Ég lít ekki svo á að réttmæt krafa fólksins um kosningar snúist um flokkshagsmuni. Að þeir sem vilji kosningar séu að hugsa um flokkinn, ekki fólkið. Ég styð minn flokk til allra góðra verka og get vart hugsað þá hugsun til enda að annar flokkur væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þessum hremmingum.
En þegar kemur að réttmætri kröfu fólksins um kosningar, sem og kröfu til þess að ráðherra bankamála segi af sér er ég Ingibjörgu Sólrúnu ósammála. Mér fannst hún gera því skóna í gær að þeir sem vilji kosningar, vilji þær af því Samfylkingin er í sterkri stöðu og það henti henni ágætlega núna. Það er ekki svo. Við viljum kosningar áður en kjörtímabilið er úti því ríkisstjórnin þarf að endurnýja umboð sitt. Þingmennirnir verða að leggja störf sín í dóm kjósenda.
Allt er gjörbreytt. Eftir ótrúlegar hamfarir blasir við allt annað landslag og nýir árfarvegir hafa myndast. Þetta er ekki sama Ísland og vorið 2007. Langt í frá. Lýðræðisvakning hefur átt sér stað á Nýja-Íslandi og takturinn er þungur. Stjórnvöld verða að dansa með. Eina aðferðin til að tryggja að Alþingi endurspegli þetta nýja landslag er að efna til kosninga og í framhaldinu verður til ný ríkisstjórn. Þjóðin getur ekki haldið niðri í sér andanum í þrjú ár til viðbótar.
Krafan um að einhver segi af sér er líka afar réttmæt. Og nú er ég ekki bara að vísa til afsagna Seðlabankastjóra og þeirra sem fóru fyrir eftirlitsstofnunum, heldur stjórnmálamanna úr báðum stjórnarflokkum. Ég er að vísa til ráðherra fjármála og viðskipta. Ég er ekki sammála því að bíða verði rannsóknar á því hver raunverulega á sökina. Það er þæfingur og gamaldags viðhorf í þessu samhengi. Sök er eitt - ábyrgð er annað. Nútímalegir, evrópskir jafnaðarmenn vita það.
Björgvin er ekki sekur en hann ber ábyrgð sem ráðherra. Bankakerfið hrundi á vakt Björgvins og Árna Mathiesen, hversu vel eða illa sem fólki finnst þeir hafa staðið sig og hversu stór eða lítil sök þeirra reynist vera. Þeir flutu kannski sofandi að feigðarósi eins og svo ósköp margir aðrir. En ólíkt okkur sem erum leikmenn á velli, á varamannabekk eða úti í kanti - þá sitja þeir á valdastólum. Og þeirra er ábyrgðin.
Og fyrst ég er farin að grípa til fótboltalíkinga þá mætti allt eins fjalla um þessa hlið málsins sem inn-á-skiptingu. Ráðherrum skipt út af og öðrum inn á. Eins og einhver orðaði það á flokksstjórnarfundinum: Það mætti gjarnan ,,fríska upp á" ríkisstjórnina.
Ég hef heyrt þau sjónarmið að það sé óþolandi að ætlast til þess að við sýnum manndóm í þessum efnum á meðan þeir sem raunverulega hafa stýrt hér málum í 17 ár sitja fastir sem hrúðurkarlar á steini. (Það er jú engin trygging fyrir því að Árni fari þó Björgvin fari, meira að segja harla ólíklegt). Minnug erum við þess að Þórólfur Árnason reyndist eini maðurinn sem axlaði ábyrgð á olíusamráðshneykslinu - en furstarnir sátu áfram.
Með sömu rökum væri hægt að segja: Það borga nú ekki allir skattinn sinn - af hverju ætti ég að gera það? Nei. Samfylkingin er nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Látum þess sjást stað að hún er ólík öðrum flokkum. Gerum kjósendur okkar stolta af okkur.
Kröftug umræða var á flokksstjórnarfundinum í gær. Það var mikilvægt. Margir vildu kjósa, margir vildu uppstokkun og margir voru á annarri skoðun. Ingibjörg Sólrún færði skýr rök fyrir máli sínu og var fylgin sér þó að henni tækist ekki að sannfæra alla fundargesti. Ég er þó sammála flestum fundarmönnum um eitt: Það er gott að hún er komin til baka og það af slíkum styrk að gneistaði af henni í ræðustól.
Nú fer í hönd tími sem reynir sannarlega á flokkinn. Og fólkið sem í honum er.
12 ummæli:
Þú ert í mjög góðum tengslum við flokkinn þinn.
Doddi
"...get vart hugsað þá hugsun til enda að annar flokkur væri í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í þessum hremmingum."
Þetta er einmitt vandamálið við ykkur pólitíkusana - þið haldið allir að þið séuð ómissandi, algjörlega óháð því hvaða flokk þið eruð í!
"Samfylkingin er nú í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Látum þess sjást stað að hún er ólík öðrum flokkum."
Líka sammála öllu öðru.
Kjósum í vor eftir hafa náð að hreinsa sæmilega til. Annað er ekki boðlegt - sama hvað samstarfsflokknum kann að finnast.
Ég er sammála þér að það eigi að boða til kosninga. Traustið á stjórnvöld er ekki neitt enda hefur enginn verið handtekinn nema bónusflaggarinn þrátt vafasama gerninga s.s. lánið stóra til Stím.
Mér finnst að Ingibjörg Sólrún ætti að segja af sér á undan Björgvini en það hefur verið staðfest að hún hélt upplýsingum frá ráðherra bankamála um hversu alvarlega staðan væri.
Það er eina vitið að endurnýja umboðið.
Tek ofan fyrir öllum stjórnmálamönnum sem horfast í augu við það.
Vek annars athygli á undirskriftasöfnun í þágu heimilanna:
http://www.petitiononline.com/heimili/petition.html
afhverju þarf að endurnýja umboð? Hvaða bull er það? Eru menn ekki kosnir til að stjórna. Um leið og það þarf að stjórna einhverju eða eitthvða er nýstjórnað þá þarf að kjósa aftur?
Bull.
Eitt er þó víst, sjálfsstæðisflokkurinn mun ná vopnum sínum aftur. Guð forði okkur frá því að nokkurn tíman vinna með nöðrum eins og ykkur aftur. Reyndar gæti verið að ISG sjái þetta og ætli sér ekki að falla í þá gryfju.
Sammála þér. Björgvin þarf að axla pólitíska ábyrgð. Þetta gerðist á hans vakt. Hann er langt frá því að vera sá eini en ef Samfylkingin ætlar að vera trúverðug þá þarf að koma afsögn frá honum.
Ps. Sigurjón hefur þingflokkur Frjáslynda ályktað um hvort forstjóri FME á að segja af sér?
Það er skilyrði ef Samfylkingin á að fá mitt atkvæði aftur að Ingibjörg og Björgvin segi af sér.
Því í ósköpunum heldur Samfylkingin að hún beri enga ábyrgð.
Kv. Emma
...hún sagði líka að kosningar gögnuðust eingöngu andstæðingum Samfylkingarinnar. (les: flokkurinn fyrst...)
www.myntkarfan.wordpress.com
Ég kaus Samfylkinguna fyrir þá stefnu sem hún boðaði, fyrir áhersluna á lýðræðisleg vinnubrögð og þann málefnalega grundvöll sem hún hafði lagt. Flokkurinn er á góðri leið með að fyrirgera því trausti sem honum var sýndur og sanna sig sem einn af hinum, spilltur og valdsjúkur. Fátt hefur ISG gert meira til að svekkja stuðningsmenn sína en að ráða vinkonu sína sem sendiherra, þola skipan Þorsteins Davíðssonar, þola setu Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum o.s.frv. Flokkurinn verður að sýna þroska sinn og tengingu við fólkið í landinu og viðurkenna hina sjálfsögðu kröfu um að kosið verði. Björgvin þarf að endurnýja umboð sitt. Geri hann það lifir hann e.t.v. pólitísku lífi en ef ekki, bíður hans pólitísk dauðarefsing í næstu kosningum. Vel mælt hjá þér Oddný. Mikið djöfull er ég sammála þér!
Kosningar eru á fjögurra ára fresti. Það getur ýmislegt gerst á fjórum árum og hefur eflaust gerst á öllum fjórum árum hingað til, frá því land byggðist. Ef það er skoðun einhverra að það eigi að kjósa fyrr er það hið besta mál, en í lýðræðisþjóðfélagi gerast hlutirnir ekki svona. Ég gæti vel trúað því að ef ég setti upp heimasíðu sem krafðist þess að allir þingmenn stæðu á haus á þingfundum að þá fengi ég mjög öflug viðbrögð og stuðning.
Skrifa ummæli