07 nóvember 2008

Vilji er allt sem þarf

Nú þegar stendur fyrir dyrum að raða í bankaráðin er gríðarlega mikilvægt að hópurinn sem valinn er verði sem fjölbreyttastur. Ekki bara karlar á vissum aldri heldur líka starfsmenn úr bönkunum sem fengu aldrei að móta stefnu sinna fyrirtækja síðastliðin sex ár. Líka almenna borgara sem nýta sér þjónustu bankanna. Líka fólk úr háskólanum og ekki bara viðskiptadeildunum heldur menntavísindadeildunum, siðfræðideildunum, heimspekideildunum og félagsvísindadeildunum. 


Vissuð þið að 80% af starfsmönnum bankanna eru konur? Gjaldkerar, þjónustufulltrúar, konur sem gegna ýmsum afar mikilvægum störfum í fjölbreyttum deildum bankanna? 

Atvinnulýðræði er lítið sem ekkert á Íslandi. Atvinnulýðræði er það þegar starfsmenn fyrirtækja, almennir starfsmenn ,,á gólfinu" fá að móta og hafa áhrif á sýn fyrirtækjanna sem þeir starfa fyrir. 

Kynjajafnrétti er lítið sem ekkert á Íslandi þegar kemur að þessum hlut þrátt fyrir stórlega aukningu og yfirburði kvenna þegar kemur að menntun síðastliðin ár. 

Síðan er auðvitað hægt að taka sér Steinunni Valdísi til fyrirmyndar og ganga enn lengra. 

Ríkisstjórnin má ekki falla á prófi númer tvö nú þegar 8 af 35 framkvæmdastjórum bankanna eru konur. Það er brot á jafnréttislögum fjandakornið!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Og veistu það, mín kæra, að við erum nokkrar konur sem erum á því að bankastjórar nýju bankanna okkar eigi að hafa laun svona svipuð og skólastjóri eða -stýra. Og ef nýju bankastjórarnir eiga ekki bíla, þá taka þau strætó í vinnuna.
Ef við "almenningur" eigum að spara á "ríkið" að gera það líka. Það er nefnilega verið að sýsla með peningana okkar.
Alla

Oddný er sagði...

Kæra Alla

Ég er á þeirri skoðun að bankastjórarnir eigi að vera á pari og aðrir forstjórar ríkisstofnanna. Út með glæsibifreiðar og já ég held það væri hið besta mál að bankastjórar nýti sér almenningssamgöngur.

Eins vil ég fá notendur bankaþjónustu, hinn almenna launamann, til setu í bankaráðum. Ég vil líka að gjaldkerar og þjónustufulltrúar sitji í bankaráðum.

Nafnlaus sagði...

Hvar er nú stoltið af konum Oddný? Tveir af þremur bankastjórum eru konur og þær munu láta að sér kveða og bæta ástandið ef við konurnar styðjum þær í stað þess að ráðast á þær og heimta að þær skil ,,glæsibifreiðum´´ sem eru bílarnir sem bankinn var með fyrir og eru enn á leigusamningi. Styddu nú konurnar Oddný í stað þess að ráðast á þær

Anna Jóns

Oddný er sagði...

Kæra Anna Jóns

Ég styð konur til allra góðra verka og væri jafn mikið á móti notkun glæsibifreiða væru bankastjórarnir karlar.

Bankastjórarnir eru forstjórar ríkisfyrirtækja og eiga að vera á pari við þá í öllum skilningi, hvort sem um er að ræða laun eða önnur fríðindi.