20 nóvember 2008

Bóndabeygja

Þórunn og Björgvin stíga fram og segjast vilja kosningar á næsta ári. Áður hafði Ágúst Ólafur lýst því yfir og nú taka Katrín, Steinunn Valdís og Ellert undir


Og það er ekki rétt sem fram kemur á Eyjunni að Ingibjörg Sólrún hafi einungis talað fyrir kosningum að loknu hefðbundnu kjörtímabili. Það hefur reyndar lítið farið fyrir ummælum hennar í Morgunblaðsviðtali fyrir tæpum þremur vikum en þar var hún innt eftir mögulegum kosningum. Hún nefndi að það væri óábyrgt að ganga burt í miðjum björgunarleiðangri en mælti svo: ,,Svo kemur nýtt ár og þá verða menn að meta stöðuna".
 
Það eru tæpar sex vikur til áramóta.
Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í óþægilega bóndabeygju. 

Ég tók snarpan snúning á bloggsíðum Samfylkingarfólks í kvöld. Til sjávar og sveita, af öllum aldri og báðum kynjum. Samhljómurinn er nær algjör. Krafan um virkt lýðræði, lifandi samræðu og siðbót stjórnmálanna.   

Þess vegna gengum við til liðs við Samfylkinguna. Og hún hefur aldrei átt jafn mikið erindi við íslenskt samfélag sem nú. En hún þarf að finna rauða þráðinn sinn á nýjan leik. Hina lifandi samræðu sem er forsenda allra framfara. Og hún þarf að endurnýja umboð sitt. Hjá því verður ekki komist. 

(Hvað þá Sjálfstæðisflokkurinn eftir sín 17 ár á valdastóli. En ég eftirlæt samviskusömum flokksmönnum hans um uppbyggilegt aðhald fyrir sína forystu. Kona getur nú ekki gert allt sjálf...)

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Finnst þér í alvörunni nóg að Ingibjörg impri á því í einu viðtali fyrir þremur vikum að það þurfi að meta stöðuna á nýju ári? Forsætisráðherra segir að hún hafi ekki minnst á þetta við sig. Hvað er það? Þorir hún það ekki? Eða vill hún ekki kosningar? Mér finnst þetta ekki nóg. Ég er hætt að fíla Samfylkinguna. Það er ekkert gagn í henni. Hún hegðar sér eins og annar Framsóknarflokkur.

Nafnlaus sagði...

"Krafan um virkt lýðræði, lifandi samræðu og siðbót stjórnmálanna."

Við skulum sjá boðað frumvarp um eftirlaun "ráðamanna" og síðan meta hvort Samfylkingunni er alvara með þessu. Hvort færa eigi lífeyrisréttindi þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara til samræmis við réttindi sem almenningur býr við.

Trúir þú því?

Eg spái að frumvarpið muni fela í sér áframhaldandi sérstök forréttindi eftirlaunaaðalsins.

Rómverji

Oddný er sagði...

Sjáum til Rómverji. Sjáum til.

Oddný er sagði...

Kæri nafnlaus

Krafan um kosningar er hávær í flokknum og það gefur ákveðin skilaboð að ISG hafi ekki slegið þær út af borðinu.

P.S. Það er einhver draugur í athugasemdakerfinu því athugasemdir sem ég hef samþykkt birtast ekki. Ég bið fólk að afsaka það.

Nafnlaus sagði...

*Ingibjörg er orðin samdauna Sjálfstæðisflokknum. Vinnubrögðin eru ólýðræðisleg. Þetta er ekki nógu gott.

Nafnlaus sagði...

Hvernig líst þér svo á, Oddný? Við erum öll jöfn, en þau Geir og Ingibjörg þó heldur jafnari. Þess vegna heitir það Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Við skulum vera nægjusöm. Ekki heimta of mikið. Ekki of mikið réttlæti.

Rómverji

Ungt fólk í næsta húsi við mig er að flytja heim til mömmu. Þau eru með tvö börn. 26 ára. sjálfur er ég alltaf dálítið hífaður um helgar, en þau aldrei. Yfirgengilga reglusöm. Þau ætla að legja út íbúðina sína til þess að geta borgað af henni, enda bæði orðin atvinnulaus. Ég efast um að það takist.

Bið að heilsa jafnréttisspírunni. Formanninum þínum. Og frábærum flokksfélögum. Salt jarðar.

Oddný er sagði...

Kæri Rómverji

Mér líst ekki nógu vel á þróun mála, í sannleika sagt. Ég hefði viljað sjá eftirlaunafrumvarp Valgerðar lagt fram að nýju, þar sem gengið er alla leið og réttindin afnumin afturvirkt.

Á fundinum í dag voru háværar kröfur uppi um kosningar á næsta ári. Ég held að af þeim verði.

Ráðherrar og þingmenn fengu skýra meldingu um að tengja sig við grasrótina og ég vil trúa því að þeir taki sig á með það.

Góða helgi -