13 júlí 2009

Tækifæri nýrra ríkisborgara

Það var sannarlega gleðiefni að sjá að stærstur hluti nýrra Íslendinga sem þreyttu íslenskupróf í aðdraganda að umsókn um íslenskan ríkisborgararétt hafi náð prófinu. En ef það er rétt sem Ingibjörg Hafstað segir, að meirihluti þeirra sem ekki náðu prófinu eigi það sameiginlegt að móðurmál þeirra er af tónamálsstofni, þá þarfnast það frekari skoðunar. Eins þarf að skoða hvort aðgengi þeirra sem hafa litla formlega menntun, og eru jafnvel ekki vel læsir á okkar stafróf, er nægilega gott að prófinu. Annars er hætta á því að fólki sé mismunað á ómálefnalegan hátt.

Eftir áralanga baráttu rofar til í þjónustu við lesblinda á Íslandi, þeir fá próf lesin upp fyrir sig, nýta sér hljóðbækur, fá lengri tíma til próftöku og svona mætti lengi telja. Sjálfsagt réttlætismál - þó enn sé langt í land að fólk með alvarlega lesröskun fái notið sannmælis að öllu leyti í skólakerfinu.

Jafn sjálfsagt er að skapa þeim nýju Íslendingum sem þreyta íslenskupróf þau skilyrði að þeir fái tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.