04 janúar 2009

Konan á hjólinu

Ungt Samfylkingarfólk hefur upp á síðkastið ítrekað minnt mig á ræðu sem ég hélt á landsþingi UJ nokkrum mánuðum eftir síðustu Alþingiskosningar. Í henni sagði ég frá eldri konu á hjóli, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Konuna hitti ég skömmu fyrir kosningarnar vorið 2007. Mér hefur oft orðið hugsað til þessarar konu og tók mig til í kvöld og varð við áskorun liðsmanna UJ með því að rita upp punktana úr þessari gömlu ræðu. Og það er líklegast rétt hjá UJ-fólki. Þessi orð eiga giska vel við í dag. 


,,Næst þegar þið gangið um miðbæ Reykjavíkur skuluð þið hafa augun hjá ykkur og leita eftir konu á besta aldri, með hvítt hár sem gægist undan hjálmi. Þessi kona er djúpvitur snillingur og þekkir íslenskt samfélag betur en margir aðrir. En þrátt fyrir silfurgráa hárið og snillingstakta, hefur henni aldrei verið boðið í Silfur Egils, hún heldur ekki úti bloggsíðu og er aldrei kölluð til að ræða fréttir vikunnar í Íslandi í dag. 

Ég er svo heppin að hafa talað við hana tvisvar á förnum vegi. Ég spurði hana ekki að nafni, hún er einfaldlega eldklár huldukona á hjóli - og eldheit Samfylkingarkona. Rétt fyrir kosningar hitti ég hana einmitt á hjólinu á Barónsstíg. Hún stoppaði mig og við spáðum í úrslit kosninganna. Á þessum tímapunkti vorum við á prýðilegri siglingu, ,,Unga Ísland" og velferðarmálin voru á dagskrá og við höfðum fundið okkar tón. 

Við vorum því báðar sigurvissar og bjartsýnar. En þá kom hún mér á óvart með því að segja í fullri einlægni: Ég vona að Samfylkingin komist ekki í ríkisstjórn. Ég hváði vitanlega og vildi vita af hverju. Konan sagði mér þá dæmisögur úr eigin lífi og lífi hennar nánustu. Hvað velferðarkerfið hefði mátt þola síðastliðin 12 ár, hvað almannatrygingarkerfið væri orðið götótt, hvað húsnæðiskaup væru ungu fólki erfið, hvað gamalt fólk hefði það skítt, hvað ungt fólk ynni langan vinnudag því boginn væri svo spenntur, hvað barnabörnin sæju lítið af foreldrum sínum. 

Ég maldaði í móinn og sagðist einmitt halda að hlutverk okkar væri ærið - að snúa þessari þróun við. 

En, sagði konan á hjólinu. Þeim er slík vorkunn að takast á við þennan vanda að ég óska varla mínum versta óvini að ráða bót á misréttinu og öfgunum sem einkenna okkar þjóðfélag og hafa orðið til á síðustu áratugum. 

Það verður einfaldlega svo erfitt." 

Ræðan var flutt í október 2007. (Hér birt að litlum hluta)

Engin ummæli: