05 janúar 2009

Tónlistarskólar - framtíð tónlistarnáms

Á morgun verður frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar árið 2009 afgreitt úr borgarstjórn. Þó er það nokkurs konar millileikur því strax í mars verður frumvarpið endurskoðað og mikil vinna er í raun óunnin inni á öllum fagsviðum. Ástæðan er sú að seint í ferlinu kom tilskipun frá borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð á sviðin og skerðingu yfirvinnu borgarstarfsmanna. Útfærslunni var velt yfir á næsta ár (árið 2009) enda skorti sárlega upp á samráð við fagfélög og starfsmenn, hvað þá borgarfulltrúa minnihlutans.

En hvað um það. Eftir háværar snerrur í öllum fagráðum (sem kynna sér má á vef Reykjavíkurborgar undir fundargerðum) var frumvarpið klárað með áðurnefndum óútfylltum víxli inn í framtíðina. Eitt og annað jákvætt kom þó út úr samráði borgarfulltrúa á lokasprettinum þó ekki hafi nándar nærri allar athugasemdir stjórnarandstöðunnar verið teknar til greina.

Í upprunalegum drögum átti að ganga ansi nærri tónlistarskólum í Reykjavík. Þeir fá framlög frá Reykjavíkurborg sem eingöngu fer í launalið tónlistarskólanna. Húsnæði þeirra og annar rekstur er algjörlega á þeirra vegum. Það er skemmst frá því að segja að eftir hávær mótmæli okkar fólks í menntaráði var ákveðið að draga í land og láta niðurskurð til tónlistarskóla vera á pari við niðurskurð til íþróttafélaga. Enda ekki annað sanngjarnt.

Hitt er svo annað mál að í fjölda ára hafa sveitarfélögin og ríkisvaldið karpað um ábyrgð hins opinbera á tónlistarnámi á framhaldsstigi. Með því er átt við: 
a) nemendur sem lokið hafa grunn- og miðstigi (ca. V.-VIII. stig samkvæmt gamla kerfinu) 
eða
b) nemendur 16 ára og eldri, samanber skiptingu milli grunn- og framhaldsskóla (grunnskólanám á forræði sveitarfélaga, framhaldsskólanám á forræði ríkisins).

Menn deila svo fram og tilbaka hvor skilgreiningin sé betri og réttlátari. En menn deila ekki um að það er óþolandi óréttlæti fólgið í því að svo lengi hafi dregist að útkljá málið.

Deilan hefur staðið lengi og hefur bitnað harkalega á tónlistarnemendum. Umboðsmaður Alþingis hefur ályktað að rangt sé að ríkisvaldið þverskallist við að greiða fyrir framhaldsnám í tónlist og mörg lítil sveitarfélög eru að sligast undan kostnaði vegna sinna nemenda sem halda til höfuðborgarinnar í tónlistarnám. Reykjavíkurborg greiðir hundruði milljóna á ári hverju til nemenda á framhaldsstigi í tónlist, oft eru nemendur komnir yfir 25 ára aldur. 

Menntamálaráðherra lofaði síðasta vetur að nú hillti undir lok deilunnar - hvað segir hún nú? Sem betur fer tókst að afstýra því að meirihluti menntaráðs setti tónlistarnemendur yfir ákveðnum aldri út á guð og gaddinn. En hvað gerist í næstu yfirferð fjárlaga Reykjavíkurborgar?

Gremjulegast þykir mér þó að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft formennsku í menntaráði Reykjavíkurborgar í 2 og 1/2 ár (mínus 100 daga) og ráðherra menntamála og fjármála síðustu tvö kjörtímabil komi úr hans röðum, þá hefur deilan ekki enn verið leyst. 

Það fyrsta sem ég gerði á minni 100 daga formannstíð var að panta viðtal hjá menntamálaráðherra til að ræða við hana þessi mál. Það viðtal fékk ég tveimur vikum síðar og fékk jákvæðar viðtökur. Menntamálaráðherra benti mér á að ræða einnig við fjármálaráðherra og ég pantaði samdægurs viðtal hjá honum. Og beið í margar vikur, ítrekaði þó beiðni mína oft. Að endingu skilaði ritarinn hans því kurteislega til mín að honum þætti þetta ekki koma sér við - og benti mér á að tala við menntamálaráðherra. 

Mér heyrist ekki á núverandi formanni menntaráðs að hann hafi rætt þessi mál sérstaklega við sín flokkssystkin. Ég hélt satt best að segja að erfiðlega hefði gengið að ná saman í þessari blessuðu deilu vegna þess að það var ekki réttur litur á liðinu í Ráðhúsinu. 

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lengja pistilinn með því að dásama gildi tónlistarinnar, gæði tónlistarnáms á Íslandi eða mikilvægt uppeldishlutverk tónlistarskólanna. 
Þessi frétt hér segir þó meira en þúsund orð. 

Engin ummæli: