Þær eru óhugnanlegar fréttirnar af hnignandi tannheilsu íslenskra barna og ungmenna. Ef kostnaðarþátttaka foreldra hefur verið svo mikill þrándur í götu undanfarin ár þá er von að áhyggjur kvikni af framhaldinu, nú þegar margar fjölskyldur eiga og munu eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.
Leik- og grunnskólar eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins og gegna þeirri sérstöðu að allir íbúar landsins fara þar í gegn á ákveðnum aldri. Því eru skólarnir sterkasta jöfnunartæki sem við búum yfir og þar er hægt að skima, kanna, sinna forvörnum, fræða og byrgja brunna. Í þeim anda lagði ég eftirfarandi tillögu fram í leikskólaráði í dag:
Leikskólaráð samþykki að fela sviðsstjóra Leikskólasviðs að leita eftir samstarfi við Lýðheilsustöð, Tannlæknafélag Íslands og Heilsugæsluna í Reykjavík um bætta tannheilsu leikskólabarna í Reykjavík. Sviðsstjóri Leikskólasviðs skoði hvernig leikskólarnir geti lagt sín lóð á vogarskálarnar svo snúa megi við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á Íslandi og skipað hefur íslenskum skólabörnum í eitt af neðstu sætunum á lista OECD yfir tannheilsu skólabarna. Átaks er þörf og skoða þarf með opnum hug eftirfarandi þætti:
1) Hvernig markmiðum lýðheilsustöðvar um tannhirðu getur betur verið mætt innan veggja leikskólans.
2) Hvernig starfsfólk leikskóla geti gert tannhirðu og fræðslu um tannhirðu að snarari þætti í skipulagi skóladagsins, jafnvel með reglulegri tannburstun eins og þegar hefur verið komið á í nokkrum leikskólum borgarinnar með frábærum árangri.
3) Hvaða kröfur þarf að uppfylla svo hægt sé að koma við skipulögðum skimunum innan leikskólans.
4) Hvaða ferlar eru virkir innan veggja leikskólans leiki grunur á alvarlegum tannskemmdum í börnum og hvernig samstarfi við barnavernd og þjónustumiðstöðvar er háttað.
Sambærileg tillaga var lögð fram í menntaráði og farsælast yrði að sviðin ynnu þetta í sameiningu.
13 maí 2009
tannheilsa
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Léleg tannheilsa er eins og allt annað í þessu landi...afleiðing af skorti á aga.
. . . og afleiðing af niðurskurði SjálfstæðisFLokksins í heilbrigðismálum!
Vonandi reynast félagshyggjuflokkarnir sú velferðarstjórn sem þau segjast ætla að verða.
það hefur ekkert að gera með aga, hvernig vogarðu þér að segja þetta. Veistu hversu mörg við erum foreldrar sem einfaldlega höfum ekki efni á því að fara með börnin til tannlæknis. Við sjálf höfum ekki farið til tannlæknis í mörg ár því þetta er svo dýrt. Maður reynir að fara með börnin einu sinni á ári en þegar börnunum fjölgar eru upphæðirnar orðnar svo háar að peningarnir duga einfaldlega ekki.
Ég fæ 160.000 útborgað á mánuði; er með rúmlega 100.000 ÍSK leigu og 20.000 í viðbót
i önnur föst útgjöld (tryggingar, sími, internet). Það eru sem sagt 40.000 eftir til að lífa af, sem er víst ekki sérstaklega mikið.
Hins vegar er ég ekki með bíl, fer varla í bíó eða út að borða og aldrei í utnalandsferðir; því ég einfaldlega get ekki leyft mér það sem stendur.
En ég "leyfi" mér að fara tvísvar á ári í tannlæknaskoðun (sem, by the way, er töluvert ódýrari en stórviðgerðir á 5 ára fresti).
Þetta er ekki fyrst og fremst spurning um niðurskurð né aga.
Þetta er einfaldlega spurning um forgangsröðun.
Nafnlaus (þessi fyrsti): þetta er ekki afleiðing af niðurskurði Sjálfstæðisflokksins - við skulum sjá hversu mikið verður aukið við fé til tannheilbrigðismála núna með vinstri stjórn.
En ég held því miður Oddný að tillaga þín beri með sér stóran galla! Forvarnir eru nánast marklausar ef foreldrar eru ekki til staðar á meðan fræðslan fer fram, það er jafn mikilvægt eins og að flúorbursta og hreinsa.
Nema að þú gerir ráð fyrir að foreldrar komi inn á leikskólana/skólana og fylgist með.
Skólatannlækningarnar í gamla daga gengu í megin dráttum út á "drill and fill" - minni áhersla var lögð á forvarnir.
Gísli
Þetta er góðar hugmyndir. Auðvitað væri frábært að allar tannviðgerðir væru ókeypis (lesist: borgað með sköttum). Það verður líklega seint. Hér er því oft litið sérstaklega til barna, þau eru háð upplagi og efnahag foreldra sinna um slík og skyld mál. Auðvelt er að koma í veg fyrir venjulegar tannskemmdir með tannburstun og matarræði og það er á ábyrgð foreldra að sinna hvoru tveggja, ekki ríkisins (nema í undantekningartilfellum). Hér kemur því inn í hið þekkta íslenska agaleysi sem Nafnlaus1 vísar til.
Eðlilegasti millivegurinn að mínu mati væri að árlega væri skoðun á tönnum barna undir 18 ára aldri þeim að kostnaðarlausu. Ef að tennur barna væru skemmdar vegna vanrækslu foreldra þarf að fræða þá. Svo má ræða framhaldið.
mbk, Pétur Henry
Skrifa ummæli