03 nóvember 2008

Halla Tómasdóttir í Guardian

Grein í Guardian eftir Íslandsvininn John Carlin um íslenska fjármálahrunið. Halla Tómasdóttir fer á kostum og talar um - ásamt Svöfu Grönfeldt - nauðsyn nýrrar hugsunar og femínískra gilda við endurmótun íslensks samfélags. 


Og almenningur á Íslandi er svei mér þá að hugsa á svipuðum nótum. Þess vegna er þetta mikilvægt frumvarp.

Eða heldur því einhver virkilega fram að heimurinn væri á heljarþröm ef konur og karlar hefðu stjórnað honum saman? Ef jafnvægi hefði ríkt?

Á miðvikudagskvöldið stendur Kvennahreyfing Samfó fyrir fundi á Hallveigarstíg 1 þar sem þessari spurningu verður eflaust svarað - ásamt mörgum öðrum. 

Frummælendur verða Lilja Mósesdóttir hagfræðiprófessor og sérfræðingur í kynbundnum launamuni, Elín Blöndal prófessor og forstöðukona rannsóknarseturs vinnuréttar- og jafnréttismála, Guðbjartur Hannesson þingmaður Samfylkingar og formaður félagsmálanefndar og Hallgrímur Helgason rithöfundur.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kæra stjórnmálakona

Konur hafa líka verið til undanfarin tíu ár. Þær hafa verið framkvæmdastjórar, forstjórar, utanríkisráðherrar, iðnaðarráðherrar, menntamálaráðherrar, heilbrigðisráðherrar, forsetar Alþingis, borgarstjórar, félagsmálaráðherrar, rektorar osfrv.

Það þarf að fá nýtt fólk í staðinn fyrir það sem hefur verið í áskrift hjá stjórnmálaflokkum, konum og körlum. Og í þeim efnum er sama hvaðan gott kemur. Þessi umræða um að hlutirnir hefðu verið öðruvísi er kjánaleg í besta falli.

Nafnlaus sagði...

Já, ég er viss um að það væri ennþá verra ef konurnar hefðu fengið að vera með.

Það sem vantar ekki, eru jafnvitlausar, jafnsiðlausar, jafnfrjálshyggjusinnaðar, jafngráðugar, jafnhrokafullar konur.

Það vantar að breyta hugmyndaheiminum. Það vantar bætt siðferði, aumýkt, kjarajafnrétti, skynsemi, hófsemi og kærleika.

Ég hef ekki heyrt eina einustu konu minnast á þetta.

Þórður S

Nafnlaus sagði...

Hvað ertu að fara í pistlinum? Hvernig væri heimurinn öðruvísi? Eða hefur ekki ríkt jafnrétti hér sem annars staðar á Vesturlöndum. Hver er hin kvenlega sérstaða Angelu Merkel? Condoleezzu Rice? Ingibjargar Sólrúnar?

Hér spyr karl sem aldrei hefur verið í valdastöðu né vélað um vegferð eða velferð almennings.

Er ekki augljósara viðfangsefni karla sem kvenna að taka höndum saman og reyna að koma á siðbót í íslensku samfélagi?

Eða er bara best að halda áfram í rullunni frá tímum lífsbaráttuleysisins?

Oddný er sagði...

Kæri Nafnlaus

Það hafa einmitt svo margar konur minnst á þetta, gáðu betur. Hér er eitt dæmi oddny.eyjan.is/2008/10/jafnvgi.html

Halla Tómasdóttir kemur einmitt inn á ný gildi, t.d. skynsemi og hófsemi. Nokkrir karlmenn hafa líka vakið máls á þessu, m.a. hér á Eyjunni.

Við komumst alla vega nær hinu gullna jafnvægi - og þar með gildunum sem þú telur upp - ef hópurinn sem situr við kjötkatlana er sem fjölbreyttastur.

Við hljótum að vera sammála um það?

Oddný er sagði...

Kæri Daði

Það er alveg rétt að sæmilegur árangur hefur náðst í mörgum kimum íslensks samfélags - og gott dæmi um jákvæðar breytingar því samfara er einmitt að finna í Reykjavíkurborg þegar kona var borgarstjóri og félagslegar áherslur með fjölskylduna í forgrunni urðu allsráðandi. En það var ekki bara vegna þeirrar einu konu heldur stórs hóps sem hafði önnur gildi en þekktust áður hjá stjórnendum í borginni.

En einn er sá geiri sem sérlega illa hefur gengið að ná fram jafnrétti. Fjármálageirinn. Það er einfaldlega staðreynd að þar var hvað erfiðast fyrir konur að hasla sér völl. Ekki bara hér á landi - heldur út um allan heim.

Er kjánalegt að draga þá ályktun að skynsamlegar hefði verið staðið að málum ef sjónarmið kvenna sem karla hefðu fengið að heyrast á fjármálamörkuðum?

Ertu með betri ályktun?

Nafnlaus sagði...

Halla Tómasdóttir var t.a.m. ein af þeim sem hrósuðu Icesave sem mest, þannig að það er ekki algilt að hlutirnir hefðu farið betur.

Hins vegar má færa ágæt rök fyrir því, að í bankageiranum, rétt eins og alls staðar annars staðar, hefðu hlutirnir gengið betur ef jafnræði kynjanna hefði verið.

Eina undantekningin sem ég man eftir í fljótu bragði er landslið í fótbolta, þar sem stelpurnar rokka en strákarnir síður.