06 janúar 2009

Ungir menn og Framsókn

Þetta kemur mér einhvern veginn ekkert stórkostlega á óvart. Gummi hefur reyndar fengið ákaflega góðar móttökur í Samfylkingunni og sumum fannst nóg um hversu mikið var ,,klappað" undir hann á sínum tíma. En hann hefur verið óánægður með ýmislegt og kannski finnst honum ekki nógu mikið leitað til hans núna þegar flokkurinn er í ríkisstjórn. 


Kannski er útilokað að afneita uppruna sínum - sér í lagi þegar ræturnar hafa náð slíkri þykkt. 

Nú hlýtur kona að bíða spennt eftir því hvort fleiri ungir menn með afar litla - eða enga þingreynslu - trommi uppi í formannsframboðinu. Það er ekki að spyrja að sjálfstraustinu! 

Athygli vekur að eina konan í framboði er með 100 ára þingreynslu auk þess að hafa setið á ráðherrastóli. En hún ætlar líka bara í varaformanninn... best að fara sér að engu óðslega. Strákarnir sjá um stóru málin.

P.s. eins og alvöru fótboltaspekingar vita þá er félagsskiptaglugginn opinn einu sinni á ári - í janúar. Þá hoppa menn á milli félaga og ganga kaupum og sölum. 

Við ættum kannski að taka upp sama kerfi í pólitíkinni? 

23 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kemur ekki svo mikið á óvart. Hefur Framsóknarflokkurinn ekki verið staður fyrir allskonar framapotara, lýðskrumara, tækifærissinna og jafnvel pata ?

Nafnlaus sagði...

Við konurnar í framsókn höfum það bara fínt takk fyrir. Yfir helmingur þingmanna er konur, formaður þingflokksins er kona, núverandi formaður er kona, formaður SUF er kona og framkvæmdastjórn flokksins er eingöngu skipuð konum. Getur ekki verið að við séum einfaldlega að leyfa körlunum að vera með?

Fyrir utan það að ég vona að stjórnmálamenn framtíðarinnar séu ekki svo fastir í konur vs. karlar, hæfileikar og persónuleiki eiga að ráða för - ekki kyn.

kv. Bryndís
Formaður Sambands ungra framsóknarmanna

Nafnlaus sagði...

ef þú bara vissir hvað við erum mörg búin að vera ræða nákvæmlega þetta sama í morgun ...
alla

Nafnlaus sagði...

Þú ert velkomin í Framsókn nýrra tíma - kæra Oddný :)

Félagaskiptaglugginn er galopinn!

Get ekki ímyndað mér að þú sért ánægður með Samfylkinguna í ríkisstjórn

Nafnlaus sagði...

Það er við því að búast að fólk hætti að styðja flokk sem hefur snúið baki við hugsjónum sínum. Það ætti í raun frekar að ganga á fólk sem enn velur að starfa innan flokksins og sðurja hvað í ósköpunum það sé enn að gera þarna.

Nafnlaus sagði...

Af hverju telur þú að þetta sé kynjasmál? Guðmundur segir að ástæðan sé sú að hann sé ósáttur við ríkisstjórnina. Nú væri pólitískt að taka það debat við hann, en ekki snúa málinu upp í umræðu um kynjamál. Eða eru það einu gleraugun sem þú getur sett á nefið? Gaman væri nú að umræðan snérist um stefnu Samfylkingarinnar og frammistöðu við þjóðargjaldþrot.
Er sammála Degi B. um að Guðmundur sé góður biti. Mér finnst brottför hans frekar vera merki um að ýmsir Samfylkingarmenn séu farnir að ókyrrast og traustið að minnka til stjórnvalda. Um það ætti umræðan að snúast, a.m.k. innan flokks, en ekki að horfa alltaf í klofið á fólki og greina ætlun og stöðu þaðan.

Nafnlaus sagði...

hvaða hræsnispistill er þetta?
Brotthvarf hans er væntanlega vegna þess að hann er einn af mörgum fyrrverandi stuðningsmönnum samfylkingarinnar sem sér hverning flokkurinn hefur breyst við það eitt að komast til valda.

Oddný er sagði...

Kæra Bryndís -

Einmitt vegna hinna öflugu kvenna í Framsókn vildi ég sjá þær fleiri blanda sér í formannsslaginn en ég virði það við ykkur að þið viljið gefa körlunum séns... Framsókn hefur oft staðið sig vel í jafnréttismálum og talað fyrir kynjakvótum en mér sýnist þú ekki vera á sömu línu - er stefnubreytingar að vænta með ungu kynslóðinni? Það vona ég ekki, við þurfum á öllum jafnréttissinnum að halda.

Kæri Ari

Ekki var ég að gera því skóna að Gummi væri að skipta um flokk vegna þess að hann væri karl - ég var að benda á það sem mörgum þykir furðulegt að kandídatar til formanns eru bara karlar (og sumir með litla reynslu) á meðan reynslumiklar þingkonur sitja hjá.

Það er laukrétt að margir í Samfylkingunni eru óánægðir með gang mála - Gummi er þó sá fyrsti sem sér ár sinni betur fyrir komið um borð í Framsóknarflokknum...

Nafnlaus sagði...

hmhm.... mér finnst nú einmitt Bryndís hljóma eins og mikill jafnréttisinni og réttsýn.

Oddný, hví heldur þú að það sé samansemmerki milli þess að fylgja kynjakvótum að máli og að vera jafnréttisinni eða ntt að fylgja þeim ekki sé það sama og vera ekki jafnréttisinnað? Kynjakvótar (eiga að mínu mati) rétt á sér við ákveðnar aðstæður en eru mjög hættulegir sem pólítíkskur réttrúnaður, grunneiningin þjóðfélagsins er einstaklingurinn ekki kynin tvö.

Ætti ekki jafnrétti kynjanna að vera byggt á jafnrétti eintaklinganna?

Annars er ég alveg sammála þér um þessa formannskandidata, líklega stjórnast þetta af því að það virðist vera andi fyrir því að fá nýtt blóð .... Það er mikill missir af Guðmundi, þar fer skynsemismaður og ef að hann fékk nóg, þá bendir það til þess eitthvað sé að.
Pétur Henry Petersen

Nafnlaus sagði...

"En hún ætlar líka bara í varaformanninn... best að fara sér að engu óðslega. Strákarnir sjá um stóru málin."

Smekkleg athugasemd og upplífgandi að sjá hvað þú hefur mikið álit á íslenskum kynsystrum þínum. Þú virðist telja framavonir fólks í stjórnmálum bundnar að miklu leyti við kyn og væntanlega talar þú út frá eigin reynslu. Framboð af konum í stjórnmálastarfi Samfylkingarinnar ræðst þá væntanlega af kynjasjónarmiðum en ekki metnaði einstaklinganna innan flokksins til þess að láta til sín taka? Er þetta svona kynjaskipt hjá ykkur eða starfa kynin saman þegar það er talið algjörlega nauðsynlegt?

Oddný er sagði...

Kæri Pétur og Óskar

Einmitt vegna þess að konurnar í Framsóknarflokknum hafa sótt fram, Framsókn var einn af fyrstu flokkunum sem setti fram kröfu um fléttulista og konur hafa verið atkvæðamiklar í flokksstarfinu; einmitt vegna þess er ég svekkt að sjá ekki fleiri konur í formannsslagnum nú - og sú öfluga þingkona Siv á auðvitað að bjóða sig fram í formanninn. Nema hvað?!

Einhverjir hafa talið þetta vera merki um kænsku Sivjar - næsti formaður verði ekki langlífur og þá er komið að henni.

Ef það er skoðun Bryndísar að kyn skipti ekki máli þá er hún á skjön við marga þá femínista sem ég þekki úr Framsókn. Það er einfaldlega svo.

Nafnlaus sagði...

Ef að bankarnir hefðu ekki farið á hliðina hefðu bæði Valgerður Sverrisdóttir og Sif Friðleifsdóttir tekið formansslaginn.

Þær stiga núna til hliðar því þær voru báðar í ríkisstjórn þegar gengdarlaus frjálshyggja var látin ráða sem er að hluta til afleiðing fallsins hér á klakanum.

Merkilegt hvað sumir atburðir breyta framgangi mála. Framsækni kvenna og aðra mála.

Nafnlaus sagði...

Vonandi fer Samfylkingin líka í endurnýjun. Losar sig við þá sem voru á vakt (og gerðu ekkert) þegar allt hrundi. Að Ingibjörgu og Björgvin gengnum gæti Samfylkingin aftur orðið að flokki sem stendur undir ábyrgð. Flokki sem fólk með hugsjónir getur verið í. Flokki fyrir hugsjónakonur og hugsjónamenn.
Neisti

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný

Kyn getur skipt máli þó að það sé ekki talið fram sem fyrsti eiginleiki persónu eða aðaleiginleiki. Hann er soldið pirrandi þessi feminismi sem að stillir kynjunum upp gegn hvoru öðru, í eilífu stríði, sem svo endar aldrei því að kynin eru ekki alveg eins. Þetta tekur orku frá öðrum hlutum.

Það er þó enginn ástæða til þess að horfa fram hjá því að það séu tvö kyn. Það eru tvö kyn og við eigum að sníða allt
okkar þjóðfélag að því að bæði kynin komi að öllu og hafi jafnan rétt til þess. Það er kynjajafnréttishugsjónin.

Hver er besta útfærslan? Það má svo ræða:) Ég held að lykilinn sé
a) menntakerfið b) raunveruleg jöfnun fæðingarorlofs c) stytting vinnutíma d) valddreifing

Svo er annað, smá ábyrgðarlaust hjal. Karlmenn eru -oft- vitlausari/óttalausari en -margar-konur þegar að kemur að því að taka ábyrgð sem að þeir eiga ekki kannski alveg inni fyrir. Hver svo sem ástæðan svo er (nature/nurture anyone?). Það eru því tvær mögulegar ástæður fyrir því sem lýst var í upphaflegum pistli.

- flokkurinn þarf nýjan formann í vandasamt verk, jafnvel ómögulegt. Formaðurinn getur ekki komið úr hópi reynslubolta, því að þá yrði hann/hún ekki sameiningartákn.

- vitlausir/kjarkaðir karlmenn eru til í það, en skynsamar konur síður.

Þekki annars ekki til innanbúða mála hjá Framsókn, en er sammála því að Siv er flinkur stjórnmálamaður og væri mjög hæfur formaður að mínu mati, en eru ekki alltaf einhverjar væringjar sem maður veit ekki af...og kannski vill ekki vita af :)

mbk, Pétur Henry

Oddný er sagði...

Takk fyrir mjög góðar pælingar Pétur Henry. Sammála þér að nær öllu leyti. Ekki má gleyma einu: Húmor. Það væri ekki hægt að lifa jafnréttisbaráttuna af án hans! Enginn ,,málaflokkur" snertir okkur jafn mikið, er persónulegri og manneskjulegri, tengist okkur jafn sterkt og vekur jafn hörð viðbrögð - hjá báðum kynjum.
Einmitt þess vegna er svo gaman að ræða jafnréttismál, það getur líka verið gaman að leggja stund á ,,ábyrgðarlaust hjal" og velta fyrir sér endalausum núningi sem skapast milli karla og kvenna - bæði heima við og í samfélaginu öllu. Sleggjudómar, hleypidómar og fordómar einkenna oft jafnréttisumræðuna - alveg eins og innsæi, skilningur og þekking. Enda höfum við öll skoðun og reynslu af jafnréttismálum. Við erum jú öll kona eða karl.

Kynin eru nefnilega ekki eins - en kynin eru jafn hæf. Þess vegna viljum við sjá jafn mikið af hvoru kyni fyrir sig - í formannsframboði Framsóknar, í skólum, í stjórnum fyrirtækja og íþróttafélaga, í fæðingarorlofi og víðar.

Nafnlaus sagði...

Vissulega!

Ég sé annars á bloggaktiviteti mínu að það er greinilega eitthvað sem liggur á að gera í vinnunni.... ;)

Nafnlaus sagði...

Ekki yrði nú mikil endurnýjun í Framsókn ef að Siv yrði formaður með sína 100 ára reynslu. Eigi eitthvað að breytast í flokkunum verður nýtt fólk að koma þar til starfa. Konur og karlar.

kv. Marta Nordal

Nafnlaus sagði...

Sæl Oddný

Það að ég horfi á formannskjörið “ókynbundið” kemur kynjakvóta ekkert við – enda er vonlaust að setja kynjakvóta á einstaklings embætti, það væri eins og að ætlast til þess að forseti Íslands sé ávallt karl og kona til skiptist. Einstaklingurinn og hans hæfileikar eiga að ráða máli.

Ég er jafnréttissinnuð, jafnrétti einstaklingsins og jöfn tækifæri er það sem skiptir máli – hvernig hver og einn spilar úr þeim tækifærum er síðan persónubundið. Ég tel einnig að kynjakvóti eigi stundum við – en alls ekki alltaf.

Mér þykir leiðinlegt að fólk sé að gagnrýna Framsókn fyrir það eitt að konur séu ekki að bjóða sig fram til formanns, sérstaklega í ljósi þess að konur innan flokksins hafa það mjög gott og á okkur er hlustað og meðal annars er 40/60 regla í gildi í öllum stjórnum flokkins (kynjahlutföll skulu vera 40/60), nema þegar það á augljóslega ekki við, t.d. í kvenfélögum og einstaklings-embættum.

Ég er ung kona í Framsókn og hef aldrei fundið fyrir nokkrum erfiðleikum eða fundist ég vera í einhverjum “karlaheimi”. Kannski einmitt vegna þess að ég starfa í jafnréttisumhverfi þá horfi ég ekki á allt sem gerist í þjóðfélaginu og set upp “kynjagleraugun”. Einnig vil ég ekki vera kölluð femínisti – ég vil miklu frekar vera kölluð jafnréttissinni.

kv. Bryndís

Oddný er sagði...

Sæl Bryndís og takk fyrir hreinskilin samskipti.

Ég vil veg kvenna sem mestan í öllum flokkum. Ég vil veg kvenna sem mestan þar sem á þær hallar. Og víða hallar á konur í samfélaginu og pólitíkinni en ekki alls staðar sem betur fer. Þess vegna hef ég áhyggjur af kvenmannsleysi í formannslag Framsóknar. Ég er jafnréttissinni og femínisti og hef aldrei skilið hvernig er hægt að vera annað hvort.

Ég hef heldur ekki verið hrifin af því að mála skrattann á vegginn, en þar sem er ójafnvægi - verðum við jafnréttissinnar að hafa augun opin og gagnrýna. Ég er ekki Framsóknarkona en hef í gegnum tíðina verið ánægð með jafnréttismálin í Framsókn, hlutfall karla og kvenna, fléttulistaregluna og annað. Siv, Fanný Gunnars, Una María frænka mín og fleiri frábærar Framsóknarkonur þekki ég sem sterka jafnréttissinna og mig grunar að þú sért á sömu línu.

(Mig grunar líka að þú verðir betri formaður Framsóknar en allir þessir strákar sem eru í framboði - en þetta segi ég nú bara í trúnaði...)

Gangi þér vel Bryndís! Áfram stelpur og áfram þú.

Unknown sagði...

Held að reynsluleysi þurfi ekki endilega að vera ókostur, minni spilling og flokkadrættir og meira af samvisku og heiðarleika. Vildi helst að eitthvað af þessum svokölluðu "reynsluboltum" á þingi fyndu sér eitthvað annað að gera.

Helga sagði...

Ég var orðin bjartsýn á að það yrði alveg skipt um fólk í flokknum, ég er t.d. hrifin af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, aðallega þó hugmyndum hans um borgarmál. En auðvitað á enginn heiðarlegur maður að láta sjá sig þarna fyrr en búið er að koma lögum yfir Finn Ingólfsson og það lið og koma Magnússonunum burt.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin með Drottninguna Ingibjörgu og alla hennar kvennahirð (t.d. nýja sendiherrann Kristínu Árnadóttur - skipaða á "upphafsdögum hruns" ætti að einbeita sér að öðru en kynjakvóta. Davíð hefur aldeilis haft áhrif á þig Oddný með smjörklípuaðferðinni. Ég held þið ættuð að fara að leita að nýjum formanni en tefla ekki fram formanni sem neitar að hlusta á fólkið í landinu og kom í eina og eina opinbera heimsókn til Íslands fyrir septemberfárið.

Nafnlaus sagði...

Mikið finnst mér þessi umræða um kyn stjórnmálamanni vera mikil tímaskekkja í dag og "smjörklíkuleg". Horfðu á formanninn þinn Oddný - kvenhirðina sem hún hefur í kringum sig. Hún kórónaði nú allt með skipun Kristínar Árnadóttur rétt eftir hrun. Ég veit ekki betur en hirðin hennar hafi tekið yfir flestar stöður í borginni á sínum tíma enda hafa konur stjórnað menningarlífi Íslands í nokkur ár (sbr. Þórunn Sigurðar, Kristín Árna, og svo mætti lengi telja.) Sjálf hef ég verið kvenréttindakona frá því ég man eftir mér EN (þetta fræga en) ekki fleiri smjörklípur takk. Einbeitum okkur að vandamálum dagsins - það eru ekki kvenréttindamál Oddný og hafðu það! (Tekið skal fram að ég hreifst mjög af Ingibjörgu sem stjórnmálamanni þegar hún var að byrja feril sinn hjá Kvennalista - hennar tími er liðinn - hroki hennar virðist ekki eiga sér nein takmörk. Veljið ykkur nýjan formann eða öllu heldur leggið flokkinn niður og byrjið með hreint blað. (ekki minnisblöð sem týnast á tölvuöld)