21 apríl 2009

Bókmenntaborg UNESCO

Í dag flutti ég fyrir hönd Samfylkingar tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur að borgin sækist eftir útnefningu sem „bókmenntaborg UNESCO“ (UNESCO´S City of Literature). Menningarleg jafnt sem hagræn áhrif útnefningarinnar verði könnuð í víðtæku samráði við ráðuneyti menntamála, bókmenntasjóð, Rithöfundasambandið, Félag bókaútgefenda og aðra þá sem málið varðar.

Um alllangt skeið hafa ýmsir aðilar innan íslenska bókmenntageirans haft áhuga á því að Reykjavík sækist eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Útnefningin yrði mikill heiður fyrir íslenskar bókmenntir og myndi vekja jákvæða athygli á menningarborginni Reykjavík. Útnefningin er varanleg og nú eru þrjár borgir í heiminum sem hafa hlotið hana; Iowa, Melbourne og Edinborg. Þær borgir sem tilheyra netverki UNESCO-borga starfa saman undir regnhlífinni ,,Creative Cities Network” og skapa saman fjölmörg tækifæri til samvinnu á sviðum lista og menningar.

Skilyrði fyrir útnefningu eru margvísleg en helst ber að nefna að borgir sem hljóta útnefningu tilheyra þjóð sem státar af ríkulegum bókmenntaarfi, alþjóðlega viðurkenndri bókmenntahátíð, öflugri útgáfa nútímabókmennta og verðlaunuðum rithöfundum. Eins er litið til lestrarstefnu borgarinnar, aðgengi almennings að bókasöfnum, lestrarmenningu þjóðarinnar og þá áherslu sem þjóðin leggur á að ala nýjar kynslóðir upp með tilliti til lesturs og að njóta unaðssemda bókmenntanna.

Ísland státar af mörgum þessara atriða og fari svo að Reykjavík falist eftir útnefningu mun það efalaust hafa jákvæð áhrif á bóklestur, stefnumörkun í fræðslumálum og alla umræðu um læsi og uppeldisleg áhrif bókmennta. Árið 2011 verður Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókamessu í heimi. Það mun vekja gríðarlega athygli á íslenskum bókmenntum og því er lag að sækjast eftir útnefningunni meðfram þeim landvinningum, eða í kjölfar þeirra.

Útnefning sem þessi styrkir ímynd borgarinnar sem menningar- og ferðamannastaðar og mun skila sér rakleitt í fjölgun ferðamanna til borgarinnar. Auk þess verður hún lyftistöng fyrir bókasöfnin í borginni. Útnefningin eykur samvinnu milli aðila sem vinna að læsi og bókmenntum, bæði innanlands sem og milli borga sem hlotið hafa útnefningu.

Nú er í vinnslu sóknaráætlun fyrir Reykjavík og einn af þeim þáttum sem litið er til verður menningarborgin Reykjavík. Því er það borgarstjórn Reykjavíkur til sóma að hafa forgöngu um að kanna strax kosti þess að Reykjavík sækist formlega eftir útnefningu sem Bókmenntaborg UNESCO. Það yrði þó aldrei verk Reykjavíkurborgar eingöngu heldur unnið í nánu samstarfi við ráðuneyti menntamála, Bókmenntasjóð og aðra þá sem starfa að kynningu íslenskra bókmennta, bókaútgefendur, bókasöfn, rithöfunda, Hagþenki og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Tillagan var samþykkt.

Engin ummæli: