16 apríl 2009

Hvað með Framsókn, Einar?

Einar Skúlason spyr Jóhönnu Sigurðardóttur út í málefni innflytjenda í pistli á Pressunni nú í vikunni. Því er til að svara að í ráðuneyti félags- og tryggingarmála undir forystu Samfylkingarkvennanna Jóhönnu og Ástu Ragnheiðar hefur heldur betur þokast áfram í málefnum innflytjenda undanfarin misseri og verður hér stiklað á stóru:


- Fjárframlög til flóttamannaverkefna á Íslandi voru stóraukin.
- Aðgerðir til að verja réttindi innflytjenda á vinnumarkaði í samstarfi við ASÍ, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.
- Fyrsta framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda leit dagsins ljós, mörg verkefni þegar farin af stað og önnur í bígerð.
- Stóraukin framlög til Fjölmenningarsetursins á Vestfjörðum.
- Úthlutun tæplega tuttugu milljóna í styrki til að framfylgja ýmsum málum tengdum framkvæmdaáætluninni sem ofar er nefnd.
- Í vinnslu er samræmd móttökuáætlun fyrir sveitarfélög á landinu, unnin af  Fjölmenningarsetri.
- Vinnu við fyrstu heildstæðu löggjöf um málefni innflytjenda miðar vel en sú löggjöf verður lögð fram á næsta þingi.

Fyrsti innflytjandinn, Samfylkingarkonan Amal Tamimi, stýrði fundi Innflytjendaráðs á kjörtímabilinu. Stuttu áður flutti fyrsti innflytjandinn ræðu í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir hönd Samfylkingarinnar. Þar var á ferð Falasteen Abu Libdeh, dóttir Amal. 

Á landsfundi Samfó voru samþykktar ályktanir þess efnis að einstaklingar af erlendum uppruna missi ekki dvalarleyfi sitt eftir skilnað við íslenskan maka, að atvinnuleyfi fólks af erlendum uppruna verði bundið einstaklingi en ekki atvinnurekanda, að menntun innflytjenda verði viðurkennd, að fullorðnum verði gefinn kostur á íslenskunámi sér að kostnaðarlausu, að börnum verði veittur stuðningur við íslensku- og móðurmálskennslu, að aðstoð við innflytjendur á unglingsaldri verði aukin og að samvinna skóla við foreldra barna af erlendum uppruna verði bætt. 

Einnig mætti nefna að bæði Velferðarvaktin og Jafnréttisvaktin undir stjórn Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur hafa sérstaklega horft til aðstæðna innflytjenda í sínum störfum.

Margt fleira má lesa hér sem ber vott um áhuga og elju félags- og tryggingarmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Enda hefur hún orð á sér að gera vel það sem hún tekur sér fyrir hendur. 

En hvað með Framsókn, Einar? 

4 ummæli:

Jón Finnbogason sagði...

Fann þetta í snarheitum á vef félagsmálaráðneytisins sem dæmi um aðgerðir framsóknarflokksins.

Samningur við RKÍ undirritaður vegna reglulegrar móttöku flóttafólks, http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3311.

Samningur ríkissins við Alþjóðahús um að veita innflytjendum almenna og lögfræðilega ráðgjöf undirritaður, http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3310.

Þróunarsjóður stofnaður á sviði innflytjendamála, http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/3144.

Aukin fjárveiting til íslenskukennslu fyrir útlendinga, http://www.felagsmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/nr/2954.

Stofnun innflytjendaráðs og nefndar um flóttafólk, http://www.felagsmalaraduneyti.is/malaflokkar/innflytjendur/adlogun/nr/2202.

Það er eflaust fleira til en ég er bara leikmaður svo ég veit ekki hvar það er að finna.

Saloth Sar sagði...

Framsókn reddaði tengdadóttur Jónínu Bjartmartz ríkisborgararétti.

Einnig hóf Framsókn stríð gegn almenningi í Írak sem kom hundruðum þúsunda á vergang - sumir enda kannski sem innflytjendur á Íslandi!

Svo Framsókn hefur gert sitt í innflytjendamálum ;-)

Gunnhildur sagði...

Framsóknarflokkurinn stóð að því í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn að setja hina alræmdu 24 ára reglu:

http://www.althingi.is/altext/stjt/2004.020.html

Nafnlaus sagði...

Framsókn er ekki sísti kosturinn í stjórnmálum í dag! Mér finnst stjórnmál dagsins í dag því miður snúast meira um það að níða skóinn af hver öðrum í stað þess að leggja málefnum líðandi stundar í té málefnalega umræðu um leiðir til bættrar framtíðar. Þar hefur Framsóknarflokkurinn komið fram fyrir skjöldu og komið fram með tillögur sem eru allrar athygli verðar. Það ber að virða. Hinn almenni framsóknarmaður vildi ekki þá yfirlýsingu sem Salot Sahr vísar til. Enda virðist mér menn vera í mun að minna á það liðna í stað þess að huga að endurreisninni sem því miður virðist vera að snúast í hefðbundið argaþras um það hve lélegur andstæðingurinn hefur verið í undanfara hrunsins í stað þess að koma með lausnir til að leysa þann vanda sem Þjóðarbúið býr við nú um stundir.