17 febrúar 2009

Að* gefnu tilefni

og í ljósi niðurlags þessarar fréttar er gott að árétta eftirfarandi:

Eftir umræður á fundi fulltrúaráðsins í gær var ákveðið að taka út ákvæði sem vinnuhópur á vegum fulltrúaráðsins hafði smíðað. Það kvað á um að kjósendur í prófkjöri skyldu velja jafn margar konur og karla - en í ákvæðinu fólst ekki innbyrðis kynjakvóti. Hámarksfjöldi frambjóðenda sem velja má er 8.

Að mati meirihluta fundargesta hindraði þetta ákvæði framgöngu kvenna í Reykjavík því nú lítur út fyrir að fjórar sitjandi þingkonur bjóði sig fram aftur - þar af sitjandi formaður og tveir ráðherrar. Ákvæðið hefði því líklega heft framgang kvenna í Reykjavík sem getur ekki verið jákvæð þróun í flokki sem kennir sig við kvenfrelsi.

Samkvæmt tillögu sem nokkrir meðlimir fulltrúaráðs, þ.á.m. velþekktar baráttukonur fyrir jafnrétti, lögðu fram var því ákvæðið tekið út en samþykkt með miklum meirihluta að uppstillingarnefnd liti til kvenfrelsissjónarmiða og þeirrar nauðsynjar að fjölga þurfi konum á þingi - ekki fækka.

*Aldrei get ég verið viss um hvort forsetningin eða af á betur við í þessu samhengi. Áhugasamir geta kíkt á síðu Vísindavefsins til að fá úr því skorið.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað með "framgang" efnalítils fólks? Aldraðra? Fatlaðra? Eru þetta ekki óþægilega mikið þínir persónulegu hagsmunir, þar sem þú ert kona og þarna er kjörið tækifæri fyrir þig að ná forskoti á aðra?
Doddi D

Oddný er sagði...

Sæll Doddi.

Á fundinum í gær var einnig samþykkt að setja þak á kostnað frambjóðenda og raunar hefur Suðurkjördæmi gengið lengra með því að banna alfarið auglýsingar í prent- og ljósvakamiðlum.

Í þingliði Samfylkingarinnar er að finna fólk með ólíkar þarfir og líklegast er að finna breiðasta aldursbilið í okkar hópi. Það er mér og mínum félögum í Samfylkingunni kappsmál að gera flokksstarfið þannig úr garði að allir finni sér þar stað.

Það er í yfirlýstri stefnu Samfylkingarinnar að berjast fyrir jafnrétti og kvenfrelsi. Á meðan konur eru enn þriðjungur þingliðs höldum við þeirri baráttu áfram. Þú kallar það forskot - ég kalla það leit að jafnvægi sem stuðlar að betra samfélagi.

Nafnlaus sagði...

Og hvað segja konur þá ef konur ná ekki amk helmingi sæta ofarlega á lista, þessum svokölluðu öruggu sætum? Mér finnst ekki mikið jafnrétti í svona hentistefnu varðandi kynjakvóta, mér finnst þetta tækifærismennska feminista og ekki til þess fallið að styrkja málstað jafnréttissinna.

Helga

Oddný er sagði...

Sæl Helga

Þetta er æði misjafnt eftir kjördæmum - í Reykjavík höfum við hingað til getað státað af jöfnu hlutfalli kvenna og karla en ekki hefur það sama verið uppi á teningnum uppi á landi.

Uppstillingarnefndir hafa það hlutverk að raða endanlega á listann því kosning er ekki bindandi nema frambjóðandi fái 50% atkvæða.

Ég get nú ekki tekið undir að þetta sé tækifærismennska - aðalatriðið er að tryggja eftir fremsta megni jafnt hlutfall kvenna og karla á þingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu.

Nafnlaus sagði...

Það eru nú ekki margir úr hópi ómenntaðs alþýðufólks, eða þeirra sem koma úr lægri endanum úr samfélaginu, þarna á þinginu. Þetta virkar óneitanlega sem menntastéttin, gamla yfirstéttin og síðan einhverjir braskarar. Þetta með að það eigi að vera jafnmargar yfirstéttarkonur og það eru yfirstéttarkarlar, kveikir glóð í mínu jafnréttishjarta. Mér finnst þetta lykta af því að einstaklingar af kvenkyni séu að stela hinni raunverulegu jafnréttisbaráttu til að þjóna eiginhagsmunum.
Engin þessara kvenna talar nokkurn tíman fyrir því að auka virðingu fyrir hefðbundnum kvennastörfum. Það eiga allir að verða karlar í lokin og á forsendum karla. Allt "kvenlegt" er ömurlega lúðalegt og lítils virði.
Doddi D

Nafnlaus sagði...

En hvað með breytingartillöguna á kosningarlögum um flokkarnir geti valið að kjósendur fái að kjósa persónur sem svo ráði hvar á lista á kjördag? Ætlar Samfylkingin að hætta við prófkjör og leyfa kjósendum sínum að ráða á kjördag?

Nafnlaus sagði...

Enginn þeirra sem sátu á þingi í aðdraganda hrunsins ætti að vera kjörgengur.
Þannig er það í fluginu.

Unknown sagði...

Þetta finnst mér merkilegt: Ákvæðið tekið út af því það var talið hindra framgöngu kvenna. Það er semsagt í lagi að setja ákvæði sem hindrar framgöngu karla en ekki kvenna!

Af greininni verður ekki annað ráðið en að kynjahlutfallið eigi að vera jafnt nema ef líkur eru á að hlutfall kvenna verði hærra en karla. Allavega skil ég það þannig þar sem reglunni er kippt út eftir að í ljós kemur að margar konur sem eygja von um sæti verða í framboði.

Þú segir í athugasemd:
"aðalatriðið er að tryggja eftir fremsta megni jafnt hlutfall kvenna og karla á þingi sem og annars staðar í þjóðfélaginu."

Reglan hefur jöfnunaráhrif á kynjahlutfallið, þess vegna á ég erfitt með að sjá að það að fjarlægja regluna sé að "tryggja eftir fremsta megni jafnt hlutfall kvenna og karla"

Það er frekar bagalegt ef jafnrétti er túlkað einhliða á þennan hátt.

Oddný er sagði...

Sæll Héðinn

Nýtt frumvarp forsætisráðherra um persónukjör verður rætt í öllum þingflokkum í dag, miðvikudag. Engu að síður verður að viðhafa e.k. forval, flokksval eða prófkjör til að bjóða fram framboðslista - hvað sem líður breytingum á kosningalöggjöf og því hvernig kjósandinn raðar persónum á listann í kjörklefanum.

Hér er tengill á frétt um nýja frumvarpið:

www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/02/17/personukjor_i_kosningunum/

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný
Get engan veginn skilið þessa kvóta á kyn. Næstu skref eru þá kvóti á kynstofn, kvóti á menntunarstig, kvóti á launahópa, kvóti á aldurshópa osfrv. Má ekki bara líta á fólk sem fólk og svo er bara hæfasta fólkið valið hvort sem það er kona eða karl?
Kveðja,
Kiddi

Nafnlaus sagði...

Kerfið er default stillt fyrir karla og því þarf að breyta með gjörðum. Kerfi sem er með default stillingum lagar sig ekki sjálft. Því er mikilvægt að konur fái jöfn tækifæri og því þarf að huga að kynjajafnrétti.

Nafnlaus sagði...

Oddný Sturludóttir í vondum málum. Mismunar fyrirtækjum í Reykjavík. Hvar er siðbótin?

http://egill.blog.is/blog/egill/entry/809085/#comments