21 nóvember 2008

Heimgreiðslur í Kópavogi & Reykjavík

Orðrétt úr fundargerð bæjarráðs Kópavogs frá því í gær:

,,Frá bæjarstjóra, tillaga að breytingum á reglum um heimgreiðslum.Lagt er til að 2. gr. 3. mgr. verði “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn nær tveggja ára aldri eða fyrr ef það fær vistun á leikskóla” í stað “Heimgreiðsla fellur niður þegar barn hefur leikskólagöngu.” Bæjarráð samþykkir tillöguna með fjórum greiddum atkvæðum. (Innskot OS: ekki afturvirkt)

Þetta þýðir einfaldlega það að Kópavogur er að taka afar skynsamlegt skref í átt frá heimgreiðslukerfinu. Áður var það svo að foreldrar í Kópavogi gátu valið heimgreiðslur umfram leikskólavist - óháð aldri barnsins. Foreldrar 3, 4 og 5 ára gamalla barna fengu greitt frá bænum ef þeir þáðu ekki leikskólapláss. Þessi ráðstöfun hefur einfaldlega ekki gefist vel, hvorki í Kópavogi né annars staðar, t.d. í Noregi. Ein birtingarmynd þess er að börn sem hafa annað móðurmál en norsku sleppa leikskólagöngunni alfarið sem hefur gríðarlega neikvæð áhrif á málþroska þeirra og velferð í grunnskólanum.

Þá er reynsla Kópavogsbúa sú að nú þegar syrtir í álinn hjá fjölskyldum hafa konur valið í ríkara mæli að fara heim, þiggja heimgreiðslur og börnin verða af leikskólagöngu. Út frá bæði jafnréttissjónarmiðum en ekki síst þroska- félagsfærni og uppeldissjónarmiðum er það varhugavert.

Eftir að hin nýja samþykkt tekur gildi í Kópavogi breytast heimgreiðslurnar sumsé í þjónustutryggingu, þ.e.a.s. ef leikskólapláss er sannarlega ekki í boði fyrir börn yngri en 2ja ára fá foreldrarnir greitt. Annars ekki.

Þetta höfum við bent á að þurfi að gerast í henni Reykjavík. Nú er næg þjónusta í boði fyrir börn yngri en 2ja ára enda leikskólar nær fullmannaðir. Hins vegar er ákvæði í reglum um þjónustutryggingu sem kveður á um að hún sé valkvæð. Því hefur Kópovogsbær nú breytt og spurning hvað Reykjavíkurborg gerir.

Nú förum við Bryndís Ísfold í Kópavoginn og tollerum Gunnar Birgisson!

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"... og börnin verða af leikskólagöngu. Út frá bæði jafnréttissjónarmiðum en ekki síst þroska- félagsfærni og uppeldissjónarmiðum er það varhugavert."

Ef það er varhugavert fyrir börn að missa af leikskólagöngu er þá ekki ástæða til að skylda hana?

Oddný er sagði...

Sæll Friðjón

Það hefur lengi verið talað um leikskólann sem fyrsta skólastigið og það eru síst gerðar minni kröfur til hans, bæði faglega starfsins sem og menntunar kennara.

Á Íslandi hefur verið sú einstaka staða að í kringum 95% barna er í leikskóla, og yfirgnæfandi meirihluti allan daginn. Og það þrátt fyrir að leikskólinn sé ekki skylda.

Ég sé ekki að skólaskylda myndi breyta þessu en hún myndi þó slá skjaldborg um leikskólann. T.a.m. gætu sveitarfélögin ekki dregið úr þjónustu hans í kreppu, sem er nú nokkuð aktúelt þessa dagana.

Nafnlaus sagði...

Ég held að engin ástæða sé til að skylda foreldra til að senda börn sín í leikskóla.

Aðstæður eru mismunandi og ég get ekki séð að ástæða sé til að útiloka foreldra frá ákvörðunartöku þar um. Rannsóknir hafa verið misvísandi um gildi leikskóla. Nýverið las ég t.d.niðurstöðu rannsóknar (Bandaríska) sem sagði leikskólavist auka málþroska en auka hegðunarvandamál barna þegar þau kæmu í grunnskóla. Þannig eru skiptar skoðanir um leikskólavist eins og margt annað.
Hér í Kanada sem ég bý, er leikskóli/dagvist það dýr að hún er ekki mjög algengt úrræði. En skólaganga getur hafist við 4ja ára aldur. Þá fara börnin í 2 og 1/2 tíma á dag, í leikskóla (kindergarten) sem er rekin í hinum hefðbundnu skólum. 4. og 5. ára aldurinn er þó valfrjáls og skólaskylda byrjar ekki fyrr en við 6. ára aldur.
Reyndin er þó sú að nær öll börn fara í leiksskólann við 4jar ára aldur, enda þjónustan (rétt eins og skólaganga) án kostnaðar fyrir foreldra.
Þetta skólakerfi virðist ganga ágætlega, Kanadískt skólakerfi stendur bærilega, þó að vissulega sé mikið rými til framfara.

P.S. Þær eru öngvir aukvisar þær konur sem ætla tvær að tollera Gunnar Birgisson. :-)

Nafnlaus sagði...

Getið þið þá ekki líka misst hann duglega í gólfið í tolleringunni!

Nafnlaus sagði...

Æ, gott að þið getið án sektarkenndar sleikt raskatið á amk einum Sjáfsæðismanni!

Nafnlaus sagði...

já endilega Oddný, verið með meiri forsjárhyggju og skyldið foreldra til að hafa barnið sitt frekar á stofnun í umsjá ókunnugra heldur en í faðmi fjölskyldunnar. Börn hafa miklu betra af að vera heima hjá sér en í pössun á leikskóla!

gott þegar stjórnmálamenn hafa vit fyrir okkur almúganum. við erum svo vitlaus.

Egill Ó sagði...

Leikskólinn ER fyrsta skólastigið skv. lögum og hefur verið það í dágóðan tíma. Það hefur reyndar ekkert með skólaskyldu að gera.

Oddný er sagði...

Kæri nafnlaus -

Ekki gerði ég því skóna að einhver væri vitlaus og ef þú hefur fylgst með skrifum mínum í gegnum árin þá vissirðu að ég hef ósjaldan fjallað um mikilvægi samverustunda fjölskyldunnar. Og haft áhyggjur af sífellt lengri tíma sem börn dvelja á leikskólum, of stuttu fæðingarorlofi og of langri vinnuviku Íslendinga.

Hins vegar er leikskólinn fyrsta skólastigið, íslenskt leikskólastarf er rómað um víða veröld enda vandað og fjölbreytt.

Í ljósi þessa er það mín bjargfasta trú að öll börn njóti góðs af leikskólagöngu.