04 apríl 2009

Valdir eða útvaldir?

Málþófið á Alþingi í dag snýst í hnotskurn um eftirfarandi: 

Varðstöðu um vald sérhagsmuna. 

Stjórnarskrárbreytingarnar sem þingmenn ræða nú snúast um eftirfarandi: 

- að afnema varanlega vald sem gefur einkaaðilum sameiginlegar auðlindir.
- að færa almenningi vald til að geta með beinum hætti haft áhrif á mál milli kosninga með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. 
- að færa almenningi beinna vald til stjórnarskrárbreytinga með ákvæði um það hvernig stjórnarskrá er breytt milli kosninga - og með stjórnlagaþingi. 

Sjálfstæðismenn halda uppi málþófi og virðast því ekki heyra hjartslátt þjóðarinnar. Þjóðar sem þráir réttlæti, breytingar og lýðræðislegar umbætur. Þeir virðast aðallega hafa áhyggjur af því að breytingarnar svipti Alþingi valdi sínu. 

En Alþingi er ekki uppspretta valds. Þingmenn þiggja vald sitt sem fulltrúar fólksins. 

Þeir sem fylgjast með umræðunum, hvort sem er á Alþingisrásinni eða frá pöllum Alþingis eru því að fylgjast með klassískum átakapunkti hægristefnu og jafnaðarstefnu; sérhagsmunir versus almannahagsmunir. 

Það eru til tvenns konar stjórnmálamenn. 
Þeir sem starfa í þeim anda að þeir séu valdir. Og svo eru það hinir sem trúa því að þeir séu útvaldir. 

Á þessu er reginmunur. 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir þetta, Oddný, kjarni málsins. alla

JIJ sagði...

Vel orðað og er hjartanlega sammála.