læsi sem Dr. Hrafnhildur Ragnarsdóttir og hennar fólk á Menntavísindasviði HÍ stýra af miklum myndarleik.

Niðurstöður skýrslunnar eru mjög í takt við það sem ég hef skynjað á síðustu þremur árum, eða síðan ég tók sæti í menntaráði Reykjavíkurborgar. Lítið er um formlega lestarkennslu á mið- og efsta stigi grunnskólans og námsgögn, kennsluaðferðir og matstæki vantar fyrir eldri nemendur grunnskólans.

Lesskilningur er hér lykilatriði. Samkvæmt PISA-könnun koma íslenskir nemendur ekki nægilega út í lesskilningi. Lestri er ekki náð þegar barn hefur lært að lesa, áfram þarf að vinna með læsið. Læsi upplýsinga, læsi á bókmenntir, læsi og túlkun og svona mætti lengi telja.

Sé Aðalnámskrá grunnskóla skoðuð kemur fram að lestrarkennslu á að sinna í öllum námsgreinum. Það er því nauðsynlegt að efla skilning kennara og skólastjóra á samþættingu lestrarkennslu við allar námsgreinar. Samþætting er hér enn og aftur hinn stóri galdur.

Guðrún Edda Bentsdóttir, sérfræðingur á Menntasviði vann minnisblað upp úr skýrslu Félagsvísindastofnunar og hér koma valdir kaflar fyrir áhugasama - til hamingju með daginn!

..Að mati skýrsluhöfunda þarf að auka samstarf milli skóla, skólastjórnenda, sérfræðinga, skólaskrifstofa og menntastofnana við að þróa aðferðir til lestrarkennslu og stuðla að faglegri þróun við lestrarkennslu...

...Starfsþróunarverkefnið Byrjendalæsi var í gangi í fjórum grunnskólum borgarinnar en það miðar að því að efla byrjendakennslu í lestri. Hluti af því námskeiði var að kennarar miðluðu eigin reynslu af því að taka upp nýja kennsluhætti í lestrarkennslu. Flestir grunnskólar í Grafarvogi munu taka upp Byrjendalæsið í yngstu bekkjunum á þessu skólaári. Því má með sanni segja að Menntasvið hafi leitað til færustu sérfræðinga til að leiðbeina grunnskólakennurum í borginni við að efla lestrarkennslu og læsi í grunnskólum borgarinnar og að námskeiðin hafi orðið til að efla samstarf á milli kennara í borginni.

...Niðurstöður rannsókna benda til þessa að stuðningur foreldra við lestrarnám barna sinna skipti sköpum samhliða hágæða lestrarkennslu í skólanum...

...Menntaráð gerði samstarfssamning við Rannsóknarstofu um mál og læsi við Menntavísindasvið HÍ sem m.a. gerir ráð fyrir því að starfsmenn rannsóknarstofunnar haldi haustið 2009 fræðslufundi fyrir foreldra barna sem eru að hefja lestrarnám.

20 ágúst 2009

Áhugaleysi meirihlutans á málefnum barna

Nú liggur fyrir að skýrsla embættismanna ÍTR og Menntasviðs um nýjar leiðir og nýjar lausnir í málefnum frístundaheimilanna hefur legið hjá borgarstjóra síðan í byrjun júní. Áfangaskýrslu var skilað 1. febrúar og því hefði meirihlutanum verið í lófa lagið að hefjast strax handa. Enda segir í erindisbréfi hópsins, undirrituðu af borgarstjóra... ,,Tillögur að skammtímalausnum verði jafnharðan hrundið í framkvæmd á starfstíma hópsins."

Meirihlutinn var ekki lengi að skera niður viðbótarstundina í 2. -4. bekk, en hélt hann virkilega að vandi frístundaheimilanna myndi leysast af sjálfu sér?

Þessi meirihluti er lunkinn og gjarn á að stinga óþægilegum málum undir stól. En það er alveg nýtt í pólitíkinni að stinga undir stól góðum tillögum til lausnar á brýnum vanda.

19 ágúst 2009

Ári seinna...

Fyrir ári síðan vantaði fólk til starfa á frístundaheimilum borgarinnar. Þrátt fyrir mikið atvinnuleysi í Reykjavík vantar enn fólk til starfa á frístundaheimilunum en langmest er um hlutastörf enda starfstími frístundaheimilanna stuttur, í kringum þrír klukkutímar á dag.

Lengi hef ég talað fyrir því að þessu yrði breytt og farið yrði af stað með tilraunir í nokkrum skólum á algjörlega nýju skipulagi skóladagsins. Um þetta skrifaði ég greinar og borgarstjóri tók að endingu vel í hugmyndina og setti fólk í málið.

Ekkert er í sjónmáli sem bendir til þess að tilraun af þessu tagi fari af stað í haust.
Því má segja að þessi ársgamla bloggfærsla standi fullkomlega fyrir sínu nú ári seinna...

13 júlí 2009

Tækifæri nýrra ríkisborgara

Það var sannarlega gleðiefni að sjá að stærstur hluti nýrra Íslendinga sem þreyttu íslenskupróf í aðdraganda að umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hafi náð prófinu. En ef það er rétt sem Ingibjörg Hafstað segir, að meirihluti þeirra sem ekki náðu prófinu eigi það sameiginlegt að móðurmál þeirra er af tónamálsstofni, þá þarfnast það frekari skoðunar. Eins þarf að skoða hvort aðgengi þeirra sem hafa litla formlega menntun, og eru jafnvel ekki vel læsir á okkar stafróf, er nægilega gott að prófinu. Annars er hætta á því að fólki sé mismunað á ómálefnalegan hátt.

Eftir áralanga baráttu rofar til í þjónustu við lesblinda á Íslandi, þeir fá próf lesin upp fyrir sig, nýta sér hljóðbækur, fá lengri tíma til próftöku og svona mætti lengi telja. Sjálfsagt réttlætismál - þó enn sé langt í land að fólk með alvarlega lesröskun fái notið sannmælis að öllu leyti í skólakerfinu.

Jafn sjálfsagt er að skapa þeim nýju Íslendingum sem þreyta íslenskupróf þau skilyrði að þeir fái tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

02 júlí 2009

Draumur um barn

Nú um stundir bíða ótal margar konur og karlar eftir því að ættleiða börn frá öðrum löndum. Mikill gangur hefur verið í starfsemi Íslenskrar ættleiðingar síðustu ár, sérstaklega með tilkomu samnings við kínversk stjórnvöld en nú virðast málin vera komin í alvarlegan hnút. Svo alvarleg er staðan að fjöldi para sem beðið hafa í mörg ár eftir barni er nú að falla á tíma. Það er með öllu óásættanlegt að hafa af fólki drauminn um að ala upp barn og slíkt á ekki að líðast. Í þessari stöðu er fólk sem hefur þegar undirgengist forsamþykki um að þeir verði góðir foreldrar fyrir barn úti í heimi sem bíður betra lífs. Með einfaldri breytingu á reglugerð frá árinu 2004 getur Alþingi gert verðandi foreldrum kleift að leita til fleiri ættleiðingarfélaga en þessa eina félags sem haft hefur yfirumsjón með ættleiðingum á Íslandi síðustu ár. Þó leiti umsækjendur ávallt eftir forsamþykki hjá íslenskum yfirvöldum svo að ströngustu skilyrði séu uppfyllt.

Með reglugerðarbreytingunni kæmist skriður á málin og biðtíminn styttist. Gerum ekki að engu drauma landa okkar sem þrá að fóstra munaðarlaust barn. Sameinumst um það mikla réttlætismál að Íslendingar geti ættleitt börn frá öðrum löndum - áður en það verður um seinan.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

29 júní 2009

Er framhaldsskólinn fyrir alla nemendur?

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu í dag. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að framhaldsskólinn er framhald af grunnskólanum, ekki síður en undirbúningur fyrir háskólanám. Við eigum ekki að sætta okkur við að tæp 40% nemenda hverfi frá framahaldsnámi. Þess vegna hef ég talað fyrir því að Reykjavík taki að sér rekstur eins framhaldsskóla í tilraunaskyni. Það er til svo mikils að vinna að þessi tvö skólastig vinni betur saman, til að sigrast á brotthvarfi sem er með mesta móti í Evrópu.

,,Á síðustu mánuðum hafa þúsundir grunnskólanema sótt um skólavist í framhaldsskólum um allt land. Oftast eru reykvískir framhaldsskólar þeir ásetnustu og árið í ár var engin undantekning. Þetta vor er þó sérstakt að því leytinu til að engin samræmd vorpróf voru þreytt í grunnskólum landsins en nýsamþykkt grunnskólalög kveða á um upptöku samræmda könnunarprófa í byrjun 10. bekkjar og þau verða lögð fyrir í fyrsta sinn næsta haust. Fjölbreytt námsmat hefur rutt sér til rúms á síðustu árum og er nú einn helsti vaxtarbroddur í skólaþróun á Íslandi. Sjálfstæð vinnubrögð, rannsóknir og skapandi þættir fá byr undir báða vængi í fjölbreyttu námsmati.

Í vor tefldu 10. bekkingar í Reykjavík fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskólavist. Besta námsmatið er sennilega það sem byggist á samspili niðurstaðna úr samræmdum könnunarprófum og skólaeinkunnum sem taka mið af fjölbreyttu skólastarfi. Mikilvægt er að námsmat leiðbeini nemendum til aukinna framfara alla skólagönguna og gefi glögga mynd um námslega stöðu við lok grunnskólagöngunnar.

Nú taka margir að lofsyngja gömlu samræmdu vorprófin. Þau þjónuðu vissulega tilgangi sínum sem n.k. inntökupróf inn í framhaldsskóla en viljum við halda áfram á þeirri braut? Þau höfðu sína kosti en einnig sína galla. Hvernig mældu samræmdu prófin skapandi þætti, félagslegan styrk nemandans og frumkvæði? Allt það sem atvinnulíf framtíðarinnar á að byggja á? Það gerðu þau aldrei og munu aldrei gera. Því var að mínu mati hárrétt skref stigið að hverfa frá samræmdum vorprófum sem hertóku allt skólastarf á síðasta ári grunnskólans og jafnvel lengur.

Nú er sagt að jafnræðisreglan hafi verið brotin með því að nemendur tefli fram skólaeinkunn við umsókn um framhaldsskóla. En hvað er jafnræði þegar kemur að skólagöngu? Jafnræði felst í því að nemandi komi sterkur út úr grunnskólanum sínum, fullur trú á eigin getu, sama hver hún er. Jafnræðið felst í því að hefja nám í einum af okkar fjölmörgu góðu framhaldsskólum og blómstra í námi. Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi. Umræðan síðustu daga hefur einskorðast við miklar vinsældir nokkurra bóknámsskóla sem taldir eru ,,betri” en aðrir skólar. En hvað gerir góðan framhaldsskóla góðan? Um það vitum við fátt. Er það skóli sem tekur inn nemendur með háar einkunnir og útskrifar þá með jafn háar einkunnir? Er það skóli sem fagnar nemendum með margvíslegar þarfir og getu, kveikir hjá þeim námsáhuga, eflir framfarir og veitir aðhald og aga? Þegar skoðuð er námsframvinda háskólanemenda úr ólíkum framhaldsskólum kemur í ljós að munur þeirra á milli er lítill, eftir að tekið hefur verið tillit til námsárangurs nemendanna þegar þeir hefja framhaldsskólanámið. Hver er þá mælikvarðinn?

Í umræðum síðastliðinna daga finnst mér sem fingrinum sé beint að röngu skólastigi. Grunnskólinn er fyrir alla þar sem styrkleiki hvers og eins fær að njóta sín. Langt er síðan horfið var frá tossabekkjum og elítubekkjum. Sem betur fer. Framhaldsskólarnir okkar eru hluti af íslensku skólakerfi sem einkennist af jöfnuði og félagslegu réttlæti. Skólinn er spegilmynd samfélagsins og það getur ekki verið hollt fyrir viðhorf ungs fólks til samfélagsins að halda áfram á þeirri braut að nokkrir skólar geti valið sér nemendur með tilteknar einkunnir og nokkur hópur nemenda fái sterk skilaboð höfnunar vegna þess að eitthvað vantaði upp á einkunn í tilteknu fagi. Strákar jafnt sem stelpur, ungmenni af erlendum uppruna, námsmenn með ólíkan námsstíl, mismunandi getu og færni í ólíkum greinum eiga að rúmast innan veggja allra framhaldsskóla á landinu. Þeim á ekki að vísa á dyr vegna einkunna, ekki frekar en að nemendur með tilteknar einkunnir eigi að ganga fyrir.

Umræða undanfarinna daga kallar fyrst og fremst á umfjöllun um til hvers framhaldsskólarnir séu og á hvaða forsendum þeir ákvarði hvaða nemendum þeir taki við. Vandi stofnana sem þurfa að velja er skiljanlegur en verður að mínu mati ekki leystur með því að skýla sér á bakvið samræmdar prófseinkunnir við lok grunnskólans. Hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar þarf að ná upp til framhaldsskólastigsins, slíkir skólar skapa andrúmsloft sem einkennist af fjölbreytni og virðingu fyrir náunganum. Ef við þorum að stíga skrefið þá uppskerum við sterkari skóla, sterkari einstaklinga og sterkara samfélag. Það er til mikils að vinna."

13 maí 2009

tannheilsa

Þær eru óhugnanlegar fréttirnar af hnignandi tannheilsu íslenskra barna og ungmenna. Ef kostnaðarþátttaka foreldra hefur verið svo mikill þrándur í götu undanfarin ár þá er von að áhyggjur kvikni af framhaldinu, nú þegar margar fjölskyldur eiga og munu eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.

Leik- og grunnskólar eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins og gegna þeirri sérstöðu að allir íbúar landsins fara þar í gegn á ákveðnum aldri. Því eru skólarnir sterkasta jöfnunartæki sem við búum yfir og þar er hægt að skima, kanna, sinna forvörnum, fræða og byrgja brunna. Í þeim anda lagði ég eftirfarandi tillögu fram í leikskólaráði í dag:

Leikskólaráð samþykki að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu leikskólabarna í Reykjavík. Sviðsstjóri Leikskólasviðs skoði hvernig leikskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum skólabörnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:

1) Hvernig markmiðum lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja leikskólans.

2) Hvernig starfsfólk leikskóla geti gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skipulagi skóladagsins, jafnvel með reglulegri tannburstun eins og þegar hefur verið komið á í nokkrum leikskólum borgarinnar með frábærum árangri.

3) Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan leikskólans.

4) Hvaða ferlar eru virkir innan veggja leikskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og hvernig samstarfi við barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.

Sambærileg tillaga var lögð fram í menntaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.

24 apríl 2009

Rétt og rangt um sjávarútvegsstefnu ESB

Á Vísi er slegið upp frétt um að ekki sé tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB. Það er rangt. Hið rétta í málinu er eftirfarandi: Sjávarútvegsstefna ESB er endurskoðuð reglulega í víðtæku samráði við alla hagsmunaaðila. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika hefur alltaf verið rædd í reglulegri endurskoðun en viti menn - þeirri reglu hefur ekki verið breytt frá árinu 1983.

Ein af þeim hugmyndum sem framkvæmdastjórn ESB setur fram núna er að hafa framseljanlegar aflaheimildir á öllu svæðinu og að búa svo í haginn að aflaheimildir rati þangað þar sem fiskveiðar eru mikilvæg atvinnugrein og þar sem hagkvæmni í fiskveiðum er mest.

Framkvæmdastjórn ESB spurði aðildarríkin um þeirra skoðun á þessu og í ljós kom að 26 af 27 aðildarríkjum vilja ekki hrófla við hlutfallslega stöðugleikanum.


Það er hið rétta í málinu.

Enn skilar Sjálfstæðisflokkurinn auðu...

Sjálfstæðisflokkur lofar 50% lægri greiðslum af húsnæðislánum í heilsíðuauglýsingu í blöðunum í dag. Hér er í raun um greiðslujöfnun að ræða, sem er ein af 18 aðgerðum ,,Velferðarbrúarinnar" sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur reist til að koma heimilunum yfir erfiðasta tímabilið.

Lögin um greiðslujöfnun voru fyrst sett árið 1985 og svo breytt í nóvember 2008 að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, sem aðrir hafa löngu uppfyllt, skýtur því skökku við og því varla við því að búast að nokkur kjósandi bíti á agnið. Enda er full seint að koma með lausnir fyrir heimilin í landinu daginn fyrir kjördag.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur því áfram að skila auðu. Bæði í Evrópumálum og raunhæfum lausnum fyrir heimilin. Og enn er lýst eftir peningamálastefnu þess flokks, sem fór frá heimili sínu árið 2005 og lítið hefur til spurst síðan...

22 apríl 2009

Ekkert pönk í vantrausti

Nú magnast upp hræðsluáróður ESB-andstæðinga - sem umfram allt treysta ekki þjóðinni til að taka ákvörðun á upplýstum grunni. Áróðurinn er gjarnan á þeim nótum að Samfylkingin vilji ganga í ESB - sama hvað. Það er rangt.

Samfylkingin treystir þjóðinni. Og Samfylkingin vill ganga í ESB en ekki með hvaða skilyrðum sem er. Við viljum semja á grundvelli skýrra samningsmarkmiða. Aðeins þannig fær þjóðin sjálf að taka lýðræðislega ákvörðun um raunverulegan aðildarsamning.

Til að tryggja þessa niðurstöðu verður Samfylkingin að fá góða kosningu og Jóhanna að fá skýrt umboð. Samningsmarkmið okkar eru:

Full yfirráð okkar yfir auðlindum.

Raunverulegt forræði fyrir úthlutun veiðiheimilda á Íslandsmiðum.

Viðurkenning á sömu réttindum og Svíar og Finnar hafa varðandi landbúnað.

Sérstakt tillit verði tekið til íslensks landbúnaðar í ljósi matvælaöryggissjónarmiða og fjarlægðar Íslands frá mörkuðum.

Að lokum kýs þjóðin. Óttar Proppé pönkari vék orðum að þessu vantrausti ákveðinna stjórnmálaflokka til þjóðarinnar á frábærum fundi Sammála-hópsins í Iðnó.

Það er nefnilega ekkert pönk í því að vera ekki treyst.

Tímamótasamþykkt um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga

Ég hef heyrt marga úr frístunda - og íþróttageiranum fagna því að sjá í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar að móta eigi rammalöggjöf um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga.

Hér á eftir fer greinargerð hópsins sem fjallaði um menntun og menningu, sem útskýrir betur hvað við eigum við:

Samfylkingin leggur á það ríka áherslu að Ísland móti sér stefnu í málefnum frítímans. Mótuð verði rammalöggjöf um tómstunda- og íþróttastarf í landinu sem vettvang uppeldis og óformlegrar menntunar þar sem starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga, sem og tómstunda- og félagsstarf á vegum sveitarfélaga verði undir. Horft verði til menntunar leiðbeinenda, aðstöðu til starfsemi, gæðakrafna og gæðamats.

Markmið lagasetningarinnar verði að tryggja rétt barna og unglinga til góðrar og þroskandi frístundaiðju sem byggir undir fagmennsku á sviði frítímans og viðurkenna mikilvægi vandaðs frístundastarfs í lærdómsumhverfi barna og ungmenna. Í því samhengi er mikilvægt að styrkja uppeldisgildi í starfi frjálsra félaga, efla félagslega virkni og lýðræðisleg áhrif iðkenda og koma á eðlilegu jafnvægi milli afreksmiðaðra íþrótta og almennrar iðkunar barna, ánægjunnar vegna.

Samfylkingin vill stefna að frekari samþættingu frístunda- og skólastarfs hjá börnum á grunnstigi grunnskólans enda er það lykillinn að innihaldsríkari skóladegi og kemur betur til móts við ólíkar þarfir barna

Samfylkingin boðar aukna samvinnu og samþættingu á öllum sviðum mennta, menningar, íþrótta- og frístundamála. Brýnt er að menntakerfið og frístundageirinn starfi sem ein heild, brúa þarf bil milli skólastiga og fagstétta og leggja alla áherslu á gæði, fjölbreytni og skilvirkni í skólastarfi, kennaramenntun og menntunarfræðum.

Tónlistarskólar í Reykjavík

Í allri umræðu um niðurskurð til skóla sem starfa frá hausti og fram á vor hefur verið tekið tillit til þess að skólaár og fjárhagsár er ekki það sama. Því kemur það mjög á óvart að niðurskurður til tónlistarskóla eigi að taka gildi frá og með 1. janúar síðastliðnum.

Styrkur borgarinnar til tónlistarskóla fer í að greiða laun kennara, ekki í reksturinn. Það er því útilokað að þessi ákvörðun standist hreinlega lög, því varla er hægt að afturkalla þegar greidd laun.

21 apríl 2009

Bókmenntaborg UNESCO

Í dag flutti ég fyrir hönd Samfylkingar tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur að borgin sækist eftir útnefningu sem „bókmenntaborg UNESCO“ (UNESCO´S City of Literature). Menningarleg jafnt sem hagræn áhrif útnefningarinnar verði könnuð í víðtæku samráði við ráðuneyti menntamála, bókmenntasjóð, Rithöfundasambandið, Félag bókaútgefenda og aðra þá sem málið varðar.

Um alllangt skeið hafa ýmsir aðilar innan íslenska bókmenntageirans haft áhuga á því að Reykjavík sækist eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Útnefningin yrði mikill heiður fyrir íslenskar bókmenntir og myndi vekja jákvæða athygli á menningarborginni Reykjavík. Útnefningin er varanleg og nú eru þrjár borgir í heiminum sem hafa hlotið hana; Iowa, Melbourne og Edinborg. Þær borgir sem tilheyra netverki UNESCO-borga starfa saman undir regnhlífinni ,,Creative Cities Network” og skapa saman fjölmörg tækifæri til samvinnu á sviðum lista og menningar.

Skilyrði fyrir útnefningu eru margvísleg en helst ber að nefna að borgir sem hljóta útnefningu tilheyra þjóð sem státar af ríkulegum bókmenntaarfi, alþjóðlega viðurkenndri bókmenntahátíð, öflugri útgáfa nútímabókmennta og verðlaunuðum rithöfundum. Eins er litið til lestrarstefnu borgarinnar, aðgengi almennings að bókasöfnum, lestrarmenningu þjóðarinnar og þá áherslu sem þjóðin leggur á að ala nýjar kynslóðir upp með tilliti til lesturs og að njóta unaðssemda bókmenntanna.

Ísland státar af mörgum þessara atriða og fari svo að Reykjavík falist eftir útnefningu mun það efalaust hafa jákvæð áhrif á bóklestur, stefnumörkun í fræðslumálum og alla umræðu um læsi og uppeldisleg áhrif bókmennta. Árið 2011 verður Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókamessu í heimi. Það mun vekja gríðarlega athygli á íslenskum bókmenntum og því er lag að sækjast eftir útnefningunni meðfram þeim landvinningum, eða í kjölfar þeirra.

Útnefning sem þessi styrkir ímynd borgarinnar sem menningar- og ferðamannastaðar og mun skila sér rakleitt í fjölgun ferðamanna til borgarinnar. Auk þess verður hún lyftistöng fyrir bókasöfnin í borginni. Útnefningin eykur samvinnu milli aðila sem vinna að læsi og bókmenntum, bæði innanlands sem og milli borga sem hlotið hafa útnefningu.

Nú er í vinnslu sóknaráætlun fyrir Reykjavík og einn af þeim þáttum sem litið er til verður menningarborgin Reykjavík. Því er það borgarstjórn Reykjavíkur til sóma að hafa forgöngu um að kanna strax kosti þess að Reykjavík sækist formlega eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Það yrði þó aldrei verk Reykjavíkurborgar eingöngu heldur unnið í nánu samstarfi við ráðuneyti menntamála, Bókmenntasjóð og aðra þá sem starfa að kynningu íslenskra bókmennta, bókaútgefendur, bókasöfn, rithöfunda, Hagþenki og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Tillagan var samþykkt.

20 apríl 2009

Lýst er eftir peningamálastefnu...

Ég las ,,status" á Facebook-síðu vinkonu minnar í gær sem var nokkuð skondinn:

,,Lýst er eftir peningamálastefnu Sjálfstæðisflokksins. Hún fór að heiman árið 2005 og hefur ekki spurst til hennar síðan. Stefnan var í dökkbláum jakkafötum þegar síðast sást til hennar..."

Í dag opinberast þó enn frekar vandræðagangur Sjálfstæðismanna þegar sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Noregi og Íslandi segir þá hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins vera algerlega óraunhæfa. Óneitanlega læðist að konu sá grunur að útspil íhaldsins sé einvörðungu til að hylja þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn er í andstöðu við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda.

Launafólk og atvinnurekendur vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar. Sjálfstæðisflokkur skilar auðu.

En þetta er þó ekkert nýtt. Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið, einhliða upptöku evru, í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur Evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.

Það má því vel halda áfram að lýsa eftir peningamálastefnu Sjálfstæðisflokksins. Hún er týnd og tröllum gefin...

18 apríl 2009

Samfylkingin, verkalýðshreyfingin og atvinnulífið

Í Evrópuskýrslunni sem birt var í dag kemur í ljós að Samfylkingin, verkalýðshreyfingin og samtök atvinnurekenda sem ná til um 70% atvinnulífsins tala algjörlega einum rómi. 


Í sameiginlegu áliti Samfylkingar, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda kemur fram að sækja beri strax um aðild að ESB. 

Skýrslan dregur því fram að Samfylkingin á ein samleið með bæði verkalýðshreyfingunni og atvinnulífinu í landinu. 

Ályktun Egils Helgasonar er líklega rétt. Þunginn í Evrópuumræðunni vex með hverjum degi sem líður. Aðild að ESB er stærsta velferðar- og atvinnumálið. 

Ert þú því sammála? 

16 apríl 2009

Hvað með Framsókn, Einar?

Einar Skúlason spyr Jóhönnu Sigurðardóttur út í málefni innflytjenda í pistli á Pressunni nú í vikunni. Því er til að svara að í ráðuneyti félags- og tryggingarmála undir forystu Samfylkingarkvennanna Jóhönnu og Ástu Ragnheiðar hefur heldur betur þokast áfram í málefnum innflytjenda undanfarin misseri og verður hér stiklað á stóru:


- Fjárframlög til flóttamannaverkefna á Íslandi voru stóraukin.
- Aðgerðir til að verja réttindi innflytjenda á vinnumarkaði í samstarfi við ASÍ, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.
- Fyrsta framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda leit dagsins ljós, mörg verkefni þegar farin af stað og önnur í bígerð.
- Stóraukin framlög til Fjölmenningarsetursins á Vestfjörðum.
- Úthlutun tæplega tuttugu milljóna í styrki til að framfylgja ýmsum málum tengdum framkvæmdaáætluninni sem ofar er nefnd.
- Í vinnslu er samræmd móttökuáætlun fyrir sveitarfélög á landinu, unnin af  Fjölmenningarsetri.
- Vinnu við fyrstu heildstæðu löggjöf um málefni innflytjenda miðar vel en sú löggjöf verður lögð fram á næsta þingi.

Fyrsti innflytjandinn, Samfylkingarkonan Amal Tamimi, stýrði fundi Innflytjendaráðs á kjörtímabilinu. Stuttu áður flutti fyrsti innflytjandinn ræðu í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd Samfylkingarinnar. Þar var á ferð Falasteen Abu Libdeh, dóttir Amal. 

Á landsfundi Samfó voru samþykktar ályktanir þess efnis að einstaklingar af erlendum uppruna missi ekki dvalarleyfi sitt eftir skilnað við íslenskan maka, að atvinnuleyfi fólks af erlendum uppruna verði bundið einstaklingi en ekki atvinnurekanda, að menntun innflytjenda verði viðurkennd, að fullorðnum verði gefinn kostur á íslenskunámi sér að kostnaðarlausu, að börnum verði veittur stuðningur við íslensku- og móðurmálskennslu, að aðstoð við innflytjendur á unglingsaldri verði aukin og að samvinna skóla við foreldra barna af erlendum uppruna verði bætt. 

Einnig mætti nefna að bæði Velferðarvaktin og Jafnréttisvaktin undir stjórn Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur hafa sérstaklega horft til aðstæðna innflytjenda í sínum störfum.

Margt fleira má lesa hér sem ber vott um áhuga og elju félags- og tryggingarmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Enda hefur hún orð á sér að gera vel það sem hún tekur sér fyrir hendur. 

En hvað með Framsókn, Einar? 

07 apríl 2009

Byggjum velferðarbrú yfir boðaföllin

Leið Samfylkingarinnar í gegnum erfiðleikatímabilið framundan er að byggja velferðarbrú. Velferðarbrúin mætir vanda heimila þannig að takmarkaðir fjármunir ríkissjóðs nýtist þeim sem mest þurfa á að halda. Brúarleiðin felur í sér tækifæri til að lækka greiðslubyrði, greiðslufresti, auknar endurgreiðslur vaxtabyrða og greiðsluaðlögun fyrir þá sem eru í mestum vanda. 


Fyrir heimilin og atvinnulífið skiptir mestu máli að komast sem fyrst yfir erfiðleikana með ábyrgð, aðhaldi og skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Þar nýtur Samfylkingin óneitanlega sérstöðu. Það er einungis með nýjum gjaldmiðli sem við getum skapað aðstæður til hagvaxtar, niðurgreiðslu skulda og til að bæta lífskjörin.

Forsendan er traust og ábyrgð - enda tími töfralausnanna liðinn. Jóhanna Sigurðardóttir sýnir styrk sinn með því að hafna þátttöku Samfylkingarinnar í því að blekkja þjóðina með tálsýn og óábyrgum tillögum. 

04 apríl 2009

Valdir eða útvaldir?

Málþófið á Alþingi í dag snýst í hnotskurn um eftirfarandi: 

Varðstöðu um vald sérhagsmuna. 

Stjórnarskrárbreytingarnar sem þingmenn ræða nú snúast um eftirfarandi: 

- að afnema varanlega vald sem gefur einkaaðilum sameiginlegar auðlindir.
- að færa almenningi vald til að geta með beinum hætti haft áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. 
- að færa almenningi beinna vald til stjórnarskrárbreytinga með ákvæði um það hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga - og með stjórnlagaþingi. 

Sjálfstæðismenn halda uppi málþófi og virðast því ekki heyra hjartslátt þjóðarinnar. Þjóðar sem þráir réttlæti, breytingar og lýðræðislegar umbætur. Þeir virðast aðallega hafa áhyggjur af því að breytingarnar svipti Alþingi valdi sínu. 

En Alþingi er ekki uppspretta valds. Þingmenn þiggja vald sitt sem fulltrúar fólksins. 

Þeir sem fylgjast með umræðunum, hvort sem er á Alþingisrásinni eða frá pöllum Alþingis eru því að fylgjast með klassískum átakapunkti hægristefnu og jafnaðarstefnu; sérhagsmunir versus almannahagsmunir. 

Það eru til tvenns konar stjórnmálamenn. 
Þeir sem starfa í þeim anda að þeir séu valdir. Og svo eru það hinir sem trúa því að þeir séu útvaldir. 

Á þessu er reginmunur. 

24 febrúar 2009

23 dagar

Á 23 dögum hefur ríkisstjórnin áorkað ýmsu, eins og lesa má um hér.

Og það dylst engum að verkstjórnarvaldið er skýrara og upplýsingagjöfin betri og markvissari.

Áfram veginn.

17 febrúar 2009

Að* gefnu tilefni

og í ljósi niðurlags þessarar fréttar er gott að árétta eftirfarandi:

Eftir umræður á fundi fulltrúaráðsins í gær var ákveðið að taka út ákvæði sem vinnuhópur á vegum fulltrúaráðsins hafði smíðað. Það kvað á um að kjósendur í prófkjöri skyldu velja jafn margar konur og karla - en í ákvæðinu fólst ekki innbyrðis kynjakvóti. Hámarksfjöldi frambjóðenda sem velja má er 8.

Að mati meirihluta fundargesta hindraði þetta ákvæði framgöngu kvenna í Reykjavík því nú lítur út fyrir að fjórar sitjandi þingkonur bjóði sig fram aftur - þar af sitjandi formaður og tveir ráðherrar. Ákvæðið hefði því líklega heft framgang kvenna í Reykjavík sem getur ekki verið jákvæð þróun í flokki sem kennir sig við kvenfrelsi.

Samkvæmt tillögu sem nokkrir meðlimir fulltrúaráðs, þ.á.m. velþekktar baráttukonur fyrir jafnrétti, lögðu fram var því ákvæðið tekið út en samþykkt með miklum meirihluta að uppstillingarnefnd liti til kvenfrelsissjónarmiða og þeirrar nauðsynjar að fjölga þurfi konum á þingi - ekki fækka.

*Aldrei get ég verið viss um hvort forsetningin eða af á betur við í þessu samhengi. Áhugasamir geta kíkt á síðu Vísindavefsins til að fá úr því skorið.

05 febrúar 2009

Skilanefndir

Ég hlustaði á stefnuræðu forsætisráðherra í gær sem og aðrar ræður þingmanna. Stefnuræða forsætisráðherra stóð upp úr. Hvatning, hreinskilni og engin tæpitunga.

Rauður þráður í ræðum félagshyggjufólks á Alþingi var sá ljóti viðskilnaður sem Sjálfstæðismenn bera að mestu leyti ábyrgð á.

Jóhanna lagði áherslu á að nú sæti bráðabirgðastjórn sem myndi einbeita sér að fáum en mikilvægum verkefnum til að reisa við mikilvægar stofnanir og innviði samfélagsins.

Þessarar stjórnar verður minnst fyrir hugrekki.

Það getur nefnilega ekki hver sem er setið í skilanefnd Sjálfstæðisflokksins.

02 febrúar 2009

Félagshyggja, velferð & jafnrétti

Ég er stolt af flokknum mínum að hafa staðið upp í hárinu á Sjálfstæðisflokknum. Ég var 15 ára gömul þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf óslitna 17 ára valdasetu sína og það er óhætt að segja að langlundargeð gagnvart hugmyndafræði hans og vinnubrögðum var gjörsamlega á þrotum. 


Jóhanna er glæsilegur fulltrúi félagslegra hugsjóna og baráttujaxl þegar kemur að því að verja velferðarkerfið. Húsnæðismálin þekkir hún betur en allflestir aðrir og réttsýni og heiðarleiki einkenna hana öðrum fremur. Jóhanna er jafnréttissinni, það hefur hún sýnt og sannað í verkum sínum.

Og í dag höfum við eignast fyrsta kvenkyns forsætisráðherrann og kynjahlutfall í ríkisstjórninni er jafnt. Það skiptir máli. Ég vona að 15 ára gamlar stúlkur og drengir megi lifa við þann veruleika næsta áratuginn, og alla sína tíð. 

Ég óska ríkisstjórninni, sérstaklega nýju ráðherrunum alls hins besta í krefjandi verkefnum. 
Okkur öllum óska ég til hamingju með nýja, endurnýjaða stjórn. Kröfur þjóðarinnar um breytingar, uppstokkun og aðallega kosningar í vor skiluðu sér í nýrri ríkisstjórn. 

Framundan er ótrúlegt tækifæri fyrir félagshyggjufólk á Íslandi að starfa saman og sanna sig fyrir þjóðinni. Takist þeim það verður langt í að frjálshyggjuöflin nái völdum á Íslandi á nýjan leik. 

26 janúar 2009

,,Lengi má manninn reyna"

Sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir í dag. Eftir linnulausar en jafnframt árangurslausar kröfur Samfylkingarfólks um nauðsynlega tiltekt innan stjórnkerfisins var stjórnarsamstarfinu slitið. 

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn til þess að taka þátt í nauðsynlegri hreingerningu sem skapað hefði traust á alþjóðavettvangi, hvað þá ná sátt við þjóðina og endurvekja trú almennings á Alþingi. 

Þeim þykir vænna um gamla foringjann sinn en ofangreinda hluti.

Afsögn Björgvins skapaði mikinn þrýsting og er lofsvert nýmæli í íslenskum stjórnmálum. Björgvin er maður að meiri - en Sjálfstæðisflokkurinn skilaði auðu. Og aftur var spurt: 

Hvernig getur efnahagskerfi þjóðar hrunið án þess að einhver axli ábyrgð? 

Tiltekt og hreingerning. Það voru kröfurnar.

Enda er þessi bylting kennd við búsáhöld.

25 janúar 2009

Afsagnir

Það var og. Ég get ekki annað en fagnað því að Björgvin segi af sér enda hef ég í langan tíma sagt að það verði hann að gera. En mikið ósköp er þetta seint í rassinn gripið. Í kjölfarið hlýtur yfirstjórn og forstjóri Fjármálaeftirlits að fara og er það vel.


Nú beinast spjótin að Seðlabankanum, það verður aldrei hægt að halda áfram stjórnarsamstarfinu án þess að nauðsynlegar breytingar verði gerðar þar. Það verður að ná sátt við íslenska þjóð - reiðin, vantrúin og skortur á trausti myndar djúpa og víða gjá milli þings og þjóðar.

Björgvin axlar hér pólitíska ábyrgð sem er nýlunda í íslenskum stjórnmálum. Megi þetta verða fyrsta skrefið að alvöru siðbót og lýðræðislegum umbótum.

Þá er það arftaki Björgvins og ég held að það hljóti að verða varaformaðurinn okkar. Nógu snúið hefur það verið síðustu vikur og mánuði að varaformaðurinn sé fjarri ríkisstjórnarborðinu.

Bætt við klukkan rúmlega 17 -

Aldrei hef ég lastað störf Björgvins heldur þvert á móti talið hann standa sig afar vel við nær ómanneskjulega erfiðar aðstæður. Þegar ég hef talað fyrir afsögn hans er ég að vísa til pólitískrar ábyrgðar hans, sem er ekki það sama og persónuleg ábyrgð. Birgir Hermannsson lýsir því ágætlega hér. Björgvin hefur tekið lofsvert frumkvæði en ég er þó enn á þeirri skoðun að mitt fólk á Alþingi hefði þurft að taka slíkt frumkvæði mun fyrr. Íslenska þjóðin kallar eftir því - og hefur gert í rúmlega 100 daga, á hverjum degi.

Skúli Helgason skrifar hreint út sagt frábæran pistil á heimasíðu Samfylkingarinnar í dag sem ég hvet alla til að lesa.

21 janúar 2009

Enginn er ómissandi

Stjórnarsamstarfinu er lokið. Undir þetta hljóta allir landsmenn að taka. Geir og Ingibjörg Sólrún hafa sagt að nauðsynlegt væri að ljúka mest áríðandi björgunaraðgerðunum - fyrst.

Nú er þeim lokið.

Nú þarf að taka til við uppbyggingu nýs samfélags. Og þá getur valdaflokkur sem setið hefur við stjórn landsins í 17 ár og vaktað hvern krók og kima, sett sitt fólk í stöður og fyrirtæki, ráðið Seðlabankastjóra pólitískt, framfylgt peningamálstefnu sem keyrt hefur þjóðina í þrot - hann getur ekki setið lengur. Hann verður að stíga til hliðar. Hann verður að vera í stjórnarandstöðu, ekki stjórn. Hann nýtur ekki trausts.

Við þurfum að kjósa. Samfylkingin þarf að taka sig saman í andlitinu og horfa í eigin barm. Samfylkingin þarf að endurnýja umboð sitt. Við þurfum að gefa nýjum flokkum tækifæri til að bjóða fram, við þurfum að gefa nýju fólki tækifæri til að sækja umboð sitt til þjóðarinnar innan raða gömlu flokkanna.

Það er enginn ómissandi í pólitík. Þeir sem eru á annarri skoðun eiga alls ekki að vera í pólitík - svo einfalt er það.

Við þurfum nýja stjórnarskrá. Við þurfum afsagnir embættismanna, alvöru uppgjör við fortíðina og spillinguna. Jafnvel nýtt kosningakerfi, nýtt lýðveldi.

Eftir hverju bíðum við?

Í kvöld stendur Samfylkingarfélagið í Reykjavík fyrir opnum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan 20.30. Umræðuefnið er eldfimt: ,,Stjórnarsamstarfið".

Innan flokksins er gríðarleg óánægja - þráin eftir lýðræðislegum umbótum, breytingum og endurnýjuðu umboði er heit. Í kvöld mun hinn almenni flokksmaður segja sína skoðun og á hana verður forystan að hlusta.

14 janúar 2009

Myndskeiðin mín

Jafnréttismálin rædd við Sigríði Andersen í Silfri Egils:

Silfur Egils from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Fjörug umræða um borgarmál í Silfrinu, skömmu eftir að Ólafur F. Magnússon settist í stól borgarstjóra:

Silfur Egils from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Umfjöllun í Víðsjá um bókmenntaborg UNESCO og læsi Íslendinga:

Viðsjá - Rás eitt from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



,,Á sumarvegi", yðar einlæg fer yfir eftirminnileg sumur, íslenskar sumarnætur og áhrifaríka kennara:

Á Sumarvegi - Rás eitt from Oddný Sturludóttir on Vimeo.



Uppáhalds TED-vídeóið mitt, Ken Robinson um sköpun í skólastarfi

13 janúar 2009

Lifandi lýðræði

Eva Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri UJ og stólpakvendi bað mig að skrifa grein fyrir Samfylkingarvefinn sem ég auðvitað gerði enda hlýðin stúlka. 


Greinin heitir Lifandi lýðræði og má lesa hér en lokaorðin voru þessi: 

,,Það nægir ekki að eiga góða stefnu, geymda á heimasíðu. Ef kjörnir fulltrúar láta ekki verkin tala í anda Samfylkingarinnar, hlusta ekki á raddir fólksins og tryggja ekki gagnsæi og samráð, munu lýðræðiselskandi flokksmenn sjá til þess að fá ekki umboð sitt endurnýjað.

Það er lifandi lýðræði." 



06 janúar 2009

Ungir menn og Framsókn

Þetta kemur mér einhvern veginn ekkert stórkostlega á óvart. Gummi hefur reyndar fengið ákaflega góðar móttökur í Samfylkingunni og sumum fannst nóg um hversu mikið var ,,klappað" undir hann á sínum tíma. En hann hefur verið óánægður með ýmislegt og kannski finnst honum ekki nógu mikið leitað til hans núna þegar flokkurinn er í ríkisstjórn. 


Kannski er útilokað að afneita uppruna sínum - sér í lagi þegar ræturnar hafa náð slíkri þykkt. 

Nú hlýtur kona að bíða spennt eftir því hvort fleiri ungir menn með afar litla - eða enga þingreynslu - trommi uppi í formannsframboðinu. Það er ekki að spyrja að sjálfstraustinu! 

Athygli vekur að eina konan í framboði er með 100 ára þingreynslu auk þess að hafa setið á ráðherrastóli. En hún ætlar líka bara í varaformanninn... best að fara sér að engu óðslega. Strákarnir sjá um stóru málin.

P.s. eins og alvöru fótboltaspekingar vita þá er félagsskiptaglugginn opinn einu sinni á ári - í janúar. Þá hoppa menn á milli félaga og ganga kaupum og sölum. 

Við ættum kannski að taka upp sama kerfi í pólitíkinni? 

05 janúar 2009

Tónlistarskólar - framtíð tónlistarnáms

Á morgun verður frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2009 afgreitt úr borgarstjórn. Þó er það nokkurs konar millileikur því strax í mars verður frumvarpið endurskoðað og mikil vinna er í raun óunnin inni á öllum fagsviðum. Ástæðan er sú að seint í ferlinu kom tilskipun frá borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð á sviðin og skerðingu yfirvinnu borgarstarfsmanna. Útfærslunni var velt yfir á næsta ár (árið 2009) enda skorti sárlega upp á samráð við fagfélög og starfsmenn, hvað þá borgarfulltrúa minnihlutans.

En hvað um það. Eftir háværar snerrur í öllum fagráðum (sem kynna sér má á vef Reykjavíkurborgar undir fundargerðum) var frumvarpið klárað með áðurnefndum óútfylltum víxli inn í framtíðina. Eitt og annað jákvætt kom þó út úr samráði borgarfulltrúa á lokasprettinum þó ekki hafi nándar nærri allar athugasemdir stjórnarandstöðunnar verið teknar til greina.

Í upprunalegum drögum átti að ganga ansi nærri tónlistarskólum í Reykjavík. Þeir fá framlög frá Reykjavíkurborg sem eingöngu fer í launalið tónlistarskólanna. Húsnæði þeirra og annar rekstur er algjörlega á þeirra vegum. Það er skemmst frá því að segja að eftir hávær mótmæli okkar fólks í menntaráði var ákveðið að draga í land og láta niðurskurð til tónlistarskóla vera á pari við niðurskurð til íþróttafélaga. Enda ekki annað sanngjarnt.

Hitt er svo annað mál að í fjölda ára hafa sveitarfélögin og ríkisvaldið karpað um ábyrgð hins opinbera á tónlistarnámi á framhaldsstigi. Með því er átt við: 
a) nemendur sem lokið hafa grunn- og miðstigi (ca. V.-VIII. stig samkvæmt gamla kerfinu) 
eða
b) nemendur 16 ára og eldri, samanber skiptingu milli grunn- og framhaldsskóla (grunnskólanám á forræði sveitarfélaga, framhaldsskólanám á forræði ríkisins).

Menn deila svo fram og tilbaka hvor skilgreiningin sé betri og réttlátari. En menn deila ekki um að það er óþolandi óréttlæti fólgið í því að svo lengi hafi dregist að útkljá málið.

Deilan hefur staðið lengi og hefur bitnað harkalega á tónlistarnemendum. Umboðsmaður Alþingis hefur ályktað að rangt sé að ríkisvaldið þverskallist við að greiða fyrir framhaldsnám í tónlist og mörg lítil sveitarfélög eru að sligast undan kostnaði vegna sinna nemenda sem halda til höfuðborgarinnar í tónlistarnám. Reykjavíkurborg greiðir hundruði milljóna á ári hverju til nemenda á framhaldsstigi í tónlist, oft eru nemendur komnir yfir 25 ára aldur. 

Menntamálaráðherra lofaði síðasta vetur að nú hillti undir lok deilunnar - hvað segir hún nú? Sem betur fer tókst að afstýra því að meirihluti menntaráðs setti tónlistarnemendur yfir ákveðnum aldri út á guð og gaddinn. En hvað gerist í næstu yfirferð fjárlaga Reykjavíkurborgar?

Gremjulegast þykir mér þó að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft formennsku í menntaráði Reykjavíkurborgar í 2 og 1/2 ár (mínus 100 daga) og ráðherra menntamála og fjármála síðustu tvö kjörtímabil komi úr hans röðum, þá hefur deilan ekki enn verið leyst. 

Það fyrsta sem ég gerði á minni 100 daga formannstíð var að panta viðtal hjá menntamálaráðherra til að ræða við hana þessi mál. Það viðtal fékk ég tveimur vikum síðar og fékk jákvæðar viðtökur. Menntamálaráðherra benti mér á að ræða einnig við fjármálaráðherra og ég pantaði samdægurs viðtal hjá honum. Og beið í margar vikur, ítrekaði þó beiðni mína oft. Að endingu skilaði ritarinn hans því kurteislega til mín að honum þætti þetta ekki koma sér við - og benti mér á að tala við menntamálaráðherra. 

Mér heyrist ekki á núverandi formanni menntaráðs að hann hafi rætt þessi mál sérstaklega við sín flokkssystkin. Ég hélt satt best að segja að erfiðlega hefði gengið að ná saman í þessari blessuðu deilu vegna þess að það var ekki réttur litur á liðinu í Ráðhúsinu. 

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lengja pistilinn með því að dásama gildi tónlistarinnar, gæði tónlistarnáms á Íslandi eða mikilvægt uppeldishlutverk tónlistarskólanna. 
Þessi frétt hér segir þó meira en þúsund orð. 

04 janúar 2009

Konan á hjólinu

Ungt Samfylkingarfólk hefur upp á síðkastið ítrekað minnt mig á ræðu sem ég hélt á landsþingi UJ nokkrum mánuðum eftir síðustu Alþingiskosningar. Í henni sagði ég frá eldri konu á hjóli, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Konuna hitti ég skömmu fyrir kosningarnar vorið 2007. Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar konu og tók mig til í kvöld og varð við áskorun liðsmanna UJ með því að rita upp punktana úr þessari gömlu ræðu. Og það er líklegast rétt hjá UJ-fólki. Þessi orð eiga giska vel við í dag. 


,,Næst þegar þið gangið um miðbæ Reykjavíkur skuluð þið hafa augun hjá ykkur og leita eftir konu á besta aldri, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Þessi kona er djúpvitur snillingur og þekkir íslenskt samfélag betur en margir aðrir. En þrátt fyrir silfurgráa hárið og snillingstakta, hefur henni aldrei verið boðið í Silfur Egils, hún heldur ekki úti bloggsíðu og er aldrei kölluð til að ræða fréttir vikunnar í Íslandi í dag. 

Ég er svo heppin að hafa talað við hana tvisvar á förnum vegi. Ég spurði hana ekki að nafni, hún er einfaldlega eldklár huldukona á hjóli - og eldheit Samfylkingarkona. Rétt fyrir kosningar hitti ég hana einmitt á hjólinu á Barónsstíg. Hún stoppaði mig og við spáðum í úrslit kosninganna. Á þessum tímapunkti vorum við á prýðilegri siglingu, ,,Unga Ísland" og velferðarmálin voru á dagskrá og við höfðum fundið okkar tón. 

Við vorum því báðar sigurvissar og bjartsýnar. En þá kom hún mér á óvart með því að segja í fullri einlægni: Ég vona að Samfylkingin komist ekki í ríkisstjórn. Ég hváði vitanlega og vildi vita af hverju. Konan sagði mér þá dæmisögur úr eigin lífi og lífi hennar nánustu. Hvað velferðarkerfið hefði mátt þola síðastliðin 12 ár, hvað almannatrygingarkerfið væri orðið götótt, hvað húsnæðiskaup væru ungu fólki erfið, hvað gamalt fólk hefði það skítt, hvað ungt fólk ynni langan vinnudag því boginn væri svo spenntur, hvað barnabörnin sæju lítið af foreldrum sínum. 

Ég maldaði í móinn og sagðist einmitt halda að hlutverk okkar væri ærið - að snúa þessari þróun við. 

En, sagði konan á hjólinu. Þeim er slík vorkunn að takast á við þennan vanda að ég óska varla mínum versta óvini að ráða bót á misréttinu og öfgunum sem einkenna okkar þjóðfélag og hafa orðið til á síðustu áratugum. 

Það verður einfaldlega svo erfitt." 

Ræðan var flutt í október 2007. (Hér birt að litlum hluta)