26 janúar 2009

,,Lengi má manninn reyna"

Sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir í dag. Eftir linnulausar en jafnframt árangurslausar kröfur Samfylkingarfólks um nauðsynlega tiltekt innan stjórnkerfisins var stjórnarsamstarfinu slitið. 

Sjálfstæðisflokkurinn var ekki tilbúinn til þess að taka þátt í nauðsynlegri hreingerningu sem skapað hefði traust á alþjóðavettvangi, hvað þá ná sátt við þjóðina og endurvekja trú almennings á Alþingi. 

Þeim þykir vænna um gamla foringjann sinn en ofangreinda hluti.

Afsögn Björgvins skapaði mikinn þrýsting og er lofsvert nýmæli í íslenskum stjórnmálum. Björgvin er maður að meiri - en Sjálfstæðisflokkurinn skilaði auðu. Og aftur var spurt: 

Hvernig getur efnahagskerfi þjóðar hrunið án þess að einhver axli ábyrgð? 

Tiltekt og hreingerning. Það voru kröfurnar.

Enda er þessi bylting kennd við búsáhöld.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála með Björgvin. Lofsvert hjá honum og ef satt reynist að hann hafi boðist til að taka þetta skref fyrr en verið beðinn að fresta því þá fær hann prik hjá mér.

Hef verið talsmaður þess frá Hruninu að Viðskiptaráðherra segði af sér. Hefur það ekkert með persónu Björgvins að gera heldur trúverðugleika embættisins.

jhe

Nafnlaus sagði...

Ef Björgvin hefði sagt af sér fyrir 100 dögum og rekið "snillingina" í FME fyrir 100 dögum, þá hefði hann verið maður að meiri.
Í gær... tæplega :(
Ásta Björnsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sjalla-stuttbuxnadrengirnir stökkva nú fram hver af öðrum mjálmandi sömu ræðuna og þeir lærðu í MORFÍS um árið. Illugi, Sigurður Kári, hæstvirtur heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór. Þetta er svo sorglegt að maður trúir því ekki að þessir menn séu á launum hjá þjóðinni!

Dagar (ef ekki mínútur) Davíðs í Seðlabankanum hljóta að vera taldir. Ég spái því að hann segi af sér á morgun, áður en einhver hefur færi á því að reka hann. Davíð er örugglega voða skemmtilegur í veislum og svona en hann er ekki sá eini sem getur látið til sín taka í íslensku samfélagi - hann er ekki ósnertanlegur frekar en aðrir. Setjum hann bara á rithöfundalaun.
Berglind