19 nóvember 2008

Heyr heyr heimspekingar v/ Háskóla Íslands

,,Þegar brugðist er við vanda af þessu tagi sem leggur þungar byrðar á alla landsmenn er brýnt að dreifa þeim byrðum á sanngjarnan hátt. Mikilvægast er að tryggja öllum grundvallarforsendur þess að þeir geti tryggt sér og sínum farborða og gert áætlanir um líf sitt.

Sérstaklega þarf að standa vörð um hagsmuni þeirra sem eiga á hættu að missa húsnæði, flosna upp úr námi eða missa lifibrauð sitt. Í þessu tilliti verður líka að huga vel að kjörum barna, bæði með því að styðja við bakið á barnafjölskyldum og treysta eftir megni þær stofnanir sem ásamt foreldrum bera ábyrgð á menntun og uppeldi barna.

Hagur barna er mál þjóðarinnar allrar og prófsteinn á Ísland sem velferðarríki. Það er líka réttlætismál að ekki verði lagðar óhóflegar byrðar á þá hópa sem ekki eiga sér sterka málsvara, svo sem komandi kynslóðir og erlenda ríkisborgara sem hér búa.

Jafnframt verður að koma í veg fyrir að auður safnist á fárra manna hendur eða að einstaklingar njóti forréttinda í krafti aðstöðu sinnar. Einnig er brýnt að við enduruppbyggingu íslensks samfélags verði þau gildi höfð að leiðarljósi sem taka mið af lífi og viðhorfum beggja kynja og margbreytileika íbúa landsins. Nú veltur allt á að viðbrögð við yfirstandandi kreppu verði til þess að efla lýðræði á Íslandi og festa réttarríkið í sessi. Það er ekki síður mikilvægt að byggja upp réttnefnt lýðræðissamfélag en að koma fjármálum ríkisins í eðlilegt horf."

Engin ummæli: