21 janúar 2009

Enginn er ómissandi

Stjórnarsamstarfinu er lokið. Undir þetta hljóta allir landsmenn að taka. Geir og Ingibjörg Sólrún hafa sagt að nauðsynlegt væri að ljúka mest áríðandi björgunaraðgerðunum - fyrst.

Nú er þeim lokið.

Nú þarf að taka til við uppbyggingu nýs samfélags. Og þá getur valdaflokkur sem setið hefur við stjórn landsins í 17 ár og vaktað hvern krók og kima, sett sitt fólk í stöður og fyrirtæki, ráðið Seðlabankastjóra pólitískt, framfylgt peningamálstefnu sem keyrt hefur þjóðina í þrot - hann getur ekki setið lengur. Hann verður að stíga til hliðar. Hann verður að vera í stjórnarandstöðu, ekki stjórn. Hann nýtur ekki trausts.

Við þurfum að kjósa. Samfylkingin þarf að taka sig saman í andlitinu og horfa í eigin barm. Samfylkingin þarf að endurnýja umboð sitt. Við þurfum að gefa nýjum flokkum tækifæri til að bjóða fram, við þurfum að gefa nýju fólki tækifæri til að sækja umboð sitt til þjóðarinnar innan raða gömlu flokkanna.

Það er enginn ómissandi í pólitík. Þeir sem eru á annarri skoðun eiga alls ekki að vera í pólitík - svo einfalt er það.

Við þurfum nýja stjórnarskrá. Við þurfum afsagnir embættismanna, alvöru uppgjör við fortíðina og spillinguna. Jafnvel nýtt kosningakerfi, nýtt lýðveldi.

Eftir hverju bíðum við?

Í kvöld stendur Samfylkingarfélagið í Reykjavík fyrir opnum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan 20.30. Umræðuefnið er eldfimt: ,,Stjórnarsamstarfið".

Innan flokksins er gríðarleg óánægja - þráin eftir lýðræðislegum umbótum, breytingum og endurnýjuðu umboði er heit. Í kvöld mun hinn almenni flokksmaður segja sína skoðun og á hana verður forystan að hlusta.

8 ummæli:

Hans Jakob Beck sagði...

Sammála. Hrunið er ekki bara efnahagslegt, það er líka pólitískt. Allt stjórnkerfið verður að endurskoða. Stjórnmál á Íslandi munu því þufa ásamt öðru að fjalla um stjórnmálaflokkana sjálfa. Við þurfum því í raun nýja stjórnmálaflokka. Samfylking þarf að breytast úr því að verða jafnaðarmannaflokkur orðinn til undir í landi stjórnað af Sjálfstæðisflokki í jafnaðrmannaflokk í landi, vissulega í rúst, en lausu við Flokkinn.

Rögnvaldur Guðmundsson sagði...

Mjög góður pistill Oddný. Ég þér hjartanlega sammála að nú þarf Samfylkingin að taka sig á og finna fólk með hugsjónir, ekki gamla og útjaskaða tæknikrata, til að leiða flokkinn. Mig langar að fá að birta hann á Facebook síðunni minni

Nafnlaus sagði...

20. janúar, 2009 at 10:59 eh.

Neisti
Eina leiðin til að bjarga Samfylkingunni er að við losum okkur við Ingibjörgu og Björgvin. Annars erum við dottnir niður á sama plan og t.d. Sjálfstæðisflokkurinn. Siðferðilega og hugsjónalega.
Annars erum við óhæf um að taka til þegar við gerum á okkur. Flokkur sem ekki axlar ábyrgð og tekur til eftir sig þegar mistök verða er bara valdaflokkur, flokkur atvinnupólitíkusa ekki hugsjónafólks.
Það er enginn verri en ISG til að leiða flokkinn. Hæfileikar hennar skipta ekki máli heldur það eitt að hún á drjúgan hlut í hvert landið er komið en hefur ekki axlað ábyrgð. Hún er því ónýt siðferðilega. Losum okkur við hana en óskum henni bata og velfarnaðar í hverju sem hún tekur sér fyrir hendur - bara ekki pólitík.
Pereat á Ingibjörgu, Björgvin og stjórnarsamstarfið í kvöld.
Neisti

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr frænka!
kv. Freyja

Nafnlaus sagði...

Eins og talað úr mínu hjarta. Þetta vildi ég sagt hafa.

Nafnlaus sagði...

Ef að Samfylkingarfólk er að gefast upp á forystunni má benda á að Framsóknarflokkurinn mun taka á móti flóttamönnum opnum örmum. Við þurfum stuðning til að koma á breytingum. Eruð þið tilbúin til að breyta hlutum?

Nafnlaus sagði...

Áfram Oddný. Látum á það reyna innan Samfylkingarinnar - hvort flokkurinn reynist fær um að endurnýja sína framlínu - og skipta útaf þeim sem eru búnir að sýkja sig sjálfa af hugsunarhætti þrásetunnar með Sjálfstæðisflokknum.
Þetta má ekki taka marga daga - en Framsókn oponaði glugga sem gefur færi á að stíga Sjálfstæðisflokkinn út úr pólitíkinni um sinn - - end mikilvægt að refs flokknum. Við þurfum líka að þvinga Viðskiptaráð Íslands og þeirra öfgatrúboða til að biðja þjóðina alla afsökunar á þeim hryðjuverkum og landráðum sem þeirra áróður hefur leitt yfir þjóðina. Þeirra skipbrot og ábyrgð verður að fylgja eftir með svipaðri alvöru og gert var víða um gömlu A-Evrópuríkin þegar harðstjórar og lygarar voru dregnir út . . . . .

Nafnlaus sagði...

oddný, þú ert vonandi að fara hætta sjálf í pólitík.Eða verður í lagi að koma fram við þig eins og maðurinn þinn hefur komið fram með ógna forsetisráðherranum og eyðileggja fyrir okkur hinum sem höfum mótmælt friðsamlega.