Ég er stolt af flokknum mínum að hafa staðið upp í hárinu á Sjálfstæðisflokknum. Ég var 15 ára gömul þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf óslitna 17 ára valdasetu sína og það er óhætt að segja að langlundargeð gagnvart hugmyndafræði hans og vinnubrögðum var gjörsamlega á þrotum.
Jóhanna er glæsilegur fulltrúi félagslegra hugsjóna og baráttujaxl þegar kemur að því að verja velferðarkerfið. Húsnæðismálin þekkir hún betur en allflestir aðrir og réttsýni og heiðarleiki einkenna hana öðrum fremur. Jóhanna er jafnréttissinni, það hefur hún sýnt og sannað í verkum sínum.
Og í dag höfum við eignast fyrsta kvenkyns forsætisráðherrann og kynjahlutfall í ríkisstjórninni er jafnt. Það skiptir máli. Ég vona að 15 ára gamlar stúlkur og drengir megi lifa við þann veruleika næsta áratuginn, og alla sína tíð.
Ég óska ríkisstjórninni, sérstaklega nýju ráðherrunum alls hins besta í krefjandi verkefnum.
Okkur öllum óska ég til hamingju með nýja, endurnýjaða stjórn. Kröfur þjóðarinnar um breytingar, uppstokkun og aðallega kosningar í vor skiluðu sér í nýrri ríkisstjórn.
Framundan er ótrúlegt tækifæri fyrir félagshyggjufólk á Íslandi að starfa saman og sanna sig fyrir þjóðinni. Takist þeim það verður langt í að frjálshyggjuöflin nái völdum á Íslandi á nýjan leik.
1 ummæli:
Voru þá frjálshyggjuöflin við völd með stuðningi ykkar?
mkv
Doddi D
Skrifa ummæli