Nú um mundir er eðlilegt að fólk velti fyrir sér hvort hreinlega ætti að skipta um gjaldmiðil, taka upp evru einhliða. Hér er fín analýsa hjá Eddu Rós Karlsdóttur þar sem kostir og gallar einhliða upptöku eru reifaðir.
Það væri auðvitað best ef stjórnvöld myndu reikna eins nákvæmlega og þau geta við þessar kringumstæður hvort borgaði sig fyrir okkur: að fleyta krónunni með tilheyrandi kostnaði og áhættu - eða skipta út gjaldmiðlinum sem Edda Rós telur að kosti í kringum 500 milljarða.
Ég finn það á fólki í kringum mig að sú óþægilega tilfinning er til staðar að við séum að setja óheyrilega fjármuni til bjargar ónýtum gjaldmiðli.
Síðan er það hið pólitíska áhættumat. Best færi auðvitað á því að ganga inn um aðaldyrnar í stað þess að taka upp evruna einhliða þvert á vilja Evrópusambandsins, valda með því óþarfa úlfúð og kannski meira vantrausti í alþjóðasamfélaginu.
Ég er hjartanlega ósammála Sirrýju Hallgrímsdóttur vinkonu minni og stjórnarkonu í Hvöt þar sem hún segir í Mogganum í dag að ESB-aðild eigi ekki við núna. Höfuðatriðið er í raun ekki hvort ESB-aðild framkvæmi kraftaverk fyrir íslenskt efnahagslíf akkúrat í dag, þó ég sé sannarlega þeirrar skoðunar að það sé þjóðþrifamál að sækja um. Höfuðatriðið er að flokkarnir geri það upp við sig hvort Ísland eigi heima í Evrópusambandinu eður ei.
Það fer að verða ansi knýjandi að flokkarnir komist að niðurstöðu í þeim efnum.
Ég heyrði í Vikulokunum að Valgerður Sverrisdóttir hafi komið með merkilega yfirlýsingu. Þáttastjórnandi spurði Valgerði hvort hún styddi Guðna Ágústsson sem formann, í ljósi slæmrar útkomu flokksins í skoðanakönnunum. Svarið var einfalt og n.k. á þessa leið:
,,Ég tel ekki tímabært að ræða það núna".
Heyrir það ekki til nokkurra tíðinda að varaformaður styðji ekki formann sinn opinberlega?
Nú hafa flest kjördæmafélög Framsóknar sent frá sér ályktanir síðustu daga. Mikil áhersla er lögð á Evrópusambandið í þeim ályktunum.
Miðstjórnarfundur Framsóknar næstu helgi stefnir í að verða spennandi.
10 nóvember 2008
Kostir & gallar
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli