02 nóvember 2008

Framtíðin

Samfó stóð fyrir frábærum fundi í dag í Iðnó. Troðfullt út úr dyrum og hugvekjandi erindi. 


Stefán Ólafsson fræddi okkur um finnsku leiðina út úr kreppunni - nánar hér

Vilhjálmur Árnason siðfræðingur var með mjög gott erindi um samfélagslegt réttlæti og siðferðilega nauðsyn þess að axla ábyrgð. Hann fór yfir siðferðilegar viðmiðanir, t.a.m. ósannsögli, trúnaðarbrest, valdníðslu, dómgreindarleysi og eftirlitsleysi. 

Á Íslandi er skortur á hefð til að ,,refsa" fyrir brot á þessum siðferðilegu viðmiðunum. Engin furða að fólk sé reitt enda höfum við upplifað vænan skammt af öllu þessu undanfarna mánuði. Og undanfarin ár ef út í það er farið.   

Vilhjálmur fór líka yfir mikilvægi réttlátra leikreglna og réttlæti og þann flókna vef samvinnu sem þarf að spinna til að samfélagið fúnkeri. Fyrir áhugasama er hér fín grein eftir Hlyn Orra Stefánsson um stjórnspekinginn John Rawls og Réttlætiskenningu hans. 

Vilhjálmur talaði um mikilvægi þess að ,,allir væru á sama báti". Út á það gengur jú jafnaðarstefnan og lífssýn þeirra sem aðhyllast félagslegan jöfnuð og vilja berjast fyrir réttlátu samfélagi. 

Það er sérkennilegt en satt að til þessa orðatiltækis hefur forsætisráðherra og aðrir í Sjálfstæðisflokknum gjarnan gripið til undanfarnar vikur og mánuði. 

Dálítið ódýrt - við vorum nú aldeilis ekki öll á sama báti undanfarin ár þegar skattbyrði jókst hjá lágtekjufólki en minnkaði hjá fyrirtækjum og hátekjufólki. 

Við erum bara á sama báti þegar kemur að skuldadögunum. 

Á fundinum í dag var starf Framtíðarhópa á sveitarstjórnarstigi ræst með formlegum hætti. Þar eru á ferð 9 málefnahópar skipaðir sveitarstjórnarfólki af öllu landinu sem munu starfa fram að næsta landsfundi. Ég og Hafsteinn Karlsson förum við skólamálahópi þar sem leik- og grunnskólar sem og frístundamál eru undir. Þetta er í annað skipti sem Samfó hleypir Framtíðarhópum af stað - hér má lesa skilagreinar fyrstu Framtíðarhópanna

Allir sem áhuga á að taka þátt í starfinu láti mig vinsamlegast vita á oddny@reykjavik.is

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var mjög góður fundur. En kannski of mikið á háskólanótunum og lausnum þess til framtíðar. Ekkert sjónarmið eða framtíðarinnlegg var sótt í undirstöður þjóðfélagsins- atvinnulífið- verðmætasköpunina- framleiðsluna til öflunnar gjaldeyris-til framtíðar. Í þessu samhengi má hugleiða það að hrunið sem þjóðin mun upplifa á eigin skinni næstu mánuði og ár - var að mestum hluta stýrt af hámenntuðu ungu fólki sem einkabankarnir hleyptu lausu útí alþjóðafjármálalífið . Það vantaði eitthvað stórt og mikið inní dæmið hjá því... Við erum öll á sama báti - sem nú er alvarlega strandaður. Og nú er að læra af reynslunni...