22 apríl 2009

Tímamótasamþykkt um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga

Ég hef heyrt marga úr frístunda - og íþróttageiranum fagna því að sjá í landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar að móta eigi rammalöggjöf um frístundir og íþróttaiðkun barna og unglinga.

Hér á eftir fer greinargerð hópsins sem fjallaði um menntun og menningu, sem útskýrir betur hvað við eigum við:

Samfylkingin leggur á það ríka áherslu að Ísland móti sér stefnu í málefnum frítímans. Mótuð verði rammalöggjöf um tómstunda- og íþróttastarf í landinu sem vettvang uppeldis og óformlegrar menntunar þar sem starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga, sem og tómstunda- og félagsstarf á vegum sveitarfélaga verði undir. Horft verði til menntunar leiðbeinenda, aðstöðu til starfsemi, gæðakrafna og gæðamats.

Markmið lagasetningarinnar verði að tryggja rétt barna og unglinga til góðrar og þroskandi frístundaiðju sem byggir undir fagmennsku á sviði frítímans og viðurkenna mikilvægi vandaðs frístundastarfs í lærdómsumhverfi barna og ungmenna. Í því samhengi er mikilvægt að styrkja uppeldisgildi í starfi frjálsra félaga, efla félagslega virkni og lýðræðisleg áhrif iðkenda og koma á eðlilegu jafnvægi milli afreksmiðaðra íþrótta og almennrar iðkunar barna, ánægjunnar vegna.

Samfylkingin vill stefna að frekari samþættingu frístunda- og skólastarfs hjá börnum á grunnstigi grunnskólans enda er það lykillinn að innihaldsríkari skóladegi og kemur betur til móts við ólíkar þarfir barna

Samfylkingin boðar aukna samvinnu og samþættingu á öllum sviðum mennta, menningar, íþrótta- og frístundamála. Brýnt er að menntakerfið og frístundageirinn starfi sem ein heild, brúa þarf bil milli skólastiga og fagstétta og leggja alla áherslu á gæði, fjölbreytni og skilvirkni í skólastarfi, kennaramenntun og menntunarfræðum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

FRESTA KOSNINGUM!!!

Eftirlitsmenn SÞ þyrftu krefjast frestunar á þessum kosningum þangað til í ljós er komið hve margir frambjóðendur eru á mála hjá verðandi tugthúslimum.
Annars er við búið að þeir sleppi við handtöku fyrir tilstilli styrkþeganna.