03 nóvember 2008

Synir Boga og Valtýs og spillingarsögur úr bönkunum

Það eru margar svona sögur í gangi. Og hljóta að reita alla til reiði. Svona sögur ýfa upp sögurnar af stuðinu hjá starfsmönnum þessara banka þegar gleðin stóð sem hæst. Sögurnar af Kaupþingsstarfsmönnum á dýrum veitingastöðum um helgar - og reikningurinn var yfirleitt sendur beint upp í Kaupþing. 


Sögur af Kaupþingsstarfsmönnum með milljónir á mánuði í leigubílum að hlæja og gera grín að launum leigubílstjórans. 

Rétt eftir að ríkið tók yfir Kaupþing var stór hópur starfsmanna á virkum degi á örvæntingarfullu kenderíi á ónefndum stað í miðbæ Reykjavíkur. Hópurinn stakk af frá reikningnum - eins og hann var vanur að gera þegar allt var í blóma - og ráðvilltur þjónninn stóð uppi með 80.000 króna ógreiddan reikning en gat vitanlega ekki sent hann beina leið til Kaupþings eins og venjan var að gera. 

Starfsmaður hjá Kaupþingi sagði mér eitt sinn frá konu sem vann í einni deild bankans. Mjög góður starfskraftur og hafði allt til brunns að bera til að komast í toppstöðu. En hún var fjölskyldumanneskja og vildi geta hætt klukkan 16.30 til að sækja barnið sitt á leikskólann. Hún var vitanlega alltaf mætt fyrst allra á morgnana til að þessi áætlun gengi upp. 

En hún kleif aldrei metorðastigann og var aldrei boðin stöðuhækkun. Og ástæðan var svo gott sem opinber; hún hætti svo snemma á daginn. Gott ef hún var ekki spurð hvort hún væri á leið í hádegismat þegar hún stimplaði sig út. 

Nú hefur dómsmálaráðherra falið ríkissaksóknara að gera skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi. Skýrsluhöfundar eiga að afla staðreynda um starfsemi bankanna og fyrirtækja í þeirra eigu og tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. 

Ríkissaksóknarinn Valtýr Sigurðsson og fyrrverandi ríkissaksóknari Bogi Nilsson stýra gerð skýrslunnar og efnisöflun. 

Valtýr á son. 

Sá sonur er forstjóri Exista hf. sem er stærsti hluthafi Kaupþings hf., hann er líka stjórnarformaður Vátryggingafélags Íslands hf., Lýsingar hf., Líftryggingafélags Íslands hf., Íslenskrar endurtryggingar hf., Exista Invest ehf. og Exista Trading ehf. Meðal annars.

Bogi á líka son. 

Sá sonur er forstöðumaður á lögfræðisviði Stoða hf. Hann er jafnframt stjórnarformaður og fer með prókúru fyrir Stoðir Capital ehf., Stoðir Eignarhaldsfélag ehf., Stoðir Finance ehf. og FL Bayrock Holdco ehf. Meðal annars. 

Hafa menn ekkert lært? Þarf íslenska þjóðin ekki á því að halda núna að þessi mikilvæga skýrsla verði unnin af þeirri almestu fagmennsku sem völ er á? 

Ég segi eins og Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður í frábærri grein í Mogganum í gær - 

VÖNDUM OKKUR. Fjandakornið.*

*Viðbót bloggara  

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú ertu á réttri leið. Góður pistill.
Þórður S

Nafnlaus sagði...

Hugmyndir Björns Bjarnasonar um stjórnsýslu eru ættaðar frá Austur-Þýskalandi.

Enginn. Enginn mun taka mark á þessari afkáralegu rannsókn dómsmálaráðherra.

Rómverji

Nafnlaus sagði...

Grein Láru er hér:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1252883

Nafnlaus sagði...

Gott mál Oddný.
En hverjir sitja núna í skilanefndum bankanna og sópa núna upp og út eins og teir eiga lífid ad leysa. Eiga teir menn kannski líka syni?

Elfa

Oddný er sagði...

Þeirri ábendingu var komið til mín af starfsmanni Kaupþings sem staddur var á ónefnda staðnum hið umrædda kvöld - að enginn hafi ætlað að stinga af frá reikningnum.

Hins vegar hafi einhverjir gengið út án þess að borga - af ýmsum ástæðum. Einn úr hópnum hafi þá borgað og rukkað hina daginn eftir.

Sjálfsagt að koma þessu á framfæri.

Nafnlaus sagði...

Ekki man ég eftir að eiginmaður þinn hafi verið að kvarta yfir bruðli Kaupþings þegar hann var í boði bankans á fótboltaleik í Hamborg hér um árið. Sá yðar er syndlaus er...

Oddný er sagði...

Kæri nafnlaus númer 5 -

það hlýtur að hafa verið á villtum piparsveinaárum bónda míns. Ég tek á móti honum með kökukeflið í hönd í kvöld þegar hann kemur rallhálfur heim af kosningavökunni...